Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 109 — 109. mál.
Frumvarp til laga
um bardagaíþróttir.
Flm.: Hildur Sverrisdóttir, Vilhjálmur Árnason, Diljá Mist Einarsdóttir.
1. gr.
2. gr.
Leyfi er veitt fyrir einn eða fleiri bardagaíþróttaleiki. Heimilt er að veita leyfi til ákveðins tíma.
Hafi breyting verið gerð á keppnis- eða öryggisreglum bardagaíþróttar eftir að leyfi hefur verið gefið út og leyfishafi vill að nýjum reglum eða reglugerðum verði beitt innan ramma leyfisins skal hann sækja um leyfi að nýju.
Ráðherra sem fer með íþróttamál er heimilt í reglugerð að setja frekari skilyrði fyrir leyfisveitingu.
3. gr.
Umsókn um leyfi skv. 2. gr. skal vera skrifleg og berast eigi síðar en tveimur mánuðum áður en bardagaíþróttaleikur hefst.
Í umsókn um leyfi til að skipuleggja einn eða fleiri bardagaíþróttaleiki skulu koma fram upplýsingar um skipuleggjanda viðburðarins, hvenær og hvar mót eða leikur er haldinn, svo og keppnis- og öryggisreglur bardagaíþróttarinnar sem um ræðir.
Í umsókn um leyfi til að skipuleggja bardagaíþróttir í ákveðinn tíma skulu koma fram upplýsingar um keppnis- og öryggisreglur bardagaíþróttarinnar sem um ræðir og upplýsingar um hvernig eftirliti er háttað innan bardagaíþróttarinnar. Einungis samtök eða félög sem hafa það að markmiði að efla ástundun og keppni í bardagaíþróttum geta hlotið leyfi til skipulagningar bardagakeppni í ákveðinn tíma. Við fyrstu umsókn um leyfi samkvæmt þessari málsgrein skulu einnig fylgja samþykktir fyrir þau samtök eða félag sem sækir um leyfið.
Leyfisveitanda er heimilt að óska eftir frekari gögnum og upplýsingum um leyfisskyldan viðburð sé þess óskað. Jafnframt á leyfisveitandi ávallt rétt á að fá aðgang að bardagaíþróttaleik.
4. gr.
5. gr.
6. gr.
7. gr.
Ef leyfishafi brýtur gegn skyldu sinni til að veita leyfisveitanda upplýsingar og gögn skv. 3. gr. eða synjar honum um aðgang að bardagaíþróttaleik getur leyfisveitandi veitt áminningu eða afturkallað leyfi í heild eða að hluta.
Ákvörðun um afturköllun leyfis tekur þegar í stað gildi nema um annað sé mælt í ákvörðuninni.
8. gr.
Hver sá sem af ásetningi eða gáleysi tekur þátt í bardagaíþróttaleik sem haldinn er án leyfis samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum. Hið sama á við um þann sem:
a. styrkir leikinn eða útvegar honum húsnæði,
b. í starfi umboðsmanns keppanda gerir samning um leikinn eða stuðlar að gerð slíks samnings, eða
c. dæmir slíkan viðburð.
9. gr.
Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um að banna hnefaleika, nr. 92/1956.
10. gr.
Ef líkamsárás er framin í keppnisleik í bardagaíþrótt sem hlotið hefur leyfi samkvæmt lögum um bardagaíþróttir og verknaður varðar við 217. og 218. gr. verður ekki refsað.
Greinargerð.
Með lögum nr. 92/1956 voru hnefaleikar bannaðir og varðar brot gegn ákvæðum laganna sektum. Með lögum nr. 9/2002 voru áhugamannahnefaleikar aftur á móti heimilaðir. Óumdeilt er að grundvallarmunur er til staðar á bardagaíþróttum sem frumvarp þetta tekur til og öðrum tegundum íþrótta, enda hafa þær bardagaíþróttir sem falla undir gildissvið frumvarpsins, til að mynda hnefaleikar og blandaðar bardagaíþróttir, þann tilgang og markmið að keppendur veiti hver öðrum högg eða spörk, m.a. í höfuð. Af því leiðir að umræddar íþróttir eru hættulegri en hefðbundnar íþróttagreinar sem ekki hafa slíkan tilgang. Aftur á móti er það ekki svo að aðrar íþróttagreinar séu hættulausar, enda geta alvarleg slys eða dauðsföll átt sér stað í fjölda íþrótta, þrátt fyrir að markmið þeirra sé ekki að veitast að andstæðingi með höggum eða spörkum. Má þar til að mynda nefna knattspyrnu, hestaíþróttir og akstursíþróttir. Það eitt að þau högg eða spörk sem valdið geta meiðslum við iðkun bardagaíþrótta séu framkvæmd af ásetningi eru ekki haldbær rök fyrir því að banna skuli bardagaíþróttir. Fyrir slasaðan íþróttamann breytir engu hvort meiðslunum hafi verið valdið af ásetningi andstæðingsins eða ekki, hinir líkamlegu áverkar eru þeir sömu óháð huglægri afstöðu andstæðingsins.
