Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 151  —  146. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um sorgarleyfi, nr. 77/2022 (aukin réttindi foreldra).

Frá félags- og húsnæðismálaráðherra.



1. gr.

    Á eftir orðinu „barnsmissis“ í 1. og 2. málsl. 2. gr. laganna, á eftir orðinu „barnsmissi“ í tvígang í 1. málsl. 1. mgr. og í 2. mgr. 19. gr., 1. mgr., 3. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. 21. gr. laganna og á eftir orðinu „barnsmissir“ í 3. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: eða makamissis; eða makamissi; og: eða makamissir.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við 3. tölul. bætist: eða makamissi.
     b.      Á eftir 4. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Makamissir: Þegar hjúskapar- eða sambúðarmaki foreldris andast.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „a–f-lið“ í 2. málsl. 5. tölul., sem verður 6. tölul., kemur: a–g-lið.
     d.      Á eftir orðinu „barnsmissis“ í 6. og 7. tölul. kemur: eða makamissis.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „barnsmissi“ í 1. og 2. mgr. kemur: eða makamissi.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. stofnast ekki réttur til sorgarleyfis vegna barnsmissis eða makamissis hafi foreldri framið brot sem varðar refsingu samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga og leitt hefur til fyrrnefnds missis.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Réttur foreldris til sorgarleyfis vegna barnsmissis eða makamissis.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 8. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins ,,þrjá“ í 1. málsl. kemur: sex.
     b.      Í stað orðsins ,,tvo“ í 2. málsl. kemur: þrjá.

5. gr.

    Á eftir orðinu „barnsmissi“ í 1. mgr. 13. gr., 3. málsl. 5. mgr. 17. gr., 1. og 2. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. 22. gr., og orðinu „barnsmissir“ í 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laganna kemur: makamissi; og: makamissir.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: sá tími sem foreldri fær greiðslur í sorgarleyfi á grundvelli laga þessara eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær.
     b.      Við 2. málsl. 3. mgr. bætist: eða hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslum á grundvelli laga þessara, sbr. g-lið 2. mgr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „barnsmissi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: makamissi.
     b.      Í stað tilvísunarinnar „a–f-lið“ í 2. málsl. 1. mgr. og 2. málsl., 4.–7. málsl. 2. mgr. kemur: a–g-lið.
     c.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við andvanafæðingu eða barnsmissi, þar sem barnið er yngra en 24 mánaða, er foreldri heimilt að óska eftir að við útreikning á mánaðarlegri greiðslu verði tekið mið af tekjum viðkomandi á viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, eftir því sem við á.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „barnsmissi“ í 1. og 2. mgr. kemur: eða makamissi.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. stofnast ekki réttur til sorgarstyrks vegna barnsmissis eða makamissis hafi foreldri framið brot sem varðar refsingu samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga og leitt hefur til fyrrnefnds missis.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 20. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins ,,þrjá“ í 1. málsl. kemur: sex.
     b.      Í stað orðsins ,,tvo“ í 2. málsl. kemur: þrjá.

10. gr.

    Á eftir 2. mgr. 28. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi foreldri sem verður fyrir barnsmissi eða makamissi framið brot sem varðar refsingu samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga, og leitt hefur til fyrrnefnds missis, ber foreldrinu að endurgreiða þá fjárhæð sem greidd hefur verið á grundvelli laga þessara.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
                  Foreldri sem nýtur greiðslna á grundvelli laga þessara getur ekki á sama tímabili nýtt rétt til greiðslna vegna annars tilviks sem stofnað getur til réttar til greiðslna á grundvelli laganna.
     b.      Í stað orðanna „í sorgarleyfi“ í 1.–7. mgr., sem verða 2.–8. mgr., og í 1.–3. málsl. 8. mgr., sem verður 9. mgr., kemur: á grundvelli laga þessara.
     c.      Eftirfarandi breytingar verða á 9. mgr., sem verður 10. mgr.:
                  1.      Á eftir orðinu „barnsmissis“ kemur: sama makamissis.
                  2.      Í stað orðanna „í sorgarleyfi skv. IV. kafla“ kemur: á grundvelli laga þessara.

12. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „3. mgr.“ í 2. mgr. 36. gr. laganna kemur: 4. mgr.

13. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 18. gr. stofnast ekki réttur til greiðslna samkvæmt lögum þessum hafi foreldri framið brot sem varðar refsingu samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga og leitt hefur til barnsmissis.
    Hafi foreldri framið brot sem varðar refsingu samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga og leitt hefur til barnsmissis ber foreldrinu að endurgreiða þá fjárhæð sem greidd hefur verið á grundvelli laga þessara.
    Ákvæði þetta gildir til og með 31. desember 2025.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast 1. gr., a-, b- og d-liður 2. gr., 3. gr., 5. gr., a-liður 7. gr., 8. gr., 10. gr. og 1. tölul. c-liðar 11. gr. ekki gildi fyrr en 1. janúar 2026.

15. gr.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006: Á eftir 3. mgr. 51. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hver sá sem nýtur greiðslna samkvæmt lögum um sorgarleyfi telst ekki tryggður á sama tímabili samkvæmt lögum þessum.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með lögum um sorgarleyfi, nr. 77/2022, sem tóku gildi 1. janúar 2023, var stefnt að því að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum til að styðja eftirlifandi systkin við að aðlagast breyttum aðstæðum. Með frumvarpi þessu er stefnt að því styrkja enn frekar stöðu barna og barnafjölskyldna sem verða fyrir áföllum.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Þekkt er að áföll geta haft áhrif á heilsu fólks til lengri eða skemmri tíma. Með setningu laga um sorgarleyfi, nr. 77/2022, var stigið mikilvægt skref til að styðja barnafjölskyldur á viðkvæmum tímum í kjölfar alvarlegra áfalla. Með því að tryggja foreldrum á innlendum vinnumarkaði svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis samhliða greiðslum í sorgarleyfi má ætla að í það minnsta í sumum tilvikum megi koma í veg fyrir heilsubrest sem getur m.a. dregið úr virkni á vinnumarkaði til lengri tíma.
    Rík ástæða þykir til að styðja enn frekar foreldra á innlendum vinnumarkaði í kjölfar áfalla og er þeim breytingum á lögum um sorgarleyfi sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu ætlað að tryggja foreldrum, í skilningi laganna, sem missa maka sinn rétt til sorgarleyfis. Ljóst þykir að foreldri sem styður syrgjandi barn á sama tíma og það syrgir sjálft maka sinn upplifir mikið álag og þykir því mikilvægt að veittur sé stuðningur og aukið svigrúm til sorgarúrvinnslu við slíkar aðstæður.
    Enn fremur eru í frumvarpi þessu lagðar til breytingar sem þykja nauðsynlegar í ljósi reynslunnar af framkvæmd gildandi laga um sorgarleyfi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að foreldri, í skilningi laga um sorgarleyfi, sem missir maka sinn eigi rétt á sorgarleyfi eða sorgarstyrk í allt að sex mánuði en samkvæmt gildandi lögum getur foreldri aðeins átt rétt á sorgarleyfi eða sorgarstyrk vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts.
    Jafnframt er lagt til að foreldri, í skilningi laga um sorgarleyfi, sem hefur verið í samfelldu starfi í skilningi laganna skuli eiga sjálfstæðan rétt á sorgarleyfi eða sorgarstyrk í allt að sex mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu, en samkvæmt gildandi lögum á foreldri rétt á þriggja mánaða sorgarleyfi eða sorgarstyrk við slíkar aðstæður. Enn fremur er lagt til að foreldri geti átt sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis eða sorgarstyrks í allt að þrjá mánuði frá þeim degi sem fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu á sér stað en samkvæmt gildandi lögum er miðað við tveggja mánaða sorgarleyfi við slíkar aðstæður.
    Þá er lagt til að við andvanafæðingu eða barnsmissi, þar sem barnið er yngra en 24 mánaða, verði foreldri heimilt að óska eftir að við útreikning Vinnumálastofnunar á mánaðarlegri greiðslu á grundvelli laganna verði tekið mið af tekjum viðkomandi á viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, eftir því sem við á.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarp þetta var unnið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og var við vinnslu þess m.a. byggt á tillögum frá Gleym mér ei – styrktarfélagi og Sorgarmiðstöðinni.
    Ekki náðist að kynna áform um fyrirhugaða lagasetningu fyrir almenningi fyrir vinnslu frumvarpsins, en drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá og með 18. september 2024 og var veittur frestur til og með 2. október 2024 til að veita umsagnir um drögin (mál nr. S-184/2024). Alls bárust átta umsagnir í samráðsgáttina sem teknar voru til skoðunar en sú skoðun leiddi þó ekki til breytinga á efni frumvarpsins. Í öllum tilvikum var lýst yfir stuðningi við markmið frumvarpsins.

