Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.
Stjórnarfrumvarp.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984 (einföldun málsmeðferðar).
Frá dómsmálaráðherra.
1. gr.
a. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Heimilt er að gera samninga við önnur ríki og alþjóðastofnanir um skyldu til framsals og um aðra aðstoð í sakamálum sem og yfirtöku saksóknar með ákveðnum skilyrðum sem þó mega ekki ganga gegn ákvæðum laga þessara.
Framsal og önnur aðstoð í sakamálum sem og yfirtaka saksóknar er heimil samkvæmt lögum þessum þótt ekki sé það skylt samkvæmt samningi sem Ísland hefur gert þar að lútandi við viðkomandi ríki eða alþjóðastofnun. Um málsmeðferð slíkra mála fer eftir lögum þessum, eftir því sem við á. Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um hvort verða eigi við beiðni um yfirtöku saksóknar og hvort óska eigi eftir yfirtöku saksóknar erlendis. Fallist ríkissaksóknari á beiðni um yfirtöku saksóknar ákveður ríkissaksóknari hvaða embætti tekur við meðferð málsins.
b. Greinin fær fyrirsögnina Gildissvið.
2. gr.
a. (2. gr.)
Íslenskir ríkisborgarar.
b. (3. gr.)
Tengsl við lög um meðferð sakamála.
3. gr.
4. gr.
5. gr.
6. gr.
7. gr.
8. gr.
9. gr.
10. gr.
11. gr.
12. gr.
Skilyrði fyrir framsali.
1. Að ekki verði höfðað mál gegn hinum framselda manni eða hann látinn taka út refsingu eða framseldur til þriðja ríkis fyrir annan refsiverðan verknað sem framinn var áður en til framsals kom nema:
a. að ráðherra heimili það, sbr. 22. gr., eða
b. að hinn framseldi maður hafi ekki horfið úr landi því sem hann var framseldur til enda þótt hann hafi átt þess kost að fara þaðan óhindraður í minnst 45 daga eða
c. að hann hafi horfið aftur til lands þess sem hann var framseldur til eftir að hann hafði farið úr landi.
2. Að án leyfis ráðherra megi ekki reka mál hins framselda manns fyrir bráðabirgðadómstólum eða dómstól sem aðeins hefur heimild til að fjalla um viðkomandi afbrot eða sérstök undantekningartilfelli.
3. Að óheimilt sé að fullnægja dauðarefsingu gagnvart hinum framselda manni.
Heimilt er að setja frekari skilyrði fyrir framsali.
13. gr.
14. gr.
a. (13. gr.)
Beiðni um framsal.
Beiðni um framsal skal innihalda upplýsingar um:
a. nafn, heimilisfang, símanúmer og netfang þess sem hefur gefið framsalsbeiðnina út,
b. persónuauðkenni og ríkisfang þess eftirlýsta,
c. hvort til staðar sé endanleg dómsniðurstaða, handtökuskipun eða önnur ákvörðun sem hefur sömu réttaráhrif og handtökuskipun samkvæmt löggjöf viðkomandi ríkis,
d. eðli afbrotsins með vísun til þeirra refsiákvæða sem við eiga um verknaðinn,
e. við hvaða aðstæður afbrot var framið, hvar og hvenær og hver þáttur þess eftirlýsta var í því,
f. dæmda refsingu eða refsiramma sem gildir um afbrotið í því ríki sem gaf framsalsbeiðnina út og
g. aðrar afleiðingar afbrotsins eftir því sem unnt er.
Framsalsbeiðni sem gefin er út til Íslands skal vera rituð á íslensku eða ensku eða henni skal fylgja þýðing á öðru hvoru tungumálinu.
Með beiðni um framsal til meðferðar máls skal fylgja handtökuskipun eða önnur ákvörðun sem hefur sömu réttaráhrif og handtökuskipun samkvæmt löggjöf viðkomandi ríkis.
Með beiðni um framsal manns til fullnustu á dómi skal endanleg dómsniðurstaða fylgja eða staðfest eintak hans.
Skilyrði 2., 4. og 5. mgr. eiga einnig við um beiðnir sem sendar eru frá íslenskum stjórnvöldum.
b. (14. gr.)
Meðferð framsalsbeiðna.
Ef beiðni er ekki hafnað skv. 1. mgr. sendir ráðherra ríkissaksóknara beiðnina til frekari meðferðar og ber honum að sjá til þess að nauðsynleg lögreglurannsókn fari þegar fram.
Samþykki sá sem óskast framseldur til ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu framsal getur hann jafnframt lýst því yfir að heimilt sé að höfða mál gegn honum eða láta hann taka út refsingu í ríkinu, sem biður um framsal, fyrir annan refsiverðan verknað en þann sem greinir í framsalsbeiðni. Slík yfirlýsing er bindandi nema viðkomandi falli frá samþykki fyrir framsali. Samþykki og yfirlýsing skulu bókuð og samþykkt skriflega hjá lögreglu, ákæruvaldi eða í dómi.
c. (15. gr.)
Þvingunarráðstafanir í þágu meðferðar framsalsmála.
Við ákvörðun um hvort skilyrði séu til að beita þvingunarráðstöfun má leggja til grundvallar þær dómsúrlausnir sem beiðni fylgja, án frekari rannsóknar um sönnun sakar þess sem þvingunarráðstöfun beinist að.
Þvingunarráðstöfunum skv. 1. mgr. má beita á meðan beiðni um framsal er til meðferðar skv. 14. gr. og þar til ákvörðun um framsal kemur til framkvæmdar skv. 19. gr.
d. (16. gr.)
Tilnefning og skipun verjanda.
Dómari skal skipa hinum eftirlýsta verjanda ef hinn eftirlýsti eða ríkissaksóknari óska þess. Dómari getur einnig af sjálfsdáðum skipað verjanda ef honum þykir ástæða til.
Þóknun verjanda og annar sakarkostnaður skulu greidd úr ríkissjóði. Dómari getur þó ákveðið, þegar sérstaklega stendur á, að viðkomandi maður skuli greiða kostnaðinn.
e. (17. gr.)
Ákvörðun um framsal og birting.
Ákveði ráðherra að verða við beiðni um framsal skal birta ákvörðunina fyrir þeim sem óskast framseldur og tilkynna honum um rétt hans til að krefjast úrskurðar um hvort skilyrði laga fyrir framsali séu fyrir hendi í samræmi við 18. gr. Ríkissaksóknari hlutast til um birtingu ákvörðunar ráðherra.
f. (18. gr.)
Endurskoðun framsalsákvörðunar fyrir dómi.
Úrskurð héraðsdóms er unnt að kæra til Landsréttar samkvæmt lögum um meðferð sakamála að öðru leyti en því að kærufrestur er einn sólarhringur.
g. (19. gr.)
Framkvæmd ákvörðunar um framsal.
Hafi úrskurðar verið krafist innan lögmælts frests eða undanþága leyfð skal framsal ekki fara fram fyrr en endanlegur dómsúrskurður hefur verið kveðinn upp.
Til að tryggja framkvæmd framsals skal handtaka viðkomandi, ef hann er ekki þegar í haldi, og úrskurða í gæsluvarðhald þar til framsal fer fram.
Úrskurður um þvingunarráðstöfun skal þó ekki gilda lengur en í fjórar vikur eftir að ákvörðun um framsal hefur verið endanlega staðfest með úrskurði. Getur héraðsdómur þó ákveðið, þegar sérstaklega stendur á, að þvingunarráðstöfunum skuli beitt um tiltekinn lengri tíma.
h. (20. gr.)
Haldlagning og afhending muna.
Ákvæði 1. mgr. gilda þótt eftirlýstur maður sé látinn eða horfinn.
Ríkissaksóknari getur látið halda mun skv. 1. mgr. eða afhent hann tímabundið þegar hann telst hafa þýðingu vegna sönnunar í tengslum við mál sem rekið er hér á landi.
Afhending hefur ekki áhrif á gildandi réttindi varðandi muninn. Heimilt er að setja skilyrði fyrir afhendingu ef það er nauðsynlegt til að verja slík réttindi.
15. gr.
a. (21. gr.)
Alþjóðleg eftirlýsing.