Eigi að síður er rétt að líta til sérstöðu bardagaíþrótta við lögleiðingu þeirra. Því er í frumvarpinu lagt til að öll keppni þar sem þátttakendum er gert kleift að sparka eða slá í höfuð andstæðingsins verði háð leyfi hins opinbera. Skilyrði slíkra leyfisveitinga er að keppendum sé tryggt viðunandi öryggi. Jafnframt er mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja leyfisveitingu frekari skilyrði með það í hyggju að tryggja öryggi keppenda.
Ekki er um það deilt að heilsutjón geti hlotist af iðkun bardagaíþrótta, en það eitt og sér réttlætir ekki skerðingu á frelsi einstaklingsins til þess að iðka þá íþrótt sem honum hugnast. Jafnframt ber að hafa í huga að í banni við bardagaíþróttum felst einnig skerðing á atvinnufrelsi fólks, sem nýtur verndar 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, og óheimilt er að takmarka það frelsi nema með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Í ljósi þess að flest vestræn ríki heimila þær bardagaíþróttir sem frumvarp þetta tekur til, m.a. Danmörk og Svíþjóð, er vandséð að almannahagsmunir á Íslandi krefjist þess að þær séu bannaðar, á meðan slíkir almannahagsmunir virðast almennt ekki vera til staðar í öðrum ríkjum. Ekki verður séð að knýjandi rök séu til staðar sem réttlæti fortakslaust bann við þeim bardagaíþróttum sem frumvarp þetta tekur til. Mikilvægt er að stjórnarskrárvarin mannréttindi borgaranna séu ekki takmörkuð frekar en þörf er á og ávallt sé leitast við að tryggja frelsi einstaklinga til athafna. Frumvarp þetta er byggt að miklu leyti á sænskri löggjöf um bardagaíþróttir (Lag 2006:1006 om tillståndsplikt för vissa kampsportsmatcher) sem hefur reynst vel þar í landi og ekki tilefni til annars en að ætla að það sama eigi við á Íslandi.
Um einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Ákvæðið tekur einungis til keppnisleikja. Lögunum er ekki ætlað að breyta því hvernig æfingum er háttað í þeim bardagaíþróttum sem um ræðir.
Um 2. gr.
Heimilt er að veita leyfi fyrir fleiri en einn bardagaleik í sömu leyfisveitingunni. Á það m.a. við um mót. Keppnis- og öryggisreglur mótsins þurfa í meginatriðum að vera þær sömu fyrir alla leiki á viðkomandi móti. Einungis minni háttar frávik mega eiga sér stað. Að öðrum kosti þarf að sækja um leyfi fyrir hvern bardagaleik eða hvern hóp slíkra leikja þar sem sömu reglum er beitt í meginatriðum. Ávallt skal tilgreina hámarksfjölda bardagaleikja sem leyfi á að ná til.
Jafnframt er heimilt að veita samtökum eða félögum leyfi til ákveðins tíma, óháð fjölda bardagaleikja. Þess konar leyfi gerir samtökum eða félögum kleift að skipuleggja bardagaleiki án þess að sækja þurfi um leyfi fyrir hvern einstakan leik. Felur það í sér mikið hagræði, bæði fyrir leyfishafa og leyfisveitanda. Þá er kveðið á um að hafi breyting á keppnis- eða öryggisreglum bardagaíþróttar sem hlotið hefur leyfi verið gerð eftir að leyfið var veitt skuli leyfishafi sækja um að nýju. Leyfishafi ber ábyrgð á því að reglur íþróttarinnar séu í samræmi við þær forsendur sem leyfi var veitt fyrir.
Um 3. gr.
Einungis samtök eða félög sem hafa það að markmiði að efla ástundun og keppni í bardagaíþróttum geta hlotið leyfi til að skipuleggja bardagaíþróttaleiki í tiltekinn tíma eða þar til annað verður tilkynnt. Fyrir útgáfu slíks leyfis er gerð sú krafa að umsækjandi veiti leyfisveitanda upplýsingar um keppnisreglur og öryggisreglur, samþykktir samtakanna eða félagsins og hvernig eftirliti er háttað með þeim bardagaíþróttaleikjum sem skipulagðir eru af samtökunum eða félaginu. Rétt er að túlka ákvæðið rúmt og er ekki gerð sú krafa að efling bardagaíþrótta sé eina eða meginmarkmið félagsins.
Leyfisveitanda er heimilt að kalla eftir viðbótarupplýsingum frá umsækjanda. Slíkar upplýsingar geta til dæmis verið nánari skýringar á þeim upplýsingum sem umsækjandi hefur þegar skilað inn eða upplýsingar um aðild umsækjanda að alþjóðlegum íþróttahreyfingum. Láti umsækjandi hjá líða að veita viðbótarupplýsingar samkvæmt ákvæðinu er leyfisveitanda heimilt að afgreiða umsóknina í núverandi ástandi.
Um 4. gr.
Um 5. gr.
Um 6. gr.
Um 7. gr.
Um 8. gr.
Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um refsiábyrgð þeirra sem hafa beina aðkomu að bardagaíþróttaleik, en teljast þó hvorki skipuleggjendur leiksins né keppendur.
Um 9. gr.
Um 10. gr.