Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 375  —  128. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Inga Jóhannssyni um innflutning og sölu áfengis.


     1.      Telur ráðherra að allur innflutningur og sala áfengis standist skatta- og tollalög?
    Öllum er heimilt að flytja inn áfengi til einkanotkunar sem hafa náð 20 ára aldri. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. áfengislaga, nr. 75/1998, þarf leyfi til að stunda í atvinnuskyni innflutning, heildsölu, smásölu, sölu á framleiðslustað eða framleiðslu áfengis. Ríkisskattstjóra ber að halda skrá yfir alla þá sem eru gjaldskyldir samkvæmt lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi, tóbaki, nikótíni o.fl., en það eru allir þeir sem flytja inn eða framleiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Við innflutning á áfengi þarf að greiða opinber gjöld, þ.e. skilagjald af umbúðum skv. 2. mgr. 1. gr. laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, úrvinnslugjald, sbr. 1. mgr. 7. gr. a laga um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, áfengisgjald, sbr. 1. mgr. 1. gr., 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga um gjald af áfengi, tóbaki, nikótíni o.fl., nr. 96/1995, og virðisaukaskatt skv. 1. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Eftirlit, álagning og innheimta skatta og gjalda, þ.m.t. áfengisgjalds, sem greiða ber við tollafgreiðslu er í höndum tollyfirvalda skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 40. gr. tollalaga, nr. 88/2005.
    Þeir sem framleiða áfengi hérlendis greiða áfengisgjald við sölu eða afhendingu vörunnar frá verksmiðju eða framleiðanda til kaupanda, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995. Þeir greiða einnig skilagjald, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 52/1989. Eftirlit með starfsemi framleiðenda innan lands er í höndum ríkisskattstjóra sem hefur sett reglur nr. 118/2008 um skyldur áfengisframleiðenda við framleiðslu, geymslu, flutning, förgun, sölu eða afhendingu á áfengi. Ríkisskattstjóri annast jafnframt álagningu skila- og áfengisgjalds á innlenda framleiðslu en í reglugerð nr. 505/1988 um áfengisgjald og í reglugerð nr. 828/2005 um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni er nánar kveðið á um eftirlit ríkisskattstjóra hvað það varðar. Ráðherra er ekki kunnugt um annað en að eftirlit og innheimta þeirra gjalda sem kveðið er á um í skatta- og tollalögum vegna innflutnings og framleiðslu áfengis sé í föstum skorðum og í samræmi við lög.
    Hvað varðar sölu á áfengi og hvort hún standist skatta- og tollalög skal tekið fram að greiða skal í ríkissjóð virðisaukaskatt af innlendum viðskiptum á öllum stigum líkt og kveðið er á um í 1. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988. Sala á áfengi er þar ekki undanþegin. Ríkisskattstjóra er falin framkvæmd á álagningu og innheimtu virðisaukaskatts ásamt eftirliti með réttmæti virðisaukaskattskila. Með sama hætti og varðandi innflutning áfengis og framleiðslu þess hér á landi er ráðherra ekki kunnugt um annað en að eftirlit og innheimta virðisaukaskatts vegna sölu á áfengi hér á landi sé í föstum skorðum og í samræmi við lög.
     2.      Hvað hefur verið gert í ráðuneytinu á undanförnum fimm árum, á grundvelli skatta- og tollalaga, til að hafa eftirlit með því að innflutningur og sala áfengis fari fram með löglegum hætti?
    Með lögum nr. 245/2019 voru gerðar breytingar á sviði tollgæslu og tollafgreiðslu og embætti tollstjóra lagt niður og sameinað ríkisskattstjóra, nú Skattinum, og tóku breytingarnar gildi 1. janúar 2020. Eitt helsta markmið breytinganna var að auka möguleika beggja stofnanna á betri samnýtingu upplýsinga og gagna við bæði skatt- og tolleftirlit. Sameiginlegt aðgengi að upplýsingum úr skatt- og tollkerfum var þannig ætlað að auka möguleika á markvissara og árangursríkara eftirliti, sem eðli málsins samkvæmt tekur jafnframt til innflutnings á áfengi. Þá var sameining Skattsins og skattrannsóknarstjóra, sem tók gildi 1. maí 2021, ætlað að styrkja enn frekar eftirlit og rannsóknir á skattundanskotum. Aðrar breytingar á skatta- og tollalögum á undanförnum árum hafa ekki miðað sérstaklega að breytingum á eftirliti sem varðar innflutning og sölu áfengis.
