Ferill 107. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 107  —  107. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (framleiðendafélög).

Frá atvinnuvegaráðherra.



1. gr.

    III. kafli laganna fellur brott.

2. gr.

    71. gr. A laganna fellur brott.

3. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða FF í lögunum fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í matvælaráðuneytinu. Með því er lagt til að felldar verði brott þær breytingar sem gerðar voru á búvörulögum, nr. 99/1993, með lögum nr. 30/2024.
    Forsaga málsins er sú að 14. nóvember 2023 var frumvarp þáverandi matvælaráðherra um breytingu á búvörulögum nr. 99/1993 (framleiðendafélög) lagt fyrir Alþingi. Með frumvarpinu var lagt til að heimila fyrirtækjum í eigu eða undir meirihlutastjórn frumframleiðenda (þ.e. bænda) að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að félag gæti talist til framleiðendafélags ef frumframleiðendur réðu að lágmarki yfir 51% atkvæða í félaginu. Einkum var horft til reglna ESB á þessu sviði og með frumvarpinu var stefnt að því að styrkja stöðu frumframleiðenda búvara og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar.
    Framangreint frumvarp frá 2023 var í samræmi við þingsályktun um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, nr. 21/153, sem samþykkt var á Alþingi 1. júní 2023. Í lið 6.2 er tilgreint að tryggt verði með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum þar sem starfað er samkvæmt EES-löggjöf. Við undirbúning málsins var löggjöf ESB um framleiðendafélög skoðuð og fundað með fulltrúum finnskra stjórnvalda til að fara yfir framkvæmdina þar í landi, auk þess sem leitað var svara um sama efni hjá stjórnvöldum í Danmörku og Svíþjóð.
    Í áhrifamatskafla frumvarpsins eins og það var lagt fram, sagði m.a. að afkoma bænda af framleiðslu matvæla endurspeglaði ekki valdastöðu þeirra innan virðiskeðjunnar. Innlendar afurðastöðvar væru til að mynda að nokkru eða verulegu leyti í eigu bænda þótt það væri misjafnt eftir fyrirtækjum, en ekki væri hægt að fullyrða um að afurðastöðvarnar uppfylltu skilyrði sem frumvarpið fæli í sér án breytinga. Í einhverjum tilvikum þyrfti að endurskipuleggja þær til að uppfylla skilyrðin, ekki síst til að tryggja að þær væru undir stjórn frumframleiðenda. Hugsunin var ekki að haga löggjöfinni þannig að hún félli að starfandi afurðastöðvum án breytinga, heldur yrði þeim gert kleift að nýta sér undanþáguna ef tryggt væri að þær væru undir stjórn frumframleiðenda og gætu þá talist til framleiðendafélaga.
    Frumvarpið tók gagngerum breytingum í þinglegri meðferð og birtist nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar með breytingartillögum á vef Alþingis 18. mars 2024. Frumvarpið var síðan á dagskrá þingfundar strax daginn eftir, 19. mars. Mikil umræða skapaðist í samfélaginu vegna málsins og sendu Samkeppniseftirlitið, Félag atvinnurekenda (FA), VR, Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ), ASÍ og Neytendasamtökin frá sér ýmist yfirlýsingar eða umsagnir vegna frumvarpsins. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins, dags. 20. mars 2024, kom m.a. fram að með þeim breytingartillögum sem fram kæmu í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar hefðu efnisákvæði upphaflegs frumvarps verið endur skrifuð að öllu leyti.
