Ferill 882. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1319  —  882. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um áhrif veiðarfæra á losun koltvísýrings og líffræðilega fjölbreytni á hafsbotni.


Flm.: Bjarni Jónsson, Orri Páll Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að kanna losun gróðurhúsalofttegunda neðansjávar vegna jarðrasks af hafsbotni með tilliti til mismunandi veiðarfæra og áhrifa þeirra á líffræðilega fjölbreytni.

Greinargerð.

    Mikið af koltvísýringi og öðrum gróðurhúsalofttegundum á hafsbotni er bundið í setlögum á grunnsævi þar sem fiskveiðar og önnur athafnasemi manna fer fram. Þessi athafnasemi, þ.e. veiðar með ýmsum veiðarfærum, sér í lagi þeim sem dregin eru eftir hafsbotni, dýpkun og fleira sem raskar setlögum, getur valdið losun gróðurhúsalofttegunda, einkum koltvísýrings, í stórum stíl. Ekki liggur fyrir hversu mikið af koltvísýringi losnar við notkun mismunandi veiðarfæra sem dregin eru eftir botni eða vegna dýpkunar og mannvirkjagerðar á grunnsævi og mikilvægt að gera á því bragarbót.
    Í hafinu er að finna einstök vistkerfi sem standa undir áframhaldandi tilvist okkar og lífi á jörðinni. Þangað sækjum við mat og nýtum auðlindir sem þarf að ganga varfærnislega um. Höfin geyma gríðarlegt magn af kolefni með því að drekka í sig stóran hluta alls þess koltvísýrings sem fer út í andrúmsloftið. Koltvísýringur í hafinu er m.a. fangaður við ljóstillífun ýmissa þörunga (til að mynda grænþörunga og kísilþörunga) sem síðar deyja og falla til botns og safnast fyrir í setlögum á hafsbotni. Þá fangar hafið kolefni með því að draga ólífrænt kolefni (kolefni bundið í steintegundum, málmgrýti o.fl.) úr andrúmslofti og ferskvatni, umbreyta því í lífræn kolefni og geyma til langs tíma í lífrænum setlögum á hafsbotni. Hafið í kringum Ísland er einkum ríkt af bláum skógi en það á við um strandgróður, svo sem þaraskóga, marhálmsengi og þangbreiður, sem sömuleiðis geyma ríkulegt magn gróðurhúsalofttegunda. Þessi eiginleiki hafsins til að fanga gróðurhúsalofttegundir er lykilatriði í hringrás kolefnis og stuðlar að jafnvægi á milli vistkerfa.
    Orðatiltækið „lengi tekur sjórinn við“ varðar þá almennu trú manna að hafið taki án takmarkana við úrgangi og losun af mannavöldum. Í þessu má finna nokkurn sannleika en aukinn styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hefur þýtt að hafið gleypir aukið magn koltvísýrings. Þegar magn koltvísýrings eykst í hafinu verða efnaskipti sem lækka sýrustig þess og leiða til súrnunar sem í senn hefur skaðleg áhrif á lífríki hafsins. Máltækið er því dýru verði keypt og víst til þess fallið að ganga nærri lífríkinu og gáfu hafsins til þess að fanga gróðurhúsalofttegundir til langframa.
    Talið er að sjórinn hafi gleypt um 40% losunar af mannavöldum frá upphafi iðnbyltingarinnar í gegnum ýmsa líffræðilega ferla eins og stiklað var á að framan. Óljóst er hversu mikil losun gróðurhúsalofttegunda á sér stað þegar veiðarfæri eru dregin eftir hafsbotni og í því tilliti mikilvægt að það sé reiknað sem hluti af losun koltvísýrings vegna ólíkra veiða, með mismunandi veiðarfærum. Hér á landi eru veiðar stundaðar með átta ólíkum veiðarfærum. Þau eru botnvarpa, lína, net, flotvarpa, snurvoð, handfæri, plógur og gildrur. Áhrif þeirra á umhverfið eru ólík. Samkvæmt svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Ara Trausta Guðmundssonar (149. löggjafarþing, þskj. 333, 73. mál) um niðurstöður rannsókna á umhverfisáhrifum veiðarfæra í sjó, styðst Hafrannsóknastofnun við þrjú atriði við mat á umhverfisáhrifum veiðarfæra. Það eru orkunotkun, kjörhæfni, þ.e. stærð möskva með tilliti til stærðar fiska sem á að veiða, og áhrif á vistkerfi eða lífverur sem veiðarfæri snerta og deyða. Í svarinu kemur einnig fram að ekki hafi verið gerðar margar rannsóknir á beinum áhrifum notkunar mismunandi veiðarfæra á mismunandi botngerðir hér við land enda vantar meiri og betri kortlagningu botngerða og vistkerfa umhverfis landið. Þá segir í svarinu: „[A]ð skilgreina þurfi mismunandi búsvæði, bæði út frá umhverfisaðstæðum og þeim lífverum sem þar dveljast, eða nýta sér þau. Áhrif mismunandi veiðarfæra er þá hægt að meta fyrir hvert búsvæði fyrir sig. Gæta skal að viðkvæmum búsvæðum og að ekki sé gengið of nærri einstökum búsvæðum sem myndi minnka fjölbreytileika þeirra hér við land.“
    Það er ærið verkefnið að styðja við þann þátt í starfsemi Hafrannsóknastofnunar sem lýtur að rannsóknum og eftirliti með áhrifum veiðarfæra. Það er tillaga þeirra sem standa að þessari þingsályktunartillögu að hún taki einnig til losunar gróðurhúsalofttegunda af hafsbotni vegna þess jarðrasks sem kann að hljótast af mismunandi veiðarfærum eftir botnlagi. Í alþjóðlegu samhengi er ekki víða að finna skipulagt eftirlit sem slíkt og því enn fremur tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld að vera leiðandi í eftirliti með losun frá hafsbotni sem kemur til vegna veiðarfæra.