Ferill 912. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1781  —  912. mál.




Frumvarp til laga


um frjálst flæði ópersónugreinanlegra gagna.

(Eftir 2. umræðu, 3. júní.)


1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja frjálst flæði ópersónugreinanlegra gagna innan Evrópska efnahagssvæðisins.

2. gr.
Lögfesting.

    Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1807 frá 14. nóvember 2018 um ramma um frjálst flæði ópersónulegra upplýsinga í Evrópusambandinu, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 25 frá 21. mars 2024, bls. 34–43, skulu hafa lagagildi hér á landi með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 240/2023 frá 22. september 2023, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 35 frá 2024, bls. 86, sbr. einnig bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, þar sem bókunin er lögfest.

3. gr.
Orðskýringar.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Gögn: Gögn, önnur en gögn sem innihalda persónuupplýsingar eins og þær eru skilgreindar í 2. tölul. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.
     2.      Krafa um staðsetningu gagna: Hver sú skuldbinding, bann, skilyrði, takmörkun eða önnur krafa, sem kveðið er á um í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum eða byggist á stjórnsýsluvenjum opinberra aðila, sem áskilur að vinnsla gagna fari fram á yfirráðasvæði tiltekins aðildarríkis EES-samningsins eða hindrar vinnslu gagna í einhverju aðildarríkjanna.
     3.      Vinnsla: Aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með gögn eða gagnamengi á rafrænu formi, hvort sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki, svo sem söfnun, skráning, flokkun, kerfisbinding, varðveisla, aðlögun eða breyting, heimt, skoðun, notkun, miðlun um framsendingu, dreifing eða aðrar aðferðir til að gera upplýsingarnar tiltækar, samtenging eða samkeyrsla, aðgangstakmörkun, eyðing eða eyðilegging.

4. gr.
Kröfur um staðsetningu.

    Kröfur um staðsetningu gagna skulu bannaðar nema þær séu rökstuddar á grundvelli almannaöryggis og í samræmi við meðalhófsregluna, með þeim undantekningum sem kveðið er á um í reglugerð (ESB) 2018/1807.

5. gr.
Aðgangur yfirvalda að gögnum.

    Lög þessi hafa ekki áhrif á heimildir íslenskra yfirvalda til að óska eftir eða fá aðgang að gögnum við framkvæmd opinberra skyldustarfa sinna. Ekki er heimilt að synja lögbærum yfirvöldum um aðgang að gögnum með vísan til þess að gögnin séu unnin í öðru aðildarríki EES-samningsins.
    Ef lögbært yfirvald fær ekki aðgang að gögnum aðila sem notar gagnavinnsluþjónustu eftir að hafa óskað eftir því og ef sérstakt samstarfsfyrirkomulag er ekki fyrir hendi er því heimilt að óska eftir aðstoð lögbærs yfirvalds í því aðildarríki EES-samningsins sem gögnin eru unnin í gegnum sérstakan tengilið, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1807.

6. gr.
Tengiliður.

    Ráðherra gegnir hlutverki tengiliðar skv. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1807 og tekur á móti beiðnum tengiliða aðildarríkja EES-samningsins. Ráðherra framsendir beiðni til viðeigandi lögbærs yfirvalds. Ráðherra er heimilt að tilnefna annan aðila sem tengilið.
    Ráðherra skal birta rafrænt upplýsingar um allar kröfur um staðsetningu gagna, sem mælt er fyrir um í almennum lögum eða stjórnsýslufyrirmælum, og tilkynna tímabundna ráðstöfun sem krefst staðsetningar gagna hér á landi lengur en í 180 daga í samræmi við 4. mgr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1807.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd reglugerðar (ESB) 2018/1807 um þau atriði sem koma fram um samstarf stjórnvalda og tilkynningar í 4., 5. og 7. gr. reglugerðar (ESB) 2018/1807.

7. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.