Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 414 — 152. mál.
Svar
atvinnuvegaráðherra við fyrirspurn frá Ingibjörgu Davíðsdóttur um þjóðar- og fæðuöryggi.
1. Hvaða viðbragðsáætlanir eru fyrir hendi ef flutningsleiðir til og frá landinu lokast?
Fjallað er um gerð viðbragðsáætlana í lögum, nr. 82/2008, um almannavarnir. Í lögunum er gert ráð fyrir að einstök ráðuneyti og stofnanir á þeirra vegum, í samvinnu við ríkislögreglustjóra og í samræmi við lög sem um starfssviðið gilda, skipuleggi viðbrögð og aðgerðir samkvæmt viðbragðsáætlun þar sem fjallað er um ákveðna þætti. Staðfestar viðbragðsáætlanir skulu samkvæmt lögunum sendar til ríkislögreglustjóra. Ráðuneytinu er ekki kunnugt um hvort útbúin hafi verið sérstök viðbragðsáætlun ef flutningsleiðir til og frá landinu lokast. Lög um almannavarnir heyra undir málefnasvið dómsmálaráðherra.
2. Hvaða stjórnvaldsfyrirmæli eru til um lágmarksbirgðir matvæla og aðfanga til matvælaframleiðslu í landinu?
Í skýrslu starfshóps þáverandi forsætisráðherra um um neyðarbirgðir frá árinu 2022 kom meðal annars fram: „Ekki eru nein gildandi stjórnvaldsfyrirmæli um lágmarksbirgðir matvæla eða aðfanga til matvælaframleiðslu í landinu“. Sú staða hefur ekki breyst en unnið er að margvíslegum verkefnum vegna málsins eins og nánar er fjallað um í svari við 6. tölul. fyrirspurnarinnar.
3. Hverjar eru birgðir matvæla í dag?
4. Hverjar eru birgðir aðfanga í dag?
Töluliðum 3 og 4 er svarað sameiginlega.
Á hverjum tíma eru til einhverjar birgðir af matvælum og nauðsynlegum aðföngum til framleiðslunnar hjá framleiðendum, afurðastöðvum, innflytjendum, verslunum og neytendum. Opinbert yfirlit um þær er þó ekki til staðar, nema hvað varðar birgðir innlendra kjötframleiðenda sem birtar eru á mælaborði landbúnaðarins mánaðarlega. Jafnframt eru verulegar matvælabirgðir fólgnar í þeim lifandi búfénaði sem er til staðar í landinu. Fjöldi innan ársins er ólíkur eftir búgreinum, t.d. nær fjöldi sauðfjár og hrossa hámarki á sumrin en fjöldi í svína-, alifugla- og nautgriparækt er jafnari yfir árið. Búfjáreigendum er skylt að skila opinberri skýrslu um fjölda gripa í nóvember árlega. Formlegt mat á umfangi þessara birgða sem matvæla hefur ekki farið fram. Framleiðsla á ylræktuðu grænmeti jafnast út yfir árið en útiræktað grænmeti er eðli málsins samkvæmt uppskorið í sumarlok. Birgðir eru síðan seldar meðan þær endast og geymast.
Margvísleg gögn eru tekin saman um framleiðslu landbúnaðarvara sem Hagstofan birtir árlega en ekki er fylgst miðlægt með birgðum þeirra á hverjum tíma eða birgðum nauðsynlegra aðfanga vegna framleiðslu og dreifingar matvæla.
Matvælastofnun starfrækir mælaborð fiskeldis þar sem fram kemur hvað mikið er af lífmassa í eldi hverju sinni. Þeim upplýsingum má jafna við birgðir í lifandi búfé. Hagstofan safnar og birtir árlega upplýsingar um árlega framleiðslu og ráðstöfun bæði eldisfisks og villts fisks. Um 98% sjávaraflans fara til útflutnings og yfir 90% eldisafurða samkvæmt mælaborði sjávarútvegsins. Eins og í landbúnaðinum eru því margvísleg gögn tekin saman um framleiðslu fiskeldis og sjávarútvegs sem Hagstofan birtir árlega en ekki er fylgst miðlægt með birgðum á hverjum tíma eða birgðum nauðsynlegra aðfanga.
