Ferill 142. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 506 — 142. mál.
2. umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (breytingar á neyslurými).
Frá minni hluta velferðarnefndar.
Neyslurými kunna að draga úr skaða tiltekinna vímuefnanotenda með því að draga úr smithættu og hættu á ofskömmtun. Þrátt fyrir það telur minni hlutinn að frumvarpið hafi umtalsverða veikleika sem bregðast þarf við. Minni hlutinn styður að markmið skaðaminnkunar verði innleidd með festu og fagmennsku en telur frumvarpið í núverandi mynd ófullnægjandi og ekki tryggja sanngjarna, faglega og fjármagnaða innleiðingu í þágu þeirra sem nýta sér þjónustuna.
Skortur á skýrum reglum og eftirliti.
Í umsögnum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra er vakin athygli á því að í reglum sé ekki kveðið nægilega skýrt á um magn og tegund efna sem heimilt er að neyta í neyslurýmum. Einnig vanti skýrar reglur um eftirlit og bakgrunnsskoðun rekstraraðila, sérstaklega þegar um sé að ræða frjáls félagasamtök. Skortur á reglufestu geti grafið undan trausti samfélagsins til úrræðisins og komið löggæslu í óþægilega stöðu.
Minni hlutinn leggur áherslu á að skýrt verði í lögum kveðið á um eftirlitshlutverk landlæknis og möguleika á afturköllun leyfa og jafnframt að tegundir efna verði skilgreindar og heimilt magn þeirra.
Breytingartillögur.
Óljós ábyrgðarskipting og ábyrgð sveitarfélaga.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarfélög hafi áfram heimild til að stofna og reka neyslurými. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram gagnrýni á að þessi heimild sé til staðar í lögum, enda sé ábyrgð á heilbrigðisþjónustu hjá ríkinu.
Minni hlutinn telur að ekki sé hægt að ætlast til að sveitarfélög beri ábyrgð á slíkri starfsemi án tryggðs fjármagns og faglegs stuðnings. Skapar það hættu á mismunun eftir búsetu og á því að innleiðing úrræðisins verði veik á landsbyggðinni. Minni hlutinn leggur því til að heimild sveitarfélaga til að stofna og reka neyslurými verði felld brott úr lögum um ávana- og fíkniefni.
Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
Við 1. gr.
a. A-liður orðist svo: Í stað orðsins „sveitarfélagi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: heilbrigðisstofnun eða frjálsum félagasamtökum.
b. B-liður orðist svo: Í stað orðanna „Sveitarfélagi sem fengið hefur“ í 2. mgr. kemur: Heilbrigðisstofnun eða frjálsum félagasamtökum sem fengið hafa.
c. D-liður orðist svo: Í stað orðsins „sveitarfélagi“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: heilbrigðisstofnun eða frjálsum félagasamtökum.
d. E-liður orðist svo: 6. mgr. fellur brott.
Alþingi, 15. maí 2025.
Ingibjörg Isaksen, frsm. |
Njáll Trausti Friðbertsson. | Rósa Guðbjartsdóttir. |
Sigríður Á. Andersen. |