Ferill 16. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 16 — 16. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um orkuöryggi almennings.
Flm.: Halla Hrund Logadóttir, Ingibjörg Isaksen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Stefán Vagn Stefánsson, Þórarinn Ingi Pétursson.
Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að leggja fram frumvarp sem tryggi orkuöryggi almennings og stuðli um leið að hagkvæmu og stöðugu verðlagi raforku til þessa hóps, eigi síðar en á vorþingi 2025.
Greinargerð.
Mikilvægir aðilar en með ólíka samningsstöðu.
Allir þeir ólíku aðilar sem að framan eru nefndir eiga það sameiginlegt að skipta miklu máli fyrir hagkerfið og byggðir landsins. Samningsstaða þeirra um raforkukaup er þó afar ólík. Risar markaðarins hafa sterka samningsstöðu í gegnum magnkaup raforku til langs tíma en heimilin og venjuleg fyrirtæki (hér er átt við þau fyrirtæki sem ekki eru stórnotendur) eru veikur samningsaðili. Þau samanstanda einfaldlega af mörgum litlum kaupendum; allt frá heimilum og fyrirtækjum í Breiðholti niður í Laugardal, yfir í bæi og byggðir landsins. Þetta misvægi getur komið sérstaklega illa við íbúa á landsbyggðinni, svo sem á Ísafirði og í Vestmannaeyjum, sem treysta í ofanálag á raforku til húshitunar.
Miklar breytingar hafa orðið á orkuumhverfi Íslands undanfarin ár og eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku er sífellt að aukast. Í dag er ekkert því til fyrirstöðu að almenningur í landinu verði hreinlega undir í samkeppninni um raforku bjóði stærri kaupandi betur. Engin lagaleg úrræði eru fyrir hendi til að koma í veg fyrir slíkt ástand. Almenningur er þannig á ystu nöf í ölduróti orkumarkaðarins á meðan stórir raforkunotendur búa við langtímasamninga sem tryggja raforkuþörf þeirra.
Vernd í þágu almennings ekki séríslensk krafa.
Þetta misræmi hefur ekki alltaf verið við lýði. Áður fyrr bar Landsvirkjun skýra lagalega ábyrgð á því að tryggja orkuöryggi almennings, þ.e. fyrir heimilin og venjuleg fyrirtæki. Þegar orkulöggjöf Evrópusambandsins var fyrst tekin upp í íslenskan rétt var þessi ábyrgð Landsvirkjunar felld úr gildi án þess að nýjar lausnir væru innleiddar. Þó eru margar leiðir færar innan Evrópulöggjafarinnar, ekki síst í kjölfar orkukrísu álfunnar, en þær hafa ekki verið innleiddar í lög hér á landi. Vernd fyrir heimilin í landinu og aðra minni orkunotendur er því ekki séríslensk krafa enda raforka íbúa nauðsynjavara og grunnþjónusta við borgara, sem ekki er hægt að skipta út með hraði.
Færa má sterk rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að tryggja bæði heimilum og minni orkunotendum aðgengi að raforku óháð orkuframleiðslu hverju sinni, en þó reynir sérstaklega á þegar umframeftirspurn er til staðar. Þetta er sérlega mikilvægt að útfæra á Íslandi þar sem hér er um að ræða einstakt einangrað raforkukerfi sem fylgir sveiflum í skilyrðum náttúrunnar sjálfrar, orku úr vatnsafli og jarðvarma sameiginlegra auðlinda, og hér er ekki hægt að stóla á varabirgðir annars staðar frá.
Ekki ævintýraleg spennusaga.
