Ferill 998. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2161  —  998. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um gervigreind.


    Fámenni Íslands og mikið stafrænt læsi gera það að verkum að íslenskt samfélag er í einstakri stöðu til að nýta gervigreind þvert á opinbera þjónustu. Þá styðja núverandi stafrænir innviðir og opinber gagnasöfn við þróun gervigreindarlausna, en möguleikar til þess eru háðir aðgangi að fullnægjandi gögnum.
    Við stöndum vel að vígi eins og erlendar úttektir bera vitni um en eigum því miður töluvert í land til að gögn hins opinbera verði betur nýtanleg í þessu skyni og ætti það að vera eitt af okkar forgangsverkefnum að bæta úr því. Þannig þurfa gögn að vera á sambærilegu formi. Einfaldað dæmi, sem er þó lýsandi, er ef kennitala er með bandstriki í einu kerfi en ekki í öðru. Leysa þarf úr því hvernig tæknin getur unnið með og borið saman gögn í slíku tilfelli. Svo vel megi vera skiptir stjórnskipulag gagna og tæknileg viðmið því öllu máli.
    Íslendingar bera mikið traust til opinberrar stjórnsýslu í alþjóðlegum samanburði samkvæmt könnun sem gerð var á vegum OECD. Af því leiðir að á sama tíma og til staðar eru tækifæri til að byggja á þessu trausti og nýta tækninýjungar til að bæta skilvirkni og hagkvæmni í opinberri þjónustu er einkar mikilvægt að forðast breytingar sem eru til þess fallnar að draga úr traustinu. Ráðuneytið hefur því lagt áherslu á að við þorum að taka ákveðin en jafnframt varfærin skref á þessu sviði.
    Ráðuneytið hefur í hlutverki sínu sem ábyrgðaraðili umbóta í ríkisrekstri gefið út leiðbeiningar til opinberra aðila um ábyrga notkun gervigreindar. Leiðbeiningarnar eru unnar í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, innlenda aðila og í samræmi við erlend viðmið. Ráðuneytið mun fylgja þessari leiðsögn eftir með umræðufundi með stærstu þjónustuaðilum hjá ríkinu. Á nýsköpunardegi hins opinbera í vor var einnig lögð áhersla á notkun gervigreindar.

     1.      Hefur ráðherra látið gera úttekt á því með hvaða hætti væri hægt að hagnýta gervigreind í lögbundnum verkefnum ráðherra og stofnana á hans ábyrgð?
    Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að hver stofnun meti tækifærin sem kunna að felast í að hagnýta gervigreind í lögbundnum verkefnum sínum. Ráðuneytið sendi fyrirspurn til sinna stofnana á síðasta ári um hvaða verkefni væru í gangi á sviði gervigreindar. Í svörum stofnana fékk ráðuneytið gott yfirlit um núverandi stöðu mála. Þótt ráðuneytið hafi hins vegar ekki að svo stöddu gert sérstaka úttekt á frekari tækifærum til hagnýtingar gervigreindar hjá sínum stofnunum er það þó í stöðugum samskiptum við stofnanir um umbætur og hagræðingu á þessu sviði sem öðrum.
    Þá hefur ráðuneytið greint notkun gervigreindar hjá ríkisaðilum í heild með könnun sem fram fór í nóvember 2023 en í henni eru svör þó ekki sundurliðuð á einstakar stofnanir. Samkvæmt könnuninni hafa 43% þeirra ríkisaðila sem svöruðu tekið upp gervigreind og 80% sjá möguleika til umbóta í starfsemi með nýtingu gervigreindar. Hefur hlutfallið hækkað töluvert frá 2020 þegar sömu spurningar voru lagðar fyrir en þá höfðu 13% opinberra aðila tekið upp gervigreind og 64% sáu möguleika til að bæta ferla með nýtingu gervigreindar.

