Ferill 954. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1906  —  954. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um íslenskupróf fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt.


     1.      Hvaða stofnun ber ábyrgð á upplýsingagjöf og leiðbeiningum vegna íslenskuprófs fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt?
    Samkvæmt 3. gr. reglugerðar um próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 1129/2008, er það á ábyrgð Útlendingastofnunar að auglýsa á heimasíðu stofnunarinnar og í fjölmiðlum hvar og hvenær íslenskuprófin verða haldin og skal það gert með átta vikna fyrirvara. Jafnframt veitir Útlendingastofnun umsækjendum leiðbeiningar varðandi undanþágur frá íslenskuprófi.
    Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar miðast efnisþættir og þyngd íslenskuprófa við lokamarkmið í námskrá mennta- og barnamálaráðuneytisins. Frá 1. apríl 2024 hefur það verið á ábyrgð Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu (MMS), á grundvelli samnings við dómsmálaráðuneytið skv. 6. gr. reglugerðarinnar, að leiðbeina um inntak prófanna, semja prófatriði, vinna úr úrlausn prófanna og senda niðurstöður á próftaka. MMS er síðan með þjónustusamning við Mími – símenntun sem sér um skráningu og framkvæmd prófanna sjálfra. Auk Útlendingastofnunar auglýsir Mímir einnig tímasetningu og staðsetningu prófanna.

     2.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum á reglugerð nr. 1129/2008, um próf í íslensku fyrir umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt, til að tryggja reglulegan aðgang að prófunum í öllum landshlutum?
    Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur m.a. fram að íslenskupróf skuli að jafnaði haldið eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Þá segir að próf skuli haldin í Reykjavík eða nágrenni og að heimilt sé að halda próf annars staðar á landinu. Að þessu sögðu gerir reglugerðin ráð fyrir að unnt sé að halda umrædd próf oftar en tvisvar á ári og í öllum landshlutum. Ekki er því talin þörf á að breyta reglugerðinni frekar hvað þetta varðar.