Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 583  —  130. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (raforkuöryggi).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá Alþýðusambandi Íslands, HS Orku hf., Landvernd, Landsneti hf., Landsvirkjun, Neytendasamtökunum, Norðuráli ehf., Orku náttúrunnar ohf., Raforkueftirlitinu, RARIK ohf., Samtökum atvinnulífsins, Samtökum álframleiðenda á Íslandi – Samáli, Samorku, Samtökum iðnaðarins, Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Veitum ohf., Viðskiptaráði Íslands og Vonarskarði ehf.
    Nefndinni bárust 23 umsagnir, auk minnisblaðs frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, með það að markmiði að auka raforkuöryggi almennings og tryggja heimilum og almennum notendum forgang að raforku, komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika, til að mynda vegna framboðsskorts. Einnig er mælt fyrir um söfnun og miðlun upplýsinga varðandi raforkuöryggi, viðmið fyrir raforkuöryggi, sem og ráðstafanir til að nýta betur tæknilegan sveigjanleika raforkukerfisins.
    Sambærileg mál voru lögð fram á 153. löggjafarþingi (943. mál) og 154. löggjafarþingi (348. mál) en náðu hvorugt fram að ganga. Málið er nú endurflutt með ákveðnum breytingum, sem m.a. lúta að þátttöku stórnotenda í jöfnunarorkumarkaði Landsnets og að svokallaðri notkunarsvörun, sbr. b-lið 3. gr. frumvarpsins.

Umfjöllun meiri hlutans.
Almennt.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram, líkt og við meðferð eldri frumvarpa um sama efni, að frumvarp þetta væri eitt skref af mörgum sem varða endurskoðun ráðuneytisins á regluverki á sviði orkumála í því skyni að stuðla að auknu orkuöryggi þjóðarinnar. Þá kom fram að frumvarpinu væri ætlað að tryggja raforkuöryggi heimila og almennra notenda, þ.e. notenda sem teljast ekki til stórnotenda, og væri það fyrst og fremst hugsað sem eins konar neyðarhemill til að bregðast við áföllum í vinnslu- og flutningskerfi raforku eða til dæmis ef framboð raforku minnkar skyndilega.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að raforkuöryggi og tryggt framboð raforku séu grundvallarþættir í þjóðaröryggi Íslands og nauðsynleg forsenda fjölbreyttrar atvinnustarfsemi og jákvæðrar byggðaþróunar, líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Svo sem þar greinir einnig hefur nýting virkjana á síðustu árum farið jafnt og þétt vaxandi og hefur eftirspurn aukist mun hraðar en framboð raforku. Svigrúm til að bregðast við ef áföll verða í vinnslu- og flutningskerfi raforku eða ef framboð minnkar óvænt er því stöðugt minna. Þannig hafa skapast veikleikar er varða framleiðsluöryggi og nægjanlegt raforkuframboð. Meiri hlutinn tekur þannig undir það sem áréttað er í greinargerð um að í ljósi mikillar eftirspurnar á raforku sé brýnt að tryggja raforkuöryggi og raforkuþörf almenna markaðarins, þ.e. heimila og fyrirtækja undir stórnotendaviðmiði.
    Umsagnaraðilar voru margir jákvæðir um efni frumvarpsins og töldu þær breytingar sem það hefði í för með sér vera til bóta, svo sem að tryggja markvissari umgjörð í þágu raforkuöryggis (Landsvirkjun) og kveða á um skyldur og ábyrgð aðila varðandi mat á raforkuöryggi og upplýsingaöflun. Þá væru breytingar sem stuðluðu að betri nýtingu og sveigjanleika í kerfinu til bóta (HS Orka). Sumir umsagnaraðilar bentu á hinn bóginn á ýmsa vankanta sem þeir töldu vera á frumvarpinu og nánar verður vikið að hér á eftir.
    Talsverð umræða skapaðist um það fyrir nefndinni að frumvarpið tæki ekki nægilega skýrt á því sem það í grundvallaratriðum snerist um, nánar tiltekið að tryggja raforkuöryggi almennings, skapist neyðarástand sem leiði til þess að nauðsynlegt reynist að skammta raforku. Þá gagnrýndu nokkrir umsagnaraðilar að frumvarpið tæki ekki á rót vandans í íslensku samfélagi nú um stundir, sem væri skortur á raforku.