Ákvörðun um þvingunarráðstafanir skal þegar tilkynnt ráðherra. Ráðherra getur, að höfðu samráði við ríkissaksóknara, ákveðið að þvingunarráðstöfunum skuli ekki beitt ef það telur að framsalsgrundvöllur sé ekki til staðar. Ef ráðherra ákveður ekki að þvingunarráðstafanir skuli felldar niður skal það hlutast til um að erlenda ríkinu verði tilkynnt um þær og að þær verði felldar niður ef framsalsbeiðni berst ekki svo fljótt sem verða má. Ef framsalsbeiðni hefur ekki borist innan 30 daga frá því að tilkynning var send skulu þvingunarráðstafanir felldar niður. Ef sérstaklega stendur á er heimilt að lengja þennan frest.
b. (22. gr.)
Málsmeðferð vegna annarra afbrota en framselt var fyrir.
Samþykki má því aðeins veita ef til framsals hefði getað komið fyrir verknaðinn samkvæmt lögum þessum. Ákvæði 16. og 18. gr. gilda einnig um veitingu slíks samþykkis eftir því sem við á.
Samþykki til að viðkomandi maður verði framseldur áfram til Danmerkur, Finnlands, Noregs, Svíþjóðar eða annarra aðildarríkja að evrópsku handtökuskipuninni er þó heimilt að veita ef skilyrði laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar eru til staðar.
Í beiðni um samþykki samkvæmt 1. mgr. skulu vera sömu upplýsingar og um getur í 13. gr. Einnig skulu fylgja fullnægjandi gögn um að viðkomandi manni hafi verið kunngerður réttur hans skv. 16. og 18. gr. eftir því sem við á og um hvort hann óski eftir að notfæra sér þann rétt.
Þegar krafist er dómsúrskurðar um hvort skilyrði laga eru til staðar er óheimilt að veita samþykki fyrr en endanlegur dómsúrskurður liggur fyrir. Slík mál skulu lögð til úrskurðar í héraðsdómi.
Samkvæmt beiðni getur ráðherra leyft að um mál hins framselda manns sé fjallað af bráðabirgðadómstól eða öðrum dómstól, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr., en einungis ef það er talið óhætt vegna málsmeðferðar fyrir þeim dómstól.
16. gr.
a. (23. gr.)
Skilyrði fyrir beiðni um réttaraðstoð.
Réttarbeiðni skal uppfylla skilyrði sem sett eru í þeim samningum sem Ísland er aðili að og beiðnin grundvallast á. Í beiðni skulu vera upplýsingar um tegund afbrots og hvar og hvenær það var framið. Sé beiðni sett fram án samnings eða á grundvelli gagnkvæmni skal hún uppfylla þau skilyrði sem tilgreind eru í Evrópuráðssamningi frá 20. apríl 1959 um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum og viðbótarbókunum við hann.
Óheimilt er að verða við réttarbeiðni ef verknaðurinn sem hún er tilkomin vegna eða sambærilegur verknaður er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða ef hann samkvæmt ákvæðum í 6.–9. gr. getur ekki verið grundvöllur framsals. Einnig er óheimilt að verða við réttarbeiðni ef samþykki hennar yrði talið leiða af sér brot á almannafriði, allsherjarreglu eða öðrum mikilvægum hagsmunum ríkisins. Síðara skilyrði 1. málsl. gildir ekki gagnvart ríkjum sem taka þátt í Schengen-samstarfinu. Varðandi beiðnir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð gildir ekki heldur fyrra skilyrði 1. málsl.
b. (24. gr.)
Málsmeðferð.
Beiðni íslenskra löggæsluyfirvalda um réttaraðstoð til erlends ríkis eða alþjóðastofnunar skal einnig send ríkissaksóknara, sem hefur milligöngu um að beiðnin sé send til viðeigandi yfirvalda í því ríki eða hjá þeirri stofnun.
Hraða skal afgreiðslu réttarbeiðna eins og mögulegt er. Ef tímafrestir eru tilteknir í beiðni, sem ekki er unnt að verða við, skal ríkissaksóknari upplýsa ríkið eða stofnunina sem lagði fram beiðnina svo fljótt sem verða má um hvenær hægt sé að verða við beiðninni og tilgreina ástæður þess að ekki sé hægt að verða við beiðninni innan umbeðins frests.
Fylgja skal þeirri málsmeðferð sem það ríki eða stofnun sem leggur fram beiðni tilgreinir sérstaklega að því tilskildu að það brjóti ekki í bága við íslensk lög.
Verða skal við beiðnum um skýrslutöku vitna eða sérfræðinga í gegnum síma og fjarfundabúnað eftir því sem unnt er. Skýrslutaka í síma skal einungis leyfð ef viðkomandi vitni eða sérfræðingur samþykkir.
Að lokinni afgreiðslu beiðninnar sendir ríkissaksóknari ríkinu eða stofnuninni sem lagði fram beiðni öll gögn málsins ásamt álitsgerð um það.
Ef það er líklegt að maður, sem dvelur á Íslandi og sem ekki er grunaður vegna málsins, hafi með lögmætum hætti þann mun sem leggja skal hald á skal afhending hans til yfirvalda annars ríkis háð því skilyrði að hann, án kostnaðar, skuli sendur til baka þegar meðferð málsins er lokið.
c. (25. gr.)
Tímabundinn flutningur manns í haldi til erlends ríkis.
ríkissaksóknara, að ákveða að maður sem hér á landi er fangelsaður eða sviptur frelsi með úrskurði eða dómi vegna refsiverðs verknaðar skuli tímabundið fluttur til annars ríkis til þess að mæta þar eingöngu sem vitni í þágu öflunar sönnunargagna í refsimáli því sem beiðni varðar, með þeim skilyrðum sem greinir í 2. mgr.
Setja skal þau skilyrði fyrir flutningi að fanginn verði fluttur til baka innan frests sem
tiltaka ber um leið og beiðni um flutning er samþykkt og:
a. að ekki skuli hafin rannsókn í máli gegn honum meðan hann dvelur í hinu ríkinu,
b. að honum verði ekki refsað þar eða
c. að hann verði ekki framseldur áfram fyrir verknað sem framinn var áður en flutningur átti sér stað.
Heimilt er að hafna beiðni um flutning manns skv. 1. mgr. ef:
a. hann samþykkir ekki flutning,
b. nærvera hans telst nauðsynleg vegna refsimáls sem rekið er hér á landi,
c. flutningur kann að lengja frelsisskerðingu hans eða
d. fyrir hendi eru aðrar mikilvægar ástæður fyrir því að verða ekki við beiðninni.
d. (26. gr.)
Flutningur fanga til Íslands vegna rannsóknaraðgerða.
e. (27. gr.)
Heimild til að semja við erlend ríki um að senda einstaklingum hér á landi tilkynningar eða málsskjöl.
Með tilkynningum eða málsskjölum skulu fylgja upplýsingar um að móttakandi geti fengið upplýsingar um réttindi sín og skyldur er leiðir af skjalinu hjá yfirvaldinu sem gaf það út eða öðrum yfirvöldum í viðkomandi ríki. Sé ástæða til að ætla að viðtakandi skilji ekki tungumálið sem skjal er ritað á og skal þá þýða skjalið eða meginefni þess á íslensku eða annað tungumál sem erlendu yfirvaldi er kunnugt um að viðtakandi skilur.
f. (28. gr.)
Refsiábyrgð opinberra starfsmanna.
g. (29. gr.)
Skaðabótaskylda vegna tjóns erlends starfsmanns erlends ríkis hér á landi.
h. (30. gr.)
Samstarf við erlend löggæsluyfirvöld, erlenda ákæruvaldshafa og alþjóðastofnanir.
17. gr.
18. gr.
Reglugerðarheimild.
19. gr.
20. gr.
21. gr.
Þrátt fyrir ákvæði laga þessara getur framsal átt sér stað og beiðnir um aðstoð í sakamálum framkvæmdar í þeim mæli sem Ísland hefur skyldu til samkvæmt samningum gerðum fyrir gildistöku laga þessara við önnur ríki.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. gildir um beiðnir um réttaraðstoð í sakamálum sem bárust ráðherra fyrir gildistöku laga þessara að þær verði afgreiddar hjá ríkissaksóknara.
22. gr.
1. Lög um Rómarsáttmálann og Alþjóðlega sakamáladómstólinn, nr. 43/2001: Í stað tilvísunarinnar „II. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum “ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: III. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.
