Ferill 118. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 565  —  118. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 (ýmsar breytingar).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá heilbrigðisráðuneyti, embætti landlæknis, Landssamtökunum Þroskahjálp, Persónuvernd, Samtökum atvinnulífsins, Skattinum, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og ÖBÍ réttindasamtökum.
    Nefndinni bárust sjö umsagnir auk minnisblaðs frá heilbrigðisráðuneyti og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Markmið frumvarpsins er m.a. að gera breytingar á þeim ákvæðum laganna sem eiga ekki lengur við og hugtökum sem orðin eru úrelt. Þá eru m.a. lagðar til breytingar sem skýra eiga skyldu sjúkratryggingastofnunarinnar til að byggja ákvörðunartöku á gagnreyndri meðferð og faglegu og hagrænu mati, um styttingu biðtíma eftir sjúkratryggingu og um lögfestingu greiðsluþátttöku fyrir læknismeðferð erlendis vegna biðtíma hér á landi. Um efni frumvarpsins að öðru leyti en fjallað er um í áliti þessu vísast til greinargerðar með því.

Umfjöllun nefndarinnar.
Stytting biðtíma og niðurfelling sjúkratryggingar (6. gr.).
    Í 10. gr. laga um sjúkratryggingar er kveðið á um hverjir teljist sjúkratryggðir samkvæmt þeim. Í 1. mgr. segir að sjúkratryggður sé sá sem er búsettur á Íslandi og hefur verið það a.m.k. síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum, að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Samkvæmt ákvæðinu verður einstaklingur sjúkratryggður sex mánuðum eftir flutning til landsins og á þá fyrst rétt á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við heilbrigðisþjónustu, við lyfjakaup og hjálpartæki. Með frumvarpinu er lagt til að biðtíminn verði styttur úr sex mánuðum í þrjá í því skyni að flýta fyrir aðgengi aðfluttra einstaklinga að sjúkratryggingakerfinu, en sex mánaða biðtími þykir óþarflega langur og einstaklingar hafa þurft að bera sjálfir kostnað vegna heilbrigðisþjónustu innan þess tíma.
    Með 6. gr. frumvarpsins er einnig lögð til breyting á 4. mgr. 10. gr. laganna. Þeirri breytingu er ætlað að veita sjúkratryggingastofnuninni skýrari lagaheimild til að fella niður sjúkratryggingu þeirra einstaklinga sem hafa lögheimili á Íslandi án raunverulegrar búsetu. Er það gert m.a. með öflun gagna frá skattyfirvöldum. Á grundvelli gildandi ákvæðis hefur sjúkratryggingastofnunin heimild til að ákvarða hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður hér á landi, en sú heimild takmarkast við fyrirmæli laganna um að búseta sé miðuð við lögheimilisskráningu og hefur stofnunin því ekki haft heimild til að fella niður sjúkratryggingu ef einstaklingur er skráður með lögheimili hér á landi en hefur ekki búsetu. Líkt og fram kemur í minnisblaði frá ráðuneytinu mun ákvörðun stofnunarinnar grundvallast af heildarmati og beri gögn með sér að einstaklingur hafi ekki raunverulega búsetu hér á landi verður sjúkratrygging hans felld niður.
    Sú breyting sem er lögð til við ákvæðið er að mati meiri hlutans til bóta. Mikilvægt er að viðeigandi stofnanir hafi skýra lagaheimild til þess að bregðast við þeim tilvikum þegar einstaklingar hafa ekki raunverulega búsetu hér á landi en njóta samt sem áður réttinda samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.

Fyrirframákveðin læknismeðferð erlendis (9. gr.).
    Með 9. gr. frumvarpsins er lagt til að lögfest verði heimild til að samþykkja greiðsluþátttöku vegna fyrirframákveðinna læknismeðferða erlendis. Það er í þeim tilvikum þegar sjúkratryggður á ekki kost á meðferð hér á landi innan þeirra tímamarka sem réttlæta má læknisfræðilega með hliðsjón af ástandi og líklegri framvindu sjúkdóms, og er sjúkratryggingastofnuninni þá heimilt að samþykkja greiðsluþátttöku vegna meðferðar í öðru aðildarríki EES.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni komu fram athugasemdir um að sambærilegt ákvæði væri ekki að finna í lögum um greiðsluþátttöku fyrirframákveðinnar læknismeðferðar sem sjúkratryggður undirgengst hjá einkareknum veitanda heilbrigðisþjónustu hér á landi. Kom m.a. fram að sjúkratryggingastofnunin tæki ekki þátt í kostnaði við slíka þjónustu hér á landi, þrátt fyrir að skemmri biðtími væri eftir henni en þeirri þjónustu sem veitt er erlendis og stofnunin niðurgreiðir, og hvatt til þess að niðurgreiðsla þjónustu erlendis verði ekki frekar fest í sessi án þess að hlutur einkarekinna þjónustuaðila verði jafnaður.
    Svonefnd biðtímamál eiga sér stoð í 20. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn, sbr. reglugerð nr. 442/2012 og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 1. júlí 2011. Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er lagt til að tiltaka sérstaklega í lögum, sbr. 9. gr. frumvarpsins, þann rétt sem felst í ákvæði 20. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Í minnisblaði frá heilbrigðisráðuneyti til nefndarinnar segir m.a. að ákvæði 9. gr. frumvarpsins feli ekki í sér efnislega breytingu á réttindum sjúkratryggðra til að fá þjónustu erlendis ef biðtími er of langur hér á landi, en sá réttur er til staðar samkvæmt framangreindri reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa. Sú breyting sem lögð er til er til þess fallin að auka skýrleika. Þá segir í minnisblaðinu að sjúkratryggingastofnunin hafi lagt fram tillögur til ráðherra um að samið verði við innlenda aðila ef fjöldi umsókna um aðgerðir erlendis er stöðugur og ekki horfur á því að bið eftir þjónustu styttist. Biðtímaregla 9. gr. frumvarpsins um heimild til að sækja heilbrigðisþjónustu til annarra landa sé undanþága frá meginreglu og myndi breyting á því fyrirkomulagi draga úr möguleikum til þess að halda útgjöldum heilbrigðisþjónustu innan fjárlaga og rýra möguleika til markvissrar forgangsröðunar þjónustu. Telur meiri hlutinn með vísan til framangreinds ekki forsendur til þess að leggja til breytingar á ákvæði 9. gr frumvarpsins.

