Ferill 722. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1719 — 722. mál.
2. umræða.
Nefndarálit með frávísunartillögu
um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga,
nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).
Frá 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um útlendinga, nr. 80/2016. Helstu breytingar varða brottfall ákvæðis um skyldu stjórnvalda til að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða sérstakra ástæðna, þrengingu á skilyrðum fyrir fjölskyldusameiningu, styttingu gildistíma dvalarleyfa, breytingar á skipan kærunefndar útlendingamála og störfum hennar og þrengingu á skilyrðum fyrir leyfi til atvinnu á meðan á umsóknarferli um alþjóðlega vernd stendur.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að þær breytingar sem lagðar eru til miði m.a. að því að samræma lög um útlendinga við löggjöf í öðrum Evrópuríkjum, þá einkum annars staðar á Norðurlöndum. Þá sé einnig stefnt að því að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar og tryggja hagræðingu við nýtingu fjármagns. Það er mat 3. minni hluta nefndarinnar að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu muni ekki ná tilskildum markmiðum, nema á þann hátt að samræma íslenskt regluverk að einhverju leyti við danska löggjöf, sem hvorki þjóni þeim tilgangi að auka skilvirkni né tryggja hagræðingu. Þvert á móti bendir allt til þess að umrædd ákvæði muni bæði auka álag á kerfið og auka kostnað. Samkvæmt gögnum og umsögn frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru auk þess líkur á að umræddar breytingar hafi alvarleg neikvæð áhrif á andlega heilsu fólks, sérstaklega barna, og vinni gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar um inngildingu.
Sérstakar ástæður og sérstök tengsl.
Núgildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveður á um að íslenskum stjórnvöldum beri skylda til að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái vernd hér eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því. Þetta ákvæði hefur á undanförnum árum verið túlkað sífellt þrengra af hálfu Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála og er því sjaldan beitt í framkvæmd. Að taka út þetta mikilvæga ákvæði þýðir að eina von þeirra umsækjenda, sem hafa sérstök tengsl við landið eða hafa sérstakar ástæður fyrir áframhaldandi dvöl á Íslandi, er að Útlendingastofnun meti ástand og aðstæður í móttökuríki þannig að líf eða frelsi viðkomandi sé í hættu, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna, en því ákvæði hefur aldrei verið beitt í framkvæmd. Af hálfu ráðuneytisins hefur því verið haldið fram að ástæðan sé sú að 2. mgr. sé víðtækari og því hafi ekki komið til beitingar 3. mgr. Þau rök standast þó ekki skoðun þar sem sambærilegum fyrirvara í eldri lögum var heldur aldrei beitt gagnvart einstaklingum sem veitt hefur verið vernd í öðru ríki, þrátt fyrir að ákvæði á borð við 2. mgr. væri þar ekki fyrir að fara. Er þetta raunar ástæðan fyrir því að ákvæði 2. mgr. 36. gr. var sett á sínum tíma.
Með brottfalli ákvæðisins er eina tæki stjórnvalda til þess að líta til persónulegra aðstæðna umsækjenda afnumið sem útilokar í reynd möguleika fólks í ákveðinni stöðu á að fá umsókn sína tekna til efnismeðferðar á Íslandi þrátt fyrir aðkallandi ástæður. Einnig er vert að nefna að það gengur þvert á markmið frumvarpsins um skilvirkni að fella ákvæðið úr gildi þar sem í því er einnig að finna hvata fyrir stjórnvöld að komast að niðurstöðu í málum sem þessum innan 12 mánaða. 3. minni hluti tekur undir áhyggjur lögmannsstofunnar Claudiu & Partners, Íslandsdeildar Amnesty International, Mannréttindaskrifstofu Íslands og ÖBÍ réttindasamtaka þess efnis að frumvarpið samræmist ekki markmiðum laganna um að tryggja mannúðlega og skilvirka meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga og lítur það alvarlegum augum að skerða réttindi og stöðu fólks í neyð með þeim hætti sem lagt er til.