2. Lög um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56/1993: Á eftir 25. gr. laganna kemur ný grein 25. gr. a, svohljóðandi:
Mann, sem í öðru landi sætir fullnustu fangelsisdóms sem kveðinn var upp hér á landi, má flytja til Íslands, með samþykki hans, til þess að hann geti verið viðstaddur endurupptöku málsins sem leiddi til fangelsisdómsins. Ákvæði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum gilda eftir því sem við getur átt.
Greinargerð.
Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Frumvarpið er liður í því að ná fram markmiðum um að styrkja réttarkerfið til að tryggja hraða og örugga málsmeðferð. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984 í því skyni að einfalda og hraða málsmeðferð, gera lögin skilvirkari og uppfæra orðalag til samræmis við önnur lög. Stefnt er að því að gera lögin skýrari og að þau endurspegli þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist í tengslum við alþjóðlega réttaraðstoð.
Þeir grundvallarsamningar sem lög nr. 13/1984 byggjast á eru Samningur Evrópuráðsins frá 1957 um framsal sakamanna (hér eftir nefndur framsalssamningurinn), auk tveggja viðbótarbókana við hann og Samningur Evrópuráðsins frá 1959 um gagnkvæma aðstoð í sakamálum (hér eftir nefndur Evrópuráðssamningurinn frá 1959 eða 1959-samningurinn), ásamt fyrstu viðbótarbókun við hann frá 17. mars 1978. Við framsalssamninginn hafa verið gerðar tvær bókanir til viðbótar, þ.e. þriðja viðbótarbókun frá 10. nóvember 2010 og fjórða viðbótarbókun frá 20. september 2012. Hafa þær ekki verið undirritaðar af Íslands hálfu. Við Evrópuráðssamninginn frá 1959 var gerð 2. viðbótarbókun 8. nóvember 2001. Hún var undirrituð af hálfu Íslands þann sama dag en ekki hefur verið lokið við fullgildingu hennar hér á landi þar sem lagabreytinga var þörf til að ljúka ferlinu.
Auk þessara tveggja grundvallarsamninga á Ísland aðild að mörgum fjölþjóðlegum samningum sem hafa það að markmiði að efla samvinnu og samstarf þjóða í baráttu gegn ýmiss konar afbrotum með gagnkvæmri réttaraðstoð, sem felur einkum í sér að afla sönnunargagna til notkunar í sakamálum. Gagnkvæm eða alþjóðleg réttaraðstoð er í grundvallaratriðum reist á frjálsum vilja ríkis til að veita öðru ríki eða ríkjum aðstoð. Byggist það m.a. á því sjónarmiði að ríki hefur ekki heimild til að stunda lögreglurannsókn í öðru ríki nema með samþykki viðkomandi ríkis þar sem rannsóknin á að fara fram. Allt frá miðri síðustu öld hefur fjöldi ríkja undirgengist skuldbindingar samkvæmt framangreindum grundvallarsamningum sem í gegnum áranna rás hafa tekið breytingum í takt við nýjar áskoranir við meðferð mála og aukið flækjustig sem öflun sönnunargagna yfir landamæri getur haft í för með sér. Á það við hvort sem mál eru til meðferðar í refsilögsögu Íslands eða annarra ríkja. Verður nú gerð grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á framangreindum grundvallarsamningum og öðrum nýrri samningum sem þeim tengjast, að því marki sem þeir hafa haft áhrif á eða leitt til breytinga á ákvæðum laga nr. 13/1984 frá gildistöku þeirra.
Fyrst ber að nefna samning frá 19. júní 1990, um framkvæmd Schengen-samkomulagsins frá 15. júní 1985 (hér eftir nefndur Schengen-samningurinn). Ísland og Noregur undirgengust hann árið 1996 en samningurinn var endurnýjaður 18. maí 1999 eftir að Schengen varð hluti af starfsemi Evrópusambandsins og tók gildi 25. mars 2001. Í honum er að finna nokkur ákvæði um gagnkvæma aðstoð í sakamálum, sem teljast til viðbótar við ákvæði Evrópuráðssamninginn frá 1959.
Með samningi Evrópusambandsins um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000 auk viðbótarbókunar við hann frá 16. október 2001 var samstarf milli ríkja Evrópusambandsins, Íslands og Noregs aukið enn frekar. Markmið samningsins var að bæta og auka réttaraðstoð milli ríkjanna í sakamálum á þeim grundvelli sem þegar var fyrir hendi, en eins og fyrr greinir hvílir sú samvinna einkum á Evrópuráðssamningnum frá 1959, ásamt viðbótarbókun við hann, og Schengen-samningnum. Samningur Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 2000 fól m.a. í sér breytingu á Schengen-reglum sem gilda á þessu sviði. Hann gerði ráð fyrir fleiri aðstæðum þar sem réttaraðstoðar gæti verið óskað og með nýjum úrræðum var markmiðið að gera réttaraðstoð skilvirkari, sveigjanlegri og árangursríkari en verið hafði. Sama dag og samningurinn var samþykktur og undirritaður af aðildarríkjum Evrópusambandsins samþykktu Ísland og Noregur samninginn að því leyti sem hann tók til landanna vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu. Leiddi það til laga nr. 45/2001, um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984. Ísland samþykkti viðbótarbókunina við samninginn frá 2001 ári síðar, eða 2002. Árið 2003 hófust síðan viðræður milli Evrópusambandsins, Íslands og Noregs um frekari aðild Íslands og Noregs að samningnum og bókun við hann, þar sem aðildin hafði verið takmörkuð við tiltekin ákvæði fram að því. Hinn 19. desember 2003 var undirritaður samningur milli Íslands og Noregs annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar um beitingu þeirra ákvæða samningsins og bókunar hans sem fyrrnefnd ríki höfðu ekki þegar innleitt í gegnum Schengen-samstarfið. Með lögum nr. 71/2006 voru gerðar breytingar á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum vegna ákvæða þess samnings.
Með lögum um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016, voru gerðar breytingar á lögum nr. 13/1984 en með þeim var regluverk evrópsku og norrænu handtökuskipananna tekið upp og samningarnir að baki því lögfestir.
Síðustu breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 13/1984 eru frá 23. desember 2020 með lögum nr. 157/2020. Lagabreytingarnar voru taldar nauðsynlegar til að uppfæra ákvæði laganna og samræma þau við sambærileg ákvæði laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og fyrrgreinda samninga Evrópuráðsins og Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð. Þá var einnig talin brýn þörf á breytingum hvað varðar ferli réttarbeiðna og afgreiðslu þeirra í kjölfar úrskurða Landsréttar frá 26. mars 2020 í málum nr. 158 og 159/2020. Ferill réttarbeiðna á grundvelli laganna hafði verið sá sami um langt skeið en í úrskurðum Landsréttar var kröfu ákæruvaldsins um öflun gagna á grundvelli réttarbeiðna hafnað, þar sem skilyrði laganna voru ekki uppfyllt varðandi feril beiðnanna. Sá ferill sem lögin kváðu á um var þó ekki í samræmi við nútímaskipan ákæruvalds þar sem samkvæmt þágildandi 6. mgr. 22. gr. laganna hafði dómsmálaráðuneytið ákvörðunarvald um hvort rannsókn yrði framkvæmd af lögreglu í samræmi við réttarbeiðni og var það í ósamræmi við að ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds í landinu. Með lögum nr. 157/2020 voru því gerðar breytingar á meðferð réttarbeiðna og ríkissaksóknara var falið að taka við réttarbeiðnum um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá aðildarríkjum að samningnum frá 1959 og Evrópusambandssamningnum frá 2000 og viðbótarbókun við hann. Fleiri breytingar voru einnig gerðar en þeim verða ekki gerð frekari skil.
2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Markmið 2. viðbótarbókunar við Evrópuráðssamninginn frá 1959, sem Ísland undirritaði 8. nóvember 2001, er að einfalda málsmeðferð, gera hana skilvirkari og árangursríkari. Aðeins þrjú aðildarríki Evrópuráðsins, Ísland, Grikkland og Aserbaísjan, hafa skrifað undir en ekki fullgilt bókunina. Á hinn bóginn eru Andorra, Mónakó og San Marínó einu aðildarríkin sem hafa hvorki skrifað undir né fullgilt bókunina. Nauðsynlegt er að lögfesta 16. gr. frumvarpsins svo hægt sé að klára fullgildingarferli 2. viðbótarbókunarinnar. Nú standa yfir samningaviðræður um 3. viðbótarbókunina við samninginn á vettvangi Evrópuráðsins en allt stefnir í að ekki verði hægt að fullgilda hana nema að hafa áður fullgilt 2. bókunina. Nauðsynlegt þykir að stíga skrefið til fulls og klára að lögfesta þau ákvæði sem þarf að lögfesta til að geta fullgilt 2. viðbótarbókunina.
