Ferill 924. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1941  —  924. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002 (hringrásarhagkerfi, umbúðir, ökutæki o.fl.).

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Frumvarp þetta endurspeglar umfram allt hversu flókið og viðkvæmt lagaumhverfi úrvinnslugjalds er. Greinar frumvarpsins eru aðeins þrettán talsins en dreifast yfir 49 blaðsíður, þar sem flestar innihalda langar talnarunur og töflur. Möguleikar fólks til að glöggva sig á stöðu laganna eru því afar takmarkaðir. Þetta stafar af þeirri leið sem farin er hér á landi, að leggja úrvinnslugjald á innflutta vöru við tollafgreiðslu hennar. Þó að þar sé á suman hátt um að ræða mjög skilvirka leið til að tryggja að gjaldið sé lagt á, þá dregur það á sama tíma úr gagnsæi og gerir allar breytingar þungar í vöfum. Þá er ótalin sú hætta á villum, en dæmi þess má sjá í því að með c-lið 4. gr. frumvarpsins er lögð til leiðrétting með því að færa undir kafla 4823 tollskrárinnar vöruflokka sem með samþykkt laga nr. 172/2022 voru ranglega færðir undir kafla 4822.
    Tekur minni hlutinn undir ábendingar umsagnaraðila um mikilvægi þess að ráðast í endurskoðun á kerfinu hið fyrsta, en við þá endurskoðun þurfi að líta sérstaklega til þess hvort of mikið flækjustig felist í því að stýra úrvinnslugjaldinu með lögum sem styðjast við tollskrá sem breytist reglulega. Minni hlutinn tekur undir þau rök sem birtast í nefndaráliti meiri hlutans þess efnis, en telur vænlegra til árangurs að hvetja ráðuneytið ekki einungis til aðgerða í nefndaráliti heldur leggur til eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir 8. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal eigi síðar en 1. desember 2024 flytja Alþingi skýrslu um áform sín um endurskoðun á kerfi og fyrirkomulagi söfnunar og úrvinnslu úrgangs, þar sem m.a. sé horft til stjórnsýsluúttektar ríkisendurskoðanda á Úrvinnslusjóði frá árinu 2022, skýrslu starfshóps um hlutverk framleiðenda í hringrásarhagkerfi frá sama ári og nýrrar umbúðatilskipunar sem vænta má á vettvangi Evrópusambandsins. Skýrslu ráðherra skal vísa til umhverfis- og samgöngunefndar til umfjöllunar.

Alþingi, 19. júní 2024.

Andrés Ingi Jónsson,
frsm.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.