Ferill 937. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1919  —  937. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 (nýir sjóðir og fjölgun úthlutunarmánaða).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá menningar- og viðskiptaráðuneyti, Rannís, Félagi kvikmyndagerðarmanna, Bandalagi íslenskra listamanna, BHM, Félagi íslenskra bókaútgefenda, Rithöfundasambandi Íslands, Félagi íslenskra söngkennara, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Listasafni Íslands, Félagi íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum, Félagi íslenskra tónlistarmanna, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Tónskáldafélagi Íslands, STEF – hagsmunasamtökum tón- og textahöfunda og Viðskiptaráði Íslands.
    Nefndinni bárust 16 umsagnir um málið auk tveggja minnisblaða frá menningar- og viðskiptaráðuneyti. Gögnin eru aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, sem fela í sér fjölgun launasjóða listamanna sem starfslaun eru veitt úr og fjölgun árlegra úthlutunarmánaða.

Umfjöllun nefndarinnar.
Fyrirkomulag greiðslna og dreifing úthlutunarmánaða milli sjóða.
    Líkt og rakið er í greinargerð felur frumvarpið í sér efnislega endurskoðun á lögum um listamannalaun í fyrsta skipti frá setningu þeirra árið 2009. Slík endurskoðun er talin nauðsynleg í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa síðan þá, m.a. í ljósi fólksfjölgunar, launaþróunar og áherslna í listsköpun. Gildandi lög gera ráð fyrir að samanlögð starfslaun miðist við 1.600 mánaðarlaun sem dreifist á milli hinna sérgreindu sjóða. Með frumvarpinu er lagt til að árlegum mánaðarlaunum til úthlutunar fjölgi varanlega upp í 2.670 sem komi til framkvæmda í skrefum á árunum 2025–2028.
    Í umsögnum um málið voru gerðar athugasemdir við dreifingu úthlutunarmánaða á milli mismunandi starfslaunasjóða. Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu var við mat á því hvernig þeim mánuðum sem bætast við til úthlutunar skyldi dreift milli sjóða litið til umfangs hvers sjóðs samkvæmt gildandi lögum og til tölfræði Rannís sl. tíu ár um fjölda umsókna í hvern sjóð og árangurshlutfall umsókna miðað við bolmagn hvers sjóðs til að veita starfslaun. Með frumvarpinu er lagt til að fjöldi úthlutunarmánaða launasjóðs hönnuða aukist mest, eða tvöfaldist, en að úthlutunarmánuðum launasjóðs rithöfunda fjölgi minnst, eða u.þ.b. um fjórðung. Meiri hlutinn leggur ekki til breytingar á dreifingu úthlutunarmánaða en beinir því til ráðuneytisins að fylgjast með þróun nýs fyrirkomulags og meta reglulega hvort ástæða sé til að leggja til frekari breytingar, m.a. varðandi dreifingu fjármagns milli sjóða. Meiri hlutinn telur jafnframt ástæðu til að það verði skoðað til lengri tíma hvort tilefni sé til að auka flæði á milli listgreina við úthlutun starfslauna í stað þess að formfesta launasjóði á grundvelli þess að listamenn geti skilgreint sig í tilgreinda hópa listamanna, m.a. með vísun til einföldunar á kerfinu og lækkunar á umsýslukostnaði.
Fjárhæð mánaðarlauna og hlutfall annarra starfa.
    Í umsögnum um málið var m.a. fjallað um fjárhæðir mánaðarlegra starfslauna og þörf fyrir hækkun þar sem fjárhæðin sé lág og hafi dregist aftur úr almennri launaþróun. Skv. 1. mgr. 4. gr. laga um listamannalaun skulu starfslaun nema 266.737 kr. á mánuði á verðlagi fjárlaga árið 2009. Fjárhæð starfslauna skal koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytis, dags. 3. júní 2024, kemur fram að á árinu 2024 nemi fjárhæðin 538.000 kr. og er tekið undir þá ábendingu að launavísitala hafi hækkað umfram hækkun mánaðarlegrar fjárhæðar listamannalauna frá árinu 2009. Það hafi þó verið ákveðið að leggja frekar áherslu á fjölgun mánaðarlauna með frumvarpinu umfram hækkun launatölunnar til að auka fjölbreytni og tryggja fleiri listamönnum, á breiðari grunni, aðkomu að kerfinu.
    Þá var fyrir nefndinni fjallað um það að þeir sem hljóti listamannalaun til fleiri mánaða en sex megi einungis sinna sem nemur 33% starfi samhliða töku launanna, sem leiði til lágra tekna á starfslaunatímabilinu. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að það verði tekið til nánari skoðunar af hálfu menningar- og viðskiptaráðuneytis hvort tilefni sé til að endurskoða ákvæði 7. gr. reglugerðar um listamannalaun, nr. 834 /2009, þar sem fullt starf er skilgreint sem 67% starf í skilningi laganna, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt reglugerðinni skulu þeir sem njóti starfslauna í sex mánuði eða lengur ekki gegna öðru starfi sem telst meira en þriðjungur úr stöðugildi meðan þeir fá greidd starfslaun. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að taka þessar ábendingar til nánari skoðunar við endurskoðun tilgreindrar reglugerðar, sem fyrirhugað er að fara í verði frumvarpið að lögum, með það að markmiði að auka sveigjanleika þegar kemur að skilyrðum um starfshlutfall samhliða töku starfslauna.