    Meiri hlutinn tekur undir og leggur áherslu á að meginmarkmið frumvarpsins sé að bæta raforkuöryggi á almennum markaði og tryggja þannig heimilum og almennum notendum forgang að raforku, komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika. Með frumvarpinu er m.a. lagt til að mælt verði fyrir um upplýsingaöflun og -miðlun í þeim tilgangi að upplýsa um stöðu á raforkumarkaði, en slík söfnun og miðlun upplýsinga sé jafnframt til þess fallin að meta hvort sú staða kalli á viðbrögð af hálfu stjórnvalda. Meiri hlutinn leggur áherslu á það sem fram kemur í greinargerð að skýrt afmörkuð inngrip stjórnvalda þurfi að vera að fyrir hendi í tilviki markaðsbrests, þ.e. ef fyrirsjáanlegt er að framboð muni ekki anna þörf almenna markaðarins. Þá leggur meiri hlutinn einnig áherslu á að skömmtun raforku sé þrautavaraúrræði sem ekki verði beitt nema engin önnur úrræði dugi til, svo sem keyrsla varaaflsstöðva eða önnur úrræði sem til boða standi hverju sinni.

Hlutverk Umhverfis- og orkustofnunar varðandi mat á fullnægjandi raforkuöryggi, sbr. 1. gr.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að Umhverfis- og orkustofnun skuli leggja mat á raforkuöryggi í samvinnu við flutningsfyrirtækið og birta ársfjórðungslega mat á stöðu raforkuöryggis.
    Margir umsagnaraðilar fögnuðu þessari breytingu og telja hana almennt til bóta. Nokkrir umsagnaraðilar líkt og HS Orka, Samorka og Raforkueftirlitið lögðu þó til að ábyrgð á mati á raforkuöryggi yrði fremur falið Raforkueftirlitinu. Um það var vísað til laga nr. 22/2024, sem breyttu raforkulögum til að styrkja sjálfstæði Raforkueftirlitsins, og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 2003/54/EB.
    Að mati umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, sbr. það sem greinir í minnisblaði þess, dags. 3. apríl 2025, er ekki tilefni til að tilgreina mat skv. 1. gr. frumvarpsins sérstaklega sem verkefni Raforkueftirlitsins. Tilskipun 2009/72/EB geri kröfu um að aðildarríki feli sjálfstæðu eftirlitsyfirvaldi tiltekin afmörkuð verkefni. Skyldur og valdsvið eftirlitsyfirvaldsins séu tilgreind í 37. gr. tilskipunarinnar en þar sé um að ræða verkefni tengd eftirliti með flutningi, dreifingu og viðskiptum með raforku en um það er fjallað í III., IV. og V. kafla raforkulaga. Þetta séu kjarnaverkefni Raforkueftirlitsins sem það sinni með sjálfstæðum hætti í samræmi við kröfur tilskipunarinnar. Ráðuneytið telur að mati á raforkuöryggi skv. 1. gr. frumvarpsins verði ekki jafnað við eftirlitsverkefni þau sem sérstaklega séu falin Raforkueftirlitinu og fyrrnefnd tilskipun krefjist þess ekki að sjálfstætt eftirlitsstjórnvald hafi með höndum mat á raforkuöryggi. Raforkueftirlitið sé eining innan Umhverfis- og orkustofnunar og sem slíkri yrði hægt að fela því tiltekin verkefni tengd orkuöryggi, svo sem mat á raforkuöryggi eða aðrar ráðstafanir sem ekki er nauðsynlegt að sjálfstætt eftirlitsyfirvald inni af hendi, heldur gætu verið þess eðlis að þörf sé á beinum fyrirmælum æðra stjórnvalds.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið ráðuneytisins og telur rétt að Umhverfis- og orkustofnun verði falið að leggja mat á raforkuöryggi í samræmi við það sem lagt er til í 1. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn telur þannig að ekki sé tilefni að svo stöddu til að færa þetta hlutverk formlega yfir til Raforkueftirlitsins, enda sé Umhverfis- og orkustofnun heimilt að fela eftirlitinu þetta, sem og önnur verkefni tengd orkuöryggi, án þess að bein nauðsyn standi til þess að þau séu falin Raforkueftirlitinu sem sjálfstæðu eftirlitsstjórnvaldi.

Skyldur flutningsfyrirtækis, sbr. b-lið 3. gr.
