Ferill 122. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 497  —  122. mál.




Frumvarp til laga


um verðbréfun.

(Eftir 2. umræðu, 14. maí.)


1. gr.

Lögfesting.

    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2402 frá 12. desember 2017 um almennan ramma fyrir verðbréfun og gerð sértæks ramma fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun, og um breytingu á tilskipunum 2009/65/EB, 2009/138/EB og 2011/61/ESB og reglugerðum (EB) nr. 1060/2009 og (ESB) nr. 648/2012, sem er birt á bls. 339–384 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 69 frá 19. september 2024, skal hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 145/2024 frá 12. júní 2024, sem er birt á bls. 45–49 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 72 frá 2024, og með breytingum samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/557 frá 31. mars 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) 2017/2402 um almennan ramma fyrir verðbréfun og gerð sértæks ramma fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun til að stuðla að endurbótum í kjölfar COVID-19 hættuástandsins, sem er birt á bls. 385–408 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 69 frá 19. september 2024, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 145/2024 frá 12. júní 2024, sem er birt á bls. 45–49 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 72 frá 2024.
    Í lögum þessum er vísað til reglugerðar (ESB) 2017/2402 með aðlögunum og breytingum skv. 1. mgr. sem reglugerðar (ESB) 2017/2402.

2. gr.

Tilvísanir til tilskipana.

    Eftirfarandi hugtök í reglugerð (ESB) 2017/2402 hafa svofellda merkingu:
     1.      Aðili sem hefur starfsleyfi til að annast daglega virka eignasafnsstýringu sem verðbréfun felur í sér í samræmi við tilskipun 2009/65/EB, tilskipun 2011/61/ESB eða tilskipun 2014/65/ESB: Lánastofnun samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, rekstraraðili sérhæfðra sjóða samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða eða rekstrarfélag verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði.
     2.      Aðilar sem lúta eftirliti í samræmi við tilskipanir 2003/41/EB, 2009/138/EB, 2009/65/EB, 2011/61/ESB og 2013/36/ESB: Aðilar sem falla undir gildissvið laga um starfstengda eftirlaunasjóði, laga um vátryggingastarfsemi, laga um verðbréfasjóði, laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og laga um fjármálafyrirtæki.
     3.      Almennur fjárfestir samkvæmt tilskipun 2014/65/ESB: Almennur fjárfestir samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
     4.      Áhættusamt þriðja land með annmarka í regluverki sínu um baráttu gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi, í samræmi við 9. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849: Áhættusöm og ósamvinnuþýð ríki samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
     5.      Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi samkvæmt tilskipun 2002/87/EB: Blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi samkvæmt lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.
     6.      Eftirlitsskyldur aðili skv. 4. lið 2. gr. tilskipunar 2002/87/EB: Eftirlitsskyldur aðili samkvæmt lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.
     7.      Endurtryggingafélag samkvæmt tilskipun 2009/138/EB: Endurtryggingafélag samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
     8.      Framseljanleg verðbréf skv. 44. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Verðbréf samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.
     9.      Kröfurnar sem settar eru fram í tilskipun 2008/48/EB: Kröfur til lánshæfismats samkvæmt lögum um neytendalán.
     10.      Kröfurnar sem settar eru fram í tilskipun 2014/17/ESB: Kröfur til lánshæfismats samkvæmt lögum um fasteignalán til neytenda.
     11.      Kröfur sem settar eru fram í 79. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB: Skilyrði sem uppfylla skal vegna útlána- og mótaðilaáhættu skv. 78. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     12.      Lánastofnun sem lýtur eftirliti samkvæmt tilskipun 2013/36/ESB: Lánastofnun samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
     13.      Lýsing í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB: Lýsing samkvæmt lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði.
     14.      Mat á hæfi viðskiptavinar skv. 2. mgr. 25. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Mat á hæfi skv. 44. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.
     15.      Rekstraraðili sérhæfðra sjóða samkvæmt tilskipun 2011/61/ESB: Rekstraraðili samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
     16.      Rekstrarfélag verðbréfasjóðs (UCITS) samkvæmt tilskipun 2009/65/EB: Rekstrarfélag verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði.
     17.      Skilavald samkvæmt tilskipun 2014/59/ESB: Skilastjórnvald samkvæmt lögum um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja.
     18.      Stofnun um starfstengdan lífeyri samkvæmt tilskipun (ESB) 2016/2341: Starfstengdur eftirlaunasjóður samkvæmt lögum um starfstengda eftirlaunasjóði.
     19.      Samstæða skv. c-lið 1. mgr. 212. gr. tilskipunar 2009/138/EB: Samstæða samkvæmt lögum um vátryggingasamstæður.
     20.      Samstæðureikningur í samræmi við tilskipun 2013/34/ESB: Samstæðureikningur samkvæmt lögum um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.
     21.      Úttekt og mat skv. 3. mgr. 97. gr. tilskipunar 2013/36/ESB: Könnunar- og matsferli og álagspróf Fjármálaeftirlitsins skv. 80. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
     22.      Vátryggingafélag samkvæmt tilskipun 2009/138/EB: Vátryggingafélag samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
     23.      Verðbréfafyrirtæki skv. 1. lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2014/65/ESB: Verðbréfafyrirtæki samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga.