Nýr launasjóður kvikmyndahöfunda.
    Samkvæmt a-lið 9. gr. frumvarpsins er kveðið á um nýjan launasjóð kvikmyndahöfunda í samræmi við kvikmyndastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Í skýringum við ákvæðið í greinargerð er með kvikmyndahöfundum vísað til leikstjóra og handritshöfunda. Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega, muni úthluta fé úr launasjóðnum sem Samtök kvikmyndaleikstjóra og Félag leikskálda og handritshöfunda skulu hvort um sig tilnefna þrjá nefndarmenn í.
    Í umsögn Félags kvikmyndagerðarmanna kemur fram að frumvarpið tryggi ekki aðkomu heimildarmyndagerðarmanna að launasjóðnum. Eingöngu tvö félög kvikmyndahöfunda tilnefni aðila í úthlutunarnefnd. Þá sé tekið fram í frumvarpinu að sjóðurinn sé fyrir leikstjóra og handritshöfunda og að við þá upptalningu ætti að bæta „öðrum aðalhöfundum kvikmynda“.
    Í minnisblaði ráðuneytisins, dags. 3. júní 2024, kemur fram að með frumvarpinu sé ekki ætlunin að útiloka höfunda heimildarmynda að sjóðnum. Þó telur ráðuneytið ekki tilefni til að fjölga í hópi þeirra hagsmunafélaga sem tilnefna skulu í úthlutunarnefnd, þar sem í því felist aukið flækjustig. Úthlutunarnefndir sérgreindra launasjóða starfa undir eftirliti stjórnar listamannalauna og skulu þær gæta að faglegum sjónarmiðum og jafnrétti í störfum sínum og starfa í samræmi við áherslur stjórnar hverju sinni.
    Hvað varðar ábendingu þess efnis að tilgreina ætti aðra aðalhöfunda kvikmynda til viðbótar við leikstjóra og handritshöfunda, þá bendir ráðuneytið á að í lagagreininni verði aðeins minnst á kvikmyndahöfunda en ekki verði tilefni til að skilgreina það hugtak þröngt. Meiri hlutinn tekur undir þetta og áréttar að með kvikmyndahöfundum sé vísað til leikstjóra og handritshöfunda, auk þess sem aðrir aðalhöfundar kvikmynda geta fallið þar undir, þar á meðal höfundar heimildarmynda sem ekki er ætlunin að útiloka frá aðgengi að sjóðnum.

Vegsemd – nýr sjóður fyrir eldri listamenn.
    Samkvæmt gildandi lögum eru starfslaun listamanna veitt úr sex sjóðum, þ.e. launasjóðum hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks, tónlistarflytjenda og tónskálda.
    Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót nýjum þverfaglegum sjóði fyrir listamenn 67 ára og eldri, Vegsemd. Lagt er til að sjóðurinn fái 180 mánuði til úthlutunar, sem komi til framkvæmda í skrefum í samræmi við ákvæði til bráðabirgða, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Ekki er gert ráð fyrir að listamenn sæki beint um framlög úr sjóðnum heldur að listamenn 67 ára og eldri sæki um úthlutun úr hinum sérgreindu sjóðum í samræmi við sína listgrein. Lagt er til að starfslaun úr Vegsemd megi veita til allt að fimm ára í senn auk þess sem fallið er frá því að starfslaunaþegum beri að skila skýrslu um störf sín á starfslaunatíma.
    Vegsemd verði sérstakur, þverfaglegur sjóður fyrir eldri listamenn sem hafa varið starfsævi sinni til listsköpunar. Meiri hlutinn tekur undir með að Vegsemd verði góð viðbót en þó eðlisólíkur heiðurslaunum listamanna, sbr. lög nr. 66/2012, sem Alþingi veitir árlega og er ætlað að heiðra þá listamenn sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði.