    Mat Samkeppniseftirlitsins var að með þessum breytingum myndu íslenskar afurðastöðvar búa við undanþágur frá samkeppnislögum sem hvergi þekktust í nágrannaríkjum. Í ljósi þeirra alvarlegu afleiðinga sem samþykkt frumvarpsins hefði, taldi Samkeppniseftirlitið óhjákvæmilegt að nefndin myndi kalla að nýju eftir umsögnum hagsmunaaðila. Í því sambandi vakti Samkeppniseftirlitið m.a. athygli á því að frumvarpið kynni að hafa áhrif á forsendur þá nýgerðra kjarasamninga. Í sameiginlegri umsögn VR, Neytendasamtakanna, SVÞ og FA, dags. 21. mars 2024, var varað eindregið við samþykkt frumvarpsins. Þar kom einnig fram að um nýtt frumvarp væri að ræða sem gengi mun lengra en það upphaflega. Líklegar afleiðingar samþykktar frumvarpsins yrðu verðhækkanir á kjötvörum og þar með aukin verðbólga. Þá væri það ótækt ef fyrsta lagabreyting stjórnvalda eftir undirritun kjarasamninga og útgáfu yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar vegna þeirra yrði samþykkt þessa frumvarps, sem gengi gegn hagsmunum neytenda, launþega og verslunar. Þess var krafist að frumvarpið yrði dregið til baka. Enn fremur gaf ASÍ út yfirlýsingu vegna málsins og taldi frumvarpið aðför að kjörum fólks í landinu og að sú framganga sem frumvarpið heimilaði teldist ólögmæt og refsiverð í öðrum atvinnugreinum. Þá kom fram að ASÍ teldi alla meðferð málsins með miklum ólíkindum og hvatti þingmenn til að huga að afleiðingum gjörða sinna.
    Málið var þrátt fyrir framangreint afgreitt hratt á Alþingi, þ.e. með breytingartillögum meiri hluta atvinnuveganefndar, og samþykkt sem lög 21. mars 2024. Frá því að meiri hluti atvinnuveganefndar afgreiddi málið til 2. umræðu með nefndaráliti og breytingartillögu og þar til frumvarpið var afgreitt sem lög frá Alþingi liðu tæplega þrír sólarhringar.
    Sérfræðingar matvælaráðuneytisins voru ekki kallaðir til við þinglega meðferð málsins. Í ljósi athugunar í ráðuneytinu á breytingum sem gerðar voru í meðförum þingsins og ábendingum sem bárust ráðuneytinu í kjölfar samþykktar laganna ákvað þáverandi matvælaráðherra að koma tilteknum athugasemdum á framfæri við atvinnuveganefnd þingsins. Erindi var sent til nefndarinnar 8. apríl 2024. Markmiði upphaflegs frumvarps var lýst og tekið fram að við vinnslu þess hefði verið horft til annarra Norðurlanda en Noregs, þar sem fyrirkomulag mála þar væri ólíkt og hefði útheimt umfangsmeiri lagasetningu. Vísað var til þess að áhersla hefði verið lögð á að tryggt væri með löggjöf að innlendir framleiðendur hefðu ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndunum þar sem starfað væri samkvæmt EES-löggjöf, í samræmi við áherslur landbúnaðarstefnu. Þá var vísað til þess að víðtækari undanþágur frá samkeppnislöggjöf en hið upphaflega frumvarp fól í sér gætu gengið gegn ákvæðum EES-samningsins.
    Með þeim breytingum sem gerðar höfðu verið á frumvarpinu væri gengið mun lengra en hið upphaflega frumvarp gerði ráð fyrir. Gerð var sérstök athugasemd við að svonefnt samrunaeftirlit væri undanþegið, sem þekkist ekki í nágrannalöndum, og að ekki væri gerð krafa um eignarhald eða stjórn bænda í framleiðendafélögum. Margvíslegir aðilar sem jafnvel stundi fjölbreytta starfsemi, til dæmis innflutning landbúnaðarafurða eða rekstur sem falli ekki undir landbúnað, gætu fallið þar undir að mati ráðuneytisins. Ekkert væri fjallað um fjárhagslegan aðskilnað framleiðendafélags frá annarri starfsemi. Misræmi í lagatexta og lögskýringargögnum hvað þetta varðar væri óheppilegt og hefði það valdið misskilningi í opinberri umræðu um málið. Væri þess kostur, teldi ráðuneytið æskilegt að gerðar yrðu leiðréttingar á nefndaráliti nefndarinnar eða leiðréttum upplýsingum komið á framfæri með öðrum hætti.