Þá var einnig talið nauðsynlegt að gera breytingar á lögunum er varða framsalsákvæðin til að þau séu í betra samræmi við framvindu framsalsmála og lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
3. Meginefni frumvarpsins.
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum er varða framsal sakamanna og beiðnir um alþjóðlega réttaraðstoð í sakamálum. Ákvæðum laganna er skipt upp eftir efni þeirra þannig að almenn ákvæði er að finna á einum stað í upphafi á undan sértækari ákvæðum, sem varða annars vegar framsal og hins vegar alþjóðlega réttaraðstoð í sakamálum. Þá hafa öllum ákvæðum laganna verið gefnar fyrirsagnir til að auka skýrleika og einfalda yfirsýn yfir þau.
Þær meginbreytingar sem mælt er fyrir um og varða gagnkvæma réttaraðstoð eru tvíþættar og lúta einkum að málsmeðferð í tengslum við afgreiðslu þeirra. Sem fyrr segir var árið 2020 gerð breyting á lögum nr. 13/1984 sem gerði það að verkum að ríkissaksóknara var falið hlutverk miðlægs stjórnvalds við móttöku réttarbeiðni erlendis frá á grundvelli tiltekinna alþjóðasamninga. Þegar réttarbeiðni er send hingað til lands hefst málsmeðferð hjá hinu miðlæga stjórnvaldi, sem getur verið dómsmálaráðuneytið eða ríkissaksóknari, allt eftir því hvaða alþjóðasamningur er til grundvallar beiðninni. Við móttöku beiðni tekur miðlæga stjórnvaldið afstöðu til þess hvort formskilyrði séu uppfyllt. Ef formskilyrðum er ekki fullnægt er beiðninni hafnað og svar sent til viðkomandi ríkis um þá niðurstöðu. Ef talið er unnt að verða við beiðninni er hún send áfram til meðferðar hér á landi sem í dag getur verið tvenns konar, þ.e. ef dómsmálaráðuneytið er miðlægt stjórnvald er beiðnin send áfram til ríkissaksóknara sem hlutast til um framkvæmd hennar með því að leggja fyrir viðeigandi lögregluembætti að annast umbeðnar rannsóknaraðgerðir. Að því loknu er beiðnin ásamt gögnum send til ríkissaksóknara sem sendir hana áfram til dómsmálaráðuneytisins þaðan sem beiðnin ásamt gögnum er send til hins beiðandi ríkis. Þegar ríkissaksóknari gegnir hlutverki miðlægs stjórnvalds við móttöku réttarbeiðna á dómsmálaráðuneytið ekki aðkomu að málsmeðferðinni, nema ef eftir því er leitað af hálfu ríkissaksóknara. Þegar íslensk löggæsluyfirvöld senda réttarbeiðni til erlendra ríkja hefur ríkissaksóknari á hinn bóginn ekki aðkomu að málsmeðferðinni þar sem dómsmálaráðuneytið annast sendingu slíkra beiðna erlendis. Í gildandi lögum er ekki mælt fyrir um málsmeðferð slíkra beiðna en með frumvarpinu er mælt fyrir um hana og það hlutverk fært til ríkissaksóknara. Ríkissaksóknara yrði þannig alfarið falið að gegna hlutverki miðlægs stjórnvalds í tengslum við afgreiðslu réttarbeiðna verði frumvarpið að lögum. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og hefur heimild að lögum til að gefa lögreglu fyrirmæli í tengslum við rannsóknir einstakra mála. Má telja eðlilegt, í ljósi þeirra stjórnunar- og eftirlitsheimilda sem ríkissaksóknari hefur, að hann geti leiðbeint ákærendum um efnistök réttarbeiðna og hvaða rannsóknaraðgerða eða aðstoðar eigi að óska eftir erlendis frá, auk þess sem þetta styrkir yfirsýn embættisins yfir fjölda og eðli réttarbeiðna, sem og samræmingu við útgáfu réttarbeiðna. Þykir eðlilegt að þetta hlutverk verði alfarið fært til ríkissaksóknara í því ljósi og leitast þannig við að draga úr hlutverki dómsmálaráðuneytisins við meðferð sakamála í samræmi við grundvallarsjónarmiðið um sjálfstæði ákæruvaldsins. Sem fyrr segir yrði embætti ríkissaksóknara falið að taka við réttarbeiðnum frá íslenskum stjórnvöldum og koma þeim áleiðis til erlendra stjórnvalda. Lögin kveða ekki á um hvernig meðferð réttarbeiðna frá íslenskum yfirvöldum skuli háttað og er því um veigamikla breytingu að ræða. Með vísan til þess grundvallarsjónarmiðs að ákæruvaldið er sjálfstætt og að ríkissaksóknari fari með stjórnunarheimildir gagnvart lögregluembættunum í landinu þykir eðlilegt að þetta hlutverk verði alfarið fært til ríkissaksóknara.
Flestar réttarbeiðnir sem berast íslenskum stjórnvöldum byggjast á framangreindum samningum, sem ríkissaksóknari fer nú þegar með miðlægt hlutverk gagnvart, en þó hefur talsverður fjöldi borist undanfarin ár á grundvelli samnings Evrópuráðsins um tölvubrot frá 2001, oft nefndur Búdapestsamningurinn, frá ríkjum sem eru eingöngu aðilar að þeim samningi, en ekki Evrópuráðssamningnum frá 1959, t.d. Bandaríkjunum. Þær beiðnir hafa þá borist ráðuneytinu til afgreiðslu en verði frumvarpið að lögum ættu þær að berast ríkissaksóknara. Sé samningur ekki til staðar er engu að síður gert ráð fyrir að réttarbeiðnin berist ríkissaksóknara til afgreiðslu þó að ráðuneytið geti áfram tekið á móti beiðnum eftir diplómatískum leiðum, en ráðuneytið skal þá áframsenda beiðnina til ríkissaksóknara til afgreiðslu. Til að styrkja ríkissaksóknara í því að takast á við þetta nýja hlutverk hefur fleiri synjunarástæðum verið bætt við núgildandi heimildir um að hafna réttarbeiðni, sbr. a-lið 16. gr. frumvarpsins. Þannig er nýmæli í frumvarpinu að hægt verði að synja réttarbeiðni ef samþykki hennar yrði talið leiða af sér brot á almannafriði, allsherjarreglu eða öðrum mikilvægum hagsmunum ríkisins. Kveðið er á um slíka heimild í b-lið 2. gr. samnings Evrópuráðsins um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 1959.
Eru framangreindar breytingartillögur líka liður í því að fullgilda 2. viðbótarbókun Evrópuráðssamningsins frá 1959 um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 8. nóvember 2001. Samkvæmt Evrópuráðssamningnum er aðalreglan sú að beiðnir fari á milli dómsmálaráðuneyta en með 2. viðbótarbókuninni frá 2001 er heimilt að senda beiðnir á milli dómsmálayfirvalda samkvæmt endurnýjaðri 15. gr. 1959-samningsins. Ræðst fyrirkomulagið öðrum þræði af yfirlýsingum sem Ísland gefur um það hverjum, eða hvaða yfirvaldi, skuli senda beiðni og hver megi senda beiðni héðan. Samkvæmt Evrópusambandssamningnum frá 29. maí 2000 er það aðalregla að beiðnir fari á milli dómsmálayfirvalda. Önnur meginbreyting felst í því að ákvæði 22. gr. laganna um réttarbeiðnir hefur verið skipt upp í tvö ný ákvæði, 23. gr. um skilyrði fyrir beiðni um réttaraðstoð og 24. gr. um málsmeðferð beiðna um réttaraðstoð. Er þessi breyting lögð til með það að markmiði að skýra og einfalda ferli réttarbeiðna. Þá er að finna nýjan kafla sem fær heitið „Aðrar ákvarðanir í tengslum við alþjóðlega réttaraðstoð“ og er þar að finna tvö ný ákvæði sem þarf að lögfesta svo hægt verði að fullgilda 2. viðbótarbókunina. Á það einnig við um nýtt ákvæði í 22. gr. frumvarpsins til breytinga á lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56/1993.