3. gr.

Lögbært yfirvald og eftirlit.

    Seðlabanki Íslands er lögbært yfirvald hér á landi í skilningi laga þessara og fer Fjármálaeftirlitið með þau verkefni sem því yfirvaldi eru falin.
    Fjármálaeftirlitið annast eftirlit samkvæmt lögum þessum. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

4. gr.

Úrbætur.

    Komi í ljós að ákvæðum laga þessara, eða stjórnvaldsfyrirmæla settra með stoð í þeim, sé ekki fylgt skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.


5. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2402 eða stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í þeim, þar sem:
     1.      upphafsaðili, umsjónaraðili eða upphaflegur lánveitandi hefur ekki uppfyllt kröfurnar sem mælt er fyrir um í 6. gr., um eftirhald áhættu,
     2.      upphafsaðili, umsjónaraðili eða sérstakur verðbréfunaraðili hefur ekki uppfyllt kröfurnar sem mælt er fyrir um í 7. gr., um gagnsæiskröfur,
     3.      upphafsaðili, umsjónaraðili eða upphaflegur lánveitandi hefur ekki uppfyllt viðmiðin sem mælt er fyrir um í 9. gr., um viðmið lánveitinga,
     4.      upphafsaðili, umsjónaraðili eða sérstakur verðbréfunaraðili hefur ekki uppfyllt kröfurnar sem mælt er fyrir um í 18. gr., um notkun STS-auðkenningarinnar, þ.e. einfaldrar, gagnsærrar og staðlaðrar verðbréfunar,
     5.      verðbréfun er auðkennd sem STS og upphafsaðili, umsjónaraðili eða sérstakur verðbréfunaraðili þeirrar verðbréfunar hefur ekki uppfyllt kröfurnar sem mælt er fyrir um í 19.–22. gr., um kröfur fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun án hefðbundinna eignatryggðra skammtímaskuldabréfa,
     6.      verðbréfun er auðkennd sem STS og upphafsaðili, umsjónaraðili eða sérstakur verðbréfunaraðili þeirrar verðbréfunar hefur ekki uppfyllt kröfurnar sem mælt er fyrir um í 23.–26. gr., um kröfur fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun eignatryggðra skammtímaskuldabréfa,
     7.      verðbréfun er auðkennd sem STS og upphafsaðili, umsjónaraðili eða sérstakur verðbréfunaraðili þeirrar verðbréfunar hefur ekki uppfyllt kröfurnar sem mælt er fyrir um í 26. gr. a – 26. gr. e, um kröfur fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun á efnahagsreikningi,
     8.      upphafsaðili eða umsjónaraðili leggur fram misvísandi tilkynningu skv. 1. mgr. 27. gr., um STS-tilkynningu,
     9.      upphafsaðili eða umsjónaraðili hefur ekki uppfyllt kröfurnar sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 27. gr., um tilkynningarskyldu þegar verðbréfun uppfyllir ekki lengur STS-viðmið skv. 19. gr. – 26. gr. e, eða
     10.      þriðji aðili með starfsleyfi skv. 28. gr. hefur ekki tilkynnt um verulegar breytingar á upplýsingum sem veittar voru í samræmi við 1. mgr. 28. gr., um sannprófun þriðja aðila á að STS-viðmið séu uppfyllt, eða aðrar breytingar sem ástæða er til að ætla að geti haft áhrif á mat lögbærs yfirvalds.
    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 630 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 630 millj. kr., en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.
    Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að ákvarða einstaklingi eða lögaðila sem brýtur gegn 1. mgr. stjórnvaldssekt allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem nemur fjárhagslegum ávinningi af broti.
    Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

