Ferill 671. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1142  —  671. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgerðaáætlun í plastmálefnum.


     1.      Hvaða styrkir voru veittir til rannsókna og þróunar á plastlausum lausnum á árunum 2020–2023 á grunni aðgerðar 3 í Úr viðjum plastsins, aðgerðaáætlun í plastmálefnum?
    Eins og segir í lýsingu á aðgerðinni í aðgerðaáætlun snýr aðgerðin að því að leita leiða til að veita aukið fjármagn til að styrkja rannsóknir og þróun á nýjum, plastlausum lausnum og stuðla að þróun á endurvinnslumöguleikum plasts. Jafnframt segir í lýsingu að aðgerðin tengist aðgerð 12 í aðgerðaáætluninni, sem ber yfirskriftina Græn nýsköpun og felur m.a. í sér veitingu beinna fjárstyrkja til að efla tækifæri til endurvinnslu úrgangs sem næst upprunastað og stuðla að aukinni endurvinnslu úrgangs sem fellur til hér á landi. Í því skyni að koma þessum aðgerðum til framkvæmdar hóf ráðuneytið úthlutun beinna styrkja til eflingar hringrásarhagkerfi hér á landi árið 2021. Á árunum 2021 og 2022 úthlutaði ráðuneytið samtals 460 millj. kr. til verkefna á sviði hringrásarhagkerfis, að undangenginni auglýsingu. Þar af var 151,3 millj. kr. úthlutað til verkefna sem að hluta eða í heild sneru að notkun eða vinnslu plasts, svo sem til rannsókna og þróunar á plastlausum lausnum, þróunar á möguleikum til endurvinnslu plasts eða með öðrum leiðum draga úr notkun plasts eða auka hringrás plasts. Um var að ræða 13 verkefni og voru þau eftirfarandi:

Umsækjandi Heiti verkefnis Styrkupphæð
Úthlutun árið 2021:
Loftkastalinn ehf. Rusl í gull. Flokkun, endurnýting og vinnslutækni. 20 m.kr.
Pure North Recycling Hey! Rúlluplast – hringrás plasts í landbúnaði á Íslandi. 12,5 m.kr.
Pure North Recycling Bakki í borð – verðmætasköpun úr blönduðum plastúrgangi. 11 m.kr.
Urta Islandica Matarbúðin Nándin – Hringrásarhagkerfi umbúða. 12,3 m.kr.
XYZ Prent ehf. Þrívíddarprentun í stórum stærðum með endurunnu íslensku plasti. 3 m.kr.
Plastgarðar Hey!Rúlla, margnota heyrúllupokar. 6,1 m.kr.
Úthlutun árið 2022:
EFLA Hringrásarveggur. 12 m.kr.
EFLA Auðlindahringrás í rekstri. 8 m.kr.
Gerosion Notkun plastúrgangs í stað kola í kísilmálms- og málmblendiframleiðslu. 11,2 m.kr.
Grænni byggð CIRCON: circular economy in construction. 6,7 m.kr.
IÐA Endurnýting byggingarefna á Íslandi. 20 m.kr.
Plastplan Samþætting plastendurvinnslu og afurðasköpunar. 8,5 m.kr.
SORPA bs. Matvæli í umbúðum – móttaka og vinnsla. 20 m.kr.

    Upplýsingar um öll verkefni sem hlutu styrk árin 2021 og 2022 má finna á vef Stjórnarráðsins. 1
    Styrkir voru ekki veittir á síðastliðnu ári.