Þriðji minni hluti telur ljóst að álag á Útlendingastofnun muni ekki minnka við þessa breytingu heldur ýmist aukast eða færast yfir á önnur svið starfseminnar. 3. minni hluti telur vænlegra til árangurs og aukinnar skilvirkni að standa betur að rekstri stofnunarinnar og starfsemi, t.d. með því að tryggja aðstæður og þjálfun fyrir starfsfólk og aukinn mannskap með sérþekkingu á stjórnsýslurétti og málefnum útlendinga.
Í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er staðhæft að tímamörk í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skapi hvata og togstreitu í kerfinu þar sem umsækjendur hafi hag af því að tefja mál sín. Ekki einungis er þetta rangt að mati 3. minni hluta, enda skýrt tekið fram í ákvæðinu að tímamörkin gildi ekki ef um tafir á ábyrgð umsækjanda sjálfs er að ræða, heldur telur 3. minni hluti fullyrðinguna lýsa fordómum og skilningsleysi á stöðu fólks á flótta. Það kýs enginn að lifa í algjörri óvissu til lengri tíma.
Fjölskyldusameining.
Réttur fólks á flótta til að sameinast fjölskyldu sinni er skýr samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist. Að þrengja skilyrði fjölskyldusameiningar fólks á flótta er bæði ómannúðlegt og tilgangslaust. Í frumvarpinu er lagt til að handhafar viðbótarverndar skv. 2. mgr. 37. gr. þurfi að bíða í tvö ár og fá endurnýjun dvalarleyfis síns áður en viðkomandi getur sótt um fjölskyldusameiningu. Fólk sem flýr viðvarandi stríðsástand eða almennt hættuástand í heimaríki, en sætir ekki persónulegum ofsóknum þar í landi, fær almennt viðbótarvernd en ekki stöðu flóttamanns skv. 1. mgr. 37. gr. laganna. Athygli vekur að ekki er lagt til að fólk með stöðu flóttamanns skv. 1. mgr. 37. gr. sæti sömu þröngu skilyrðum fyrir fjölskyldusameiningu og handhafar viðbótarverndar skv. 2. mgr. 37. gr.
Þriðji minni hluti nefndarinnar lýsir yfir verulegum áhyggjum af þessari atlögu að rétti fólks til sameiningar við sína allra nánustu en rétt er að árétta að umræddur réttur til fjölskyldusameiningar á einungis við um maka, ólögráða börn viðkomandi og aldraða foreldra. Er því þegar um afar þröngan rétt að ræða. Breytingin sem lögð er til í frumvarpinu ýtir undir það að einstaklingar sem veitt hefur verið viðbótarvernd hér á landi bíði í von og óvon eftir því að geta óskað eftir sameiningu við fjölskyldu sína, sem á þessum tíma gæti hafa orðið fyrir varanlegum og óafturkræfum skaða. 3. minni hluti nefndarinnar telur enn fremur með öllu óásættanlegt að lögfesta slíka mismunun á milli einstaklinga með stöðu flóttamanns og þeirra sem njóta viðbótarverndar á þennan hátt. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna bendir á að báðir hópar standa frammi fyrir sömu áskorunum og í reynd snúi handhafar viðbótarverndar almennt ekki fyrr heim en handhafar alþjóðlegrar verndar. Stofnunin bendir einnig á að langvarandi aðskilnaður fjölskyldna á flótta geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir andlega líðan þeirra, aðlögun að verndarríkinu, virkni í samfélaginu og enduruppbyggingu lífs þeirra. Telur 3. minni hluti ljóst að fjölskyldusameining sé lykilþáttur í inngildingu þessa hóps og hefur áhyggjur af því að sú nálgun sem lögð er til í frumvarpinu geti einungis orðið til þess að tefja fyrir eða koma í veg fyrir inngildingu og geri það að verkum að fólk einangrist frekar frá samfélaginu. Þrenging skilyrða til fjölskyldusameiningar grefur þannig undan þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér um inngildingu.