Með frumvarpi þessu eru einnig lagðar til breytingar á uppröðun ákvæða sem varða framsal sakamanna, auk minni háttar efnislegra breytinga. Eftir að lög nr. 51/2016 tóku gildi reynir æ sjaldnar á ákvæði laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984. Þó getur hvert og eitt einstaka framsalsmál verið stórt og erfitt úrlausnar og því er mikilvægt að lögin séu skýr og endurspegli framvindu þessara mála. Ný kaflaskipan er því lögð til með frumvarpi þessu og ákvæðum endurraðað til að lögin séu í samræmi við gang framsalsmála. Efnisbreytingar á ákvæðum er varða framsal eru ekki mjög veigamiklar en þær helstu eru eftirfarandi:
Annars vegar er gert ráð fyrir að framsalsbeiðnir berist á milli viðeigandi ráðuneyta í stað þess að fara eftir diplómatískum leiðum, eins og gildandi lög mæla fyrir um. Er sú breytingartillaga í takt við þá framkvæmd sem myndast hefur og er hún einnig í samræmi við ákvæði 5. gr. 2. viðbótarbókunarinnar við framsalssamninginn frá 1957. Með breytingunni er leitast við að einfalda málsmeðferðina eftir því sem unnt er, þ.e. ekki er áskilið að utanríkisþjónustan taki við beiðnum þrátt fyrir að enn verði heimilt að senda þær og taka við þeim eftir diplómatískum leiðum. Á það í reynd einkum við þegar um er að ræða beiðnir sem berast frá löndum þar sem enginn framsalssamningur er fyrir hendi. Þá er orðalag ákvæðisins fært til samræmis við það sem fyrirfinnst í lögum nr. 51/2016.
Hins vegar er leitast við að kveða skýrar á um að ríkissaksóknari annist meðferð framsalsmála fyrir dómstólum.
Að lokum er vert að nefna eina veigamikla breytingu sem snýr að yfirtöku saksóknar. Í 1. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimild fyrir íslensk stjórnvöld til að semja við önnur ríki og alþjóðastofnanir um yfirtöku saksóknar. Þar að auki er lagt til að yfirtaka saksóknar verði heimil samkvæmt lögum þessum þótt ekki sé það skylt samkvæmt samningi sem Ísland hefur gert þar að lútandi við viðkomandi ríki. Er þessi breytingartillaga gerð eftir ábendingu frá embætti ríkissaksóknara um að hvergi sé að finna skýra og afdráttarlausa heimild fyrir ákæruvaldið til að taka yfir saksókn mála erlendis frá. Margir alþjóðlegir samningar sem Ísland er aðili að kveða ýmist á um heimildir eða skyldu til að taka yfir saksókn í tilteknum tilvikum. Hingað til hefur lögsögureglum almennra hegningarlaga verið beitt þegar slíkar beiðnir berast. Í ljósi þess hve skipulögð brotastarfsemi er orðin útbreidd og alþjóðleg samvinna á sviði réttarvörslu orðin algengari þykir ástæða til skerpa á heimildum ákæruvaldsins fyrir yfirtöku saksóknar, berist beiðni frá öðru ríki um slíka yfirtöku. Meðferð slíkra beiðna verður í höndum ríkissaksóknara.
Ísland undirritaði samning Evrópuráðsins um tilfærslu saksóknar frá 15. maí 1972 hinn 19. september 1989 en samningurinn hefur aldrei verið fullgiltur. Á hinn bóginn er í gildi samningur á milli Norðurlandanna frá árinu 1970 um yfirtöku saksóknar sem hefur verið uppfærður með tilliti til þeirra málsmeðferðarreglna sem mælt er fyrir um í Evrópuráðssamningnum frá 1972. Með þessari breytingu er stefnt að því að lögfesta skýra heimild fyrir því að yfirfærsla saksóknar sé heimil, berist beiðni þess efnis íslenskum stjórnvöldum. Með þeim breytingum sem leiðir af frumvarpi þessu fellur það í skaut ríkissaksóknara að samþykkja slíkar beiðnir. Hingað til hafa beiðnir um yfirfærslu saksóknar verið samþykktar með vísan til 21. gr. samnings Evrópuráðsins um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959. Myndast hefur venja á meðal sumra Evrópuríkja að túlka ákvæðið þannig þótt ákvæðið kveði ekki á um það berum orðum. Ísland er þar á meðal og eru dæmi þess að saksókn hafi verið tekin yfir með vísan til þess ákvæðis. Verði frumvarp þetta að lögum væri þá einnig hægt að beita 1. gr. laganna og verða við beiðni um yfirtöku saksóknar með vísan til hennar og fer þá um málið eftir það samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
Frumvarpið þykir ekki fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Helsta forsenda frumvarpsins er að standa við þjóðarréttarskuldbindingar Íslands og með þeim breytingum sem eru lagðar til geta íslensk stjórnvöld klárað að fullgilda skuldbindingar sem þau hafa gengist undir líkt og rakið er í 3. kafla.
5. Samráð.
Áform um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum voru kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 25. júní 2024 (mál nr. S-125/2024) og kostur gefinn á umsögnum en engar umsagnir bárust.
Frumvarpið var birt í Samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 11. október 2024 (mál nr. S-207/2024) og kostur gefinn á umsögnum. Ein umsögn barst í gegnum gáttina frá einstaklingi sem taldi rétt að gera breytingar á 2. gr. frumvarpsins til að heimila þjóðaratkvæðagreiðslur um framsal íslenskra ríkisborgara. Öllum lögregluembættum landsins var boðið að senda inn umsagnir um frumvarpsdrögin. Umsagnir bárust frá lögreglunni á Norðurlandi eystra, héraðssaksóknara og ríkissaksóknara. Fundað var með ríkissaksóknara og sendisaksóknara Íslands hjá Eurojust í kjölfar umsagnar frá embættinu og farið ítarlega yfir breytingartillögur þeirra á fundinum auk þess sem unnið var áfram með þær við gerð frumvarpsins. Þá var fundað með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og farið yfir athugasemdir þaðan.
6. Mat á áhrifum.
Frumvarpið er liður í því að gera afgreiðslu framsalsmála og réttarbeiðna skilvirkari og þar með auka málshraða. Er þessi breyting til hagsbóta fyrir alla aðila viðkomandi máls sem og þau stjórnvöld sem koma að afgreiðslu málsins. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er hvorki gert ráð fyrir að lögfesting þess hafi útgjaldaáhrif á ríkissjóð né sveitarfélögin.
Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið muni hafa mismunandi áhrif á einstaklinga eftir kyni.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Í b-lið er bætt við fyrirsögn við greinina en í frumvarpinu verða settar fyrirsagnir á allar greinar laganna til að auka skýrleika þeirra.
Um 2. gr.
Um 3. gr.
Um 4.–11. gr.
Um 12. gr.
Um 13. gr.
Um 14. gr.
