Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 325, 156. löggjafarþing 100. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir (EES-reglur, einnota plastvörur).
Lög nr. 14 5. apríl 2025.

Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (EES-reglur, einnota plastvörur).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. g laganna:
  1. Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Eftirfarandi einnota plastvörur sem eru með tappa eða lok úr plasti er einungis heimilt að setja á markað ef tapparnir og lokin eru áfram föst við vörurnar meðan á tilætlaðri notkun þeirra stendur: drykkjarílát að rúmmáli allt að þremur lítrum sem eru notuð undir vökva, þ.m.t. tappar þeirra og lok, svo sem flöskur fyrir drykkjarvörur og samsettar umbúðir fyrir drykkjarvörur. Ákvæði þetta tekur ekki til bolla og glasa fyrir drykkjarvörur, drykkjaríláta úr gleri eða málmi sem eru með tappa eða lok úr plasti, drykkjaríláta sem eru ætluð fyrir og notuð undir matvæli sem eru í vökvaformi og notuð í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi eða til tappa eða loka úr málmi sem eru með innsigli úr plasti.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Gerð og samsetning einnota plastvara.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á XX. kafla laganna:
  1. Við bætist ný grein, 72. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
  2. Innleiðing.
         Lög þessi fela í sér innleiðingu á 1. mgr. 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið eins og hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 240/2021 frá 24. september 2021.
  3. Fyrirsögn kaflans verður: Innleiðing og gildistaka.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2025.

Samþykkt á Alþingi 31. mars 2025.