Í minnisblaði ráðuneytisins til nefndarinnar þann 3. maí sl. viðurkennir ráðuneytið að biðtími fyrir fjölskyldusameiningar handhafa viðbótarverndar geti haft neikvæð áhrif á inngildingu þeirra. 3. minni hluti telur að með þessari viðurkenningu ráðuneytisins sé búið að afhjúpa þá staðreynd að breytingarnar snúist ekki að neinu leyti um mannúð, skilvirkni, hagræðingu né annað en að senda þau skýru skilaboð til fólks á flótta að það sé ekki velkomið hér og að stjórnvöld skeyti engu um velferð þess. Kostnaðurinn af þessu skeytingarleysi gæti orðið gríðarlegur til lengri tíma litið því að farsæl inngilding vinnur gegn jaðarsetningu og ýtir þar með undir öryggi samfélagsins. Skammsýni meiri hlutans, sú er birtist m.a. í þessari breytingu, gæti því orðið samfélaginu öllu dýrkeypt.
Þá er vert að benda á að breyting þessi færir íslensk lög ekki nær löggjöf í öðrum Evrópuríkjum, enda hafa fæst þeirra gert biðtíma að skilyrði fyrir veitingu fjölskyldusameiningar. Hvergi er því að finna haldbær rök fyrir slíkum tímamörkum sem lögð eru til í frumvarpinu, hvorki í greinargerð né minnisblöðum ráðuneytisins. 3. minni hluti hefur ítrekað kallað eftir frekari rökstuðningi frá ráðuneytinu, án árangurs. Það er mat 3. minni hluta að rétt sé að fylgja fordæmi annarra ríkja þegar um er að ræða löggjöf sem reynst hefur vel en að engin ástæða sé til þess að herma löggjöf eftir sem veldur einungis skaða og vinnur gegn þeim markmiðum sem stefnt er að.
Stytting gildistíma dvalarleyfa.
Stytting gildistíma dvalarleyfa á grundvelli alþjóðlegrar verndar, viðbótarverndar eða mannúðarsjónarmiða er enn önnur breytingin sem grefur undan mikilvægu markmiði ríkisstjórnarinnar um inngildingu. Stytting gildistíma dvalarleyfa mun enn fremur ekki auka skilvirkni, heldur þvert á móti auka álag á Útlendingastofnun við afgreiðslu umsókna um endurnýjun dvalarleyfa. Óljóst er hver tilgangurinn er með breytingunni annar en að senda fólki þau skilaboð að það sé ekki raunverulega velkomið hér á landi, sem bæði aftrar inngildingu verulega og ýtir undir óvissu og kvíða í lífi fólks sem þegar er að takast á við erfiðleika tengda flótta frá heimalandi, með slæmum og hugsanlega alvarlegum afleiðingum fyrir bæði fólkið sjálft og samfélagið.
Athygli vekur að mikil áhersla er lögð á það í frumvarpinu að samræma íslenskt regluverk í málaflokknum við löggjöf hinna Norðurlandanna. Hvað varðar gildistíma dvalarleyfa á grundvelli stöðu flóttamanns, viðbótarverndar eða mannúðarsjónarmiða, þá er regluverk á Norðurlöndum þó alls ekki samræmt hvað þetta varðar. Vísað er til minnisblaðs dómsmálaráðuneytisins 19. apríl sl. þar sem fram kemur að Ísland og Finnland veita handhöfum alþjóðlegrar verndar og viðbótarverndar leyfi til fjögurra ára og mannúðarleyfi til eins árs. Noregur og Svíþjóð veita handhöfum alþjóðlegrar verndar leyfi til dvalar til þriggja ára en Danmörk til tveggja ára. Handhafar viðbótarverndar fá dvalarleyfi til þriggja ára í Noregi en aðeins eins árs í Danmörku og 13 mánaða í Svíþjóð. Að mati 3. minni hluta getur ekki staðist að tilgangur breytinganna sé að samræma íslenskt regluverk við regluverk annarra þjóða sem ekki er betur samræmt en þetta, auk þess sem ekkert liggur fyrir um að stytting gildistíma dvalarleyfa hafi gefið góða raun. Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna varar þvert á móti við afleiðingum slíkra breytinga á inngildingu handhafa alþjóðlegrar verndar og viðbótarverndar í skriflegum svörum sínum til nefndarinnar 8. maí sl. Stofnunin varpar þar ljósi á hvernig tímabundin dvalarleyfi hafi neikvæð áhrif á geðheilbrigði barna og ungmenna, sem og neikvæð áhrif á inngildingu verndarhafa þar sem þau upplifa að stuttur gildistími hafi töluverð neikvæð áhrif á framtíðarmöguleika þeirra í verndarríkinu.