    Þá var gerð athugasemd við að ekki væri útfært í lögunum hvernig eftirlit Samkeppniseftirlitsins ætti að fara fram, auk þess að óljóst væri til hvaða úrræða eftirlitið gæti gripið ef fyrirtæki fullnægðu ekki skilyrðum laganna. Af hálfu ráðuneytisins voru athugasemdir Samkeppniseftirlitsins jafnframt raktar og þess getið að ráðuneytið teldi að æskilegt hefði verið að skoða hvort þörf væri á varnöglum í lögunum til að gæta að hagsmunum bænda og neytenda. Þá tók ráðuneytið undir áhyggjur Samkeppniseftirlitsins um áhrif laganna gagnvart skuldbindingum samkvæmt EES-reglum, einkum 53. gr. EES-samningsins.
    Hinn 18. nóvember 2024 var dómur kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur (mál nr. E-4202/2024) í máli sem Innnes ehf. hafði höfðað gegn Samkeppniseftirlitinu. Samkeppniseftirlitið hafði synjað beiðni um íhlutun gagnvart háttsemi svokallaðra framleiðendafélaga vegna undanþáguheimilda sem settar hefðu verið með gildandi 71. gr. A búvörulaga nr. 99/1993, sbr. lög nr. 30/2024. Samkeppniseftirlitið byggði sýknukröfu sína á því að það væri utan valdsviðs síns að grípa til íhlutunar gagnvart háttsemi framleiðendafélaga sem undanþáguheimildir 71. gr. A búvörulaga giltu um. Vegna þeirra undanþága frá samkeppnislögum sem framleiðendafélög nytu samkvæmt ákvæðum búvörulaga, þar með taldar kjötafurðastöðvar, hafi verið óhjákvæmilegt fyrir eftirlitið að hafna kröfum í erindi stefnanda.
    Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á dómkröfu stefnanda og felldi úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Í niðurstöðukafla héraðsdóms er fjallað um það að í málinu reyni fyrst og fremst á stjórnskipulegt gildi laga nr. 30/2024 sem fólu í sér breytingar á búvörulögum, nr. 99/1993. Til úrlausnar sé hvort formskilyrðum 44. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sé fullnægt sem hljóði svo: „Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.“ Stjórnarskrárákvæðið kveði þannig afdráttarlaust á um tilgreindan umræðufjölda sem gildisskilyrði. Þrjár umræður verði að fara fram áður en samþykkja megi frumvarp sem lög frá Alþingi. Ákvæði þetta sé efnislega óbreytt frá því að stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands frá 5. janúar 1874 hafi verið sett.
    Fram kemur að með upphaflega frumvarpinu hafi verið, samkvæmt lögskýringargögnum, stefnt að því að efla hagsmuni bænda. Lagabreytingin eins og hún hafi verið samþykkt á Alþingi, eftir breytingar atvinnuveganefndar, sé hins vegar í þágu afurðastöðva með það að markmiði að efla rekstrarskilyrði þeirra, með samstarfi, samruna og því að reyna að nýta þann samtakamátt sem geti falist í því þegar svona fyrirtæki vinni saman. Augljóst sé að ólíkir aðilar njóti góðs af. Þá sé efni þeirra réttinda sem væru til umfjöllunar í lagafrumvörpunum hvort af sínu og ólíku tagi og undanþágur frá samkeppnisreglum allt aðrar og miklu meiri. Þannig hafi verið ráðgert í upphaflega frumvarpinu, eins og rakið hafi verið í athugasemdum með því, að bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu sem og samrunareglur og -eftirlit samkeppnisréttar myndu gilda fullum fetum, sem ekki eigi við eftir breytingar sem gerðar voru við þinglega meðferð málsins. Þá verði einnig að horfa til þess að afmörkun þess hóps sem njóti góðs af þessari breytingu sé miklu rýmri en þegar frumvarpið hafi tekið einungis til frumframleiðenda, bænda. Afdráttarlaust væri að bændur áttu að njóta góðs af upphaflega frumvarpinu.