Miðlægur lyfjagreiðslugrunnur og miðlun gagna (12. gr.).
    Með 12. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 29. gr. a laga um sjúkratryggingar. Lagt er til að skýrt verði nánar hvaða upplýsingar skuli færa í lyfjagreiðslugrunn og tiltekið verði hvernig aðgangur að gagnagrunninum skuli veittur og að skyldur notenda verði skýrðar. Þá er lagt til að við ákvæðið bætist vísun til 77. gr. lyfjalaga, nr. 100/2020, til að tryggja afhendingu gagna þar sem þau eru nauðsynleg, svo að sjúkratryggingastofnunin geti tryggt rétta afgreiðslu við útgáfu lyfjaskírteina og við framkvæmd lyfjagreiðsluþátttökukerfisins.
    Í umsögn embættis landlæknis komu fram sjónarmið um að sá gagnagrunnur skarist á við lyfjagagnagrunn embættis landlæknis og að ætlunin sé að afrita lyfjagagnagrunn embættis landlæknis inn í gagnagrunn Sjúkratrygginga. Þá var á það bent að lyfjalög heimiluðu miðlun upplýsinga frá embættinu til Sjúkratrygginga og að hægt væri að komast hjá því að byggja upp tvo sambærilega gagnagrunna. Í umsögn Persónuverndar eru auk þess gerðar athugasemdir við þessa tilhögun og kemur fram í umsögn stofnunarinnar að forðast ætti skráningu upplýsinga á fleiri en einum stað að þarflausu.
    Í minnisblaði frá ráðuneytinu til nefndarinnar er leitast við að svara framangreindum athugasemdum. Þar kemur fram að bæði tilgangur söfnunar og skráning upplýsinga í gegnum gagnagrunnana sé ólíkur eftir því hvort um er ræða vinnslu hjá Sjúkratryggingum eða embætti landlæknis og eru það m.a. ástæðurnar fyrir því að lagt er til að heimilt verði að starfrækja tvo gagnagrunna. Þá eiga við sjónarmið um aðskilnað og upplýsingaöryggi, og rétta skráningu og söfnun. Því telur meiri hlutinn ekki forsendur til þess að leggja til breytingar á 12. gr. frumvarpsins hvað þetta varðar.

Breytingartillögur.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins, þ.e. að lögin taki gildi 1. nóvember 2025 í stað 1. september 2025 líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu svo að svigrúm gefist til undirbúnings við framkvæmd laganna.
    Þá eru lagðar til lagatæknilegar breytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      B-liður 6. gr. orðist svo: Í stað orðanna „áður en bóta er óskað“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: áður en sótt er um réttindi eða réttindagreiðslna óskað.
     2.      Orðin „því að sjúkratryggingar“ í 3. mgr. 9. gr. falli brott.
     3.      Við 12. gr.
                  a.      Orðin „úr umsókn“ í 1. málsl. 2. mgr. falli brott.
                  b.      Í stað orðsins „gagnagrunni“ í 3. mgr. komi: gagnagrunninum.
     4.      Við 13. gr.
                  a.      Í stað orðsins „gagnagrunni“ í 1. málsl. c-liðar komi: gagnagrunninum.
                  b.      Í stað orðanna „gagnagrunnum sjúkratryggingastofnunar“ í 2. málsl. c-liðar komi: gagnagrunninum.
     5.      D-liður 20. gr. orðist svo: Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Ofgreiðslur og vangreiðslur.
     6.      Í stað orðanna „úr atvinnuleysisskrá sem Vinnumálastofnun heldur“ í 2. málsl. 22. gr. komi: frá Vinnumálastofnun um þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur.
     7.      B-liður 29. gr. orðist svo: 2. og 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
     8.      Á eftir orðinu „bráðabirgða“ í 31. gr. komi: I-IV.
     9.      Í stað dagsetningarinnar „1. september 2025“ í 32. gr. komi: 1. nóvember 2025.

Alþingi, 23. maí 2025.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, frsm. Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir,
form.
Aðalsteinn Leifsson.
Sigurjón Þórðarson. Sigurþóra Steinunn Bergsdóttir.