Fjármögnun frumvarps á grundvelli fjármálaáætlunar.
    Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins sem felur í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð vegna fjölgunar úthlutunarmánaða starfslauna listamanna. Þá hefur fjölgun sjóða í för með sér aukinn umsýslukostnað. Þegar nýtt fyrirkomulag verði að fullu komið til framkvæmda munu breytingarnar fela í sér um 600 millj. kr. árlegan kostnaðarauka á verðlagi fjárlaga fyrir árið 2024. Gert er ráð fyrir að breytingarnar taki gildi í skrefum á næstu fjórum árum.
    Í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytis, dags. 12. júní 2024, er fjallað nánar um fjármögnun frumvarpsins. Fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029 gerir ekki ráð fyrir þeim heildarkostnaði sem felst í frumvarpinu þegar sú aukning sem það kveður á um verður að fullu komin til framkvæmda árið 2028. Til að koma til móts við fjármögnun frumvarpsins leggur ráðuneytið til breytingu á frumvarpinu og að fallið verði frá stofnun sérstaks nýliðasjóðs, Vaxtar.
    Með breytingunni mun heildarfjöldi starfslaunamánaða verða 2.490 frá og með árinu 2028 í stað 2.670 líkt og frumvarpið gerði ráð fyrir. Samhliða minnkar jafnframt kostnaðaraukinn við frumvarpið, þegar lagabreytingin verður að fullu komin til framkvæmda, úr 600 millj. kr. á ári í 507 millj. kr. Fram kemur í minnisblaðinu að með breytingunni og uppfærðri kostnaðaráætlun við frumvarpið geti ráðuneytið staðfest að fjármögnun vegna áranna 2025 og 2026 er tryggð, með fjárveitingu innan útgjaldaramma málefnasviðsins og varanlegu viðbótarfjármagni til menningarmála í fjármálaáætlun 2025–2029. Þá getur ráðuneytið jafnframt staðfest að með tilfærslu fjármuna innan útgjaldaramma málefnasviðsins verður unnt að tryggja fjármögnunina á árinu 2027 og frá og með árinu 2028, þegar hækkunin sem felst í frumvarpinu kemur að fullu til framkvæmda. Við þá tilfærslu yrði einkum horft til fjármagns undir málaflokki 18.30 (menningarsjóðir) í fjármálaáætlun líkt og ráðuneytið færir nánari rök fyrir í áðurgreindu minnisblaði. Á árinu 2024 nemur heildarfjárveiting þar sem tilfærsla fjármagns kemur til greina 2.177 millj. kr. Miðað við þær forsendur sem lagt er upp með í minnisblaði ráðuneytisins þarf að tryggja 147 millj. kr. hvort ár 2027 og 2028, með tilfærslu af 2.177 millj. kr. heildarfjárveitingunni. Er þá miðað við að ekki verði breytingar á fjárveitingum til menningarmála frá því sem fram kemur í fyrirliggjandi fjármálaáætlun 2025– 2029.
    Með vísan til framangreinds er það afstaða meiri hlutans að ráðuneytið hafi sýnt fram á að frumvarpið sé fjármagnað út tíma fyrirliggjandi fjármálaáætlunar á grundvelli forgangsröðunar innan útgjaldaramma málefnasviðsins. Í því felst jafnframt að fyrirliggjandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um sviðslistir (Þjóðarópera) muni ekki koma til afgreiðslu á yfirstandandi löggjafarþingi. Meiri hlutinn undirstrikar að tillögur til að tryggja fjármögnun frumvarpsins fela í sér forgangsröðun fjármagns hjá ráðuneytinu með tilfærslu fjármuna sem rúmast innan útgjaldaramma málefnasviðsins. Til að koma til móts við fjármögnun frumvarpsins tekur meiri hlutinn jafnframt undir tillögu ráðuneytisins um breytingar á frumvarpinu, sem gerð verður nánari grein fyrir.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að styðja við listsköpun og listamenn, enda hafi starfslaunakerfi listamanna verið óbreytt að umfangi frá árinu 2009, að undanskildum tímabundnum hækkunum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Breytingartillögur.
Vöxtur – launasjóður fyrir unga listamenn.
    Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót nýjum þverfaglegum sjóði fyrir unga listamenn, sem beri nafnið Vöxtur, og fái 180 mánuði til úthlutunar. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um fjármögnun frumvarpsins þá tekur meiri hlutinn undir tillögu menningar- og viðskiptaráðuneytis og leggur til að fallið verði frá stofnun sérstaks nýliðasjóðs, Vaxtar, að svo stöddu. Breytingin sé liður í því að hægt verði að tryggja fjármögnun frumvarpsins og geti auk þess leitt til þess að dragi úr umsýslukostnaði að einhverju marki. Meiri hlutinn undirstrikar jafnframt að breytingin er lögð fram á þeim forsendum að hægt verði að ná sömu markmiðum í gegnum sérgreindu launasjóðina með því að leggja áherslu á nýliðun.
    Líkt og fram kemur í minnisblaði ráðuneytisins, dags. 12. júní 2024, og Rannís bendir einnig á í umsögn um málið þá hefur það verið áhersla stjórnar listamannalauna undanfarin ár að nýliðun sé a.m.k. 5% innan hvers launasjóðs og hefur það náðst. Í minnisblaði ráðuneytisins, dags. 3. júní, kemur fram að ráðuneytið telji að fyrirkomulagið veiti stjórninni svigrúm til að setja úthlutun úr nýju þverfaglegu sjóðunum viðmið í samræmi við áherslur sínar, hlutfallslega dreifingu milli sérgreindra sjóða og eftirspurn. Ráðuneytið tekur undir það sem fram kemur í umsögn Rannís, að sú skipting þurfi ekki að vera lögbundin heldur sé hluti af verkefni stjórnar að ákveða fyrirkomulagið nánar, m.a. í samráði við úthlutunarnefndir sérgreindu sjóðanna.
    Meiri hlutinn undirstrikar að þrátt fyrir breytingu á frumvarpinu þá skuli áhersla lögð á upphafleg markmið stofnunar Vaxtar, sem er að tryggja aukna nýliðun í gegnum launasjóði sérgreindra listgreina. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að styðja þurfi sérstaklega við unga listamenn sem hafa enn ekki skapað sér styrka stöðu innan sinnar listgreinar, með það að markmiði að auka nýliðun og efla unga listamenn sem kunna að vera nýlega komnir úr námi eða að hefja sinn starfsferil. Meiri hlutinn ítrekar að áhersla verði lögð á aukna nýliðun við úthlutun úr hverjum sérgreindum launasjóði til ungra listamanna sem ekki hafi áður hlotið listamannalaun, að því gefnu að fagleg skilyrði séu uppfyllt. Meiri hlutinn beinir því til stjórnar listamannalauna að horft verði til þess að nýliðun innan hvers sjóðs verði a.m.k. 10% árlega.

