Ferill 988. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1844  —  988. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um leigubifreiðaakstur.


     1.      Hvaða reynsla hefur hlotist af framkvæmd nýrra laga um leigubifreiðaakstur sem tóku gildi í apríl 2023?
    Helsti ávinningur laganna er opnari markaður fyrir leigubifreiðaakstur. Ekki virðist þó hafa orðið fjölgun á heildarfjölda leigubifreiðastjóra eftir að lögin tóku gildi. Samt sem áður eru ákveðnar vísbendingar fyrir hendi um aukna innkomu nýrra aðila inn í greinina enda hefur umsóknum um leyfi til leigubifreiðaaksturs fjölgað.
    Umsýsla við umsóknir hefur aukist. Aukningin verður helst rakin til nýrra og strangari krafna við mat á góðu orðspori. Með hliðsjón af því hefur frá tíð eldri laga færst í aukana að leyfisumsóknum sé synjað.
    Frá gildistöku laganna hefur leigubifreiðastöðvum fjölgað og a.m.k. ein stöð býður upp á ferðir fyrir fyrir fram umsamið verð.

     2.      Hversu mörg leyfi til leigubifreiðaaksturs hafa verið gefin út frá því að lögin tóku gildi? Hver var heildarfjöldi leyfa 1. desember 2023?
    Útgefin rekstrarleyfi frá gildistöku laga um leigubifreiðaakstur frá 1. apríl til 31. desember 2023 eru 169 talsins. Á sama tímabili eru útgefin atvinnuleyfi samtals 249.
    Heildarfjöldi útgefinna rekstrarleyfa árið 2023 eru 184 og heildarfjöldi útgefinna atvinnuleyfa sama ár eru 345.
    Heildarfjöldi rekstrarleyfa í gildi í lok árs 2023 eru 859. Heildarfjöldi atvinnuleyfa (þegar leyfishafi er sjálfur ekki skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðar) í gildi í lok árs 2023 eru 862.

     3.      Hafa mælanlegar breytingar orðið á leigubifreiðaakstri og starfsumhverfi leigubifreiðastjóra frá því að lögin tóku gildi?
    Vísað er til svars við fyrsta lið fyrirspurnarinnar.

     4.      Hvernig er eftirliti með starfsskilyrðum leigubifreiðastjóra háttað?
    Samgöngustofa annast stjórnsýslueftirlit með leigubifreiðaakstri skv. 13. gr. laga um leigubifreiðaakstur. Þá fer Neytendastofa með eftirlit með verðupplýsingum leigubifreiðaþjónustu skv. 6. mgr. 9. gr. laga um leigubifreiðaakstur. Loks fer lögregla með vettvangseftirlit skv. 17. gr. sömu laga.

     5.      Hafa lögreglu eða eftirlitsaðilum borist kvartanir vegna starfsemi leigubifreiða frá því að lögin tóku gildi? Ef svo er, hversu margar kvartanir hafa borist og hvers eðlis hafa þær verið?
    Tæplega 50 ábendingar vegna starfsemi leigubifreiða bárust eftirlitsaðilum frá 1. apríl 2023 til ársloka. Ábendingarnar hafa verið af margvíslegum toga og lotið að eftirfarandi þáttum:
          Akstri án leyfis.
          Akstri án réttinda.
          Auðkenni.
          Mati á orðspori.
          Notkun gjaldmæla.
          Rafrænni skrá.
          Skráningu í ökutækjaskrá.
          Verðlagningu.
          Óeðlilegum viðskiptaháttum.

     6.      Hversu hátt hlutfall leigubifreiðastjóra sem hlotið hafa leyfi til leigubifreiðaaksturs frá janúar 2023 hefur staðist námskeið fyrir atvinnuleyfishafa um leigubifreiðaakstur á ensku? Hversu hátt hlutfall hefur sótt námskeiðið á íslensku?
    Leyfishafanámskeiðin hafa einungis verið haldin á íslensku. Árið 2023 sóttu 206 einstaklingar námskeið fyrir atvinnuleyfishafa en 327 einstaklingar námskeið fyrir rekstrarleyfishafa.

     7.      Hvaða áhrif telur ráðherra að mikil fjölgun leyfa til leigubifreiðaaksturs geti haft á afkomu þeirra sem hafa leigubifreiðaakstur að aðalstarfi?
    Frá gildistöku laga um leigubifreiðaakstur, nr. 120/2022, hefur útgefnum leyfum til leigubifreiðaaksturs ekki fjölgað. Verði mikil fjölgun útgefinna leyfa getur það leitt til aukins framboðs og þar af leiðandi haft áhrif á leigubílstjóra.