    Ráðuneytið lét vinna minnisblað sem er dagsett 31. maí 2024, um lagaumhverfi smásölu áfengis á Íslandi, þar sem gerð var grein fyrir gildandi lagaumhverfi smásölu og þeim valkostum sem koma til greina varðandi breytingar á því. Í álitinu kom m.a. fram að meta þyrfti í hverju tilviki fyrir sig hvort smásala áfengis sem fari fram í gegnum netverslun feli í sér ólögmæta smásölu hér á landi eða lögmætan innflutning áfengis erlendis frá. Í kjölfarið, eða 11. júní 2024, sendi þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra erindi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem vakin var athygli á álitaefnum er tengdust starfsemi netverslana með tilliti til hvort slíkar verslanir hefðu með höndum innflutning til neytenda eða hvort staðfesta viðkomandi fyrirtækja erlendis væri til málamynda, enda hefði komið fram í framangreindu minnisblaði að slík verslun gæti í einhverjum tilvikum verið ólögmæt.
    
     3.      Hver hefur þróun á heildarinnflutningi áfengis verið ár hvert sl. tíu ár? Svar óskast sundurliðað eftir magni sem hefur farið til hvers flokks viðtakenda, þ.e. til ÁTVR, til smásala og til annarra, t.d. netsala.
    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Skattinum, Hagstofu Íslands og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) vegna fyrirspurnarinnar.
    Í svörum Skattsins kom fram að þær upplýsingar sem óskað væri eftir varðandi flokka viðtakenda væru ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni og krefðist umfangsmikillar vinnu að afla þeirra. Til að unnt væri að gera samantekt yfir þau gögn sem óskað væri eftir þyrfti að smíða fyrirspurnir sem yrði að keyra á gagnagrunna tollakerfanna með aðkeyptri vinnu sérfræðinga hjá hýsingaraðila kerfanna, með tilheyrandi kostnaði. Ef afla ætti þessara upplýsinga 10 ár aftur í tímann má ætla að það krefðist talsverðs tíma og kostnaðar. Ráðuneytið býr því ekki að þessum hluta gagnanna sem óskað er eftir og telur að slík gagnavinnsla væri umfangsmeiri og tímafrekari en gert er ráð fyrir í stuttu svari við fyrirspurn. Í reynd væri hér um að ræða frumvinnslu hagtalna og skýrslugerð. Hér er þó leitast við að setja fram vísbendingar um þróun mála út frá þeim opinberu gögnum sem aðgengileg eru.
    Í svörum Hagstofunnar kom fram að utanríkisverslunardeild Hagstofunnar gæfi ekki upp hverjir væru að flytja vörur inn eða út. Þá kom jafnframt fram að hægt væri að kalla fram heildarinnflutning áfengis eftir CIF-verðmæti annars vegar og tonnum hins vegar á vef stofnunarinnar. Á eftirfarandi mynd er heildarinnflutningur áfengis tekinn saman eftir árum niður á þyngd og verðmæti á verðlagi hvers árs, en magntölur um innlenda framleiðslu eru eðli málsins samkvæmt ekki inn í eftirfarandi tölum. Þá greina þessar tölur ekki sérstaklega á milli flokka áfengis, þ.e. bjórs, léttvíns og sterks áfengis, en áfengi ber mismunandi gjald á hvern sentilítra af vínanda í hverjum lítra hins áfenga drykkjar samkvæmt flokkun í tollskrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi, tóbaki, nikótíni o.fl.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    
    ÁTVR upplýsti ráðuneytið um að það flytti ekki inn áfengi. Til að varpa einhverju ljósi á hlut ÁTVR í áfengissölu á Íslandi er þó vert að bera saman áfengisgjöld ríkisins samkvæmt ríkisreikningi frá árinu 2014 til og með árinu 2023 við það áfengisgjald sem ÁTVR reiknar út frá seldu magni í ársskýrslum sínum vegna sömu ára. Sá samanburður leiðir fram hlutfall ÁTVR í sölu á áfengi á Íslandi síðustu 10 ár með eftirfarandi hætti:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.