Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 340 — 181. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um áfengis- og vímuefnameðferðir erlendis.
1. Í hversu mörgum tilfellum hafa Sjúkratryggingar Íslands tekið þátt í að niðurgreiða áfengis- og vímuefnameðferðir erlendis síðastliðin fimm ár? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
Upplýsingar vegna áranna 2020–2021 eru ekki tiltækar. Árið 2022 bárust Sjúkratryggingum 13 umsóknir um þátttöku í kostnaði vegna áfengis- og vímuefnameðferðar erlendis og voru átta þeirra samþykktar. Árið 2023 barst engin umsókn um greiðsluþátttöku vegna áfengis- og vímuefnameðferðar erlendis. Árið 2024 bárust átta umsóknir, sem voru samþykktar, en enn hefur aðeins komið til útgjalda vegna fjögurra þeirra.
2. Hver er sýn ráðherra á mikilvægi niðurgreiðslu slíkra meðferða erlendis og er til skoðunar að gera samninga milli Sjúkratrygginga Íslands og erlendra meðferðaraðila?
Sjúkratryggðir eiga rétt á að sækja sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri EES-ríkja á grundvelli tilskipunar 2011/24/EB um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, sbr. 23. gr. a laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og reglugerð nr. 484/2016. Þar sem áfengis- og vímuefnameðferð krefst innlagnar þarf að sækja um samþykki Sjúkratrygginga fyrir endurgreiðslu eða þátttöku í kostnaði vegna meðferðar erlendis, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 484/2016.
Eins og svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar gefur til kynna eru tiltölulega fáar umsóknir um greiðsluþátttöku vegna áfengis- og vímuefnameðferðar erlendis. Rétturinn er hins vegar mikilvægur fyrir þá einstaklinga sem telja auknar líkur á því að meðferð erlendis skili meiri árangri. Takmarkaður fjöldi umsókna hefur ekki gefið tilefni til að íhuga samninga við erlenda meðferðaraðila um þjónustuna. Þá eru ekki fordæmi fyrir því að samið sé um heilbrigðisþjónustu erlendis ef meðferð er í boði hér á landi, en aðeins eru í gildi samningar um heilbrigðisþjónustu erlendis ef um er að ræða læknisfræðilega brýna meðferð sem ekki er unnt að veita hér á landi.