Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 1840  —  521. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.


    Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti frá grásleppunefnd Landssambands smábátaeigenda, Sveitarfélaginu Stykkishólmi, Landssambandi smábátaeigenda, grásleppuútgerðum og vinnslu á Húsavík, Bátafélaginu Ægi, Stykkishólmi, Strandveiðifélaginu Króki – félagi smábátaeigenda í Barðastrandarsýslu og matvælaráðuneyti.
    Nefndinni bárust tuttugu og fjórar umsagnir um málið sem eru aðgengilegar á síðu þess á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu er lagt til að aflamarksstjórn verði tekin upp við veiðar á grásleppu en fram til þessa hefur stjórn veiða á grásleppu verið háð rétti til veiða og leyfum Fiskistofu. Þá er lagt til að lögfest verði staðbundin veiðisvæði grásleppu. Aflahlutdeild einstakra skipa verði ákveðin með tilliti til veiðireynslu sem fengist hefur á grundvelli réttar til grásleppuveiða og leyfis frá Fiskistofu sem skráð er á viðkomandi skip á afmörkuðu tímabili. Þá er mælt fyrir um að framsal aflahlutdeildar í grásleppu og flutningur aflamarks í grásleppu á milli staðbundinna veiðisvæða verði óheimill nema í undantekningartilvikum þegar náttúrulegar aðstæður breytast verulega. Til að tryggja nýliðun í greininni verður ráðherra heimilað að draga 5,3% frá heildarafla grásleppu og úthluta því aflamarki til nýliða sem halda til grásleppuveiða í fyrsta skipti. Megintilgangur frumvarpsins er að auka fyrirsjáanleika við grásleppuveiðar og að tryggja betur sjálfbærar og markvissar veiðar. Á undanförnum árum hefur veiðistjórn grásleppu sætt gagnrýni fyrir það að vera ómarkviss og ófyrirsjáanleg þeim sem stunda veiðarnar.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Nefndin fékk á sinn fund fjölda gesta vegna málsins og er ljóst af umfjöllun að skoðanir eru skiptar um það. Álitaefni sem nefndin hefur fjallað um eru allnokkur og leggur meiri hlutinn til breytingar á frumvarpinu sem ætlað er að auka skýrleika þess og sætta að nokkru leyti þau ólíku sjónarmið sem uppi hafa verið.

Stærðarviðmið fiskiskipa.
    Við umfjöllun nefndarinnar var rætt um stærðarviðmið fiskiskipa sem heimilt er að stunda grásleppuveiðar. Fram komu athugasemdir, m.a. um verndun lífríkis á sjávarbotni, sem meiri hlutinn hefur tekið tillit til við vinnslu málsins. Leggur meiri hlutinn til að stærðarviðmið haldist óbreytt og að einungis fiskiskip undir 15 brúttótonnum fái úthlutað grásleppuleyfi.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Veiðisvæði.
    Meiri hlutinn leggur til að veiðisvæðum grásleppu, líkt og þau eru skilgreind í frumvarpinu, verði breytt. Fram komu ábendingar í umsögn grásleppunefndar Landssambands smábátaeigenda þess efnis að ef staðbundin veiðisvæði við Suðurland og á Faxaflóa annars vegar og á Breiðafirði og við Vestfirði hins vegar yrðu sameinuð næðist betra samræmi að því er varðar stærð veiðisvæða. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem þar koma fram og leggur til breytingu á frumvarpinu þess efnis að veiðisvæði A og G verði sameinuð og að veiðisvæði B og C verði sameinuð. Þá er lagt til að felldur verði brott texti varðandi svæði 2 á Breiðafirði (svæði B) og lagt til að mælt verði fyrir um takmarkanir og veiðitíma innan staðbundinna veiðisvæða með reglugerð. Þannig er lagt til að bætt verði við 2. mgr. heimild ráðherra til að takmarka og banna veiðar tímabundið innan staðbundinna svæða vegna hættu á meðafla sjávardýra og fugla. Með ákvæðinu verður heimilt að takmarka veiðitíma innan staðbundinna veiðisvæða sem m.a. koma fram í 3. gr. reglugerðar um hrognkelsaveiðar árið 2024, nr. 223/2024. Í 11. gr. reglugerðarinnar eru tilgreind þau svæði innan staðbundinna veiðisvæða þar sem veiðar eru bannaðar vegna hættu á meðafla sjávardýra og fugla.