    Í b-lið 3. gr. frumvarpsins er lagt til nýmæli til breytinga á 9. gr. laganna sem fjallar um skyldur flutningsfyrirtækisins þess efnis að það skuli leita tilboða eða sjá til þess að tilboða sé leitað um breytingu á notkun miðað við aðstæður í raforkukerfinu hverju sinni í þeim tilgangi að stuðla að afhendingaröryggi og hagkvæmni í raforkukerfinu. Í því felist það sem nefnt hefur verið notkunarsvörun (e. demand side response).
    Nokkrir umsagnaraðilar gagnrýndu þessa breytingartillögu. Að mati Landsvirkjunar sé hér lögð til mikil útvíkkun á núverandi skyldum flutningsfyrirtækisins sem feli í sér mikla breytingu á íslenskum raforkumarkaði. Að mati Landsvirkjunar geti með þeirri útvíkkun á skyldum flutningsfyrirtækisins sem hér sé lögð til hæglega skapast sú staða að heimili og fyrirtæki keppi við stóriðju um raforku. Þannig myndi breytingin leiða til þess að skyldur flutningsfyrirtækisins verði svo vítt skilgreindar að það opni á aðkomu stórnotenda að almennum markaði raforku í gegnum flutningsfyrirtækið eða raforkumarkaði sem það rekur, með tilheyrandi verðsveiflum fyrir heimili og fyrirtæki. Nauðsynlegt sé því að skilgreina mun betur hverjar skyldur flutningsfyrirtækisins séu til að koma í veg fyrir slíka samkeppni. Landsvirkjun leggur þannig til að b-liður 3. gr. frumvarpsins verði felldur brott. Undir það tekur Alþýðusamband Íslands og gagnrýnir jafnframt að ekkert mat á áhrifum þessarar breytingartillögu hafi farið fram, enda feli ákvæðið í sér verulega breytingu á hlutverki stórnotenda raforku. Enn aðrir umsagnaraðilar bentu á að þörf væri á að skýra nánar hugtakið „notkunarsvörun“ og hvaða lagalegu stöðu það hefði innan raforkukerfisins (Rarik t.d.).
    Í minnisblaði ráðuneytisins, dags. 3. apríl sl., er áréttað að með þessari breytingu sé gert ráð fyrir að um ráðstöfun sé að ræða bæði vegna kerfisþjónustu, þ.e. rauntímastýringu flutningskerfisins, en einnig í þágu afhendingaröryggis til lengri tíma. Þá bendir ráðuneytið á að í greinargerð með frumvarpinu sé þetta skýrt þannig að dæmi um slíkar ráðstafanir í þágu raforkuöryggis til lengri tíma gætu verið samningar við stórnotendur um endurkaup raforku eða breytingu á raforkunotkun við tilteknar aðstæður til lengri eða skemmri tíma. Ráðuneytið telur fullt tilefni til að tryggja að raforkulög heimili flutningsfyrirtækinu (Landsneti hf.) að gera samninga við stórnotendur um notkunarsvörun sem aðföng vegna jöfnunarorkumarkaðar, í stað þess að geta eingöngu samið við vinnsluaðila. Hlutverk Landsnets hf. sé m.a. að kaupa kerfisþjónustu, flutningstöp og jöfnunarorku á markaði. Að mati ráðuneytisins rúmast notkunarsvörun innan hugtaksins kerfisþjónusta. Til að tryggja notkunarsvörun sem lið í kerfisþjónustu sé nauðsynlegt að flutningsfyrirtækið geti gert samninga við fleiri aðila en aðeins vinnslufyrirtæki, sbr. 1. tölul. 4. mgr. 9. gr. raforkulaga. Það ætti þannig að vera tryggt með b-lið 3. gr. frumvarpsins. Ráðuneytið telur loks fulla ástæðu til þess að árétta í lagatexta að notkunarsvörun sé liður í kerfisþjónustu og megi í því sambandi líta til að umorða b-lið 3. gr. frumvarpsins í stað þess að fella hann brott, til að tryggja að stafliðurinn taki aðeins til kerfisþjónustu.
    Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið ráðuneytisins en áréttar einnig, líkt og fram kemur í frumvarpinu, að ætlunin með þeirri heimild sem lögð er til í b-lið 3. gr. frumvarpsins sé sú að flutningsfyrirtækinu verði jafnframt falið að stuðla að fullnægjandi raforkuöryggi, sem er meginmarkmið þessa frumvarps. Þessar ráðstafanir eigi enn fremur að vera til þess fallnar til að nýta betur tæknilegan sveigjanleika raforkukerfisins í þeim tilgangi að stuðla að hagkvæmni og afhendingaröryggi, sbr. orðalag b-liðar 3. gr. frumvarpsins. Að mati meiri hlutans séu ráðstafanir í þágu aukins sveigjanleika til þess fallnar að stuðla að raforkuöryggi og sporna við verðhækkun sem gæti leitt af ónógu framboði, líkt og tekið er fram í frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur þannig undir þessi áform og telur tilefni til að breyta b-lið 3. gr. frumvarpsins til að tryggja að stafliðurinn taki aðeins til kerfisþjónustu. Að mati meiri hlutans sé brýnt að allra leiða verði leitað til að stuðla að betri nýtingu raforku, auknu raforkuöryggi og viðráðanlegu verði á raforku og telur meiri hlutinn þessa breytingu rétt skref í þá átt.

Mikilvægir samfélagsinnviðir, sbr. 4. gr.
    Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ef óviðráðanleg atvik valda því að framboð raforku fullnægir ekki eftirspurn á dreifiveitusvæði og önnur úrræði duga ekki til beri viðkomandi dreifiveitu að grípa til skömmtunar raforku til notenda. Við skömmtun skulu njóta forgangs heimilisnotendur og mikilvægir samfélagsinnviðir.
    Ýmsir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við að óljóst væri hvað fælist í orðalaginu „mikilvægir samfélagsinnviðir“ og hvaða hópar skyldu njóta forgangs, kæmi til skömmtunar raforku. Nokkrir umsagnaraðilar kölluðu jafnframt eftir því að þetta yrði nánar skýrt í reglugerð. Aðrir vöruðu á hinn bóginn við því að framkvæmdarvaldinu yrði falið að mæla fyrir um slíkt í reglugerð.
    Í kafla 5.2. í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í ljósi athugasemda sem gerðar voru við frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda hefðu breytingar verið gerðar á frumvarpinu þannig að sá hópur sem hafa ber í forgangi sé nánar skilgreindur, komi til skömmtunar. Tekið sé mið af orkustefnu fyrir Ísland og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 2003/54/EB. Bent sé á að í reglugerð um kerfisstjórnun í raforkukerfinu, nr. 513/2003, sé gert ráð fyrir að flutningsfyrirtækið setji sér reglur um skömmtun. Við setningu reglna um skömmtun skuli gæta jafnræðis og leitast við að tryggja að skömmtun valdi sem minnstri röskun á samfélagslegum hagsmunum. Skuli m.a. leitast við að tryggja raforku til þeirra fyrirtækja og stofnana sem veita almenningi bráðaþjónustu og tryggja öryggi borgara og allsherjarreglu. Þá sé í reglugerð um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005, að finna sambærilegt ákvæði gagnvart dreifiveitum.
    Hvað varðar ábendingar umsagnaraðila um að skilgreina þurfi nánar hvað felist í „mikilvægum samfélagsinnviðum“ áréttar ráðuneytið þau atriði sem að framan eru rakin í fyrrnefndu minnisblaði sínu og fram koma í greinargerð. Þá er þar einnig vísað til skýringa í greinargerð við 4. gr. frumvarpsins, þar sem fram komi að tillaga 4. gr. sé ekki talin kalla á breytingar á framangreindum reglugerðarákvæðum en með því sé áréttaður og lögfestur forgangur almennings og mikilvægra samfélagsinnviða, komi til skömmtunar raforku. Hvað varðar enn frekari útfærslu á „mikilvægum samfélagsinnviðum“ líkt og sumir umsagnaraðilar kalla eftir, þá bendir ráðuneytið á að eðlilegt væri að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland og lög um almannavarnir yrðu lögð til grundvallar slíkri útfærslu.
    Að mati meiri hlutans þykir nægilega skýrt koma fram í greinargerð með frumvarpinu hvað átt sé við með „mikilvægum samfélagsinnviðum“, sbr. það sem nánar er tiltekið í reglugerðum um kerfisstjórnun í raforkukerfinu og reglugerð um framkvæmd raforkulaga. Meiri hlutinn telur þannig ekki tilefni til að mælast til þess að þessu sinni að tiltekið verði nánar í reglugerð nákvæmlega hvaða innviðir falli þar undir, en tekur undir með ráðuneytinu að komi til þess að skilgreina það nánar í reglugerð verði það gert á grundvelli þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og laga um almannavarnir.

Breytingartillögur.