    Þegar horft væri til þessara gagngeru breytinga sem gerðar hefðu verið á frumvarpi matvælaráðherra blasi við sú ályktun að í raun hafi frumvarpið, sem útbýtt hefði verið á Alþingi 14. nóvember 2023, einungis hlotið eina umræðu á Alþingi sem fram hafi farið 21. nóvember sama ár. Annað eðlisólíkt frumvarp í samræmi við tillögur atvinnuveganefndar hafi svo verið rætt við tvær umræður, 20. og 21. mars 2024. Áskildum fjölda umræðna skv. 44. gr. stjórnarskrárinnar hafi þannig ekki verið náð. Sú breyting sem gerð hafi verið á búvörulögum og samþykkt á Alþingi 21. mars og gefin út sem lög nr. 30/2024, 5. apríl 2024, hafi ekki verið sett á stjórnskipulegan hátt þar sem hún stríði gegn stjórnarskrá og hafi af þeim sökum ekki lagagildi. Breyting þessi stæði þannig ekki í vegi fyrir því að Samkeppniseftirlitið tæki erindi Innnes ehf. til úrlausnar í samræmi við lögbundið hlutverk sitt skv. 8. gr. samkeppnislaga. Með ákvörðun Hæstaréttar í máli nr. 2024-151 var Samkeppniseftirlitinu veitt heimild til að áfrýja umræddum héraðsdómi beint til Hæstaréttar.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með frumvarpinu er brugðist við þeirri stöðu sem upp er komin og þeim ábendingum sem ráðuneytinu hafa borist í kjölfar þess að Alþingi samþykkti lög nr. 30/2024. Í erindi Samkeppniseftirlitsins til matvælaráðherra, dags. 20. mars 2024, kemur fram að þær heimildir sem veittar voru með lögum nr. 30/2024 gangi lengra en þekkist í nágrannalöndum og stríði gegn markmiðum samkeppnislaga, sbr. 18. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu skal Samkeppniseftirlitið vekja athygli ráðherra á því ef stofnunin telur að ákvæði laga eða stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laganna eða torveldi frjálsa samkeppni í viðskiptum. Með vísan til ákvæðisins beindi eftirlitið því til matvælaráðherra að beita sér fyrir því að frumvarpið yrði tekið til ítarlegrar skoðunar, áhrif þess á bændur og neytendur metin og viðeigandi breytingar gerðar. Líkt og fyrr segir, var umrætt frumvarp í breyttri mynd samþykkt daginn eftir, þ.e. 21. mars 2024. Einnig hefur Samkeppniseftirlitið sett fram þá skoðun sína að umrædd lög uppfylli ekki þær skuldbindingar sem íslenska ríkið hafi undirgengist og leiða megi af EES-samningnum. Ljóst sé að undanþáguheimildirnar í núverandi mynd komi í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd og dómstólar geti beitt ákvæðum 53. gr. EES-samningsins þegar um sé að ræða vörur og/eða þjónustu sem falli innan gildissviðs EES-samningsins. Enn fremur bendir Samkeppniseftirlitið á að eftirlitið hafi engin úrræði til að sinna því eftirliti sem því er þó falið að sinna skv. 3. mgr. 71. gr. A búvörulaga. Þeim heimildum sem eftirlitið hafi samkvæmt samkeppnislögum verði ekki beitt vegna eftirlits með 2. mgr. ákvæðisins, enda skorti heimildir til þess í búvörulögum. Þar með skorti lagagrundvöll fyrir eftirliti Samkeppniseftirlitsins.
    Hinn 2. apríl 2024 barst matvælaráðherra sameiginlegt erindi frá Neytendasamtökunum, Félagi atvinnurekenda og VR. Í erindinu kemur fram að það sé mat framangreindra samtaka að ráðherra beri við þessar aðstæður augljós skylda til að aðhafast tafarlaust að eigin frumkvæði til að tryggja að lagasetningin sé í samræmi við EES-samninginn, að mat á áhrifum lagasetningarinnar sé í samræmi við reglur ríkisstjórnarinnar sjálfrar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna og að meðferð Alþingis á málinu sé í samræmi við stjórnarskrá. Beinast liggi við að ráðherra beiti sér fyrir því að umrædd breytingalög verði felld úr gildi. Athafnaleysi í málinu sé líklegt til að skaða hagsmuni neytenda, launþega og verslunar í landinu.