6. Mat á áhrifum.
    Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst foreldra, sem lögin taka til, og börn þeirra. Ætla má að frumvarpið sé til þess fallið að tryggja sem jafnasta stöðu kynjanna á vinnumarkaði enda gilda þær breytingar sem frumvarpið felur í sér jafnt um alla foreldra, í skilningi laganna, og er þannig gert ráð fyrir að foreldrar hafi sömu möguleika til að annast börn sín og þiggja sjálfir aðstoð í sorgarleyfi óháð kyni. Þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu hvað varðar rétt foreldristil greiðslna í sorgarleyfi og til sorgarstyrks er ætlað að gilda óháð kyni foreldris.
    Frumvarp þetta hefur í för með sér fjárhagsáhrif á ríkissjóð, enda gert ráð fyrir að réttur til sorgarleyfis eða sorgarstyrks verði lengdur við tilteknar aðstæður auk þess sem gert er ráð fyrir að foreldri, samkvæmt skilgreiningu laganna, sem missir maka sinn eigi rétt á sorgarleyfi eða sorgarstyrk og er það nýmæli í lögum um sorgarleyfi.
    Á árunum 2009–2021 misstu 1.366 börn á Íslandi foreldri, eða 105 börn að meðaltali á ári, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Á svipuðu árabili eða 2009–2020 létust 869 foreldrar barna, í mörgum tilvikum frá fleiri en einu barni. Feður voru í meiri hluta en þeir voru 584 talsins en mæður 285. Má því ætla að efni frumvarpsins kunni að hafa meiri áhrif á mæður en feður.
    Gert er gert ráð fyrir að árleg fjárhagsáhrif á ríkissjóð verði um 380–400 millj. kr., auk þess sem gert er ráð fyrir viðbótarkostnaði á árinu 2025 sem nemur um 50 millj. kr. Þá er áætlaður kostnaður vegna umsýslu Vinnumálastofnunar við uppfærslu hugbúnaðarlausna á bilinu 3–5 millj. kr.

Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Þar sem í frumvarpi þessu er lagt til að lögunum verði breytt í því skyni að tryggja foreldrum sem verða fyrir makamissi rétt til sorgarleyfis er hér lagt til að þar sem í lögunum er vísað til barnsmissis verði jafnframt vísað til makamissis. Um nánari skýringar hvað þetta varðar vísast til umfjöllunar í 2. kafla.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að við orðskýringar í 3. gr. laganna verði bætt nánari skýringu á hugtakinu makamissir þannig að skýrt verði kveðið á um að með hugtakinu sé átt við þegar hjúskapar- eða sambúðarmaki foreldris, eins og orðið er skýrt í greininni, andast.
    Jafnframt er lögð til breytt tilvísun til 2. mgr. 14. gr. laganna í 5. tölul., sem verður 6. tölul. ákvæðisins, í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 6. gr. frumvarpsins.
    Þá er lagt til að bætt verði við tilvísun til makamissis á viðeigandi stöðum í ákvæðinu til samræmis við aðrar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Um 3. gr.