Þriðji minni hluti telur gagnlegra að taka upp þá stefnu og löggjöf nágrannaþjóða okkar sem reynst hefur vel, frekar en að herma eftir löggjöf sem hefur sýnt sig að skilar sér í neikvæðum afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélagið allt. Ráðuneytið kveðst telja að stytting gildistíma dvalarleyfa hafi takmarkaðar íþyngjandi afleiðingar fyrir verndarhafa þar sem þeim sé hvort eð er ráðlagt að sækja um endurnýjun dvalarleyfis síns á þeim grundvelli að málsmeðferðartími ótímabundinna leyfa sé svo langur að hætt sé við því að viðkomandi verði án gilds dvalarleyfis á meðan umsóknin bíður úrvinnslu. 3. minni hluti telur hins vegar liggja í augum uppi að stytting gildistíma dvalarleyfa muni auka álagið á þegar yfirfulla málavinnslu.
Kærunefnd útlendingamála.
Þær breytingar á skipan og fyrirkomulagi innan kærunefndar útlendingamála sem lagðar eru til í frumvarpinu felast m.a. í því að fækka nefndarmönnum, fella brott heimild nefndarmanna til að afla sérfræðiaðstoðar við úrvinnslu einstakra mála og heimila að aðeins einn nefndarmaður úrskurði í nokkrum tegundum mála, sem teljast verður veruleg og alvarleg skerðing á rétti fólks til að fá ákvörðun Útlendingastofnunar endurskoðaða. Í fyrsta lagi er lagt til að nefndarmönnum verði fækkað í þrjá, þar sem áður voru sjö. Í þessu felst að fleiri nefndarmenn verða í fullu starfi frekar en hlutastarfi. Að mati 3. minni hluta mun slík fækkun ekki skipta sköpum fyrir aukin afköst eða skilvirkni við málsmeðferðina, enda kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins frá 19. apríl sl. að fyrirhugaðar breytingar hafi hvorki í för með sér kostnaðarauka né sparnað fyrir ríkissjóð. Hér er því einungis um að ræða hagræðingu innan stofnunar í formi lagabreytingar sem hvergi hefur verið fyllilega rökstudd af flutningsmönnum frumvarpsins, þ.e. hvernig og hvort slík hagræðing muni þjóna markmiðum frumvarpsins um aukna skilvirkni og styttri málsmeðferðartíma.
Í öðru lagi er lagt er til að fella brott 5. mgr. 8. gr. laga um útlendinga þar sem kveðið er á um að nefndinni sé heimilt að kalla til sín sérfræðinga sér til ráðgjafar við gerð úrskurða í einstökum málum. Telur 3. minni hluti vandséð hver tilgangur breytingar þessarar sé en í greinargerð með núgildandi lögum segir að heimildin sé álitin mikilvæg þar sem reynt getur á ólík atriði við úrlausn þeirra mála sem nefndinni eru falin í hinum ýmsu lögum.
Í þriðja lagi hefur 3. minni hluti áhyggjur af fyrirhuguðu brottfalli ákvæðis um að nefndarmenn skuli tilnefndir af Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, en þess í stað sé það alfarið lagt í hendur ráðherra að skipa fulltrúa í kærunefnd. Telur 3. minni hluti þessar breytingar grafa undan trausti til nefndarinnar og niðurstaðna hennar, sem gengur þvert á þá stefnu sem ríkisstjórnin kynnti í stjórnarsáttmála sínum árið 2021 um málefni útlendinga. Þar kom skýrt fram að auka þyrfti traust og gagnsæi um ákvarðanir útlendingayfirvalda.
Í fjórða lagi telur 3. minni hluti, í ljósi takmarkaðs aðgengis hælisleitenda að dómstólum, fyrirhugaða heimild til að aðeins einn nefndarmaður úrskurði í ákveðnum málum alvarlega aðför að réttaröryggi fólks. Það er ekki að ástæðulausu sem úrskurðarnefndir eru almennt fjölskipaðar í stjórnsýslunni. Slíkt fyrirkomulag er við lýði svo að tryggja megi réttaröryggi kærenda.
