Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 613  —  132. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um landamæri, lögreglulögum og tollalögum (farþegaupplýsingar fyrir lögreglu og tollyfirvöld).

(Eftir 2. umræðu, 2. júní.)


I. KAFLI
Breyting á lögum um landamæri, nr. 136/2022.
1. gr.

    Á eftir 16. tölul. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Upplýsingar um farþega og áhöfn: Upplýsingar sem finna má í farþegabókunargögnum og ferðaskilríkjum farþega og áhafnar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „lögreglu“ í 2. mgr. kemur: farþegaupplýsingadeild lögreglu og tollyfirvalda.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                      Farþegaupplýsingadeild lögreglu og tollyfirvalda er heimilt að vinna og miðla upplýsingum um farþega og áhöfn til annarra lögregluembætta, tollyfirvalda, Landhelgisgæslu Íslands og annarra stjórnvalda í þágu landamæravörslu, í löggæslutilgangi eða til að viðkomandi stjórnvald geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Vinnsla og miðlun upplýsinga um farþega og áhöfn í farþegabókunargögnum loftfara er aðeins heimil í því skyni að koma í veg fyrir, koma upp um, rannsaka eða saksækja fyrir refsiverð brot sem varða a.m.k. þriggja ára fangelsi.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skyldur flutningsaðila og heimild lögreglu og tollyfirvalda til að safna og skiptast á upplýsingum um farþega og áhöfn.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: upplýsingaskyldu skv. 2. mgr. 17. gr. og söfnun, vinnslu, miðlun, þar á meðal til erlendra yfirvalda, og varðveislu upplýsinga um farþega og áhöfn, einkum upplýsinga í farþegabókunargögnum loftfara, sbr. 3. og 4. mgr. sömu greinar, en um miðlun fer að öðru leyti eftir ákvæðum III. kafla laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019.
     b.      H- og i-liður 2. mgr. falla brott.

II. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996.
4. gr.

    Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að starfrækja farþegaupplýsingadeild í samstarfi við tollyfirvöld og önnur viðeigandi stjórnvöld sem annast móttöku, vinnslu og miðlun upplýsinga um farþega og áhöfn.


5. gr.

    42. gr. laganna orðast svo:
    Lögreglu er heimil vinnsla og miðlun upplýsinga um farþega og áhöfn í samræmi við lög um landamæri og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra.

III. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005.
6. gr.

    Á eftir 3. tölul. 40. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Starfræksla farþegaupplýsingadeildar í samstarfi við lögreglu og önnur viðeigandi stjórnvöld sem annast móttöku, vinnslu og miðlun upplýsinga um farþega og áhöfn.


7. gr.

    51. gr. a laganna orðast svo:
    Fyrirtækjum sem annast flutning farþega og vöru til og frá landinu er skylt að afhenda farþegaupplýsingadeild lögreglu og tollyfirvalda upplýsingar um farþega og áhöfn. Sama skylda hvílir á stjórnendum, eigendum eða umráðamönnum fara sem ferðast til og frá landinu, þar á meðal einkaflugfara og seglskipa.
    Tollyfirvöldum er heimil vinnsla og miðlun upplýsinga um farþega og áhöfn í samræmi við lög um landamæri og reglur sem settar eru á grundvelli þeirra.
    Ráðherra kveður nánar á um umfang upplýsingaskyldunnar og afhendingu upplýsinga til farþegaupplýsingadeildar lögreglu og tollyfirvalda, þar á meðal um form og tímasetningu.

8. gr.

    Í stað orðsins „tveimur“ í 1. málsl. 1. mgr. 170. gr., 1. mgr. 171. gr., 1. mgr. 173. gr., 1. mgr. 175. gr., 1. mgr. 176. gr., 1. mgr. 177. gr., 1. málsl. 1. mgr. 178. gr. og 179. gr. laganna kemur: þremur.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 180. gr. a laganna:
     a.      Tilvísunin „1. málsl.“ í 1. mgr. fellur brott.
     b.      Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr.:
                  1.      Í stað „10.000 kr. til 100.000 kr.“ kemur: 100.000 kr. til 4.000.000 kr.
                  2.      Í stað „2.000.000 kr.“ kemur: 10.000.000 kr.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.