    Í 7. gr. laganna er kveðið á um rétt foreldris til sorgarleyfis vegna barnsmissis. Þar sem í frumvarpi þessu er lagt til að lögunum verði breytt í því skyni að tryggja foreldrum sem verða fyrir makamissi rétt á sorgarleyfi er hér lagt til að einnig verði vísað til makamissis í ákvæðinu. Áfram er gert ráð fyrir sjálfstæðum rétti til sex mánaða sorgarleyfis, hvort sem um er að ræða barnsmissi eða makamissi. Þá er áfram gengið út frá því að réttur til sorgarleyfis falli niður 24 mánuðum eftir að hann stofnast.
    Enn fremur er lagt til að skýrt verði kveðið á um að réttur til sorgarleyfis stofnist ekki vegna barnsmissis eða makamissis hafi hlutaðeigandi foreldri framið brot sem varðar refsingu samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga og leitt hefur til fyrrnefnds missis. Við mat á því hvort foreldri hafi framið slíkt brot er gengið út frá því að Vinnumálastofnun líti eingöngu til þess hvort dómstóll hafi komist að niðurstöðu um að brot hafi verið framið. Þá er gert ráð fyrir að í slíkum tilvikum skipti ekki máli hvort brot hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi. Þykir þetta mikilvægt þar sem greiðslur á grundvelli laganna til foreldris við slíkar aðstæður þykja hvorki samrýmast markmiðum laganna né almannahagsmunum.
    Þá er lagt til að fyrirsögn greinarinnar verði breytt til samræmis við þær breytingar á lögunum sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir hvað varðar rétt foreldra til sorgarleyfis verði þeir fyrir makamissi. Um nánari skýringar vísast til umfjöllunar í 2. kafla.

Um 4. gr.

    Í 8. gr. laganna er kveðið á um rétt foreldris til sorgarleyfis vegna andvanafæðingar eða fósturláts. Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að foreldri sem hefur verið í samfelldu starfi eigi sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eigi foreldri sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að tvo mánuði frá þeim degi sem fósturlátið á sér stað.
    Hér er lagt til að foreldri sem hefur verið í samfelldu starfi eigi sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að sex mánuði, í stað þriggja mánaða, frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Er þannig lagt til að réttur foreldris til sorgarleyfis vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu verði sá sami og réttur foreldris sem eignast lifandi barn sem andast síðar.
    Þá er lagt til að réttur foreldris til sorgarleyfis þegar um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá mánuði í því skyni að veita foreldrum rýmra svigrúm en nú er samkvæmt gildandi lögum til sorgarúrvinnslu við slíkar aðstæður.

Um 5. gr.

    Þar sem í frumvarpi þessu er lagt til að lögunum verði breytt í því skyni að tryggja foreldrum sem verða fyrir makamissi rétt til sorgarleyfis er hér lagt til að þar sem í lögunum er vísað til barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts verði jafnframt vísað til makamissis. Um nánari skýringar hvað þetta varðar vísast til umfjöllunar í 2. kafla.

Um 6. gr.

    Í 14. gr. laganna er kveðið á um hvað teljist til þátttöku foreldris á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna og er í a-f-lið 2. mgr. kveðið á um tiltekin tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði. Hér er lagt til að við 2. mgr. ákvæðisins verði bætt nýjum staflið, g-lið, þar sem skýrt verði kveðið á um að sá tími sem foreldri fær greiðslur í sorgarleyfi á grundvelli laganna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum, hefði foreldrið sótt um þær, teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna. Í því sambandi er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun meti í hverju tilviki fyrir sig hvort foreldri, sem ekki hefur sótt um greiðslur í sorgarleyfi, hefði átt rétt á slíkum greiðslum. Er þetta lagt til í því skyni að tryggja að foreldri sem fær greiðslur í sorgarleyfi geti fengið slíkar greiðslur áfram vegna annars barns- eða makamissis eftir að fyrra tímabili lýkur ef stuttur tími líður milli slíkra atvika. Ekki er gert ráð fyrir að sá tími sem foreldri fær greiddan sorgarstyrk á grundvelli laganna teljist til þátttöku á vinnumarkaði enda ekki gert ráð fyrir að foreldri sem fær greiddan slíkan styrk sé þátttakandi á vinnumarkaði.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. 15. gr. laganna er kveðið á um viðmiðunartímabil og útreikning á greiðslum í sorgarleyfi. Er þar m.a. kveðið á um að mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og reiknaðs endurgjalds, eftir því sem við á, skv. 2. mgr. ákvæðisins og að miða skuli við sex mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur almanaksmánuðum fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát.
    Hér er lagt til að við andvanafæðingu eða barnsmissi, þar sem barnið er yngra en 24 mánaða, verði foreldri heimilt að óska eftir að við útreikning Vinnumálastofnunar á mánaðarlegri greiðslu á grundvelli laganna verði tekið mið af tekjum viðkomandi á viðmiðunartímabili skv. 1.–3. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, eftir því sem við á. Er þetta lagt til í því skyni að koma í veg fyrir að foreldri fái lægri greiðslur við slíkar aðstæður á grundvelli laganna en viðkomandi hefði fengið á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof. Ætla má að oft og tíðum dragi mæður úr þátttöku sinni á vinnumarkaði, svo sem með því að lækka starfshlutfall eða með því að vinna færri vinnustundir þegar nær dregur áætluðum fæðingardegi barns, og þar sem viðmiðunartímabil laganna er annað en viðmiðunartímabil laga um fæðingar- og foreldraorlof kann viðmiðunartímabil laganna að leiða til óhagstæðari niðurstöðu fyrir viðkomandi við fyrrnefndar aðstæður en ef miðað yrði við viðmiðunartímabil í lögum um fæðingar- og foreldraorlof.
    Þá er í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu lagt til að í 1. málsl. 1. gr. verði einnig vísað til makamissis. Jafnframt er lagt til að vísun til 2. mgr. 14. gr. laganna verði breytt í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 6. gr.