Verðöryggi sem þáttur í skilgreiningu á raforkuöryggi, sbr. 18. tölul. 3. gr. raforkulaga.
    Í 18. tölul. 3. gr. raforkulaga er raforkuöryggi skilgreint en þar segir að raforkuöryggi felist í því að notendur hafi aðgang að raforku þegar hennar sé þörf og þar sem hennar sé þörf, með hliðsjón af almennri stefnumörkun stjórnvalda á hverjum tíma og skilgreindum áreiðanleika og gæðum. Viðmið fyrir fullnægjandi raforkuöryggi skuli nánar útfærð og skýrð í reglugerð sem ráðherra setji.
    Nokkrir umsagnaraðilar gagnrýndu í umsögnum sínum að frumvarpið fæli ekki í sér neina vernd fyrir heimili og smærri fyrirtæki gegn verðhækkunum á raforku, þrátt fyrir að tryggja örugga afhendingu raforku. Neytendasamtökin benda til að mynda á í þessu sambandi að samkvæmt skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar um orkufátækt á Norðurlöndunum (e. Energy Poverty in the Nordic Countries) sé áhersla lögð á þrjár kjarnavíddir þegar kemur að stefnumótun um réttlát og græn umskipti í orkumálum, nánar tiltekið afhendingaröryggi, viðráðanlegt verð og sjálfbærni. Á þessum atriðum verði að taka heildrænt. Einnig láta Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum í ljós áhyggjur af því að ekki sé nægilegt tillit tekið til hagsmuna þeirra sem búi á slíkum svæðum en í umsögn þeirra kemur fram að um 10% heimila á Íslandi séu á köldum svæðum og þurfi að nota raforku til kyndingar. Þrátt fyrir að raforka til húshitunar á þessum svæðum sé niðurgreidd hafi raforkuverð á þessum svæðum hækkað mikið undanfarið. Mikilvægt sé að hagsmunir notenda á köldum svæðum verði tryggðir í reglugerð og þannig tekið tillit til þeirrar sérstöðu sem þeir séu í.
    Í kafla 3.2. í greinargerð með frumvarpinu er vísað til III. kafla raforkulaga sem varða ábyrgð og skyldur flutningsfyrirtækisins Landsnets. Þær ráðstafanir sem lagðar eru til í b-lið 3. gr. frumvarpsins og mæla fyrir um skyldu flutningsfyrirtækisins til að leita tilboða eða sjá til þess að tilboða sé leitað um breytingu á notkun miðað við aðstæður í raforkukerfinu hverju sinni eru sem fyrr segir gerðar í þágu aukins sveigjanleika í raforkukerfinu. Þær eiga jafnframt að vera til þess fallnar að stuðla að raforkuöryggi og sporna við verðhækkun sem gæti leitt af of litlu framboði.
    Meiri hlutinn ítrekar að markmið frumvarpsins sé fyrst og fremst að tryggja forgang hins almenna markaðar til raforku, komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika. Á hinn bóginn telur meiri hlutinn jafnframt mikilvægt að leitast verði við að tryggja afhendingu raforku á viðráðanlegu verði til neytenda og að það komi skýrt fram í lögunum. Meiri hlutinn leggur því til, að viðhöfðu samráði við ráðuneytið, að við skilgreiningu á hugtakinu „raforkuöryggi“ í 18. tölul. 3. gr. raforkulaga verði bætt að í raforkuöryggi felist að notendur, og þá sérstaklega heimili og smærri fyrirtæki, hafi aðgang að raforku á viðráðanlegu verði þegar hennar sé þörf og þar sem hennar sé þörf, með hliðsjón af almennri stefnumörkun stjórnvalda á hverjum tíma og skilgreindum áreiðanleika og gæðum. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að slík skilgreining á raforkuöryggi, þar sem jafnframt er tekið mið af verðöryggi, er í samræmi við alþjóðleg markmið um að tryggja orkuöryggi, sbr. til að mynda heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (e. International Energy Agency, IEA). Þar sé áhersla lögð á óhindrað aðgengi að orku á viðráðanlegu verði, sbr. skilgreiningu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar, og tryggt aðgengi að hreinum, áreiðanlegum, sjálfbærum og nútímalegum orkukostum á viðráðanlegu verði, sbr. 7. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
    Loks beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að tekið verði tillit til hagsmuna íbúa á köldum svæðum í viðeigandi reglugerð með hliðsjón af framangreindri breytingartillögu og þannig leitast við að tryggt sé að raforka sé afhent á viðráðanlegu verði til notenda á slíkum svæðum.