Stór hluti af fæðuframboði á Íslandi innflutt matvæli. Samkvæmt mati frá 2022 er áætlað að 53% þeirra hitaeininga sem við neytum séu innlend framleiðsla. Stærstur hluti innfluttra matvæla kemur af EES-svæðinu. Ekki eru til upplýsingar um birgðastöðu innflutningsfyrirtækja á matvælum á hverjum tíma en gögn um innflutning er hægt að nálgast hjá Hagstofu eins og um annan innflutning. Þau gögn eru birt rúmum mánuði eftir að innflutningur á sér stað.
Heimili eiga almennt ekki neyðarbirgðir af matvælum. Landlæknir gaf út á árinu 2020 lista yfir æskilegt birgðahald heimila í heimsfaraldri sem hluta af viðbragsáætlun almannavarna vegna hans og Rauði kross Íslands gaf árið 2025 út leiðbeiningar til heimila um svokallaðan viðlagakassa sem ætlað er að auka viðnámsþrótt heimila svo sem í langvarandi rafmagns- og vatnsleysi.
Ætla má að gögn séu fyrir hendi um birgðastöðu ofangreindra matvæla og aðfanga til framleiðslunnar hjá einstökum framleiðslu-, dreifingar- og vinnslufyrirtækjum en leita þyrfti samstarfs við þau um söfnun og birtingu slíkra upplýsinga, eða lögleiða skylduskil á þeim til stjórnvalda. Í samtölum ráðuneytisins við hagaðila hefur komið fram að birgðastaða einstakra vara og/eða aðfanga er afar mismunandi. Hún ræðst af fjölmörgum þáttum, svo sem veltuhraða, framleiðsluháttum, lengd aðfangakeðja, geymslukostnaði, geymslurými og/eða öðrum þáttum sem geta verið afar ólíkir eftir því um hvað er að ræða hverju sinni. Líkt og að framan greinir liggur þó ekki fyrir heildstætt mat á birgðum matvæla og aðfanga í landinu á hverjum tíma, að svo stöddu.
5. Hvað er áætlað að birgðir, þ.e. matvæli og aðföng, dugi lengi?
Vísað er til svars við töluliðum 3. og 4. hér að framan.
6. Hvernig vinna stjórnvöld að því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar, í ljósi þess að þjóðaröryggi verður ekki tryggt án þess?
Vísað er til skýrslu áðurnefnds starfshóps þáverandi forsætisráðherra um neyðarbirgðir frá 2022. Í skýrslunni er farið heildstætt yfir stöðu mála varðandi neyðarbirgðir, bæði hvað varðar matvæli og marga aðra þætti sem hafa í mörgum tilvikum þýðingu fyrir framleiðslu og dreifingu matvæla þótt ekki sé um að ræða matvælin sjálf. Hverju ráðuneyti var falið að vinna áfram með stöðu mála á sínu sviði.
Fæðuöryggi snertir því starfssvið margra ráðuneyta, svo sem þeirra sem fara með heilbrigðismál, almannavarnir, þjóðaröryggi og nauðsynlega innviði. Þýðingarmikið er að samræma betur aðgerðir á þessu sviði til framtíðar litið en hér á eftir er farið yfir helstu yfirstandandi verkefni ráðuneytisins vegna neyðarbirgða og fæðuöryggis.
Ráðuneytið vinnur að undirbúningi tillagna um neyðarbirgðahald á matvælum og nauðsynlegum aðföngum vegna matvælaframleiðslu til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum. Unnið er að frekari afmörkun neyðarbirgða, þ.e. hvað skuli teljast til neyðarbirgða og í hvaða magni, og aðstoðar ytri fagaðila hefur verið leitað við það verkefni. Í skýrslu þjóðaröryggisráðs um ástand og horfur í þjóðaröryggismálum frá 2021 segir m.a. að gera þurfi reglulegar úttektir á matvælabirgðum í því skyni að tryggja að nóg sé til af þeim og skilgreina lágmarksbirgðir af matvælum og aðföngum til matvælaframleiðslu. Sú vinna er yfirstandandi.
