Ferill 686. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2029  —  686. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um Ríkisútvarpið og útvarpsgjald.


     1.      Hvernig hefur fjöldi greiðenda útvarpsgjalds þróast á árunum 2014–2024? Óskað er eftir upplýsingum miðað við 1. janúar ár hvert.
    Útvarpsgjald er innheimt af einstaklingum og lögaðilum í gegnum árlega álagningu í kjölfar skila á skattframtali. Þessar upplýsingar eru á forræði Skattsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins og býr því menningar- og viðskiptaráðuneytið ekki yfir umbeðnum upplýsingum.

     2.      Hvernig hefur fjöldi lögaðila sem greiða útvarpsgjald þróast á árunum 2014–2024? Óskað er eftir upplýsingum miðað við 1. janúar ár hvert.
    Útvarpsgjald er innheimt af lögaðilum í gegnum árlega álagningu í kjölfar skila á skattframtali. Þessar upplýsingar eru á forræði Skattsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins og býr því menningar- og viðskiptaráðuneytið ekki yfir umbeðnum upplýsingum.

     3.      Hver hefur fjárhæð útvarpsgjalds verið á hverju ári 2014–2024? Óskað er eftir upplýsingum á verðlagi hvers árs og á föstu verðlagi.
    Í eftirfarandi töflu er yfirlit hvernig fjárhæð útvarpsgjalds hefur þróast frá árinu 2014– 2024. Fjárhæð útvarpsgjalds hefur verið sú sama hjá lögaðilum og einstaklingum. Upplýsingar um fjárhæð útvarpsgjalds á verðlagi hvers árs er fengin af heimasíðu Skattsins.

Gjaldár Útvarpsgjald á verðlagi hvers árs Útvarpsgjald á verðlagi ársins 2024
2024 20.900 20.900
2023 20.200 21.545
2022 18.800 22.045
2021 18.300 22.679
2020 17.900 23.137
2019 17.500 23.004
2018 17.100 23.239
2017 16.800 23.373
2016 16.400 23.254
2015 17.800 25.782
2014 19.400 28.329


     4.      Hefur Ríkisútvarpið fengið önnur framlög frá ríkissjóði en af útvarpsgjaldi? Óskað er eftir upplýsingum á verðlagi hvers árs 2014–2024 og á föstu verðlagi. Jafnframt er óskað eftir rökstuðningi að baki framlögum.
    Ríkisútvarpið hefur frá árinu 2020 fengið 175 m.kr. framlag á ári til viðbótar við framlög samkvæmt áætlun fjárlaga um tekjur af útvarpsgjaldi. Kveðið hefur verið á um þetta tiltekna viðbótarframlag í þjónustusamningum við Ríkisútvarpið, annars vegar í samningi fyrir tímabilið 2020–2023 og hins vegar í samningi fyrir tímabilið 2024–2027. Viðbótarframlagið er sérstaklega tilgreint til eflingar á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Auk þess er gert er ráð fyrir því í samningnum að hlutfall dagskrárefnis, sem keypt er af sjálfstæðum framleiðendum, eða sem Ríkisútvarpið er meðframleiðandi að, skuli á samningstímanum vera að meðaltali 35% af íslensku efni í sjónvarpi, mælt í klukkustundum og miðað við frumsýnt efni á kjörtíma í línulegri dagskrá.
    Ríkisútvarpið heyrði áður undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og býr því menningar- og viðskiptaráðuneytið ekki yfir upplýsingum um önnur framlög frá ríkissjóði fyrir tíma þjónustusamnings frá árinu 2020.