Ferill 142. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 469 — 142. mál.
2. umræða.
Nefndarálit
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974 (breytingar á neyslurými).
Frá meiri hluta velferðarnefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá heilbrigðisráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ríkislögreglustjóra, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Afstöðu – félagi fanga á Íslandi.
Nefndinni bárust fjórar umsagnir ásamt minnisblaði frá heilbrigðisráðuneyti og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 2. gr. a laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974. Annars vegar er lagt til að heilbrigðisstofnunum og frjálsum félagasamtökum verði veitt heimild til að stofna og reka neyslurými. Hins vegar er lagt til að 18 ára og eldri verði heimilt að nota vímuefni í neyslurými óháð neysluaðferð.
Umfjöllun nefndarinnar.
Ábyrgð á þjónustunni.
Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga komu fram athugasemdir við ákvæði 2. gr. a laga um ávana- og fíkniefni. Á grundvelli ákvæðisins er sveitarfélögum heimilt að stofna og reka neyslurými en að mati Sambandsins séu engin rök fyrir því að sveitarfélög eigi að hafa með höndum það verkefni. Í umsögninni er lagt til að heimildin verði felld brott úr ákvæði 2. gr. a laganna, enda sé um að ræða heilbrigðisþjónustu á ábyrgð ríkisins. Reksturinn ætti fremur að vera tengdur annarri heilbrigðisþjónustu til að tryggja heildræna þjónustu við þann notendahóp sem um ræðir, að öðrum kosti sé hætta á að óskýr og grá svæði skapist hvað varðar ábyrgð og rekstur starfseminnar.
Sambærilegar athugasemdir bárust þegar ákvæði um neyslurými voru lögfest (328. mál á 150. lögþ.) og fjallaði velferðarnefnd þá sérstaklega um hvernig verkefnið félli að hlutverki sveitarfélaga. Tók meiri hluti velferðarnefndar fram í nefndaráliti sínu (þskj. 1385, 150. lögþ.) að um valkvætt úrræði fyrir sveitarfélög væri ræða sem heilbrigðisráðuneyti hafði þá ákveðið að leggja fjárframlag til. Taldi meiri hluti nefndarinnar að með því hefði í reynd verið fallist á að verkefnið félli a.m.k. að hluta til undir heilbrigðisþjónustu. Í minnisblaði frá heilbrigðisráðuneyti, sem barst nefndinni við umfjöllun málsins, segir að neyslurými séu skaðaminnkunarúrræði sem miða að því að draga úr skaða fyrir einstaklinga, nærsamfélagið og samfélagið í heild. Neyslurými, líkt og mörg önnur skaðaminnkunarúrræði, séu starfrækt á mörkum heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem eðli starfseminnar teljist til skaðaminnkandi velferðarþjónustu þar sem samvinna og samþætting heilbrigðis- og félagsþjónustu sé til staðar.
Ylja er eina neyslurýmið sem starfrækt er nú. Þar er veitt samþætt skaðaminnkandi velferðarþjónusta, þar sem bæði er veitt heilbrigðis- og félagsþjónusta. Rekstur neyslurýmisins er fjármagnaður af heilbrigðisráðuneyti og hafa Sjúkratryggingar Íslands samið við Reykjavíkurborg um þá þjónustu.
Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í minnisblaði ráðuneytisins að ástæða sé til að sveitarfélög hafi áfram heimild að lögum til að stofna og reka neyslurými, telji þau þörf á. Um er að ræða heimild, en ekki skyldu, og með því að veita frjálsum félagasamtökum og heilbrigðisstofnunum sömu heimild er lagður grunnur að frekari möguleikum til samvinnu og samþættri velferðarþjónustu fyrir fólk sem notar vímuefni. Telur meiri hlutinn því ekki ástæðu til að leggja til breytingar á frumvarpinu í samræmi við framangreindar athugasemdir.
Notkunaraðferð (c-liður 1. gr.).
Með c-lið 1. gr. eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 2. gr. a laga um ávana- og fíkniefni. Lagt er til að kveðið verði á um að fólk sem er 18 ára og eldra geti notað vímuefni undir eftirliti starfsfólks þar sem gætt verði fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingarvarna, óháð notkunaraðferð. Gildandi ákvæði gerir einungis ráð fyrir því að í neyslurýmum sé vímuefnum sprautað í æð, en lagt er til að notkunaraðferð verði ekki tilgreind í ákvæðinu.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að þessi heimild sé skaðaminnkandi, enda séu töluvert færri hættur tengdar því t.d. að reykja vímuefni en sprauta þeim í æð, og þar að auki dragi það úr hættu á veirusýkingum og alvarlegum bakteríusýkingum, minnki hættu á ofskömmtun og neikvæðum afleiðingum þegar efnin eru blönduð. Þá hafi komið í ljós, á grundvelli reynslu þeirra sem reka neyslurými, breytt neyslumynstur fólks sem felst í að reykja vímuefni frekar en að sprauta þeim í æð. Þessi tillaga er í samræmi við þá framkvæmd sem gengur og gerist í nágrannalöndum, líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu og er að mati meiri hlutans í samræmi við hugmyndafræði um skaðaminnkun.
Regluverk og eftirlit.
Við umfjöllun um málið komu fram sjónarmið um að í regluverki um neyslurými þyrfti að kveða skýrt á um starfsemina og eftirlit með henni. Komu m.a. fram athugasemdir um að nánar verði að skilgreina hvaða tegundar efna og magns sé heimilt að neyta í neyslurými til að koma í veg fyrir óvissu um framkvæmd lögreglustarfa. Þá þyrfti að koma upp bakgrunnsskoðun á rekstraraðilum og þeim sem starfa í neyslurýmum, auk heimildar landlæknis til að afturkalla leyfi við tilteknar aðstæður.
Með stoð í 2. gr. a laga um ávana- og fíkniefni hefur verið sett reglugerð um neyslurými, nr. 170/2021. Í minnisblaði frá heilbrigðisráðuneyti segir að hafin sé endurskoðun á reglugerðinni og þar tekið undir þau sjónarmið sem komu fram í umsögnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra um að kveða skýrar á um skilyrði fyrir leyfisveitingu, eftirlit, auk heimildar landlæknis til afturköllunar leyfis til reksturs neyslurýmis.
Meiri hlutinn undirstrikar mikilvægi þess að framangreind sjónarmið verði höfð til hliðsjónar við endurskoðun reglugerðarinnar. Þá tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið ríkislögreglustjóra að skilgreina frekar hlutverk lögreglu í öryggismálum og það verði gert án þess að það leiði til þess að fæla frá notendur úrræðisins.
Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
Jón Gnarr var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
Alþingi, 7. maí 2025.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, form. |
Kristján Þórður Snæbjarnarson, frsm. |
Jón Gnarr. | |
Jónína Björk Óskarsdóttir. | Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir. |