Skilgreining á hugtakinu „markaðsaðili“, sbr. a-lið 3. gr.
    Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar í 348. máli á 154. löggjafarþingi var bent á að hugtakið „markaðsaðili“ væri ekki skýrt í raforkulögum. Þáverandi meiri hluti lagði því til breytingartillögu um að hugtakið yrði nánar skýrt í raforkulögum og hverjir féllu þar undir. Líkt og áður greinir náði frumvarpið ekki fram að ganga. Í 2. gr. frumvarpsins er því í samræmi við hina eldri breytingartillögu lagt til að bætt verði nýjum tölulið við 3. gr. laganna um hverjir geti talist til svonefnds markaðsaðila. Til markaðsaðila skuli nánar tiltekið teljast vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki, dreifiveitur, sölufyrirtæki og stórnotendur í skilningi laganna og hver sá einstaklingur eða lögaðili sem stundi viðskipti með raforku í heildsölu. Þessu til samræmis sé einnig lagt til í a-lið 3. gr. frumvarpsins að í stað orðsins „vinnslufyrirtæki“ í 1. tölul. 4. mgr. 9. gr. laganna komi hugtakið „markaðsaðili“. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að með því að bæta þessari skilgreiningu við í lögin sé ætlunin að greiða fyrir mögulegri þátttöku stórnotenda í jöfnunarorkumarkaði Landsnets.
    Við umfjöllun málsins fyrir nefndinni var bent á að ákveðið misræmi væri á milli skilgreiningar á hugtakinu „markaðsaðili“ í fyrirliggjandi frumvarpi og frumvarpi til breytinga á raforkulögum í 282. máli varðandi hátternisreglur í raforkuviðskiptum, sem einnig hefur verið lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Þá lagði Raforkueftirlitið einnig til í umsögn sinni breytt orðalag til skilgreiningar á hugtakinu sem betur samræmdist reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1227/2011 um heildstæðan og gagnsæjan heildsölumarkað fyrir orku (REMIT). Jafnframt benti Norðurál á í umsögn sinni að skýra þyrfti betur hvað teljist vera „heildsala“ á raforku og að þörf kynni að vera á því að skilgreina betur það hugtak, sem og hugtakið „heildsölumarkaður“.
    Til að skýr skilgreining á hugtakinu „markaðsaðili“ sé fyrir hendi í raforkulögum sem samræmist fyllilega orðalagi fyrrnefndrar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1227/2011 leggur meiri hlutinn til, að viðhöfðu samráði við ráðuneytið, að skilgreiningu hugtaksins markaðsaðila verði breytt til samræmis við þá sem lögð er til í 282. máli á yfirstandandi löggjafarþingi. Með markaðsaðila verði þannig átt við einstakling eða lögaðila sem stundar viðskipti með heildsöluorkuafurð í atvinnuskyni eða annast slík viðskipti í umboði annars. Meiri hlutinn áréttar að svokallaðir virkir viðskiptavinir, þ.e. notendur sem selja inn á raforkukerfið eigin framleiðslu umfram notkun (e. prosumers), teljast ekki markaðsaðilar í þessum skilningi.
    Í skilgreiningu á orðinu markaðsaðili samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans kemur fyrir hugtakið heildsöluorkuafurð og vísar það til heildsölusamninga um afhendingu raforku, afleiður sem tengjast raforku, samninga um flutning á raforku og afleiður sem tengjast flutningi á raforku. Smásala telst ekki til heildsöluorkuafurða. Þannig teljast samningar um afhendingu raforku til notenda ekki til heildsöluorkuafurða nema um sé að ræða samninga um afhendingu á yfir 80 GWst á ári. Þar sem íslenska raforkukerfið er einangrað er það magn raforku sem þarf að ganga kaupum og sölum til að hafa verðmyndandi áhrif mun minna en í Evrópu. Stórnotandi er skilgreindur í 19. tölul. 3. gr. raforkulaga sem notandi sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári. Það er það magn sem aðskilur stórnotanda frá almennum notanda. Án þess að skilgreina hugtakið sérstaklega í lögunum leggur meiri hlutinn til að notast verði við það viðmið og beinir því til ráðuneytisins að gera viðeigandi breytingar á lögum og reglugerðum.

Um „ófyrirséð og óviðráðanleg atvik“, sbr. orðalag gildandi 9. mgr. 9. gr. og 7. mgr. 16. gr. raforkulaga.