Um a-lið: Í a-lið er að finna efni 12. gr. laganna sem verður að nýrri 13. gr. með þeirri breytingu í 1. mgr. að beiðnir skuli fara á milli ráðuneyta dómsmála í stað diplómatískra leiða, eins og 12. gr. laganna kveður nú á um. Þessi breyting er tilkomin vegna 5. gr. 2. viðbótarbókunar frá 1984 við framsalssamninginn sem mælir fyrir um að framsalsbeiðnir skuli að meginreglu fara á milli ráðuneyta dómsmála í stað diplómatískra leiða. Á hinn bóginn útilokar þetta ekki að beiðnir séu sendar eftir diplómatískum leiðum, sérstaklega þegar enginn samningur er fyrir hendi. Þá eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 12. gr. laganna til samræmis við ákvæði 6. gr. laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar, nr. 51/2016. Ákvæðið kveður á um form og innihald handtökuskipunar og þykir tilefni til að breyta orðalagi 2. mgr. 12. gr. laganna til samræmis við það, en sem dæmi má nefna að ákvæðið gerir í raun ekki kröfu um persónuauðkenni, svo sem nafn og kennitölu, hins eftirlýsta. Þá þykja síðustu tvær málsgreinar 2. mgr. 12. gr. laganna vera orðnar úreltar enda er í langflestum tilvikum gerð grein fyrir þeim lagaákvæðum sem eiga við í framsalsbeiðnum. Þannig kemur nýr d-liður 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins, sem kveður á um að eðli afbrotsins með vísun til þeirra refsiákvæða sem við eiga um verknaðinn, séu meðal þeirra upplýsinga sem eiga að koma fram í framsalsbeiðni, í stað síðustu tveggja málsliðanna í 2. mgr. 12. gr. laganna. Í nýjum c-lið 2. mgr. a-liðar 14. gr. frumvarpsins eru gerðar orðalagsbreytingar frá samhljóða ákvæði 6. gr. í lögum nr. 51/2016. Eru þær breytingar tilkomnar eftir athugasemdir frá ríkissaksóknara. Í stað þess að kveða á um fullnustuhæfan dóm er mælt fyrir um að til staðar sé endanleg dómsniðurstaða til samræmis við orðalagið í 5. mgr. Þá er orðið „dómara“ tekið út á eftir orðinu „handtökuskipun“, þar sem handtökuskipun getur verið gefin úr af öðrum en dómurum, og í stað þess að kveðið sé á um „aðra dómsniðurstöðu“ er mælt fyrir um aðra ákvörðun sem hefur sömu réttaráhrif og handtökuskipun samkvæmt löggjöf viðkomandi ríkis. Er það jafnframt til samræmis við ákvæði samningsins en þar er ekki gerð krafa um að handtökuskipun komi frá dómara, heldur getur hún einnig komið frá lögreglu eða ákæruvaldinu. Þá er nýmæli í 3. mgr. að kveðið sé á um að beiðni sem gefin sé út til Íslands skuli vera rituð á íslensku eða ensku eða henni skuli fylgja þýðing á öðru hvoru tungumálinu. Er það til samræmis við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 51/2016, þó með þeirri undantekningu að önnur norðurlandamál eru ekki meðtalin, enda hefur ríkissaksóknari bent á að embættið geti ekki tekið við beiðnum á norsku, sænsku eða dönsku og hefur embættið óskað eftir að breytingar verði gerðar á 6. gr. laga nr. 51/2016. Í 4. mgr. eru gerðar breytingar á orðalagi. Annars vegar hefur setningin „og sem færir að því rök að það séu gildar ástæður til að fella grun á viðkomandi mann fyrir hinn refsiverða verknað“ verið felld brott þar sem kröfurnar sem settar eru fram í stafliðum 2. mgr. um hvað skuli koma fram í beiðni um framsal, fela í sér að þessar upplýsingar koma fram í beiðninni. Breytingin á því ekki að fela í sér efnislega breytingu á matinu á því hvort viðkomandi maður sé grunaður um refsiverðan verknað. Hins vegar er gerð sú breyting á ákvæðinu að í stað þess að kveðið sé á um „frumrit eða staðfest endurrit af handtökuskipun“ kemur „handtökuskipun eða önnur ákvörðun sem hefur sömu réttaráhrif og handtökuskipun samkvæmt löggjöf viðkomandi ríkis“. Jafnframt er gerð sú breyting á skilyrði fyrir beiðni um framsal manns til fullnustu á dómi í 5. mgr. að um fullnustuhæfan dóm sé að ræða eða staðfest eintak hans. Er þá átt við fullnustuhæfan dóm sem verður ekki áfrýjað. Að öðrum kosti sé ekki hægt að samþykkja framsalsbeiðni. Í 6. mgr. er að finna nýmæli um að sömu skilyrði og kveðið er á um í 2., 4. og 5. mgr. eigi við um beiðnir sem sendar eru frá Íslandi.
Um b-lið: Efni 13. gr. laganna verður að nýrri 14. gr. með þeirri breytingu að í stað þess að kveða á um rannsókn er nú lagt til að mælt verði fyrir um lögreglurannsókn. Er þessi breyting lögð til til að skýra hlutverk lögreglu við meðferð framsalsmála. Hér er því ekki verið að leggja til breytingu á framkvæmdinni samkvæmt lögunum heldur er eingöngu verið að skerpa á orðalagi. Þá er tilvísun til laga um meðferð sakamála ekki lengur til staðar þar sem hana er nú að finna í b-lið 2. gr. frumvarpsins. Að lokum verður til ný málsgrein þar sem efni 14. gr. a gildandi laga verður að finna í 3. mgr. 14. gr. verði frumvarpið að lögum.
Um c-lið: Orðalagi 15. gr. laganna um þvingunarráðstafanir í þágu meðferðar framsalsmála hefur verið breytt auk þess sem ekki er vísað sérstaklega til málsmeðferðar vegna kröfu um gæsluvarðhald, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna. Að öðru leyti er ákvæðið efnislega óbreytt en eðlilegt þykir að ákvæði um þvingunarráðstafanir sé skipað í beinu framhaldi af fyrirmælum um lögreglurannsókn.
Um d-lið: Í 16. gr. gildandi laga er hugtakið réttargæslumaður notað í stað verjanda og hefur það verið óbreytt frá gildistöku laganna árið 1984. Það er á hinn bóginn í ósamræmi við hugtakanotkun í sakamálaréttarfari frá gildistöku laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Þar er hugtakið verjandi notað um lögmann sem tilnefndur er eða skipaður til að gæta hagsmuna sakbornings og hugtakið réttargæslumaður um þann sem gætir hagsmuna brotaþola. Einnig er orðið þóknun notað um greiðslur til verjanda en ekki laun og því er lagt til að nota frekar þóknun. Þá er einnig lagt til það nýmæli að kveðið sé á um að lögregla skuli tilnefna þeim, sem óskast framseldur, verjanda. Er það til samræmis við málsmeðferð á grundvelli evrópskrar og norrænnar handtökuskipunar, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 51/2016. Ákvæði laga um meðferð sakamála gilda um tilnefningu, skipun og val á verjanda, sbr. IV. kafla laganna.
Um e-lið: Mælt er fyrir um nýja 17. gr. um ákvörðun um framsal og birtingu, sem nú er að finna að hluta til í 1. mgr. 14. gr. og 17. gr. laganna. Orðalagi er breytt frá gildandi ákvæði til að auka skýrleika varðandi framkvæmdina auk þess sem nýmæli er að kveðið sé á um að ríkissaksóknari hlutist til um birtingu ákvörðunar ráðuneytisins. Í reynd er þó ekki um að ræða neina efnislega breytingu á framkvæmd þessara mála.
Um f-lið: Mælt er fyrir um nýja 18. gr. um endurskoðun framsalsákvörðunar fyrir dómi. Sambærilegt ákvæði er að hluta til að finna í 1. og 2. mgr. 14. gr. laganna. Í 1. mgr. 18. gr. er lagt til að sá sem framselja skal geti óskað endurskoðunar héraðsdóms á ákvörðun um framsal við birtingu hennar eða með tilkynningu innan sólarhrings frá birtingu til ríkissaksóknara eða ráðuneytisins. Nýmæli er að mælt sé fyrir um að ríkissaksóknari beri ábyrgð á meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Er breytingunni ætlað að skýra nánar hlutverk þeirra sem koma að málsmeðferðinni. Þá er einnig lagt til að ráðuneytið geti, við sérstakar aðstæður, samþykkt að ákvörðunin verði lögð fyrir dóm þótt beiðni berist eftir að frestur er liðinn. Er þetta ákvæði í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem fram kemur að slíkt kunni að vera heimilt ef afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Jafnframt að finna nýmæli um að fyrir héraðsdómi verði málið rekið samkvæmt ákvæðum XXVII. kafla laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og að ríkissaksóknari fari með málið af hálfu ríkisvaldsins. Í 2. mgr. 18. gr. er fjallað um kæruheimild á úrskurði héraðsdóms til Landsréttar en ákvæði þess efnis er að finna í 24. gr. laganna.
