Ferill 974. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2159 — 974. mál.
Svar
fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um fjárfestingarátak í fjáraukalögum fyrir árið 2020.
1. Hver voru framlög íslenska ríkisins vegna liðar 7.28 í 4. gr. fjáraukalaga fyrir árið 2020, nr. 26/2020, til tímabundins fjárfestingarátaks til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með arðbærum fjárfestingum sem auka eftirspurn eftir vinnuafli? Til hvaða verkefna fóru framlögin og hverju skiluðu þau?
Framlög íslenska ríkisins vegna þessa liðar fjáraukalaganna námu samtals 17,8 ma.kr. árið 2020. Í eftirfarandi töflu má sjá skiptingu framlaganna eftir eðli verkefnanna:
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Nánari útlistun á einstökum verkefnum er að finna í viðauka 1 (sjá fylgiskjal). Með lögunum var fjármála- og efnahagsráðherra veitt heimild til að veita framlög til verkefna með þeim skilyrðum að þau hefðust eigi síðar en 1. september 2020 og að viðeigandi áfanga væri lokið eigi síðar en 1. apríl 2021. Skipting framlaga til einstakra verkefna byggðist á sérstakri þingsályktunartillögu um fjárfestingarátakið. Heildarfjárheimildin var veitt á sérstökum safnlið hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu en gengið var frá millifærslu fjárheimilda á viðeigandi liði fjárlaga innan ársins vegna þeirra verkefna sem tilgreind eru í viðaukanum að undanskilinni byggingu öryggisvistunar á vegum félagsmálaráðuneytisins þar sem það tiltekna verkefni uppfyllti að lokum ekki tímaskilyrði fjárfestingarátaksins.
Í viðaukanum má finna lýsingu á hverju verkefni og sjá í hvaða fjárfestingar var ráðist. Skilyrði fyrir fjárveitingu til hvers verkefnis var að það væri sannarlega hafið og því má greina úr lýsingunum þau beinu áhrif sem átakið hafði víðs vegar um land.
Í skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá því í febrúar 2023 1 er nánar fjallað um áhrif átaksins og þá framlengingu sem gerð var á því:
„Tilgangur þess átaks var að koma af stað nýjum verkefnum eða flýta fyrirhuguðum framkvæmdum til að örva efnahagslífið. Leitast var við að velja verkefni sem væru fjölbreytt, atvinnuskapandi og stuðluðu jafnframt að aukinni framleiðni til lengri tíma. Í kjölfarið var ákveðið að fara í annað átak á árunum 2021–2023 en umfang þess er um 75 ma.kr. á því tímabili. Vegna umfangs sumra verkefnanna spannar átakið lengra tímabil. Þannig er gert ráð fyrir að fjárfestingar- og uppbyggingarátakið nemi alls um 119 ma.kr. á tímabilinu 2020– 2025. Áætlað er að um 1.000 störf hafi skapast með fjárfestingar- og uppbyggingarátakinu sem er um 0,5% af fjölda starfandi á Íslandi.“
2. Hversu mikið var hlutafé opinberra félaga aukið vegna liðar 7.29 í 4. gr. fyrrnefndra fjáraukalaga? Hversu mikil var aukningin í hverju félagi og hvaða fjárfestingar var ráðist í vegna framlaganna?
Í fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 voru ríkisfyrirtæki hvött í fjárfestingarátak og flýtingu framkvæmda. Til að tryggja fjárfestingargetu þeirra var hlutafé aukið í eftirfarandi félögum:
Harpa.Nokkur brýn endurbóta- og viðhaldsverkefni voru skilgreind í Hörpu sem möguleg flýtiverkefni á árunum 2020 og 2021. Þau sneru að frágangi lóðar, endurbótum á jarðhæð hússins, LED-lýsingu, orkusparnaðarverkefni og þaklekaviðgerðum. Áætlaður kostnaður var um 510 m.kr. Áætlað var að verkefnin myndu skila minni rekstrarkostnaði og auknum tekjum næstu fimm árin sem nemur 360 m.kr. Öll verkefnin eru atvinnuskapandi á meðan framkvæmdum stendur. Í ágúst 2020 var tekin ákvörðun af stjórn Hörpu um að auka hlutafé félagsins um allt að 510 m.kr. að nafnverði. Ríkissjóður tók ákvörðun um að kaupa nýtt hlutafé í samræmi við eignarhlut hluthafa að nafnverði kr. 275 m.kr. Ríkissjóður greiddi Hörpu 195 m.kr. í hlutafé á árinu 2020 og 80 m.kr. á árinu 2021.
Isavia. Þau verkefni sem hægt var að hrinda í framkvæmd með stuttum fyrirvara fólust aðallega í undirbúningi á stærri verkefnum, til að mynda vegakerfi við flugstöðina, framkvæmdir og viðhald á flugbrautarkerfi og hönnunarvinna fyrir bílastæðahús og afísingarsvæði. Áætlað var að flýta framkvæmdum fyrir allt að 4 ma.kr. á árinu 2020. Í uppbyggingaráætlun Isavia var ekki gert ráð fyrir stórum framkvæmdum fyrr en eftir árið 2022. Ríkissjóður greiddi Isavia 4 ma.kr. í hlutafé á árinu 2020.
3. Hvert var framlag íslenska ríkisins vegna liðar 7.30 í 4. gr. fyrrnefndra fjáraukalaga og hvaða afurð skilaði Íslandsstofa?
Sjá meðfylgjandi minnisblað Íslandsstofu til utanríkisráðuneytisins í viðauka 2 í fylgiskjali.
4. Hvert var framlag íslenska ríkisins vegna liðar 7.32 í 4. gr. fyrrnefndra fjáraukalaga?
Framlag íslenska ríkisins vegna liðar 7.32 var í formi tryggingar um skaðleysi Seðlabanka Íslands vegna þess kostnaðar sem hann kynni að verða fyrir vegna fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja sem urðu fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Öll þau átta lán sem veitt voru á þeim grunni hafa nú verið greidd upp og lagðist því enginn kostnaður á ríkissjóð vegna þeirrar tryggingar.
Fylgiskjal.
Viðaukar.
www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/r0002-f_I.pdf
1 Mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru (stjornarradid.is).