    Í c-lið 3. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði til breytinga á 9. mgr. 9. gr. raforkulaga sem fjallar um skyldu flutningsfyrirtækisins til skömmtunar raforku. Í 9. mgr. 9. gr. gildandi laga segir að valdi ófyrirséð og óviðráðanleg atvik því að framboð raforku fullnægi ekki eftirspurn beri flutningsfyrirtækinu að grípa til skömmtunar raforku til dreifiveitna og notenda. Við skömmtun skuli gæta jafnræðis og byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem nánar skulu útfærð í reglugerð. Þá er jafnframt að finna í 4. gr. frumvarpsins breytingar á orðalagi 7. mgr. 16. gr. laganna sem mælir fyrir um skyldu dreifiveitna til skömmtunar raforku. Í 7. mgr. 16. gr. laganna er mælt fyrir um að valdi ófyrirséð og óviðráðanleg atvik því að framboð raforku fullnægi ekki eftirspurn á dreifiveitusvæði beri viðkomandi dreifiveitu að grípa til skömmtunar raforku til notenda. Við slíka skömmtun skuli gæta jafnræðis og byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem nánar skulu útfærð í reglugerð.
    Í c-lið 3. gr. frumvarpsins og 1. málsl. 4. gr. eru lagðar til breytingar sem leiða til þess að orðið „ófyrirséður“ verði fellt brott í 9. mgr. 9. gr. og 7. mgr. 16. gr. laganna. Að mati ýmissa umsagnaraðila er óheppilegt að fella orðið brott. Til að mynda benti Landsvirkjun á að þessi breyting fæli í sér að ákvæðið tæki ekki lengur til ófyrirséðra og óviðráðanlegra ytri atvika (force majeure-atvika), líkt og náttúruhamfara og þess háttar, sem enginn aðili beri ábyrgð á. Slíkt ákvæði væri að finna í öllum raforkusamningum sem gerðir séu og leiði til þess að bótaskylda fyrir efndir á afhendingu raforku falli niður. Skoða þurfi hver beri bótaábyrgð á því tjóni sem framleiðendur og stórnotendur geta orðið fyrir vegna truflana í rekstri flutningsfyrirtækis, vegna atvika sem eru ekki ófyrirséð og óviðráðanleg ytri tilvik, þ.e. force majeure, heldur eingöngu óviðráðanleg ytri tilvik. Undir þetta taka Samtök atvinnulífsins sem benda til að mynda á að nauðsynlegt sé að skilgreina nákvæmlega hvað teljist til „ófyrirséðra og óviðráðanlegra atvika“ og telja að þetta hugtak eigi að takmarkast við force majeure-tilvik. Þá megi matið ekki vera huglægt og nauðsynlegt sé að setja skýr tímamörk á hversu lengi slíkar ráðstafanir megi vara. Samtök iðnaðarins benda á í umsögn sinni að með því að fjarlægja orðið „ófyrirsjáanlegur“ úr lagagreinunum og kveða á um ákveðinn forgang, líkt og gert er í frumvarpinu, taki ákvæði 9. mgr. 9. gr. og 7. mgr. 16. gr. raforkulaga ákveðnum stakkaskiptum. Það eigi einnig við um lokamálsliði ákvæðanna þar sem kveðið sé á um að við skömmtun skuli gæta jafnræðis og byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem útfærð skuli í reglugerð. Samtökin vilja í þessu sambandi árétta að óheimilt sé að skerða stjórnarskrárvarin réttindi með stjórnvaldsfyrirmælum og í þessu tilviki kunni að reyna á ýmis stjórnarskrárvarin réttindi, einkum eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar, sem mælir fyrir um að fullt verð skuli koma fyrir þau réttindi sem njóti verndar samkvæmt ákvæðinu og skert séu.
    Í minnisblaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, dags. 3. apríl 2025, kemur fram að ekki sé tilefni til þess að umrædd ákvæði tilgreini sérstaklega að þau vísi til ófyrirséðra aðstæðna. Með óviðráðanlegum aðstæðum sé átt við aðstæður sem ekki séu á valdi þess sem fyrir þeim verði. Skömmtun rafmagns sé þrautavaraúrræði sem aðeins verði beitt hafi öll önnur úrræði verið reynd. Að mati ráðuneytisins skipti mestu máli að löggjöfin taki mið af því að upp geti komið aðstæður þar sem flutningsfyrirtæki og/eða dreifiveitur geti ekki staðið við lagaskyldu sína um afhendingu raforku. Hvort sem óviðráðanlegar aðstæður séu fyrirséðar eða ófyrirséðar verði að standa vörð um þá notendur sem vísað sé til í ákvæðunum.