Um g-lið: Mælt er fyrir um nýja 19. gr. er varðar framkvæmd ákvörðunar um framsal og byggist á 14. og 18. gr. laganna. Í 1. mgr. er nú kveðið á um það með skýrari hætti að þegar ráðherra hefur ákveðið að verða við beiðni um framsal skal ríkissaksóknara falið að koma ákvörðun um framsal til framkvæmdar svo fljótt sem unnt er. Ekki er um breytingu á málsmeðferð að ræða frá gildandi lögum. 2. mgr. er samhljóða 3. mgr. 14. gr. gildandi laga. Í 3. mgr. er að finna efnislega breytingu frá 1. mgr. 18. gr. gildandi laga. Í stað þess að mælt sé fyrir um að það megi handtaka þann sem óskast framseldur er það gert að skyldu að handtaka viðkomandi, ef hann er ekki þegar í haldi, og úrskurða í gæsluvarðhald þar til framsal fer fram. Í 4. mgr. er 30 dögum breytt í fjórar vikur til samræmis við lög um meðferð sakamála. Þá er sú breyting gerð frá 2. mgr. 18. gr. gildandi laga að ekki er gert ráð fyrir að ráðuneytið leggi fram beiðni um að þvingunarráðstöfunum skuli beitt um tiltekinn lengri tíma þegar sérstaklega stendur á, heldur er það héraðsdóms að ákveða. Skiptir þá ekki máli hvaða embætti það er sem hefur aðkomu að málinu sem leggur beiðnina fram.
Um h-lið: Mælt er fyrir um nýja 20. gr. er varðar afhendingu haldlagðra muna og hefur ákvæðinu verið breytt frá 3. mgr. 18. gr. laganna til samræmis við 39. gr. laga nr. 51/2016 sem fjallar um haldlagningu og afhendingu muna. Er ákvæðið samhljóma ákvæði fyrrnefndrar 39. gr. nema í stað þess að tala um handtökuskipun er kveðið á um framsalsbeiðni.
Um 15. gr.
Um a-lið: 21. gr. er sambærileg 19. gr. gildandi laga með þeirri breytingu að á eftir orðinu „getur“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: „að höfðu samráði við ríkissaksóknara“, auk þess sem greinin fær fyrirsögn.
Um b-lið: 22. gr. er sambærileg 20. gr. gildandi laga en gerð er sú breyting að ráðherra geti heimilað samkvæmt beiðni, eftir að hafa fengið álitsgerð frá ríkissaksóknara, að höfðað verði mál gegn þeim sem framseldur er samkvæmt lögunum eða hann látinn taka út refsingu fyrir annan refsiverðan verknað sem framinn er áður en til framsals kom og framselt var fyrir. Nýmæli er að kveðið sé á um að ríkissaksóknari hafi aðkomu að ákvörðuninni með álitsgerð en ákveðið var að skýra þennan feril enda hefur ríkissaksóknari hlutverki að gegna í ákvörðun ráðherra um hið upphaflega framsal og því eðlilegt að hann komi einnig að ákvörðuninni á seinni stigum eftir að ráðherra hefur aflað allra tiltækra gagna til að hægt sé að leggja mat á málið. Þá er gerð sú breyting á 3. mgr. að gildissviðið er víkkað út til að ákvæðið nái einnig yfir önnur aðildarríki að evrópsku handtökuskipuninni, þ.e. að heimilt verði að veita samþykki til að viðkomandi maður verði framseldur áfram til annarra aðildarríkja að evrópsku handtökuskipuninni ef skilyrði laga nr. 51/2016 á grundvelli handtökuskipunar eru til staðar. Málsgreinin kom inn í lögin með lögum nr. 51/2016 en þá hafði evrópska handtökuskipunin ekki tekið gildi hér á landi. Því þykir nú eðlilegt að þessi heimild nái einnig yfir aðildarríki að evrópsku handtökuskipuninni.
Um 16. gr.
Um a-lið: Í 1. mgr. 23. gr. er mælt fyrir um þá efnislegu breytingu að beiðni skuli ávallt vera skrifleg og er slíkt forsenda þess að unnt sé að óska eftir aðstoð við öflun sönnunargagna í öðrum ríkjum. Á það við um beiðnir sem sendar eru hingað til lands og svo beiðnir sem sendar eru frá íslenskum löggæsluyfirvöldum en löggjöfin hefur hingað til ekki fjallað um slíkar beiðnir, þ.e. frá Íslandi. Með löggæsluyfirvöldum er átt við þau stjórnvöld sem hafa með meðferð sakamála að gera samkvæmt lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
Í 2. mgr. 23. gr. er fjallað um þau formskilyrði sem hin skriflega réttarbeiðni þarf að uppfylla samkvæmt þeim samningum sem Ísland er aðili að og beiðnin grundvallast á. Þar er nýmæli að beiðni skuli í það minnsta uppfylla skilyrði sem tilgreind eru í Evrópuráðssamningnum frá 1959, svo sem ef ekki er til staðar samningur eða beiðni sett fram á grundvelli gagnkvæmni.
Í 3. mgr. 23. gr. er fjallað um þau efnisskilyrði sem leiða til þess að óheimilt sé að verða við beiðni. Óheimilt er að verða við réttarbeiðni ef verknaðurinn sem hún er tilkomin vegna eða sambærilegur verknaður er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða ef hann samkvæmt ákvæðum í 6.–9. gr. getur ekki verið grundvöllur framsals. Sú breyting er gerð á efni hennar að nú er efni 8. gr. gildandi laga (9. gr. skv. 9. gr. frumvarpsins) bætt við upptalningu þeirra ákvæða sem geta verið grundvöllur synjunar á beiðni. Rétt þykir að lögfesta það að óheimilt sé að verða við réttarbeiðni ef menn hafa verið sýknaðir á grundvelli sama verknaðar eða rannsókn máls hætt eða það fellt niður á hendi honum. Hingað til hefur verið vísað til meginreglunnar um ne bis in idem við synjun á réttarbeiðnum og því er í grunninn ekki um mikla breytingu að ræða í framkvæmd. Þá er einnig bætt við ákvæðið nýrri heimild til að synja réttarbeiðni ef samþykki hennar þyki geta leitt til brots á almannafriði, allsherjarreglu, eða öðrum mikilvægum hagsmunum ríkisins. Er þetta í samræmi við b-lið 2. gr. samnings Evrópuráðsins um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 1959. Er þessi breyting gerð m.a. til að styrkja lagagrundvöllinn fyrir synjun á beiðni en komið gæti til þess að ríkissaksóknari þyrfti að hafa samráð við utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið við mat á þessum atriðum.
Um b-lið: Í 1. mgr. 24. gr. er mælt fyrir um það nýmæli að beiðnir um réttaraðstoð skuli sendar ríkissaksóknara með þeim undantekningum að annað kunni að leiða af samningi við annað ríki eða alþjóðastofnun. Orðalagi er einnig breytt frá gildandi lögum og í stað þess að eingöngu sé kveðið á um að ríkissaksóknari hlutist til um að nauðsynleg rannsókn fari fram hefur orðunum „að beiðninni verði framfylgt og“ verið bætt við á undan orðinu „rannsókn“ og orðunum „eða gagnaöflun“ þar á eftir. Er þessi breyting gerð eftir samráð við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og athugasemdir þaðan um að beiðnir berist jafnan án þess að eiginleg rannsókn þurfi að fara fram, eingöngu sé verið að óska eftir fyrirliggjandi upplýsingum eða gögnum. Er því ekki um eiginlega breytingu á framkvæmdinni í reynd, heldur frekar verið að skýra og styrkja lagagrundvöllinn fyrir afhendingu gagnanna.
Þá er veigamestu breytinguna á þessu ákvæði að finna í 2. mgr. 24. gr. um að ríkissaksóknari annist meðferð þeirra beiðna sem sendar eru frá íslenskum löggæsluyfirvöldum en um þá málsmeðferð hefur ekki verið mælt fyrir í lögum. Með breytingunni er leitast við að allar beiðnir um réttaraðstoð berist ríkissaksóknara án milligöngu dómsmálaráðuneytisins, eins og rakið er í 3. kafla. Þó skal þess getið að í einhverjum tilvikum kann ráðuneytið að þurfa að hafa milligöngu við meðferð réttarbeiðna, t.d. ef samningar eða löggjöf ríkis gera kröfu um að beiðnir séu sendar á milli dómsmálaráðuneyta eða ef þörf er á að senda beiðni eftir diplómatískum leiðum. Hlutverk ráðuneytisins yrði þá eingöngu að hafa milligöngu um að koma beiðninni á rétta staði og gæta þess að öllum formskilyrðum sé fylgt. Loks er mælt fyrir um það nýmæli í 1. og 2. mgr. 24. gr. að beiðnir geti borist frá alþjóðastofnunum og verið sendar þeim. Er breytingunni ætlað að styrkja lagagrundvöll slíkra beiðna, sem um geta gilt sérlög eða á grundvelli samstarfs við slíkar stofnanir. Má sem dæmi nefna beiðnir frá alþjóðlega sakamáladómstólnum, sbr. lög um framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, nr. 43/2001, eða beiðnir frá evrópska saksóknaraembættinu, European Public Prosecutor's Office (skammstafað EPPO). Í þessu samhengi er vert að benda á að miðlun gagna á grundvelli réttarbeiðna þarf að standast kröfur laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019. Getur til dæmis sérstaklega reynt á 10. gr. laganna um miðlun upplýsinga til alþjóðastofnana og þriðja ríkis.
