Ferill 112. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 112 — 112. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um fjárhæðir skaðabóta.
Flm.: Guðmundur Ingi Kristinsson, Jónína Björk Óskarsdóttir, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ragnar Þór Ingólfsson, Sigurður Helgi Pálmason, Sigurjón Þórðarson.
Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að leggja fram frumvarp til breytinga á skaðabótalögum, nr. 50/1993, sem tryggi að fjárhæðir bóta samkvæmt lögunum breytist mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verða á launavísitölu. Jafnframt verði í frumvarpinu lagðar til breytingar á hámarksviðmiði árslauna.
Greinargerð.
Í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í verðlagsmælingum verður að teljast brýn þörf á að lögum um skaðabætur verði breytt svo að fjárhæðir þeirra taki breytingum í hlutfalli við breytingar á þeim mælikvörðum sem almennt eru notaðir við mat á verðlagi. Þar koma helst tveir mælikvarðar til skoðunar, annars vegar vísitala neysluverðs og hins vegar launavísitala. Tilgangur skaðabóta er að gera tjónþola eins setta og þeir voru fyrir tjón og miða skaðabótalögin við árslaun í því sambandi, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 7. gr. laganna. Þegar örorka tjónþola er metin til frambúðar er aðallega horft til þess hvaða áhrif örorka hefur á getu hans til að afla tekna. Er því talið eðlilegt að miða við launavísitölu þegar fjárhæðir skaðabóta eru ákvarðaðar til frambúðar. Þegar er miðað við launavísitölu þegar árslaun eru ákvörðuð almennt, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Launavísitalan hefur hækkað umtalsvert meira en vísitala neysluverðs og lánskjaravísitalan frá gildistöku skaðabótalaga. Því veita lögin nú lakari rétt en þau gerðu við gildistöku. Eins hefur hámarksviðmið launa ekki tekið breytingum í langan tíma, því að sú málsgrein laganna, 4. mgr. 7. gr., tekur ekki breytingum til samræmis við vísitöluþróun.
Með tillögu þessari er lagt til að ráðherra verði falið að leggja fram lagafrumvarp sem stuðli að því meginmarkmiði skaðabótalaga að gera tjónþola eins setta og þeir voru fyrir tjón. Lagt er til að í frumvarpinu verði lagðar til breytingar á 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga þess efnis að framvegis muni fjárhæðir þeirra lagaákvæða sem þar eru tilgreind þróast til samræmis við breytingar á launavísitölu. Jafnframt er lagt til að í frumvarpinu verði áréttað að hámarksviðmið árslauna skuli einnig taka breytingum til samræmis við launaþróun, en sú málsgrein laganna sem fjallar um hámarksviðmið árslauna er ekki tiltekin í 15. gr. að því er virðist fyrir mistök við lagabreytingar árið 1999. Þá er einnig lagt til að í frumvarpinu verði áréttað að fjárhæðir laganna skuli breytast til samræmis við launavísitölu eins og hún var ákvörðuð við gildistöku skaðabótalaganna, og er því um að ræða sama viðmið, hvað dagsetningu varðar, og í gildandi lögum. Það er orðið tímabært að endurskoða skaðabótalög með tilliti til vísitöluviðmiða og fjárhæða, og það er von flutningsmanna að sú endurskoðun hefjist sem fyrst.