Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


156. löggjafarþing 2025.
Þingskjal 219  —  100. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (EES-reglur, einnota plastvörur).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Félagi atvinnurekenda.
    Nefndinni bárust tvær umsagnir auk minnisblaðs frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu sem aðgengilegt er undir málinu á vef Alþingis.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og með þeim er lokið innleiðingu á tilskipun (ESB) 2019/904 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Frumvarpið er lagt fram til að uppfylla skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist með aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en innleiða bar tilskipunina fyrir 3. júlí 2024. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn í september 2021 en þá þegar hafði stærstur hluti hennar verið innleiddur í íslenskan rétt, með lögum nr. 90/2020 og nr. 103/2021. Í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að um sé að ræða hreint innleiðingarfrumvarp sem feli einungis í sér þær breytingar sem nauðsynlegar séu til að innleiða þær lágmarkskröfur sem kveðið er á um í áðurnefndu ákvæði tilskipunarinnar. Ekki sé gengið lengra en gerðin kveður á um.
    Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að innleiða efni 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar með breytingu á 37. gr. g í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ákvæðið mælir fyrir um gerð og samsetningu tiltekinna einnota plastvara að því leyti að einungis megi setja einnota drykkjarílát og -umbúðir úr plasti með tappa eða lok úr plasti á markað ef tappinn eða lokið er áfast vörunni á meðan fyrirhuguð notkun hennar stendur yfir, sbr. einnig viðauka C við tilskipunina. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að tappar og lok af einnota drykkjarílátum og -umbúðum endi á víðavangi og úti í umhverfinu. Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarpsins eru tappar og lok einn af tíu algengustu flokkum rusls sem finnast á ströndum Íslands. Plasthlutir sem endi úti í umhverfinu mengi haf og strendur og séu tappar og lok úr plasti stór hluti vandans. Fyrir nefndinni kom einnig fram að þekkt er að örplast komist inn í líkamann um meltingarveg, öndunarveg og að einhverju leyti um húð og bendi rannsóknir til að plastagnir hafi mögulega skaðleg áhrif á heilsu fólks. Að mati meiri hlutans er til mikils að vinna að draga úr þessari mengun eftir fremsta megni.
    Í þeim umsögnum sem bárust vegna málsins var stuðningi lýst við efni frumvarpsins og markmið þess um að draga úr plastmengun. Fram kom að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu hafi lítil áhrif enda hafi drykkjarvöruframleiðendur uppfært tækjakost sinn og flestar þeirra vara sem ákvæðið tekur til þegar seldar hér á landi með áföstu loki eða töppum. Mikilvægt sé hins vegar að lögfesta ákvæðið svo að fyrirtæki sem flytji inn slíkar vörur frá innri markaði EES sitji við sama borð, enda hafi tilskipunin þegar verið tekin upp í EES- samninginn. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom jafnframt fram að allar innfluttar vörur sem falla undir ákvæðið þurfa að uppfylla skilyrði þess, óháð því hvort þær eru framleiddar innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Breytingartillaga.
    Lögð er til ein breytingartillaga sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið. Tillagan snýr að breytingu á orðalagi í 1. málsl. a-liðar 1. gr. frumvarpsins. Þrátt fyrir að það orðalag sem sett er fram í framangreindu ákvæði frumvarpsins, um „fyrirhugaða notkun“ vöru, sé samhljóða 1. mgr. 6. gr. íslenskrar útgáfu EES-gerðarinnar telur meiri hlutinn orðalagið „tilætluð notkun“ nær merkingu hinnar ensku útgáfu gerðarinnar, þ.e. „intended use“ og leggur til breytingu þess efnis.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „á meðan fyrirhuguð notkun á þeim stendur yfir“ í 1. málsl. a-liðar 1. gr. komi: meðan á tilætlaðri notkun þeirra stendur.

    Halla Hrund Logadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.

Alþingi, 20. mars 2025.

Guðbrandur Einarsson,
form.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir,
frsm.
Dagur B. Eggertsson.
Halla Hrund Logadóttir. Jónína Björk Óskarsdóttir. Ólafur Adolfsson.
Sigurður Helgi Pálmason.