Möguleiki á orkuskorti til heimila sem lýst er hér að framan er því miður ekki spennusaga. Hann er lýsing á stöðu sem hefur raungerst að hluta og getur endurtekið sig. Þá fóru saman mikil sala raforku til stórnotenda og töluverðar sveiflur í framleiðslu vegna tíðarfars og bilana. Afleiðingin var ákveðin óvissa um hvort næg raforka væri til fyrir almenning. Samtímis skorti orku til að jafna flutningstöp raforkukerfisins en umfang flutningstapsins er um 2% markaðarins sem samsvarar um helmingi þess sem heimili landsins nota. Það leiddi til þess að orkuverð í flutningstöpin hækkaði gífurlega á skömmum tíma um rúmlega 300% fyrir það magn sem skorti. Þessi niðurstaða sýndi svart á hvítu að aðgerðaleysi í garð heimila getur haft neikvæð áhrif á orkuverð þeirra sem er mikilvægt umhugsunarefni fyrir þing og þjóð.
Mikilvægt er að vernda heimili.
Á næstu árum má gera ráð fyrir mikilli og áframhaldandi umframeftirspurn eftir endurnýjanlegri orku, m.a. vegna krefjandi aðstæðna á orkumörkuðum Evrópu og aukinnar raforkunotkunar vegna orkuskipta í takt við loftslagsmarkmið þjóða. Það mun auka áhættuna af því að óvissa verði um hvort orkuöryggi almennings sé tryggt. Breytingar á tíðarfari geta haft áhrif og munu ef til vill ráða úrslitum um þróunina næstu misseri.
Landsvirkjun hefur lengi vakið athygli á þessu ástandi og bæði Orka náttúrunnar og HS Orka látið sig það varða með endurteknum skrifum á liðnu ári. Fyrrverandi ráðherra orkumála hefur sömuleiðis kallað eftir aðgerðum sem miða að því að tryggja orkuöryggi almennings. Árið 2022 vann t.d. starfshópur á hans vegum að fjölþættum tillögum til úrbóta á regluverki raforkumála í samræmi við löggjöf Evrópusambandsins, sem tryggðu bæði framboð og stöðugleika í verði óháð landshlutum. Samráðshópurinn samanstóð af fulltrúum frá orkuframleiðendum og orkusölufyrirtækjum, Orkustofnun, Neytendasamtökunum, Landsneti og Landvernd.
Orkustofnun hefur verið vakin og sofin yfir verkefninu, sem sjá má í ítrekuðum umsögnum stofnunarinnar á heimasíðu hennar, og tekið þátt í að útfæra tillögur um mál sem gætu bætt stöðu heimilanna. Sömuleiðis hefur Orkustofnun lagt áherslu á að bæta aðgengi og vinnslu gagna innan stofnunarinnar til að fá betri yfirsýn yfir stöðu mála. Heilt yfir eru allir á því að bregðast þurfi við stöðunni. Einstakar tillögur þarf að útfæra betur, sumar eru tæknilegs eðlis en um margt er þegar sátt um og mikil þörf á að ráðast strax í að tryggja öryggi.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði fram frumvarp til breytinga á raforkulögum, nr. 65/2003, á 153. og 154. löggjafarþingi (943. og 348. mál) sem var ætlað að framfylgja hluta af tillögum starfshópsins. Með frumvarpinu voru lagðar til breytingar á raforkulögum til að tryggja almenningi og smærri fyrirtækjum forgang kæmi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika, til að mynda vegna kerfisbilana. Náði frumvarpið því ekki yfir stöðuna eins og hún birtist í dag. Nauðsynlegt er að tryggja öryggi almennings ekki bara í ófyrirséðum atvikum heldur almennt.
Að óbreyttu er ekki spurning um hvort heldur hvenær raforkuskortur verður með tilheyrandi áhrifum á verðlag raforku til heimila, bænda sem sinna mikilvægu hlutverki fyrir fæðuöryggi, og annarra minni orkunotenda sem nær yfir langflest fyrirtæki landsins. Því er mikilvægt að ráðherra málaflokksins bregðist við með því að leggja fram frumvarp um orkuöryggi almennings, sem stuðli um leið að stöðugu og hagkvæmu verðlagi raforku til þessara orkunotenda um allt land, sem fyrst og eigi síðar en á vorþingi 2025.