Ferill 972. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1772  —  846. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um bifhjól.


     1.      Er skylt að vátryggja bifhjól, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, í 12 mánuði á hverju ári eða í tiltekinn lágmarkstíma samkvæmt lögum um ökutækjatryggingar, nr. 30/2019, og ef svo er, hversu langan?
    Vátryggingarskylda hvílir á eigendum skráningarskyldra ökutækja skv. 1. mgr. 10. gr. laga um ökutækjatryggingar, nr. 30/2019. Í því felst að skylt er að hafa ábyrgðartryggingu ökutækis skv. 8. gr. laganna og slysatryggingu ökumanns og eiganda skv. 9. gr. Vátryggingarskyldan nær til skráningarskyldra ökutækja samkvæmt umferðarlögum en samkvæmt 72. gr. þeirra nær skráningarskylda til vélknúinna ökutækja. Til vélknúinna ökutækja teljast ökutæki, önnur en reiðhjól, sem ætluð eru til aksturs á landi og eru búin aflvél til að knýja þau, sbr. 42. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga. Bifhjól teljast til vélknúinna ökutækja, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga, og falla þar með undir vátryggingarskyldu laga um ökutækjatryggingar.
    Tiltekin ökutæki eru undanþegin vátryggingarskyldunni, svo sem létt bifhjól í flokki I, sbr. 11. gr. laga um ökutækjatryggingar. Þá eru tiltekin ökutæki sem taka þátt í aksturskeppnum á lokuðu svæði sem leyfi hefur fengist fyrir samkvæmt umferðarlögum undanþegin gildissviði laga um ökutækjatryggingar, sbr. b-lið 2. mgr. 2. gr. laganna.
    Ekki er mælt fyrir um tiltekinn lágmarkstíma lögboðinna ökutækjatrygginga í lögunum eða reglugerð um ökutækjatryggingar, nr. 1244/2019. Vátryggingarskyldan gildir á meðan ökutæki er skráð.

     2.      Er skylt að innheimta slysatryggingu ökumanns og eiganda fyrir hvert bifhjól samkvæmt sömu lögum?
    Skylt er að slysatryggja ökumann og eiganda skráningarskylds ökutækis, skv. 9. gr. laga um ökutækjatryggingar. Tiltekin ökutæki eru þó undanþegin vátryggingaskyldunni, svo sem létt bifhjól í flokki I, sbr. 11. gr. laga um ökutækjatryggingar. Þá eru tiltekin ökutæki sem taka þátt í aksturskeppnum á lokuðu svæði sem leyfi hefur fengist fyrir samkvæmt umferðarlögum undanþegin gildissviði laga um ökutækjatryggingar, sbr. b-lið 2. mgr. 2. gr. laganna.

     3.      Eru ákvæði í lögum eða reglugerðum sem takmarka möguleika eigenda bifhjóla á að skila inn skráningarnúmerum tímabundið og þar með fella niður skyldu um ábyrgðartryggingu ökutækis og eftir atvikum slysatryggingu?
    Í 14. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja, nr. 751/2003, kemur fram að óski eigandi ökutækis þess að taka ökutæki tímabundið úr notkun skuli hann senda tilkynningu þess efnis til Samgöngustofu sem skráir ökutækið úr umferð í ökutækjaskrá. Eftir það sé óheimilt að nota ökutækið. Vátrygging telst niður fallin þegar skráningarmerki hafa verið lögð inn til Samgöngustofu, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um ökutækjatryggingar. Ekki er að finna takmarkanir á möguleikum eiganda til þess að skrá ökutæki tímabundið úr notkun í lögum eða reglum.