Um 8. gr.

    Í 18. gr. laganna er kveðið á um rétt foreldris til sorgarstyrks vegna barnsmissis. Þar sem í frumvarpi þessu er lagt til að lögunum verði breytt í því skyni að tryggja foreldrum sem missa maka rétt á sorgarleyfi er hér lagt til að einnig verði vísað til makamissis í ákvæðinu. Áfram er gert ráð fyrir sjálfstæðum rétti til sex mánaða sorgarstyrks, hvort sem um er að ræða barnsmissi eða makamissi. Þá er áfram gengið út frá því að réttur til sorgarstyrks falli niður 24 mánuðum eftir að hann stofnast. Um nánari skýringar vísast til umfjöllunar í 2. kafla.
    Enn fremur er lagt til að skýrt verði kveðið á um að réttur til sorgarstyrks stofnist ekki vegna barnsmissis eða makamissis hafi hlutaðeigandi foreldri framið brot samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga sem leitt hafi til fyrrnefnds missis. Við mat á því hvort foreldri hafi framið slíkt brot er gengið út frá því að Vinnumálastofnun líti eingöngu til þess hvort dómstóll hafi komist að niðurstöðu um að brot hafi verið framið. Þá er gert ráð fyrir að í slíkum tilvikum skipti ekki máli hvort brot hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi. Þykir þetta mikilvægt þar sem greiðslur á grundvelli laganna til foreldris við slíkar aðstæður þykja hvorki samrýmast markmiðum laganna né almannahagsmunum.

Um 9. gr.

    Í 20. gr. laganna er kveðið á um rétt foreldris til sorgarstyrks vegna andvanafæðingar eða fósturláts. Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að foreldri eigi sjálfstæðan rétt til sorgarstyrks í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eigi foreldri sjálfstæðan rétt til sorgarstyrks í allt að tvo mánuði frá þeim degi sem fósturlátið á sér stað.
    Hér er lagt til að foreldri eigi sjálfstæðan rétt til sorgarstyrks í allt að sex mánuði, í stað þriggja mánaða, frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu. Er þannig lagt til að réttur foreldris til sorgarleyfis vegna andvanafæðingar eftir 22 vikna meðgöngu verði sá sami og réttur foreldris sem eignast lifandi barn sem andast síðar.
    Þá er lagt til að réttur foreldris til sorgarstyrks þegar um er að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá mánuði í því skyni að veita foreldrum rýmra svigrúm en nú er samkvæmt gildandi lögum til sorgarúrvinnslu við slíkar aðstæður.

Um 10. gr.

