Ferill 804. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2175  —  804. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um styrki til félagasamtaka.


     1.      Hversu háa fjárhæð greiddi ráðuneytið og hver undirstofnun þess frjálsum félagasamtökum árin 2020–2023? Svar óskast sundurliðað eftir félagasamtökum og því hvort fjárhæðin var styrkveiting, kaup á þjónustu, félagsgjöld eða annað og með skýringum um hvað felst í liðnum annað auk upplýsinga um hversu hátt hlutfall hver liður er af heildargreiðslu til félagasamtakanna.
    Veittir hafa verið styrkir og greiðslur til frjálsra félagasamtaka af eftirfarandi fjárlagaviðföngum eða safnliðum sem allir eru í umsýslu ráðuneytisins:
          07-700-115 Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks (málefnasvið 27) – Tafla 1.
          07-999-121 Fjölskyldumál, ýmis verkefni (málefnasvið 29) – Tafla 2.
          07-999-142 Samningar um aðstoð við þolendur ofbeldis og rekstur athvarfa (málefnasvið 29) – Tafla 3.
          07-981-111 Ýmis vinnumarkaðsmál (málefnasvið 30) – Tafla 4.
          07-190-190 Ýmislegt (málefnasvið/málaflokkur 32.40) – Tafla 5.
          07-190-198 Ýmis framlög félagsmálaráðuneytis (málefnasvið/málaflokkur 32.40) – Tafla 6.
          07-199-110 til ráðstöfunar samkvæmt ákvörðun ráðherra (málefnasvið/málaflokkur 32.40) – Tafla 7.
          07-999-176 Velferðarstyrkir á sviði félagsmála (málefnasvið/málaflokkur 32.40) – Tafla 8.
    Í töflunum koma fram fjárhæðir á umbeðnu tímabili og til hvaða verkefna þær voru ætlaðar (sjá fylgiskjal).
    Velferðarstyrkjum er úthlutað ár hvert til frjálsra félagasamtaka á grundvelli styrkumsókna og í samræmi við reglur um úthlutun styrkja sem félags- og vinnumarkaðsráðherra veitir samkvæmt safnliðum fjárlaga hverju sinni.
    Í svari ráðuneytisins er ekki tekin með úthlutun COVID-fjármagns, en á tímabili heimsfaraldursins fékk ráðuneytið sérstök tímabundin framlög sem varið var til fjölbreyttra verkefna sem miðuðu að því að bregðast við áhrifum faraldursins. Því kunna einhverjir þeirra styrkþega sem upp eru taldir í svari ráðuneytisins einnig að hafa fengið styrk af sérstökum COVID-framlögum.
    Hvað stofnanir ráðuneytisins varðar eru einungis tvær þeirra með greiðslur til frjálsra félagasamtaka. Annars vegar Vinnumálastofnun, tafla 9, sem hefur umsjón með sjóðum sem ætlaðir eru til vinnumarkaðsúrræða fyrir fólk með skerta starfsgetu og til starfsendurhæfingar og hins vegar Þjónustu- og þekkingarmiðstöð blindra, sjónskertra og daufblindra einstaklinga, tafla 10, þar sem greiðsla húsaleiga skýrir að nokkuð stórum hluta greiðslur til félagasamtaka.
    Auk þeirra greiðslna sem upp eru taldar í töflum í fylgiskjali þá er þess að geta að í einhverjum tilvikum er greidd félagsaðild fyrir stofnanir/ráðuneytið og eða ákveðna starfsmenn stofnana/ráðuneytis ef það er metið svo að aðild að félagi sé nauðsynleg starfseminnar og starfsmannsins vegna. Þetta getur til að mynda verið aðild að Félagi forstöðumanna ríkisins, Mannauði, félagi mannauðsfólks og Stjórnvísi. Fjárhæðir af þessum toga eru óverulegar.

     2.      Eru í gildi hjá ráðuneytinu reglur um úthlutanir styrkja til félagasamtaka?
    Reglur um úthlutanir styrkja til félagasamtaka gilda einungis um svonefnda velferðarstyrki (styrkir af safnliðum fjárlaga vegna verkefna á málefnasviði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins).
    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið auglýsir árlega eftir umsóknum um styrki frá íslenskum félagasamtökum til verkefna og starfsemi sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins. Á vef Stjórnartíðinda má sjá reglur um úthlutun styrkjanna (nr. 1133/2022). 1 Auglýst er eftir umsóknum um styrki á haustin og er mögulegt að sækja um tvenns konar styrki:
     1.      Verkefnastyrkir. Verkefnastyrkir eru veittir til afmarkaðra verkefna og alla jafna ekki veittir til lengri tíma en eins árs í senn. Í þeim tilvikum þar sem verktími er lengri en eitt ár er heimilt að veita árlegan styrk til allt að þriggja ára, með fyrirvara um fjárveitingar á fjárlögum hverju sinni. Ekki eru veittir styrkir til sömu verkefna og hljóta styrk á fjárlögum eða verkefna sem falla undir sjóði ráðuneytisins eða samninga við það.
     2.      Rekstrarstyrkir. Styrkir eru veittir til reksturs félagasamtaka sem hafa verið starfandi í að lágmarki þrjú ár. Rekstrarstyrkir geta verið veittir til tveggja ára í senn.

     3.      Fer fram mat á árangri af styrkveitingunum?
    Í hverjum samningi og styrksamkomulagi sem ráðuneytið gerir er iðulega kveðið á um skil á lokagreinargerð um framvindu verkefna, árangur og aðrar viðeigandi upplýsingar, ásamt fjárhagsuppgjöri. Í samningum til lengri tíma er að auki óskað eftir reglulegum áfangaskýrslum um framvindu verkefna sem kveðið er á um í samningi.


Fylgiskjal.


Styrkir og greiðslur til félagasamtaka.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/r0001-f_I.pdf


1     www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=fc2ba0ee-a31d-47bb-ad54-ab3d7999f2b3