Til undirbúnings ákvörðun um hvaða matvæli (innflutt og framleidd hér á landi) þurfi að vera til í neyðarbirgðum fól ráðuneytið Landbúnaðarháskóla Íslands að gera tillögu að magni og tegundum þeirra aðfanga sem nauðsynleg eru til matvælaframleiðslu ef aðfangakeðjur rofna eða landið lokast í ákveðin skilgreind tímabil. Þá er horft til einnar viku, þriggja vikna og þriggja mánaða. Nauðsynleg aðföng eru m.a. eldsneyti og áburður en einnig fóður og sáðvara ásamt ýmsum tólum og tækjum sem notuð eru við framleiðsluna. Skólinn skilaði skýrslu um efnið í desember 2024. Þar er gerð tilraun til að meta þörf fyrir neyðarbirgðir mikilvægra aðfanga fyrir innlenda matvælaframleiðslu. Matið byggir ekki á eiginlegri áhættugreiningu heldur mögulegum áhrifum af tímabundnum takmörkunum á aðflutningi hráefna.
Óhætt er að slá því föstu að olía er langmikilvægasta innflutta hráefni innlendrar matvælaframleiðslu. Án olíu eru neyðarbirgðir annarra hráefna gagnlitlar. Rafmagn er einnig nauðsynlegt allri matvælaframleiðslu, og þótt rafmagn sé framleitt hérlendis þá má ekki gleyma því að orkukerfið getur orðið fyrir áföllum sem takmarka framleiðslugetu og öryggi afhendingar. Í þriðja lagi er innflutt fóður forsenda fiskeldis og kjúklinga-, eggja- og svínakjötsframleiðslu. Takmörkun á innflutningi myndi fljótt valda alvarlegri stöðu í þessum greinum. Fjölmörg önnur aðföng eru einnig nauðsynleg allri matvælaframleiðslu og matvælavinnslu en orka og fóður eru þau mikilvægustu.
Í byrjun desember 2024 gerði ráðuneytið síðan samning við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands um sambærilega tillögugerð hvað varðar matvælin sjálf. Þar sem þörf nauðsynja er breytileg eftir lengd lokana og milli árstíða verður gerð áætlun fyrir lokun yfir sömu tímabil og áður ásamt áætlun sem tekur tillit til þess hvort slit aðfangakeðja eigi sér stað um sumar eða vetur. Áætlaðar verða nauðsynlegar neyðarbirgðir heimila fyrir sjö daga ásamt neyðarbirgðum ríkisins yfir lengri tímabil, sbr. að framan. Slíkt verður bæði metið út frá næringarþörf landsmanna og lágmarksnæringarþörf og verður byggt á aldurssamsetningu þjóðarinnar ásamt fleiri þáttum. Tekið verður sérstaklega tillit til viðkvæmra hópa sem kunna að hafa sérþarfir, svo sem ungabarna og aldraðra. Samráð verður haft við embætti landlæknis við vinnslu tillagnanna. Fyrir liggur að tryggja þarf fullnægjandi birgðir af mjólkurvöru, kjöti, grænmeti, ávöxtum og berjum, kornvörum, kartöflum og fiski og öðrum geymsluþolnum matvörum.
Ráðuneytið hefur jafnframt fundað með hagaðilum um möguleika á hagkvæmu birgðahaldi, upplýsingasöfnun um birgðir, eftirlit með birgðastöðu og skynsamlega umgjörð verkefnisins til framtíðar. Um er að ræða Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök fyrirtækja í landbúnaði, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Félag atvinnurekenda. Ljóst er að fjármagns er þörf til að standa undir kostnaði við birgðahald umfram það sem almennt tíðkast.
Enn fremur er í gangi vinna við þróun mælitækis sem ætlað er að auðvelda stjórnvöldum að leggja mat á stöðu fæðuöryggis á hverjum tíma. Það er gert í samráði við ráðgjafa og rýnihóp sérfræðinga.
Samkvæmt samningum eiga niðurstöður beggja framangreindra verkefna að liggja fyrir í lok júní 2025 og þá verður auðveldara að áætla kostnað við framhald málsins.
Atvinnuvegaráðuneytið vinnur jafnframt eftir aðgerðaáætlun til eflingar kornræktar á Íslandi 2024–2028 sem unnin var af starfshópi á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands en áætlað er að aðeins 1% af innanlandsþörf korns til manneldis sé ræktað hérlendis. Þýðingarmikið er að auka þann hlut verulega til að treysta fæðuöryggi landsins. Árið 2025 er annað framkvæmdaár áætlunarinnar. Þar eru kornkynbætur í forgangi en þær eru forsenda þess að nægur árangur náist í gæðum og uppskeru á byggi, höfrum og sérstaklega hveiti. Þar á eftir er lögð áhersla á framleiðslu og fjárfestingastuðning til að byggja upp innviði greinarinnar.