Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 400 — 173. mál.
2. umræða.
Nefndarálit
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf., nr. 80/2024 (framkvæmd markaðssetts útboðs).
Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Nasdaq Iceland (Kauphöllin).
Nefndinni bárust tvær umsagnir auk minnisblaðs frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf., nr. 80/2024. Lagt er til að markaðssettu útboði verði skipt í þrjár tilboðsbækur í stað tveggja með tilkomu nýrrar tilboðsbókar C. Markmið tilboðsbókar C er að auka líkur á aðkomu stórra erlendra fagfjárfesta. Þá er lögð til breyting til að skýra orðalag varðandi lágmarkstíma útboðsins.
Umfjöllun nefndarinnar.
Hugtakanotkun (a-liður 1. gr.).
Í umsögn Kauphallarinnar kom fram sú ábending að í stað þess að vísa til „útboðslýsingar“ í a-lið 1. gr. frumvarpsins, sbr. 4. gr. laganna, yrði vísað til „lýsingar“. Um væri að ræða tilvísun í birtingu lýsingar samkvæmt lýsingarreglugerðinni, þ.e. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1129 frá 14. júní 2017.
Meiri hlutinn vísar til álits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við meðferð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 80/2024 (þskj. 1751, 920. mál á 154. löggjafarþingi). Þar var fjallað um hugtakanotkunina „útboðslýsing“ og tók þáverandi meiri hluti undir afstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytis um að notkun á hugtakinu útboðslýsing myndi ekki valda vandræðum. Bent var á að fram kæmi í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 80/2024, að Seðlabankinn þyrfti að staðfesta lýsingu sem í frumvarpinu væri nefnd útboðslýsing.
Fyrirhugaðar breytingar á regluverki Evrópusambandsins.
Í umsögn Kauphallarinnar var bent á að breytingar á hinni svokölluðu skráningarlöggjöf Evrópusambandsins (e. Listing Act) gætu falið í sér undanþágur frá kröfunni um birtingu útboðslýsingar. Kauphöllin lagði til að heimilað yrði að birta annað viðeigandi skjal sem væri talsvert einfaldara í sniðum og þarfnaðist ekki staðfestingar Fjármálaeftirlits Seðlabankans. Með því væri unnt að beita undanþágunni þegar skráningarlöggjöfin tæki gildi á Íslandi.
Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis kemur fram að umræddar breytingar eigi að taka gildi innan Evrópusambandsins árið 2026. Þá sé upptaka gerðarinnar í EES-samninginn enn til skoðunar. Jafnframt bendir ráðuneytið á að til standi að selja allan eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka á næstum misserum, með tilliti til markaðsaðstæðna. Sölu á eignarhlutanum kann því að vera lokið þegar undanþágan tekur gildi. Að því gættu telur meiri hlutinn ekki tímabært að ráðast í umrædda breytingu að þessu sinni. Það kann þó að vera ástæða til að endurmeta stöðuna ef lög um ráðstöfun eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka hf. hafa ekki lokið hlutverki sínu þegar fyrirhugaðar breytingar á regluverki Evrópusambandsins taka gildi. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að skoða framangreint samhliða innleiðingu gerðarinnar verði hún tekin upp í EES-samninginn.
Um framkvæmd og tilgang tilboðsbókar C.
Í umsögn Kauphallarinnar kom fram að skýra mætti betur með hvaða hætti tilboðsbók C væri ætlað að styðja við verðmyndun og koma í veg fyrir að hún yrði afturhlaðin og óskilvirk, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Bent var á að það kynni mögulega að vera mótsögn þar sem jafnframt væri tiltekið að tilboðsbók C væri ekki ætlað að hrófla við verðmynduninni.
Meiri hlutinn vísar til skýringar í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis þar sem segir að tilgangur tilboðsbókar C sé fyrst og fremst sá að auka líkur á þátttöku stórra fagfjárfesta og þá sérstaklega erlendra fagfjárfesta. Jafnframt kemur fram að verðmyndun í tilboðsbók B fari þannig fram að tilboðum verði raðað eftir verði og endanlegt söluverð verði lægsta samþykkta tilboðsverðið sem nær því magni sem selja á. Þetta fyrirkomulag sé svokallað hollenskt útboð. Tilboðsbók C gerir stórum fagfjárfestum kleift að taka þátt á öðrum forsendum en í venjulegu hollensku útboði og án þess að hrófla við verðmynduninni sjálfri. Þessir stærri fagfjárfestar í tilboðsbók C fá úthlutað stækkunarheimild ef eftirspurn er mikil, en verðið sem þeir greiða miðast við verð sem myndast í tilboðsbók B. Þar með hefur tilboðsbók C ekki áhrif á verðmyndun í tilboðsbók A, sem ræðst af fyrir fram föstu verði, eða bein áhrif á verðmyndun í tilboðsbók B. Tilboðsbók C kann þó að hafa þau áhrif að auka heildareftirspurn í útboði.
Markaðsþreifingar og hlutlæg skilyrði fyrir tilboðsbók C.
Kauphöllin bendir jafnframt á í umsögn sinni að skýra mætti betur frá því hvernig markaðsþreifingar, sbr. d-lið 1. gr. frumvarpsins, verði framkvæmdar og hvort hlutlægu skilyrðin eigi ekki við ef framkvæmd sé markaðsþreifing.
Hlutlægu skilyrðin fyrir tilboðsbók C eru að einungis eftirlitsskyldir fagfjárfestar sem gera tilboð fyrir eigin reikning og uppfylla það skilyrði að samanlögð fjárhæð eigna þeirra sé jafnvirði 70 milljarða kr. eða hærri sé heimilt að gera tilboð. Eins og segir í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis sé tilgangurinn að tryggja að einungis tilætlaður hópur geti tekið þátt í tilboðsbók C og gilda því skilyrðin ávallt og óháð því hvort markaðsþreifingar fara fram eða ekki. Markaðsþreifing getur hins vegar gefið nákvæmari skilning á eftirspurn og gæðum mögulegra fjárfesta fyrir útboð. Jafnframt kann hún að hafa áhrif á hvernig úthlutun, sem byggist á fyrirframákveðnum og birtum viðmiðum, innan tilboðsbókar C fari fram.
Í greinargerð með frumvarpinu er í dæmaskyni upptalning á mögulegum hlutlægum mælikvörðum sem litið verður til við mat á virkri þátttöku í útboðinu. Þar er tiltekið umfang samskipta við stjórnendateymi Íslandsbanka. Kauphöllin taldi í umsögn sinni ekki skýrt hvernig framkvæmd á því yrði þar sem Íslandsbanki hefði ekki umsjón með útboði og óljóst hvernig umsjónaraðilar útboðs gætu nálgast upplýsingar um samskipti stjórnenda Íslandsbanka við einstaka fjárfesta.
Meiri hlutinn vísar til umfjöllunar í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis þar sem segir að ef þessi mælikvarði verði valinn sé gert ráð fyrir að umsjónaraðilar útfæri hvernig hann yrði metinn. Það sé í höndum yfirumsjónaraðila að rökstyðja úthlutun miðað við viðmiðin. Að lokum tekur ráðuneytið fram að ef ráðleggingar yfirumsjónaraðila og fjármálaráðgjafa ráðuneytisins verða að þessi mælikvarði sé til þess fallinn að auka flækjustig við úthlutun kann að verða fallið alfarið frá honum.
Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
Alþingi, 10. apríl 2025.
Arna Lára Jónsdóttir, form., frsm. |
Dagbjört Hákonardóttir. | Marta Wieczorek. | |
Pawel Bartoszek. | Sigmundur Ernir Rúnarsson. |