6. gr.

Bann við stjórnunarstörfum.

    Vegna brota skv. 1. mgr. 5. gr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leggja tímabundið bann við því að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri upphafsaðilans, umsjónaraðilans eða sérstaka verðbréfunaraðilans eða annar einstaklingur sem er ábyrgur fyrir brotinu sinni stjórnunarstörfum hjá slíku fyrirtæki.

7. gr.

Bann við STS-tilkynningu.

    Vegna brota á ákvæðum 19. gr. – 26. gr. e eða 1. mgr. 27. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2402 eða stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í þeim er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kveða á um tímabundið bann við STS-tilkynningum af hálfu upphafsaðila eða umsjónaraðila skv. 1. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar.

8. gr.

Afturköllun starfsleyfis þriðju aðila sem sannprófa STS-viðmið.

    Fjármálaeftirlitið getur afturkallað, tímabundið eða varanlega, starfsleyfi þriðja aðila skv. 28. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2402 sem ekki tilkynnir um verulegar breytingar á upplýsingum sem hann hefur veitt stofnuninni í samræmi við 1. mgr. 28. gr., eða um aðrar breytingar sem ástæða er til að ætla að geti haft áhrif á mat Fjármálaeftirlitsins á starfsemi hans.

9. gr.

Saknæmi.

    Stjórnsýsluviðurlögum og öðrum ráðstöfunum vegna brota verður beitt óháð því hvort brot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

10. gr.

Ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga og annarra ráðstafana.

    Við ákvörðun stjórnsýsluviðurlaga, þar á meðal um fjárhæð stjórnvaldssekta, og annarra ráðstafana vegna brots skal tekið tillit til saknæmisstigs og allra annarra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi eftir því sem við á:
     a.      alvarleika og tímalengdar brotsins,
     b.      ábyrgðar hins brotlega einstaklings eða lögaðila,
     c.      fjárhagsstöðu hins brotlega,
     d.      þýðingar ávinnings eða taps sem forðað var með broti fyrir hinn brotlega, að því marki sem unnt er að ákvarða það,
     e.      þess tjóns sem brotið veldur þriðja aðila, að því marki sem unnt er að ákvarða það,
     f.      samstarfsvilja hins brotlega,
     g.      fyrri brota hins brotlega og hvort um ítrekað brot er að ræða.

11. gr.

Opinber birting.

    Fjármálaeftirlitið skal birta ákvarðanir um stjórnsýsluviðurlög vegna brota samkvæmt lögum þessum til samræmis við 37. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2402.


12. gr.

Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
    Seðlabanki Íslands setur nánari reglur um framkvæmd 1. mgr.

13. gr.

Réttur grunaðs manns.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með ákvörðun um stjórnsýsluviðurlög samkvæmt lögum þessum hefur sá sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

14. gr.

Frestur til að beita stjórnsýsluviðurlögum.

    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnsýsluviðurlög samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar sjö ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

15. gr.

Stjórnvaldsfyrirmæli.

    Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd reglugerðar (ESB) 2017/2402 um þau atriði sem koma fram í 2. mgr. 16. gr. hennar um gjöld sem Eftirlitsstofnun EFTA leggur á verðbréfunarskrár.
    Seðlabanki Íslands setur reglur um nánari framkvæmd reglugerðar (ESB) 2017/2402 um þau atriði sem koma fram í eftirtöldum ákvæðum hennar:
     1.      7. mgr. 6. gr. um kröfuna um eftirhald áhættu.
     2.      3. mgr. 7. gr. um upplýsingar sem upphafsaðila, umsjónaraðila og sérstökum verðbréfunaraðila ber að veita til að uppfylla skyldur sínar skv. 1. mgr. 7. gr.
     3.      4. mgr. 7. gr. um framsetningu upplýsinga sem upphafsaðila, umsjónaraðila og sérstökum verðbréfunaraðila ber að veita til að uppfylla skyldur sínar skv. 1. mgr. 7. gr.
     4.      5. mgr. 8. gr. um lista yfir lögmætan tilgang endurverðbréfunar skv. 3. mgr. 8. gr.
     5.      7. mgr. 10. gr. um umsókn um skráningu sem verðbréfunarskrá og verklagsreglur sem verðbréfunarskrár skulu beita til að sannreyna heilleika og samkvæmni upplýsinga sem þeim eru gerðar tiltækar.
     6.      8. mgr. 10. gr. um framsetningu umsóknar um skráningu verðbréfunarskrár.
     7.      2. mgr. 17. gr. um upplýsingagjöf upphafsaðila, umsjónaraðila og sérstaks verðbréfunaraðila og tiltækileika gagna í vörslu verðbréfunarskrár.
     8.      3. mgr. 17. gr. um stöðluð sniðmát sem upphafsaðilinn, umsjónaraðilinn eða sérstaki verðbréfunaraðilinn skulu nota til að veita upplýsingar skv. 1. mgr. 17. gr.
     9.      14. mgr. 20. gr. um hvaða undirliggjandi áhættuskuldbindingar skv. 8. mgr. 20. gr. teljast einsleitar.
     10.      6. mgr. 22. gr. um efni, aðferðir og framsetningu upplýsinga skv. 4. mgr. 22. gr., að því er varðar sjálfbærnivísa í tengslum við skaðleg áhrif á loftslagið og önnur skaðleg umhverfis-, félags- og stjórnunartengd áhrif.
     11.      21. mgr. 24. gr. um hvaða undirliggjandi áhættuskuldbindingar skv. 15. mgr. 24. gr. teljast einsleitar.
     12.      13. mgr. 26. gr. b um hvaða undirliggjandi áhættuskuldbindingar skv. 8. mgr. 26. gr. b teljast einsleitar.
     13.      5. mgr. 26. gr. c um lýsingu og, ef við á, kvörðun afkomutengdra kveikjuatburða.
     14.      6. mgr. 26. gr. d um efni, aðferðir og framsetningu upplýsinga skv. 4. mgr. 26. gr. d, að því er varðar sjálfbærnivísa í tengslum við skaðleg áhrif á loftslagið og önnur skaðleg umhverfis-, félags- og stjórnunartengd áhrif.
     15.      6. og 7. mgr. 27. gr. um upplýsingar sem veita ber í STS-tilkynningum og sniðmát sem nota skal við STS-tilkynningar.
     16.      4. mgr. 28. gr. um upplýsingar sem veita á Fjármálaeftirlitinu í umsókn um starfsleyfi þriðja aðila.
     17.      8. mgr. 36. gr. um almenna samstarfsskyldu, upplýsingaskipti og tilkynningarskyldu að því er viðkemur Fjármálaeftirlitinu, Eftirlitsstofnun EFTA og evrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

16. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2025.

17. gr.