    Í 28. gr. laganna er kveðið á um hvernig leiðréttingum á greiðslum í sorgarleyfi og sorgarstyrk skuli háttað.
    Hér er lagt til að við ákvæðið bætist ný málsgrein þar sem kveðið verði á um að hafi foreldri sem verður fyrir barnsmissi eða makamissi framið brot sem varðar refsingu samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga og leitt hafi til fyrrnefnds missis beri viðkomandi að endurgreiða þá fjárhæð sem greidd hafi verið á grundvelli laganna. Við mat á því hvort foreldri hafi framið slíkt brot er gengið út frá því að Vinnumálastofnun líti eingöngu til þess hvort dómstóll hafi komist að niðurstöðu um að brot hafi verið framið. Þá er gert ráð fyrir að í slíkum tilvikum skipti ekki máli hvort brot hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi. Er þetta lagt til í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í b-lið 3. gr. og b-lið 8. gr.

Um 11. gr.

    Í 32. gr. laganna er tiltekið hvaða réttindi teljast til ósamrýmanlegra réttinda á sama tímabili og foreldri nýtir rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi. Hér er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við ákvæðið, sem verði 1. mgr., þar sem kveðið verði á um að foreldri sem nýtur greiðslna á grundvelli laganna geti ekki á sama tímabili nýtt rétt til greiðslna vegna annars tilviks sem stofnað getur til réttar til greiðslna á grundvelli laganna. Er þannig lagt til að skýrt verði kveðið á um að foreldri geti einungis fengið greiðslur í sorgarleyfi eða sorgarstyrk vegna missis eins barns eða maka á hverju tímabili. Er sem dæmi gengið út frá því að verði foreldri fyrir barnsmissi og makamissi á sama tíma stofnist réttur til sex mánaða sorgarleyfis eða sorgarstyrks vegna makamissis og sex mánaða sorgarleyfis eða sorgarstyrks vegna barnsmissis og verði þannig um að ræða rétt til sorgarleyfis eða sorgarstyrks í samtals 12 mánuði en foreldrið geti ekki á sama tímabili nýtt rétt til greiðslna vegna beggja tilvika.
    Þá eru lagðar til breytingar í því skyni að skýrt verði kveðið á um öll þau réttindi sem teljast til ósamrýmanlegra réttinda á sama tímabili og ef foreldri nýtir rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi teljist einnig til ósamrýmanlegra réttinda ef foreldri fær greiddan sorgarstyrk á sama tímabili.
    Enn fremur er lagt til að einnig verði vísað til makamissis þar sem í ákvæðinu er vísað til barnsmissis til samræmis við þær breytingar á lögunum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu og varða rétt foreldra til sorgarleyfis missi þeir maka.

Um 12. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 36. gr. laganna til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu á 28. gr. laganna, sbr. 10. gr.

Um 13. gr.

    Hér er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að réttur til sorgarleyfis eða til sorgarstyrks stofnist ekki hafi foreldri framið brot sem varðar refsingu samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga og leitt hefur til barnsmissis. Þá beri foreldri sem fengið hafi greiðslur samkvæmt lögunum við slíkar aðstæður að endurgreiða þá fjárhæð sem greidd hafi verið.
    Er þetta lagt til í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í b-lið 3. gr., b-lið 8. gr. og 10. gr. og er gert ráð fyrir að bráðabirgðaákvæðið gildi þar til framangreind ákvæði taki gildi 1. janúar 2026, sbr. 14. gr. Um nánari skýringar vísast til skýringa við 3., 8. og 10. gr.

Um 14. gr.

    Gert er ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á lögum um sorgarleyfi öðlist þegar gildi við samþykkt þess á Alþingi og er gengið út frá því að þau gildi um foreldra sem eiga rétt til greiðslna samkvæmt lögunum. Þó er lagt til að breytingar sem varða rétt foreldra til sorgarleyfis og sorgarstyrks vegna makamissis öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 2026 þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir auknu fjármagni til málaflokksins á þessu ári.

Um 15. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Í ljósi þess að með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar í því skyni að skýrar verði kveðið á um þau réttindi sem teljast til ósamrýmanlegra réttinda á sama tímabili og ef foreldri nýtir rétt sinn til greiðslna í sorgarleyfi eða til sorgarstyrks er hér lagt til að í 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði kveðið á um að hver sá sem njóti greiðslna samkvæmt lögum um sorgarleyfi teljist ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á sama tímabili. Ekki er um breytingu að ræða frá því sem gilt hefur í framkvæmd en eðlilegt þykir að skýrt sé kveðið á um framangreint í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.