Úthlutun úr Vegsemd.
    Rannís hefur frá árinu 2014 séð um umsýslu launasjóða listamanna en það er skýr verkaskipting á milli stjórnar listamannalauna og úthlutunarnefnda. Skv. 2. mgr. 3. gr. laga um listamannalaun gerir stjórn listamannalauna tillögu til ráðherra um stefnu og áherslur við úthlutun listamannalauna til þriggja ára í senn og hefur eftirlit með að skilyrðum um starfslaun sé fylgt. Hlutverk stjórnar í ferlinu felst í að sjá um utanumhald og eftirlit og stuðla að faglegu mati.
    Í frumvarpinu er lagt til að stjórn listamannalauna úthluti fé úr Vegsemd að fengnum tillögum úthlutunarnefnda. Fyrir nefndinni og í umsögn um málið lagði Rannís til að það yrði skoðað að gera breytingar á frumvarpinu þar sem það verklag að úthlutunarnefndir leggi til hvaða umsækjendur geti fengið úthlutun úr Vegsemd og að stjórn listamannalauna þurfi að endurmeta þær umsóknir sé flókið og óhagkvæmt og geti leitt til þess að það skapist ágreiningur varðandi skiptingu mánaða milli listgreina. Rannís leggur til að litið verði á lögbundna úthlutun í Vegsemd sem lágmark og að stjórn listamannalauna fái heimild til að samþykkja hærri úthlutun sé það tillaga úthlutunarnefnda. Tillagan gengur út á að úthlutunarnefndir sérgreindra sjóða úthluti fé úr Vegsemd í samræmi við skiptingu sem stjórnin ákveður.
    Meiri hlutinn tekur undir ábendinguna og leggur til breytingu á 2. mgr. c-liðar 11. gr. frumvarpsins þess efnis að úthlutunarnefndir launasjóða úthluti fé úr Vegsemd í samræmi við skiptingu milli listgreina sem stjórn listamannalauna ákveður að höfðu samráði við formenn úthlutunarnefnda. Úthlutunarnefnd sérgreinds launasjóðs getur ákveðið, með samþykki stjórnar listamannalauna, að styrkir sem svara til tiltekins fjölda mánaðarlauna færist frá viðkomandi sjóði og úthlutist úr Vegsemd. Breytingin varðar útfærslu á fyrirkomulagi úthlutana úr hinum nýja þverfaglega sjóði er snýr m.a. að skilvirkni í umsýslu. Þá skiptir máli að úthlutanir úr Vegsemd eru háðar rýmri skilyrðum en úthlutanir úr sérgreindum sjóðum og því til bóta að fela stjórn listamannalauna í samráði við úthlutunarnefndir tiltekið svigrúm hvað varðar framkvæmd úthlutana.
    Þá lagði Rannís jafnframt til að falla frá breytingu á 3. mgr. 2. gr. laganna um að kveðið verði á um að úthlutunarnefndir geri tillögu um úthlutun úr þverfaglegum sjóðunum, svo að það verði skýrt að úthlutunarnefndir sjái um úthlutun. Til að gæta að samræmi milli ákvæða leggur meiri hlutinn til að b-liður 1. gr. frumvarpsins falli brott og að 3. mgr. 2. gr. laganna verði óbreytt.