    Með hliðsjón af framangreindum röksemdum umsagnaraðila telur meiri hlutinn rétt að halda núverandi orðalagi laganna að meginstefnu til óbreyttu, með þeirri breytingu þó, að þau atvik sem vísað er til í 9. mgr. 9. gr. og 7. mgr. 16. gr. laganna séu ýmist ófyrirséð og/eða óviðráðanleg. Að mati meiri hlutans og að viðhöfðu samráði við ráðuneytið þykir nægilegt að annað hvort skilyrðanna sé uppfyllt en að þau þurfi ekki bæði að vera það. Óviðráðanleg ytri atvik eru almennt skilgreind sem ytri atvik (t.d. náttúruhamfarir), sem ekki verði séð fyrir og ekki sé unnt að koma í veg fyrir þótt gerðar séu eðlilegar öryggisráðstafanir, sbr. t.d. skilgreiningu í Lögfræðiorðabók með skýringum (ritstj. Páll Sigurðsson, bókaútgáfan Codex 2008). Tjón sem eingöngu verði rakið til slíkra óviðráðanlegra ytri atvika leiði ekki til bótaskyldu á grundvelli sakar og í samninga séu oft sett ákvæði þess efnis að undanskilin sé áhætta vegna óviðráðanlega ytri atvika, sbr. framangreinda skilgreiningu.
    Að mati meiri hlutans sé mikilvægt að hagsmunir almennra notenda, þ.e. almennings og smærri fyrirtækja, séu tryggðir, komi til þess að á framangreind ákvæði raforkulaga reyni og að bótaábyrgð sé skýr. Meiri hlutinn áréttar því að óviðráðanleg ytri atvik í skilningi laganna taki almennt til svonefndra force majeure-atvika, líkt og náttúruhamfara, farsótta, uppþota, verkfalla eða stríðsástands. Í ljósi framangreindrar skilgreiningar á óviðráðanlegum ytri atvikum telur meiri hlutinn á hinn bóginn til aukins skýrleika fallið að halda inni orðinu „ófyrirséður“ í tilvitnuðum ákvæðum raforkulaga, þar sem innbyggt er í þá skilgreiningu að um sé að ræða atvik sem ekki verði séð fyrir. Loks bendir meiri hlutinn á að þær reglugerðarheimildir sem mælt er fyrir um í 3. málsl. c-liðar 3. gr. og 3. málsl. 4. gr. frumvarpsins eru að öllu leyti sambærilegar við þær sem eru í núgildandi lögum en leggur jafnframt áherslu á að við skömmtun verði gætt jafnræðis og málefnalegra sjónarmiða með hliðsjón af 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar.
    Meiri hlutinn leggur því til að 1. málsl. c-liðar 3. gr. og 1. málsl. 4. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að orðalag 9. mgr. 9. gr. og 7. mgr. 16. gr. laganna vísi til þess að atvik sem þar sé vísað til séu ýmist ófyrirséð og/eða óviðráðanleg.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðanna „aukningu í“ í 2. tölul. 1. mgr. komi: aukinni.
                  b.      Í stað orðsins „fjallað“ í 3. mgr. komi: kveðið á.
     2.      2. gr. orðist svo:
                  Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
                      a.      Á eftir 8. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Markaðsaðili: Hver sá einstaklingur eða lögaðili sem stundar viðskipti með heildsöluorkuafurð í atvinnuskyni eða annast slík viðskipti í umboði annars.
                      b.      Á eftir orðinu „raforku“ í 18. tölul. kemur: á viðráðanlegu verði.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „Flutningsfyrirtækið skal“ í b-lið komi: við kerfisstjórnun.
                  b.      Á undan orðinu „óviðráðanleg“ í c-lið komi: ófyrirséð og/eða.
     4.      Á undan orðinu „óviðráðanleg“ í 4. gr. komi: ófyrirséð og/eða.

Alþingi, 27. maí 2025.

Sigurjón Þórðarson,
form.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, frsm. Arna Lára Jónsdóttir.
Eiríkur Björn Björgvinsson. Lilja Rafney Magnúsdóttir. María Rut Kristinsdóttir.