Breytingar á öðrum lögum

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. b laganna:
                      1.      13. tölul. fellur brott.
                      2.      Á eftir 57. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Sérstakur verðbréfunaraðili: Sérstakur verðbréfunaraðili samkvæmt reglugerð (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun.
                      3.      67. tölul. orðast svo: Umsjónaraðili: Umsjónaraðili samkvæmt reglugerð (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun.
                      4.      76. tölul. orðast svo: Verðbréfuð staða: Verðbréfuð staða samkvæmt reglugerð (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun.
                      5.      77. tölul. orðast svo: Verðbréfun: Verðbréfun samkvæmt reglugerð (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun.
                  b.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. c laganna:
                      1.      Á eftir 4. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2401 frá 12. desember 2017 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 um varfærniskröfur að því er varðar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, sem er birt á bls. 305 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 69 frá 19. september 2024, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 145/2024 frá 12. júní 2024, sem er birt á bls. 45 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 72 frá 2024.
                      2.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/558 frá 31. mars 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 að því er varðar aðlögun á rammanum um verðbréfun til að styðja við efnahagslegar endurbætur til að bregðast við COVID-19 hættuástandinu, sem er birt á bls. 409 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 69 frá 19. september 2024, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 145/2024 frá 12. júní 2024, sem er birt á bls. 45 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 72 frá 2024.
                  c.      Í stað orðsins „umsýsluaðili“ í 1. málsl. 1. mgr. 78. gr. d laganna kemur: umsjónaraðili.
                  d.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. málsl. 7. mgr. 78. gr. h laganna:
                      1.      Í stað orðanna „eininga um sérverkefni á sviði verðbréfunar“ kemur: sérstakra verðbréfunaraðila.
                      2.      Í stað orðsins „umsýsluaðili“ kemur: umsjónaraðili.
                  e.      Á eftir orðunum „reglugerðar (ESB) nr. 575/2013“ í 2. tölul. 4. mgr. 107. gr. a laganna kemur: og 2. kafla reglugerðar (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun.
                  f.      Á eftir orðunum „samkvæmt lögum þessum“ í 107. gr. b laganna kemur: 2. kafla reglugerðar (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun.
                  g.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 107. gr. i laganna:
                      1.      Í stað orðanna „5. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013“ kemur: 2. kafla reglugerðar (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun.
                      2.      Í stað orðanna „405.–409. gr. reglugerðarinnar“ í 1. og 2. tölul. kemur: ákvæðum kaflans.
                  h.      Eftirfarandi breytingar verða á 110. gr. laganna:
                      1.      73. tölul. 1. mgr. fellur brott.
                      2.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                              Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn ákvæðum 2. kafla reglugerðar (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun, og reglum settum á grundvelli þeirra.
                      3.      Í stað orðanna „1. mgr.“ í 4. mgr. kemur: 1. eða 2. mgr.
                      4.      Í stað orðanna „3. mgr.“ í 7. mgr. kemur: 4. mgr.
                  i.      Í stað orðanna „1. eða 2. mgr.“ í 110. gr. a laganna kemur: 1.–3. mgr.
                  j.      Í stað orðanna „1. eða 2. mgr.“ í 110. gr. b laganna kemur: 1.–3. mgr.
                  k.      Á eftir 6. tölul. 2. mgr. 117. gr. a laganna koma tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                7.     6. mgr. 244. gr. um hefðbundna verðbréfun.
                8.     6. mgr. 245. gr. um tilbúna verðbréfun.
                  l.      Á eftir 42. tölul. 2. mgr. 117. gr. b laganna koma tveir nýir töluliðir, svohljóðandi: 43.        1. og 4. mgr. 248. gr. um áhættuskuldbindingarvirði.
                 44.     9. mgr. 255. gr. um ákvörðun á K IRB og K SA.
                  m.      Á eftir 43. tölul. 2. mgr. 117. gr. b laganna koma tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                 46.        2. mgr. 270. gr. a um viðbótaráhættuvog.
                 47.        270. gr. e um kortlagningu verðbréfunar.
     2.      Lög um verðbréfasjóði, nr. 116/2021:
                  a.      75. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Áhætta vegna verðbréfunar.