     2.      Hvaða tækifæri eru í notkun gervigreindar á einstökum málefnasviðum og hjá stofnunum sem ráðherra ber ábyrgð á?
    Telja má að það séu mörg ónýtt tækifæri hjá hinu opinbera í þessum málum, eins og viðhorf hjá stofnunum bera skýrt merki um.
    Dæmi um notkun gervigreindar hjá stofnunum ráðuneytisins er sjálfvirk flokkun tölvupósta, einnig notkun spjallmennis á Ísland.is sem byggist þó á eldri gervigreindartækni þannig að til framtíðar eru miklir möguleikar í að bæta þá lausn til þess að sjálfvirknivæða svörun erinda og færa þjónustu nær notendum.
    Sértækari verkefni þar sem aðferðum gagnavísinda er beitt hjá Skattinum eru m.a. sjálfvirk flokkun á atvinnugreinanúmerum lögaðila, svokallaðar þyrpingar á lögaðilum, og ýmis verkefni á sviði álagningar skatta, auk þess sem gagnavísindateymi stofnunarinnar vinnur að yfir 60 verkefnum til að bæta þjónustu og falla nokkur þeirra undir gervigreind. Þá er Skatturinn sömuleiðis að taka fyrstu skref í notkun á spunagreind, eða með notkun ChatGPT.
    Auk þess má nefna að Ríkiskaup eru að greina möguleika gervigreindar í innkaupum og að Fjársýslan hefur náð mjög miklum árangri með notkun stafræns vinnuafls en það telst ekki vera gervigreind þó að náskylt sé. Stofnunin sér mikil tækifæri í að nýta gervigreind í sínum ferlum. Þau teymi sem Stafrænt Ísland vinnur með nýta spunagreind við ýmis verkefni sem nýtast svo til að bæta þjónustu hins opinbera.
    Þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins, Umbra, áformar að taka gervigreindarlausn í notkun á þessu ári sem getur haft töluverða skilvirkni í för með sér. Hyggst Umbra bjóða ráðuneytum og stofnunum að taka þessa lausn í notkun fyrir valda notendur fyrst um sinn. Umbra mun einnig nýta gervigreind í verkbeiðnakerfi sínu.
    Enginn vafi er á því að gervigreindarlausnir geta nýst vel á vettvangi Stjórnarráðsins sjálfs og flýtt fyrir og bætt vinnslu ýmissa mála, t.d. við greiningar og skýrslugerð.

     3.      Hvaða áskoranir fylgja notkun gervigreindar á einstökum málefnasviðum og hjá stofnunum sem ráðherra ber ábyrgð á?
    Þær áskoranir sem eiga við um starfsemi hins opinbera í heild eiga jafnt við um fjármála- og efnahagsráðuneytið. Einna helst að nýta þarf gögn á ábyrgan hátt. Ráðuneytið telur að opinberir aðilar ættu að leita í auknum mæli eftir samvinnu við einkaaðila í nýtingu tækninnar og að ríkið reyni ekki að finna upp hjólið í þessari tækni. Þannig nýtum við best hugvitið hér á landi. Til þess að hægt sé að beita tækninni þurfa gögnin hins vegar að vera á því formi að þau séu nýtanleg. Það krefst stjórnskipulags á gögnum og er ein helsta áskorun stjórnvalda og fyrirtækja í hagnýtingu gervigreindar. Endurnýjun arfleifðarkerfa samhliða aukinni notkun skýjalausna flýtir fyrir þessari þróun. Þar hafa nú þegar verið tekin fyrstu skref.
    Þarna þarf auðvitað að vanda sig þegar unnið er með gögn um einstaklinga og fyrirtæki en ábatinn við að nýta tæknina er svo gríðarlega mikill að hið opinbera verður að þora að taka skref í átt að aukinni beitingu þessarar tækni. Að öðru leyti má vísa til þeirra leiðbeininga sem koma fram á vefsíðu Stjórnarráðsins um atriði sem allir opinberir aðilar þurfa að hafa í huga þegar þeir hyggjast nýta gervigreind í sinni starfsemi. Þar er m.a. dregið fram að skoða þarf frammistöðu kerfa reglulega og meta hvernig sú fjárfesting sem við gerum í tækni skilar sér.
    Öll notkun gervigreindar byggist á gögnum. Gæði, áreiðanleiki og fjölbreytileiki gagnanna ræður miklu um frammistöðu gervigreindarkerfis. Að lokum þarf notkun að vera í samræmi við skýrar stefnur, staðla og almennar siðferðis- og lagareglur sem gilda um opinbera stjórnsýslu.