Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 171 — 116. mál.
Svar
mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Jóni Gnarr um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda og Háholt í Skagafirði.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
1. Hefur ráðherra skoðað möguleika á því að hefja rekstur á meðferðarheimili fyrir börn í Háholti í Skagafirði og endurvekja starfsemi þar sem hægt væri að vista allt að fimm einstaklinga?
2. Hefur farið fram mat á kostum og göllum þeirrar aðstöðu sem er í Háholti, m.a. með hliðsjón af niðurstöðum sem birtar voru í skýrslu stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda frá árinu 2023?
Mikilvægt er að stefna stjórnvalda í málaflokknum miði að því að tryggja börnum með fjölþættan vanda viðeigandi meðferð og úrræði sem mæta þörfum þeirra. Almennt hefur verið lögð á það áhersla að mæta þörfum barna fyrir stuðning og þjónustu í nærumhverfi þeirra. Þessi áhersla endurspeglast einnig í lögum, til að mynda í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Börn með fjölþættan vanda, sem þurfa á sérhæfðri meðferð að halda utan heimilis, eru flest búsett á suðvesturhorninu og á það einnig við um þá aðila sem sinna þeirri sérhæfðu og fjölþættu þjónustu sem þau hafa þörf fyrir og eiga rétt á lögum samkvæmt. Leitast er við að taka mið af þeirri staðreynd við skipulag þjónustunnar og uppbyggingu úrræða en samkvæmt upplýsingum frá Barna- og fjölskyldustofu voru 96% barna frá suðvesturhorninu sem voru á meðferðarheimilum á vegum Barna- og fjölskyldustofu á tímabilinu 1. janúar 2024 til 28. febrúar 2025. Frá árinu 2024 voru 87% barna sem vistuð eru utan heimilis á grundvelli 21. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, frá suðvesturhorninu.
Með hliðsjón af framangreindu er það mat ráðherra að hvorki séu forsendur til að hefja rekstur á meðferðarheimili fyrir börn í Háholti í Skagafirði né að fram fari frekara mat á kostum og göllum þeirrar aðstöðu sem þar er.