Ferill 172. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 368  —  172. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og lögum um verðbréfasjóði (stjórnvaldsfyrirmæli).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gest frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Nefndinni barst eitt erindi frá fjármála- og efnahagsráðuneyti sem er aðgengilegt undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, og lögum um verðbréfasjóði, nr. 116/2021. Markmið frumvarpsins er að kveða skýrt á um lagastoð til innleiðingar á Evrópugerðum með stjórnvaldsfyrirmælum, jafnframt að framangreindir lagabálkar endurspegli verkaskiptingu sem viðhöfð hefur verið á milli fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands á síðustu árum við innleiðingu undirgerða frá stofnunum Evrópusambandsins. Frumvarpið varðar einkum lagatæknileg atriði sem kunna að greiða fyrir tímanlegri innleiðingu Evrópugerða sem teknar eru upp í EES-samninginn. Að öðru leyti eru áhrif þess óveruleg.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. apríl 2025.

Arna Lára Jónsdóttir,
form., frsm.
Ragna Sigurðardóttir. Marta Wieczorek.
Sigmar Guðmundsson. Sigmundur Ernir Rúnarsson.