    Í 10. og 12. gr. samkeppnislaga koma fram reglur um almennt bann við samningum milli fyrirtækja sem leiða til takmörkunar samkeppni. Í 15. gr. laganna koma fram undanþágur frá bannreglum 10. og 12. gr. að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í 17. gr. laganna er samruni fyrirtækja skilgreindur og í 17. gr. a – 17. gr. e koma fram reglur um samrunaeftirlit, þ.e. hvenær tilkynna beri samruna til Samkeppniseftirlitsins, hvernig málsmeðferð þess um samruna skuli háttað og til hvaða aðgerða eftirlitið getur gripið, telji það verulegar líkur á að samruni hindri virka samkeppni.
    Með frumvarpi því sem matvælaráðherra lagði fram og útbýtt var á Alþingi 14. nóvember 2023 var lagt til að samningar frumframleiðenda landbúnaðarafurða eða félaga þeirra, sem uppfylltu ákveðin skilyrði, yrðu undanþegnir bannákvæðum 10. og 12. gr. samkeppnislaga, án tillits til þess hvort skilyrði 15. gr. laganna væru uppfyllt. Ekki var gert ráð fyrir undanþágum frá ákvæðum laganna um samrunaeftirlit. Það frumvarp sem Alþingi samþykkti 21. mars 2024 veitir aftur á móti slíka undanþágu og gerir félögum sem undir lögin falla kleift að sameinast án þess að ákvæði samkeppnislaga um samrunaeftirlit virkist. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins þekkjast svo víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum ekki annars staðar í Evrópu. Að auki var gildissvið undanþágunnar rýmkað þannig að undir hana féllu ekki lengur aðeins félög að meiri hluta undir stjórn bænda, líkt og upphaflegt frumvarp gerði ráð fyrir, heldur öll félög, og samtök félaga, sem eru fyrstu framleiðendur kjötafurða og afleiddra afurða og annast slátrun og/eða vinnslu kjötafurða og afleiddra afurða. Líkt og bent hefur verið á, m.a. í sameiginlegri umsögn SVÞ, Félags atvinnurekenda, Neytendasamtakanna og VR til atvinnuveganefndar Alþingis, dags. 21. mars 2024, eru með þessum breytingum engar hömlur á að afurðastöðvar fyrirtækja sameinist og komi á einokun. Þau geti þannig öðlast stjórn á verði þeirra afurða sem bændur útvega, sem og verðlagningu til neytenda, án aðhalds samkeppninnar eða annarra úrræða á borð við opinberar verðlagsákvarðanir eins og þekkist í mjólkuriðnaði.
    Þau skaðlegu áhrif sem hlotist geta af þeim efnislegu breytingum sem felast í lögum nr. 30/2024 beinast bæði að bændum og neytendum. Engar mótvægisaðgerðir eru því til fyrirstöðu að hinar víðtæku undanþágur frá samkeppnislögum bitni á þeim hagsmunum sem lögunum er ætlað að vernda. Löggjöfin er jafnframt haldin þeim ágalla að því eftirliti sem Samkeppniseftirlitinu er ætlað að sinna, sbr. 2. og 3. mgr. 71. gr. A búvörulaga, fylgja engar viðeigandi valdheimildir til rannsókna eða íhlutunar og er eftirlitið því marklaust. Auk þessa ríkir vafi um að breytingarnar fái samræmst skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum, líkt og nánar er vikið að í 4. kafla. Loks er óvissa um stjórnskipulegt gildi lagasetningarinnar, sbr. dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4202/2024, en þegar frumvarp þetta er lagt fram er beðið eftir niðurstöðu Hæstaréttar um þann þátt.