Viðmiðunarár.
    Að mati meiri hlutans er nauðsynlegt að útfæra nánar þau viðmiðunarár veiðireynslu sem kveðið er á um í 8. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Fiskistofa úthluti aflahlutdeild í grásleppu til einstakra skipa að teknu tilliti til veiðireynslu og skal miða við þrjú bestu veiðitímabil leyfisins sem skráð er á skipið frá og með árinu 2014 til og með árinu 2022, að undanskildu árinu 2020. Meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem er ætlað að gefa réttari mynd af stöðu heildarveiði eftir veiðisvæðum eins og hún hefur verið undanfarin ár.
    Leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis að viðmiðunartímabil veiða skv. 8. gr. miðist við veiðireynslu frá og með árinu 2018 til og með árinu 2022 og að veiðiárið 2020 verði undanskilið.

Veiðiskylda.
    Vegna sérstöðu grásleppuveiða telur meiri hlutinn mikilvægt að aflétt verði veiðiskyldu sem er í lögum um stjórn fiskveiða. Markaðir eru afar viðkvæmir og miklar sveiflur í verði og veiðum. Meiri hlutinn leggur því til þá undanþágu frá 6. mgr. 15. gr. laga um stjórn fiskveiða að ráðherra verði með reglugerð heimilt að undanskilja grásleppu frá ákvæði um veiðiskyldu ef aðstæður á markaði leiða til þess að afli verður óvenjulítill. Hluti þeirra skipa sem nýtt eru til grásleppuveiða hefur ekki aflahlutdeild í öðrum nytjastofnum og gæti það reynst torvelt fyrir þessi skip að veiða úthlutað aflamark við ákveðnar aðstæður, svo sem ef afli á vertíð er óvenjulítill.

Grásleppa sem meðafli.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að með hlutdeildarsetningu grásleppu gæti skapast vandamál fyrir þær útgerðir sem stunda uppsjávarveiðar, sér í lagi á þeim slóðum þar sem grásleppa veiðist, en fiskurinn veiðist sem meðafli við vissar aðstæður. Leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið verði bætt heimild ráðherra til að mæla nánar fyrir um ráðstöfun grásleppu sem meðafla við aðrar veiðar. Er lagt til að við 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins bætist reglugerðarheimild þar sem ráðherra verði falið að útfæra með hvaða hætti farið verði með meðafla grásleppu við aðrar veiðar, hvort sem er með tegundatilfærslu, frádrætti á heildarafla við löndun utan aflaheimilda eða með öðrum hætti.

Gildistaka.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á gildistöku frumvarpsins. Er lagt til að gildistaka verði miðuð við upphaf næsta fiskveiðiárs, þ.e. í september 2024.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
             Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
                  a.      1. mgr. orðast svo:
                     Staðbundin veiðisvæði grásleppu eru:
                      1.      Suðurland – Faxaflói, frá línu réttvísandi austur frá Hvítingum 64°23,90 N 014°28,00 V að línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurtanga (-flögum) 64°45,00 N 023°55,30 V.
                      2.      Breiðafjörður – Vestfirðir, svæði frá línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurtanga (-flögum) 64°45,00 N 023°55,30 V að línu réttvísandi norður frá Horni 66°27,40 N 022°24,30 V.
                      3.      Húnaflói, frá línu réttvísandi norður frá Horni 66°27,40 N 022°24,30 V að línu réttvísandi norður frá Skagatá 66°07,20 N 020°05,90 V.
                      4.      Norðurland, frá línu réttvísandi norður frá Skagatá 66°07,20 N 020°05,90 V að línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi 66°22,70 N 014°31,90 V.
                      5.      Austurland, frá línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi 66°22,70 N 014°31,90 V að línu réttvísandi austur frá Hvítingum 64°23,90 N 014°28,00 V.
                  b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Ráðherra er heimilt með reglugerð að banna og takmarka veiðar tímabundið innan staðbundinna veiðisvæða, að hluta eða að öllu leyti, vegna hættu á meðafla sjávarspendýra og fugla.
                  c.      Í stað tilvísunarinnar „7. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
     2.      Í stað orðanna „skipulag grásleppuveiða og veiðitíma“ í 2. efnismgr. 3. gr. komi: skipulag grásleppuveiða, veiðitíma og meðafla grásleppu við aðrar veiðar.
     3.      Við 7. gr. bætist nýr liður, a-liður, svohljóðandi: Við 6. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt með reglugerð að undanskilja grásleppu frá ákvæði þessu ef aðstæður á markaði leiða til þess að afli verður óvenjulítill.
     4.      Í stað ártalsins „2014“ í 8. gr. komi: 2018.
     5.      9. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast gildi 1. september 2024.

Alþingi, 7. júní 2024.

Þórarinn Ingi Pétursson,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Birgir Þórarinsson.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Óli Björn Kárason.