     2.      Hvað hefur verið gert til að fylgja eftir aðgerð 8 um ábyrga notkun plasts í atvinnulífinu í aðgerðaáætluninni? Hvaða árangri hefur það skilað til að draga úr plastnotkun, stækka hlut endurunnins plasts, auka endurvinnslu plastúrgangs og lágmarka mögulega losun örplasts?
    Samkvæmt upplýsingum frá Grænvangi, sem fer með ábyrgð á aðgerðinni í samstarfi við fleiri aðila, fólst framkvæmd aðgerðarinnar í málþingi, vinnustofu og kynningu á leiðbeiningum til fyrirtækja. Grænvangur og Umhverfisstofnun, í samstarfi við félagasamtök og atvinnulífið, stóðu fyrir málþingi 26. maí 2021 um plast í atvinnulífinu. Málþingið fór fram rafrænt vegna sóttvarnaaðgerða en m.a. voru flutt erindi um samfélagsábyrgð, endurvinnslu plasts og umbúða, hagræna hvata og plastlausar lausnir. Erindin eru aðgengileg á vef Grænvangs.
    Líkt og segir í lýsingu á aðgerð 8 í aðgerðaáætlun tengist hún aðgerð 11, sem ber yfirskriftina Grænar lausnir fyrir atvinnulífið – miðlæg upplýsingagjöf og Umhverfisstofnun ber ábyrgð á. Þessar aðgerðir voru því unnar að miklu leyti samhliða. Sem lið í framkvæmd aðgerðanna stóð Umhverfisstofnun fyrir gerð leiðbeininga til fyrirtækja um plastnotkun. Í tengslum við gerð leiðbeininganna stóðu stofnunin og Grænvangur sameiginlega fyrir vinnustofu með atvinnulífinu 12. nóvember 2021 þar sem drög að leiðbeiningunum voru rýnd og unnin frekar. Leiðbeiningarnar voru svo kynntar á opnum fyrirlestri Umhverfisstofnunar 13. október 2022 og gerðar aðgengilegar á vefnum Saman gegn sóun, undir yfirskriftinni Plast í atvinnulífinu. Leiðbeiningunum er skipt í sex hluta. Einn hlutinn snýr að umbúðum og annar að rekstri sem felur í sér skrifstofuhald. Fjórum hlutum leiðbeininganna er svo beint að tilteknum atvinnugreinum, þ.e. byggingariðnaði, ferðaþjónustu, landbúnaði og sjávarútvegi. Atvinnulífið hefur unnið áfram með málefnið í stefnumarkandi vinnu, svo sem í tengslum við Loftslagsvegvísa atvinnulífsins þar sem má finna aðgerðir sem snúa að plastnotkun.
    Eins og kemur fram hér að framan náðist fullnægjandi árangur við framkvæmd aðgerðarinnar að því leyti að málþing og vinnustofa voru haldin innan þess tíma sem að var stefnt auk þess sem upplýsingagjöf um málefnið var aukin. Í aðgerðaáætluninni eru ekki skilgreindir mælikvarðar til að meta beinan árangur af aðgerð 8 við að draga úr plastnotkun og auka notkun endurunnins plasts og almennt má segja að erfitt getur reynst að mæla árangur af einstökum aðgerðum þegar kemur að flóknu viðfangsefni eins og plastnotkun í samfélaginu er. Þó má leita almennra vísbendinga um tiltekna þróun eða árangur í gögnum sem liggja fyrir. Þegar kemur að plasti ná aðgengileg gögn til plastumbúða eingöngu, þar sem þær falla annaðhvort undir lög um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, eða lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, og bera ýmist úrvinnslugjald eða skilagjald. Ekki er að sjá á gögnum að notkun á plastumbúðum hér á landi hafi dregist saman á síðastliðnum árum og hefur hún verið nokkuð stöðug á bilinu 40–50 kg/íbúa af umbúðaplasti á ári. Ekki eru til aðgengileg gögn yfir notkun á endurunnu plasti á íslenskum markaði en nefna má dæmi um ráðandi fyrirtæki á drykkjarvörumarkaði sem hefur stigið stórt skref í þessum efnum og er með plastumbúðir sínar eingöngu úr endurunnu plasti. Síðastliðin ár hafa um 30% af plastumbúðum sem falla til á Íslandi farið til endurvinnslu og ekki hefur orðið sýnileg aukning hvað það varðar. Eftir því sem best er vitað eru ekki til aðgengileg gögn um losun örplasts út í umhverfið sem sýnt gætu þróun á losun frá einum tíma til annars.
1     www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/07/09/Uthlutun-styrkja-til-ad-efla-hringrasarhagkerfid/
     www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/07/15/230-milljonum-veitt-i-styrki-til-ad-efla-hringrasarhagkerfid/