    Í ljósi framangreinds er nauðsynlegt að leggja til lagabreytingu sem færir búvörulög aftur til fyrra horfs, fyrir setningu laga nr. 30/2024. Samhliða því stendur yfir vinna við nýtt lagafrumvarp sem miðar að því að tryggja að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en gengur og gerist í nágrannalöndum, líkt og markmiðið var með frumvarpi matvælaráðherra frá 14. nóvember 2023 og í samræmi við landbúnaðarstefnu til ársins 2040, sbr. þingsályktun nr. 21/153. Við þá vinnu verða m.a. teknar til skoðunar þær athugasemdir sem borist höfðu atvinnuveganefnd áður en breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar við frumvarpið kom fram.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru felldar brott þær breytingar sem gerðar voru á búvörulögum með lögum nr. 30/2024. Þar með verða felld úr gildi ákvæði er varða svokölluð framleiðendafélög og undanþágur slíkra félaga eins og þau eru skilgreind samkvæmt framangreindum lögum frá ákvæðum samkeppnislaga.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þykir vera í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegra skuldbindingar. Eins og greinir í 1. kafla greinargerðar var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-4202/2024. Í niðurstöðukafla dómsins er því slegið föstu að í ljósi þeirra gagngeru breytinga sem gerðar voru á frumvarpi matvælaráðherra, sem útbýtt hafi verið á Alþingi 14. nóvember 2023, hafi það frumvarp í raun og veru einungis hlotið eina umræðu á Alþingi sem fram hafi farið 21. nóvember sama ár. Annað eðlisólíkt frumvarp í samræmi við tillögur meiri hluta atvinnuveganefndar hafi svo verið rætt við tvær umræður, 20. og 21. mars 2024. Áskildum fjölda umræðna skv. 44. gr. stjórnarskrárinnar hafi þannig ekki verið náð. Sú breyting sem gerð hafi verið á búvörulögum og samþykkt á Alþingi 21. mars og gefin út sem lög nr. 30/2024, 5. apríl 2024, hafi þar með ekki verið sett á stjórnskipulegan hátt þar sem hún stríði gegn stjórnarskrá og hafi af þeim sökum ekki lagagildi. Þær breytingar sem lagðar eru til með þessu frumvarpi, þ.e. að fella brott þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 30/2024, eru með vísan til framangreinds í samræmi við stjórnarskrá.
    Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. EES-samningsins eru ákveðnir þættir landbúnaðarframleiðslu undanskildir gildissviði samningsins. Íslensk stjórnvöld hafa því frelsi til að setja eigin reglur um landbúnaðarafurðir sem eru undanskildar gildissviði samningsins, eins og fram kemur í áliti sem dr. Carl Baudenbacher vann fyrir Samtök fyrirtækja í landbúnaði og birt var í júní 2024. Þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 30/2024 hafa þó verið til skoðunar hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Þá hefur Samkeppniseftirlitið haldið því fram, m.a. í erindi til matvælaráðuneytisins, dags. 19. júní 2024, að umrædd lög uppfylli ekki þær skuldbindingar sem íslenska ríkið hafi undirgengist og leiða megi af EES-samningnum. Í ljósi þess að frumvarp þetta felur í sér að fella úr gildi þær heimildir sem felast í umræddum lögum, er vafalaust að það samræmist alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

5. Samráð.
    Málið á sér langan aðdraganda og forsögu en vísað er til umfjöllunar í 1. kafla greinargerðar þessarar hvað það varðar. Ekki er fyrirhugað að viðhafa almennt samráð um þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu en talsvert samráð hefur þegar átt sér stað um málið undanfarin misseri og í aðdraganda lagasetningarinnar. Þá hefur því verið slegið föstu með fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að þau ákvæði sem lagt er til að felld verði brott stríði gegn stjórnarskrá þar sem þau hafi ekki verið sett á stjórnskipulegan hátt og hafi af þeim sökum ekki lagagildi.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst bændur, framleiðendafélög og neytendur. Þá varðar málið jafnframt alla landsmenn þar sem mikilvægt er að ekki leiki vafi á stjórnskipulegu gildi laga. Innan ráðuneytisins liggja ekki fyrir upplýsingar um heildaráhrif laga nr. 30/2024 frá því að lögin voru samþykkt á Alþingi í mars 2024. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafa félög ráðist í aðgerðir á grundvelli laganna og m.a. var samruni sláturfélaga á Norðurlandi fyrirhugaður.
    Talið er að áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu hafi lítil sem engin áhrif á stöðu kynjanna. Ekki þótti ástæða til að framkvæma sérstakt jafnréttismat.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki kalla á aukin útgjöld ríkissjóðs. Þá er talið að frumvarpið hafi ekki áhrif á tekjur eða eignir ríkissjóðs.