Heiti launasjóðs hönnuða.
    Í umsögn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs er m.a. lagt til að heiti launasjóðs hönnuða í lögunum verði breytt í launasjóð hönnuða og arkitekta. Meiri hlutinn tekur undir ábendinguna og leggur til breytingu þess efnis.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

     1.      Við 1. gr.
                  a.      A-liður a-liðar orðist svo: launasjóði hönnuða og arkitekta.
                  b.      B-liður falli brott.
     2.      Í stað „2.670“ í 2. gr. komi: 2.490.
     3.      3. gr. orðist svo:
                  6. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Launasjóður hönnuða og arkitekta.

                  Launasjóður hönnuða og arkitekta veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 100 mánaðarlauna.
                  Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum samtaka hönnuða og arkitekta, úthlutar fé úr launasjóði hönnuða og arkitekta. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.
     4.      B-liður 9. gr. falli brott.
     5.      2. mgr. c-liðar 9. gr. orðist svo:
                  Úthlutunarnefndir launasjóða skv. 6.–11. gr. og 11. gr. a úthluta fé úr Vegsemd í samræmi við skiptingu milli listgreina sem stjórn listamannalauna ákveður að höfðu samráði við formenn úthlutunarnefnda. Úthlutunarnefnd sérgreinds launasjóðs getur ákveðið, með samþykki stjórnar listamannalauna, að styrkir sem svara til tiltekins fjölda mánaðarlauna færist frá viðkomandi sjóði og úthlutist úr Vegsemd.
     6.      Við 11. gr.
                  a.      1. efnismgr. orðist svo:
                     Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skulu samanlögð starfslaun miðast við 1.720 mánaðarlaun á árinu 2025, 1.970 mánaðarlaun á árinu 2026 og 2.230 mánaðarlaun á árinu 2027.
                  b.      Á eftir orðunum „Launasjóður hönnuða“ í a-lið 2. efnismgr. komi: og arkitekta.
                  c.      H-liður 2. efnismgr. falli brott.

Alþingi, 14. júní 2024.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir,
frsm.
Berglind Ósk Guðmundsdóttir.
Jódís Skúladóttir.     Líneik Anna Sævarsdóttir.