Í 3. mgr. 24. gr. er mælt fyrir um þá vísireglu að hraða skuli afgreiðslu réttarbeiðna eins og mögulegt er. Ákvæðið er nýmæli en þarfnast ekki frekari skýringar.
Ákvæði 4. og 5. mgr. 24. gr. eru efnislega samhljóma 2. mgr. 22. gr. laganna en málsgreininni er skipt upp í tvær málsgreinar. Þar að auki er orðið „fjarfundabúnaður“ notað í stað orðanna „á myndfundi“ eins og gert er í núgildandi lögum.
Í 6. mgr. 24. gr. kemur fram að í kjölfar afgreiðslu lögreglu á réttarbeiðni skuli ríkissaksóknari senda öll gögn málsins ásamt álitsgerð um það til ríkisins eða stofnunarinnar sem lagði fram beiðni. Fari svo að beiðni hafi borist ráðuneytinu kunna að vera uppi aðstæður sem leitt gætu til þess að ráðuneytið hlutist til um sendingu gagna og álitsgerðar ríkissaksóknara til viðkomandi ríkis eða stofnunar. Gerð er orðalagsbreyting á ákvæðinu og í stað þess að mælt sé fyrir um að „rannsókn“ lokinni er kveðið á um að lokinni „afgreiðslu beiðninnar“. Er þessi breyting gerð í ljósi þess að ekki þarf alltaf að fara fram eiginleg rannsókn í skilningi sakamálalaga, heldur geta beiðnir eingöngu snúið að afhendingu gagna sem nú þegar eru til. Breytingin er gerð til samræmis við breytingar á 1. mgr.
7. mgr. 24. gr. er samhljóma 8. mgr. 22. gr. laganna en orðið „munur“ er notað í stað orðsins „hlutur“ til að gæta samræmis við sakamálalögin.
Um c-lið: Ákvæðið er að meginstefnu til í samræmi við 23. gr. laganna sem kveður á um tímabundinn flutning manns í haldi til erlends ríkis. Málsmeðferðarreglum er breytt og er nú mælt fyrir um að afstaða ríkissaksóknara til beiðninnar þurfi að liggja fyrir áður en orðið er við henni. Þá er framsetning ákvæðisins einfölduð, málsmeðferðin stytt og að ákveðnu leyti samræmd 11. gr. Evrópuráðssamningsins frá 1959 og 13. gr. 2. viðbótarbókunar við 1959-samninginn frá 2001.
Um d-lið: Lagt er til nýtt ákvæði, 26. gr., um flutning fanga til Íslands. Samkvæmt ákvæðinu á að vera mögulegt að flytja mann sem er fangi í öðru landi til Íslands með samþykki hans til að gefa skýrslu eða taka þátt í annarri rannsóknaraðgerð í þágu máls sem hér er rekið eða máls sem rekið er í öðru landi. Gert er ráð fyrir að ríkissaksóknari komi að ákvörðun Íslands um flutninginn og komi með tillögur að því hvort verða skuli við slíkri beiðni og þá hvort og hvaða skilyrði eigi að setja fyrir því að fallast á slíka beiðni. Ákvæðið er nýmæli og byggist á 9. gr. Evrópusambandssamningsins frá 2000 og 13. gr. 2. viðbótarbókunar við 1959-samninginn.
Um e-lið: 27. gr. er sambærileg 23. gr. a laganna að viðbættu ákvæði um að íslensk stjórnvöld heimili erlendum stjórnvöldum að senda tilkynningar eða málsskjöl rafrænt.
Um f-lið: Lagt er til að 28. gr. verði samhljóða 23. gr. b laganna.
Um g-lið: Lagt er til nýtt ákvæði, 29. gr., um skaðabótaskyldu vegna tjóns af völdum erlends starfsmanns erlends ríkis hér á landi, sem hér starfar á grundvelli heimildar sem tilgreind ákvæði Evrópusambandssamningsins frá árinu 2000 og 2. viðbótarbókunarinnar við 1959-samninginn. Er þessi breyting nýmæli og liður í því að hægt verði að fullgilda 22. gr. 2. viðbótarbókunarinnar. Valdi erlendur opinber starfsmaður skaðabótaskyldu tjóni eru það yfirvöld í því aðildarríki þar sem tjónið verður sem eiga að greiða út bætur til tjónþola. Er um að ræða rétt almennra borgara gagnvart ríkinu og eðlilegt að ákvæði um greiðsluskyldu ríkis sé lögfest. Heimalandi opinbera starfsmannsins sem veldur skaðanum ber síðan að endurgreiða íslenska ríkinu fjárhæðina sem kann að hafa verið greidd. Þýðir þetta að íslenska ríkinu er skylt að bæta það tjón sem erlendir embættismenn, opinberir starfsmenn, valda við framkvæmd starfa hér á landi samkvæmt ákvæðum umræddra samninga um afhendingu undir eftirliti og sameiginlega rannsóknarhópa. Í ákvæðinu er vísað til fyrirvara sem íslenska ríkið kann að gera við ákvæði umræddra samninga. Er hér einkum átt við að Ísland verði óbundið ákvæðum samninganna sem fjalla um erlenda opinbera starfsmenn í hlutverki svokallaðra flugumanna, þ.e. lögreglumaður eða annar starfsmaður lögreglu sem fer með lögregluvald, íslenskur eða erlendur, sem tekur stöðu innan hóps manna sem grunaðir eru um að standa fyrir brotastarfsemi, sbr. m.a. skilgreiningu 25. gr. reglugerðar um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála nr. 516/2001.
Um h-lið: Lagt er til nýtt ákvæði, 30. gr., um samstarf við erlend löggæsluyfirvöld, erlenda ákæruvaldshafa og alþjóðastofnanir. Er breytingin lögð til svo fyrir hendi sé ákvæði sem heimili íslenskum yfirvöldum að semja um þátttöku í sameiginlegum rannsóknarhópum, t.d. á vegum Europol eða Eurojust, en slíkir hópar hafa reynst mikilvægir í alþjóðasamstarfi í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Ákvæðið er nýmæli og byggist á 20. gr. 2. viðbótarbókunar við 1959-samninginn.
Um 17. gr.
Um 18. gr.
Um 19.–20. gr.
Um 21. gr.
Í 2. mgr. 21. gr. frumvarpsins er að finna samhljóma ákvæði og í 2. mgr. 25. gr. gildandi laga en orðalagi hefur verið lítillega breytt, þ.e. í stað „án tillits til“ kemur „þrátt fyrir ákvæði“, til að auka skýrleika.
Varðandi lagaskil er gert ráð fyrir að ríkissaksóknari taki yfir afgreiðslu allra beiðna sem borist hafa ráðherra. Mun þetta aðallega eiga við um beiðnir sem hafa borist íslenskum löggæsluyfirvöldum og eru enn til meðferðar hjá lögreglunni. Þannig er gert ráð fyrir að nýjar málsmeðferðarreglur frumvarpsins eigi við um beiðnir sem eru í vinnslu við gildistöku, verði frumvarpið að lögum.
Um 22. gr.
Ekki er ástæða til að ákvæðið nái bæði yfir áfrýjun og endurupptöku. Maður myndi ekki sendur til annars lands til að fullnægja þar dómi uppkveðnum hér á landi áður en máli lyki með endanlegum dómi. Á meðan fanginn er hér á landi í umræddu skyni skal honum haldið föngnum og verður hann sendur til baka til fullnustu nema endurupptaka máls hans leiði til þess að fullnustu dómsins sé lokið.