Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 117 — 117. mál.
Beiðni um skýrslu
frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar.
Frá Njáli Trausta Friðbertssyni, Ólafi Adolfssyni, Vilhjálmi Árnasyni, Jóni Pétri Zimsen, Bergþóri Ólasyni, Þórarni Inga Péturssyni, Sigríði Á. Andersen, Ingibjörgu Davíðsdóttur og Ingibjörgu Isaksen.
Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flytji Alþingi skýrslu um framkvæmd Samgöngustofu við lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar og viðbrögð Reykjavíkurborgar við erindum stofnunarinnar, m.a. með tilliti til meginreglna stjórnsýsluréttar. Í skýrslunni verði fjallað um eftirfarandi atriði:
1. Samskipti Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu, Isavia og eftir atvikum annarra aðila í aðdraganda lokunar flugbrautarinnar og tímalínu málsins frá undirritun samkomulags ríkisins og Reykjavíkurborgar um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli frá 19. apríl 2013.
2. Verklag og verklagsreglur Samgöngustofu og Isavia við lokun flugbrauta.
3. Hvort verklag Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia í aðdraganda lokunarinnar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
4. Hvort Reykjavíkurborg hafi fylgt skipulagsreglum um Reykjavíkurflugvöll frá árinu 2009.
5. Hvort framkvæmd lokunar flugbrautarinnar og háttsemi Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia hafi verið í samræmi við ákvæði laga um loftferðir, nr. 80/2022, m.a. með tilliti til flugöryggis og almannaöryggis.
6. Hvort samningsaðilar hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar um fellingu trjáa í Öskjuhlíð.
7. Hvernig staðið var að skipun starfshóps vegna setningar skipulagsreglna fyrir Reykjavíkurflugvöll, sbr. 1. mgr. 147. gr. laga um loftferðir, nr. 80/2022, og hvernig vinnu starfshópsins hefur miðað.
Greinargerð.
Ástand það sem skapaðist aðfaranótt 8. febrúar sl., þegar austur/vesturbraut Reykjavíkurflugvallar var lokuð fyrir lendingar, hefur vakið óhug meðal almennings. Eftir þá lokun er einungis hægt að lenda á norður/suðurbrautinni en sjúkraflugvélar Norlandair lentu í fyrra í 25% tilfella á austur/vesturbrautinni. Lokun flugbrautarinnar hefur sett sjúkraflug í landinu í alvarlega stöðu. Lokunin er til komin vegna þess að ekki hefur mátt fella tré í Öskjuhlíð. Borgaryfirvöld hafa vitað af þessu vandamáli í a.m.k. áratug en hafa látið hjá líða að grípa til aðgerða í samræmi við samkomulag við ríkið. Um grundvallarhagsmuni er að ræða sem varða öryggi landsmanna en 4. mgr. 150. gr. laga nr. 80/2022, um loftferðir, kveður á um skýrar heimildir Samgöngustofu sem hægt hefði verið að grípa til til að takast á við þá alvarlegu stöðu sem nú er uppi.
Mikilvægt er að brugðist verði hratt og örugglega við lokun austur/vesturbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli. Flutningsmenn telja eðlilegt að tekin verði saman skýrsla um það hvernig lokunin atvikaðist og hvort almannaöryggis hafi verið gætt í því ferli.