Bráðabirgðadvalar- og atvinnuleyfi fyrir hælisleitendur.
Í minnisblaði Dómsmálaráðuneytisins 19. apríl sl. kemur fram að ráðuneytið meti það sem svo að gildandi lög gangi of langt í því að veita hælisleitendum heimild til atvinnu á meðan umsókn þeirra er í vinnslu stjórnvalda. Eins segir að það gangi gegn markmiðum laga um sjálfviljuga heimför að leyfa einstaklingi, sem hlotið hefur synjun á umsókn sinni frá Útlendingastofnun, að starfa á almennum vinnumarkaði samhliða undirbúningi brottvísunar hans. Ráðuneytið tíundar einnig að einstaklingur í þeirri stöðu sé í ólögmætri dvöl á þeim tímapunkti og geti, eftir atvikum, fengið aðstoð við sjálfviljuga heimför.
Það er mat 3. minni hluta að það sé með öllu ómannúðlegt, svo að ekki sé talað um tilgangslaust, að neyða hælisleitendur, sem hlotið hafa neikvæða niðurstöðu frá Útlendingastofnun, að hverfa frá vinnumarkaðnum. Hælisleitandi sem hlotið hefur synjun hjá Útlendingastofnun á fullan rétt á því að kæra niðurstöðu stofnunarinnar og er því ekki í ólögmætri dvöl sé kæra lögð fram. Biðin eftir úrskurði kærunefndar útlendingamála getur verið löng og tekið verulega á andlega heilsu fólks, sem hefur fram að því unnið fyrir sér og haft eitthvað fyrir stafni. 3. minni hluti telur bæði mannúðlegra og skilvirkara að heimila umsækjendum að vinna þar til lokaniðurstaða fæst í máli þeirra, þ.e. þegar úrskurður berst frá kærunefnd, auk augljósra jákvæðra áhrifa fyrir samfélagið af því að fólk sé í virkni en ekki fullkomnu aðgerðarleysi. Hefur 3. minni hluti verulegar áhyggjur af þeirri staðhæfingu ráðuneytisins að umsækjandi sé kominn í ólögmæta dvöl strax í kjölfar ákvörðunar Útlendingastofnunar um synjun. 3. minni hluti nefndarinnar leggur áherslu á að rétt skuli vera rétt og að synjun umsóknar á fyrsta stjórnsýslustigi þýði ekki að viðkomandi sé í ólögmætri dvöl, enda kæri flestir neikvæða niðurstöðu stofnunarinnar til kærunefndar í þeirri von að fá leyfi til að dveljast hér löglega og taka þátt í samfélaginu sem fullgildir meðlimur þess. Rétt er einnig að benda á að undirbúningur brottvísunar eða frávísunar hefst ekki fyrr en eftir að lokaniðurstaða liggur fyrir, sem er að jafnaði ekki fyrr en kærunefnd útlendingamála hefur úrskurðað í málinu. Í ljósi ofangreindra atriða telur 3. minni hluti að rök ráðuneytisins fyrir þessari breytingu standist ekki skoðun og að leyfa eigi umsækjendum í þessari stöðu að vinna fyrir sér þar til lokaniðurstaða í máli þeirra hefur borist.
Raunveruleg markmið frumvarpsins.
Dómsmálaráðherra hefur talað mjög opinskátt um það að ráðuneytið telji það ekki mögulegt að taka við 4.000 umsóknum um vernd á ári hverju. Í frétt Morgunblaðsins 23. febrúar sl. koma þessi sjónarmið ráðherra mjög skýrt fram, en þar giskar ráðherra á að Ísland geti líklegast ekki tekið á móti fleiri en 500 umsóknum árlega. Ráðherra segir þó að greiningarvinna á þolmörkum kerfisins þurfi að eiga sér stað til að hægt sé að staðfesta þá tölu. Að sama skapi hafa fyrrum dómsmálaráðherrar úr röðum Sjálfstæðisflokksins bent á að Ísland sé í stórkostlegum vandræðum í útlendingamálum vegna þess fjölda sem hingað kemur og sækir um vernd. Sýn ríkisstjórnarinnar og ráðuneytisins er því mjög skýr: Við tökum á móti of mörgum og það þarf að stöðva.
