Ferill 118. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Prentað upp.

Þingskjal 568  —  118. mál.
Flutningsmenn.

2. umræða.


Breytingartillaga


við frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 (ýmsar breytingar).

Frá Ingibjörgu Isaksen, Rósu Guðbjartsdóttur og Njáli Trausta Friðbertssyni.


    Á eftir 1. efnismgr. 9. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
    Áður en greiðsluþátttaka er samþykkt skv. 1. mgr. skal sjúkratryggingastofnunin með sannanlegum hætti ganga úr skugga um að sambærileg meðferð sé ekki í boði hér á landi hjá einkaaðila að teknu tilliti til sömu viðmiða um heilsufarsástand, þróun sjúkdóms og biðtíma þjónustu.

Greinargerð.

    Markmið breytingartillögunnar er að tryggja að sjúkratryggingastofnunin kanni með sannanlegum hætti áður en greiðsluþátttaka er samþykkt í öðru aðildarríki EES-samningsins, hvort sambærileg meðferð sé í boði hér á landi. Jafnframt er markmið tillögunnar að tryggja jafnræði milli opinberra og einkarekinna þjónustuveitenda þegar metið er hvort skilyrði séu til greiðsluþátttöku vegna meðferðar erlendis. Gert er ráð fyrir að í reglugerð ráðherra sé m.a. mælt fyrir um hvernig sjúkratryggingastofnunin sannreynir að meðferð sé ekki í boði innan lands.