Ferill 937. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1946 — 937. mál.
2. umræða.
Nefndarálit
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 (nýir sjóðir og fjölgun úthlutunarmánaða).
Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.
Í greinargerð með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar kemur fram að lagðar séu til breytingar sem miði að því að styrkja starfslauna- og verkefnasjóði listamanna faglega með sérstakri áherslu á að starfslaun tryggi betur afkomu þeirra sem starfa við listir eða skapandi greinar. Í breytingunum felst fjölgun launasjóða sem starfslaun eru veitt úr og fjölgun árlegra úthlutunarmánaða.
Markmið listamannalauna er að efla listsköpun í landinu og listamenn sem sækja um þessi starfslaun starfa við frumsköpun. Saga listamannalauna eða starfslauna er löng en árið 1891 samþykkti Alþingi að veita skáldalaun. Fyrir þann tíma höfðu listamenn fengið stuðning með einstökum fjárveitingum. Fyrsti heildstæði lagabálkur um listamannalaun var samþykktur árið 1967 og rúmlega áratug síðar voru sett lög um launasjóð rithöfunda. Árið 1991 voru samþykkt lög um listamannalaun sem leystu þessi tvenn lög af hólmi og voru þau síðast uppfærð árið 2009. Tilefni frumvarps nú er efnisleg endurskoðun laganna vegna breytinga í þjóðfélaginu, m.a. í ljósi fólksfjölgunar, launaþróunar og áherslna í listsköpun. Markmið með frumvarpinu er að stórauka úthlutun listamannalauna þannig að úthlutunarmánuðum verði fjölgað úr 1.600 í 2.670.
Í frumvarpinu eru boðuð aukin útgjöld um 1,25 milljarða kr. næstu fjögur ár og einnig 600 millj. kr. varanleg útgjaldaaukning frá árinu 2028. Athygli vakti við framlagningu frumvarpsins að ekki var fjallað nánar um það hvernig þessi útgjaldaaukning yrði fjármögnuð. Þegar fjármálaáætlun var lögð fram ellefu dögum síðar kom í ljós að hvergi var þar fjallað um fjármögnun fjölgunar úthlutunarmánaða. Allsherjar- og menntamálanefnd barst við umfjöllun málsins minnisblað frá menningar- og viðskiptaráðuneyti þar sem fram kom að í fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029 væri ekki gert ráð fyrir heildarkostnaði sem fælist í frumvarpinu þegar sú aukning sem kveðið væri á um yrði að fullu komin til framkvæmda árið 2028. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til að brugðist verði við fjármögnunarvanda frumvarpsins með því að falla frá stofnun sérstaks nýliðasjóðs, Vaxtar. Að sögn meiri hlutans dugar sú breyting til að fjármagna tillögur í frumvarpinu því að hægt verði að fjármagna bróðurpart kostnaðarins með tilfærslum innan málefnasviðsins. Er þar sérstaklega vísað í að tilfærslur muni koma frá öðrum útgjaldaliðum í málaflokki 18.30 Menningarsjóðir. Þar undir heyra sjóðir á borð við Kvikmyndasjóð, myndlistarsjóð, Bókasafnssjóð höfunda, bókasafnasjóð, tónlistarsjóð, sviðslistasjóð og bókmenntasjóð. Má því leiða líkur að því að þessir útgjaldaliðir verði skornir niður næstu ár á kostnað þeirra breytinga sem hér er fjallað um.
Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands má finna harða gagnrýni á þá forgangsröðun opinberra fjármuna sem boðuð er í frumvarpinu. Bent er á að opinber útgjöld til menningarmála á Íslandi séu nú þegar þau hæstu í Evrópu, rúm 2% af heildarútgjöldum hins opinbera. Er það tvöfalt meira en meðaltal útgjalda ESB-ríkja í þessum málaflokki. Þá er bent á að í frumvarpinu sé lögð til fjölgun opinberra sjóða sem fari þvert gegn markmiði fjármálaáætlunar um að fækka opinberum sjóðum til að draga úr umsýslukostnaði. Um það atriði segir í umfjöllun Viðskiptaráðs: „Í fjármálaáætlun 2025–2029 er lögð áhersla á að ná megi fram miklum ávinningi með breytingum á sjóðaumhverfinu, m.a. með því að lækka umsýslukostnað með því að fækka stjórnum. Þetta frumvarp gengur í berhögg við þessi markmið þar sem fjölgunin flækir sjóðaumhverfi ríkisins og eykur umsýslukostnað.“
Jafnframt eru færð rök fyrir því að frumvarpið gangi gegn markmiði stjórnvalda um lækkun verðbólgu. Segir þar: „Nái frumvarpið fram að ganga munu útgjöld ríkissjóðs til launasjóða listamanna aukast um 70% í skrefum til ársins 2028, úr 977 milljónum í 1.677 milljónir á ári. Í ljósi þess efnahagsástands sem ríkir nú, þ.e. hárrar verðbólgu og hallarekstrar ríkissjóðs, ættu stjórnvöld frekar að forgangsraða núverandi framlögum til málaflokksins. Síðarnefnda leiðin gæfi til kynna að stjórnvöldum væri alvara með því markmiði að ná niður verðbólgu og þar með vöxtum.“
Fyrsti minni hluti telur að tillögur í frumvarpinu hafi ekki verið fjármagnaðar með viðhlítandi hætti. Auk þess telur hann að aukið fjármagn til úthlutunar listamannalauna sé ekki rétt forgangsröðun ríkisfjármuna á tímum verðbólgu og samdráttar. Þá álítur 1. minni hluti að frumvarpið leysi ekki stærsta vandann við úthlutun listamannalauna sem er það mikla ógagnsæi sem ríkir við val á þeim listamönnum sem fá úthlutað hverju sinni.
Alþingi, 19. júní 2024.
Eyjólfur Ármannsson.