Ferill 847. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1875  —  847. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, nr. 13/1998 (forstaða og stafrænt aðgengi).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti frá matvælaráðuneyti, Félagi skipstjórnarmanna, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Skattinum, Hagstofu Íslands og Verðlagsstofu skiptaverðs.
    Nefndinni bárust sjö umsagnir um málið sem eru aðgengilegar á síðu þess á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, nr. 13/1998. Frumvarpinu er ætlað að styrkja heimildir Verðlagsstofu skiptaverðs til aðgangs að gagnasöfnum Skattsins og Hagstofu Íslands auk þess sem ráðherra er veitt heimild til að fela forstöðumanni annarrar ríkisstofnunar/ríkisaðila að gegna einnig forstöðu Verðlagsstofu skiptaverðs til ákveðins tíma í senn.
    Við umfjöllun nefndarinnar og í umsögn Skattsins kom fram gagnrýni á 2. gr. frumvarpsins, en með henni er lögð skylda á stofnanir sem safna upplýsingum um útflutning sjávarafurða, svo sem Skattinn og Hagstofu Íslands, að veita Verðlagsstofu skiptaverðs aðgang að þeim upplýsingum með rafrænum eða stafrænum hætti. Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar um málið telur ráðuneytið rétt að fram fari endurskoðun á ákvæðum 2. gr. í ljósi umsagna frá Skattinum og samtals Verðlagsstofu við Hagstofu Íslands. Nauðsynlegt er að um ákvæðið ríki sátt og sameiginlegur skilningur milli stofnana. Leggur meiri hlutinn af þeim sökum til breytingu á frumvarpinu þess efnis að 2. gr. falli brott.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. gr. falli brott.

Alþingi, 11. júní 2024.

Þórarinn Ingi Pétursson,
form.
Eva Dögg Davíðsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Birgir Þórarinsson. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.