Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1973  —  205. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um íslensk landshöfuðlén og lögum um Fjarskiptastofu (fjarskiptanet o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 20. júní.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um fjarskipti, nr. 70/2022.

1. gr.

    Á eftir 38. gr. laganna kemur ný grein, 38. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Opinn heildsöluaðgangur að fjarskiptanetum sem eru byggð upp með ríkisaðstoð.

    Veita skal opinn heildsöluaðgang að almennum fjarskiptanetum sem byggð eru upp með ríkisaðstoð í þeim tilgangi að auka aðgengi notenda að háhraðaþjónustu. Fjarskiptastofa sker úr um ágreining um aðgang að slíkum fjarskiptanetum, þ.m.t. um tilhögun aðgangs og hvar í netinu skuli veita hann, tæknilega skilfleti og heildsöluverð. Við veitingu aðgangs skal gæta jafnræðis við sambærilegar aðstæður.
    Verð fyrir aðgang að fjarskiptanetum skv. 1. mgr. skal að jafnaði byggjast á verðsamanburði eða á þeim meginreglum um heildsöluverð sem gilda á sömu eða svipuðum heildsölumörkuðum skv. 52. gr. Fjarskiptastofu er heimilt að veita undanþágu frá kröfu um að heildsöluaðgangur skuli byggjast á verðsamanburði standi fyrirhuguð nýting á fjarskiptaneti ekki undir heildsöluverði og undanþágan sé í samræmi við reglur um ríkisaðstoð. Í báðum tilvikum skal taka tillit til þeirrar ríkisaðstoðar sem netrekandi hefur fengið og fylgja leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og framkvæmdastjórnar ESB um ríkisaðstoð fyrir breiðbandsþjónustu.

II. KAFLI

Breyting á lögum um íslensk landshöfuðlén, nr. 54/2021.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      B-liður 1. mgr. orðast svo: ef lén er notað til að miðla efni sem er til þess fallið að hvetja til eða stuðla að broti á almennum hegningarlögum sem varðað getur sex ára fangelsi eða miðlun efnisins getur varðað við 121. gr., 175. gr. a, 199. gr. a, 206. gr., 210. gr. a, 210. gr. b, 232. gr., 232. gr. a, 233. gr., 233. gr. a og 233. gr. b almennra hegningarlaga, enda krefjist ríkir almanna- eða einkahagsmunir þess að léninu verði lokað.
     b.      Í stað orðanna „opinbers máls og öflun sönnunargagna“ í 2. mgr. kemur: sakamáls.
    

III. KAFLI

Breyting á lögum um Fjarskiptastofu, nr. 75/2021.

3. gr.

    Við 5. mgr. 25. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skulu ákvæði V. kafla þeirra laga gilda um hlutverk Fjarskiptastofu og netöryggissveitar á grundvelli XII. kafla laga um fjarskipti.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.