                     Ef rekstrarfélag verðbréfasjóðs er útsett fyrir verðbréfun sem ekki uppfyllir lengur þær kröfur sem mælt er fyrir um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun, skal það, í því skyni að tryggja sem best hagsmuni fjárfesta í viðkomandi verðbréfasjóði, bregðast við og grípa til aðgerða til úrbóta, ef við á.
                  b.      Í stað orðsins „útlánaáhættu“ í 51. tölul. 1. mgr. 115. gr. laganna kemur: áhættu.
     3.      Lög um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016: Eftirfarandi breytingar verða á 114. gr. laganna:
                  a.      3. tölul. orðast svo: Skilgreiningar á þeim aðstæðum þar sem heimilt er að gera hæfilega viðbótargjaldþolskröfu ef brotið er í bága við þær kröfur sem mælt er fyrir um í 5. eða 6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun, án þess að hafa áhrif á gjaldþolskröfu skv. 1. mgr. 97. gr.
                  b.      4. og 5. tölul. falla brott.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Seðlabanka Íslands er heimilt að setja reglur um aðferðir við útreikning á hæfilegri viðbótargjaldþolskröfu.
     4.      Lög um lánshæfismatsfyrirtæki, nr. 50/2017: Við 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: 40. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2402 frá 12. desember 2017 um almennan ramma fyrir verðbréfun og gerð sértæks ramma fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun, og um breytingu á tilskipunum 2009/65/EB, 2009/138/EB og 2011/61/ESB og reglugerðum (EB) nr. 1060/2009 og (ESB) nr. 648/2012, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 69 frá 19. september 2024, bls. 339–384.
     5.      Lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020:
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 3. gr. laganna:
                      1.      30. tölul. orðast svo: Sérstakur verðbréfunaraðili: Sérstakur verðbréfunaraðili samkvæmt reglugerð (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun.
                      2.      36. tölul. orðast svo: Verðbréfun: Verðbréfun samkvæmt reglugerð (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun.
                  b.      24. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Áhætta vegna verðbréfunar.

                      Ef rekstraraðili sérhæfðra sjóða er útsettur fyrir verðbréfun sem ekki uppfyllir lengur þær kröfur sem mælt er fyrir um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun, skal hann, í því skyni að tryggja sem best hagsmuni fjárfesta í viðkomandi sérhæfðum sjóðum, bregðast við og grípa til aðgerða til úrbóta, ef við á.
     6.      Lög um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018:
                  a.      Við 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: 42. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2402 frá 12. desember 2017 um almennan ramma fyrir verðbréfun og gerð sértæks ramma fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun, og um breytingu á tilskipunum 2009/65/EB, 2009/138/EB og 2011/61/ESB og reglugerðum (EB) nr. 1060/2009 og (ESB) nr. 648/2012, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 69 frá 19. september 2024, bls. 339–384.
                  b.      Á eftir 1. tölul. 2. mgr. 15. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: 6. mgr. 4. gr. um viðmið til að ákvarða hvaða fyrirkomulag í tengslum við sértryggð skuldabréf eða verðbréfanir dregur á fullnægjandi hátt úr greiðslufallsáhættu mótaðila í skilningi 5. mgr. 4. gr.
     7.      Lög um peningamarkaðssjóði, nr. 6/2023: Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist: með þeim breytingum sem leiðir af 1. gr. framseldrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/990 frá 10. apríl 2018 um breytingu á og viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1131 að því er varðar einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun (STS-verðbréfun) og eignatryggð skammtímabréf, kröfur um eignir sem mótteknar eru sem hluti af endurhverfri verðbréfasölu og aðferðafræði við lánshæfismat, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 37 frá 27. maí 2021, bls. 68–75.
     8.      Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997: Við 36. gr. e laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Fjárfesti lífeyrissjóður í verðbréfaðri stöðu skal 5. gr. reglugerðar (ESB) 2017/2402, sbr. lög um verðbréfun, gilda líkt og hann væri stofnanafjárfestir í skilningi reglugerðarinnar.
     9.      Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003: Við 121. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um hvaða lögsagnarumdæmi teljist vera ósamvinnuþýð í skattalegu tilliti.