Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 189  —  115. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Inga Jóhannssyni um löng óverðtryggð lán til íbúðarkaupa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra birta skýrslu um löng óverðtryggð lán til íbúðarkaupa sem þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra lét vinna haustið 2024? Hyggst ráðherra vinna áfram með niðurstöður skýrslunnar?

    Að beiðni þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, sem er fyrirspyrjandi, vann dr. Jón Helgi Egilsson skýrslu um löng óverðtryggð lán til íbúðarkaupa. Skýrslan barst ráðuneytinu í janúar 2025 og þá hafði ný ríkisstjórn tekið við völdum. Ráðuneytið hefur nú birt skýrsluna.
Samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er það fyrsta verk hennar að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta, m.a. með stöðugleikareglu og stöðvun hallareksturs ríkisins. Með auknum trúverðugleika hagstjórnarinnar og lækkun verðbólgu næst stöðugleiki sem stuðlar að því að lækka bæði óverðtryggða og verðtryggða vexti, jafnt til skamms sem langs tíma. Traust hagstjórn er þannig mikilvægasta forsenda þess að bæta kjör íbúðalána.
    Eftir atvikum kunna að koma fram, svo sem í þeirri skýrslu sem fyrirspurnin lýtur að, tillögur annars eðlis sem t.d. snúa beint að húsnæðismarkaðnum. Ráðherra lítur opnum hug hugmyndir sem kunna að koma fram í umræðunni um að bæta kjör neytenda á lánamarkaði, að því marki sem þær eru skynsamlegar og samrýmast ábyrgri stjórn ríkisfjármála og efnahagsmála. Ráðuneytið hyggst t.d. skoða hvort tækifæri séu til þess að auka framboð húsnæðislána með breytingum á ákvæðum laga um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Ráðherra telur það hins vegar ekki koma til greina að ríkissjóður taki í auknum mæli á sig vaxtaáhættu vegna íbúðalána með því að gerast mótaðili í vaxtaskiptasamningum við bankana eins og vakið er máls á í skýrslunni. Reynslan, ekki síst af skuldabréfaútgáfu og lánveitingum Íbúðalánasjóðs, sýnir að slíkar ákvarðanir geta verið áhættusamar og á endanum mjög kostnaðarsamar fyrir samfélagið.