Dómsmálaráðherra hefur lagt mikla og aukna áherslu á að við séum með séríslenskt regluverk í útlendingamálum sem virki sem sérstakt aðdráttarafl sem fella þarf brott hið snarasta. Ýjað er að því að útlendingar leiti frekar hingað vegna máttlausara regluverks í útlendingamálum miðað við önnur Evrópuríki og að fólk á flótta taki á þeim forsendum meðvitaða ákvörðun um að koma sér hingað til lands frekar en til annarra landa. Stöldrum aðeins við og íhugum þessa vitleysu, að fólk á flótta sé að kynna sér regluverk mismunandi landa í Evrópu í leit að ívilnandi ákvæðum sem muni grípa það umfram lög annarra landa. Þessi tilfinning ráðherra er ekki byggð á þekkingu né trúverðugum upplýsingum heldur áróðri og fordómum-, alveg eins og rökin fyrir nánast öllum breytingum frumvarpsins. Þau eru byggð á lofti og óljósri von um að ef við samræmum lögin okkar við lægsta samnefnara á Norðurlöndunum þá fari fólk bara eitthvað annað. Það er ekki raunhæft.
Grunngildi íslensks samfélags byggjast á virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði, mannlegri reisn og umburðarlyndi, jafnrétti, samstöðu og samkennd. Íslendingar eru stoltir af því að vera friðsæl og herlaus þjóð. Landkynningin út á við setur fram ákveðna ímynd af friðsælu jafnréttisparadísinni Íslandi þar sem er enginn her, glæpatíðni er lág, hinsegin fólki er tekið opnum örmum, atvinnuleysi er lítið og jafnrétti kynjanna er virt, svo að fátt eitt sé nefnt. Að sjálfsögðu vill fólk koma hingað. Það er mjög skiljanlegt að Ísland laði fólk að. Við ættum að vera stolt af því en ekki grafa undan öllu því sem hefur gert okkur að kyndilberum á alþjóðavettvangi. Manneskjur eru aldrei vandamál, heldur er hver manneskja tækifæri fyrir samfélagið til að auðgast, vaxa og dafna. Fólk er ekki byrði á samfélögum, samfélög eru fólk.
Þetta frumvarp felur í sér breytingar sem grafa undan og ganga gegn grunngildum samfélagsins okkar, grunngildum sem ættu að tryggja það að við séum ekki að jaðarsetja fólk af ásettu ráði heldur lyfta því upp, valdefla og leyfa því að blómstra samfélaginu öllu til góðs. Ef samfélag tekur vel á móti fólki þá þykir fólki vænt um samfélagið og gefur til baka. Þannig virkar mannlegt eðli. 3. minni hluta nefndarinnar þykir miður að ekki sé frekar horft til þess hvernig við getum sem best aðstoðað og hvatt fólk til þátttöku í samfélaginu og sett alvöru fjármagn og krafta í það verkefni frekar en að sóa kröftum og fjármunum í að búa til leiðir til að vera nægilega vond við fólk í þeirri von að það komi ekki hingað. Þessi aðferðafræði er keimlík því að stinga hausnum í sandinn. Ástandið sem fólk er að flýja er svo margfalt ógeðslegra en við gætum nokkurn tímann orðað. Við verðum alltaf betri kostur. Fólk mun áfram koma hingað og að öllum líkindum mun ástandið í heiminum stuðla að fjölgun, algjörlega óháð því hversu vond við erum við fólk. Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er ekki hvort hér verði fjölmenningarsamfélag heldur hvernig fjölmenningarsamfélag við viljum byggja grunninn að; samfélagi mannréttinda, lýðræðis, mannlegrar reisnar og umburðarlyndis, jafnréttis, samstöðu og samkenndar eða samfélagi mismununar, skautunar, jaðarsetningar, tengslaleysis og hræðslu.
Að framangreindu virtu leggst 3. minni hluti gegn samþykkt frumvarpsins og leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
Alþingi, 16. maí 2024.
Halldóra Mogensen.