Ferill 196. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 359 — 196. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um greiningar á þreytueinkennum eftir veirusýkingu.
1. Hver er endanlegur fjöldi viðtala á heilsugæslustöðvum árið 2022 þar sem greining G93.3 (þreytueinkenni eftir veirusýkingu) er skráð, sbr. svar ráðherra á þskj. 572 á 153. löggjafarþingi?
Endanlegur fjöldi viðtala á heilsugæslustöð árið 2022 þar sem sjúkdómsgreiningin G93.3 var skráð var 503.
2. Hver er fjöldi viðtala það sem af er árinu 2023 þar sem greining G93.3 hefur verið skráð?
Það sem af er árinu 2023 (1. janúar til 21. september) hefur greiningin verið skráð í 318 viðtölum.
Mögulegt er að fleiri samskipti eigi eftir að bætast við frá síðustu vikum þar sem eingöngu samþykktir samskiptaseðlar berast í samskiptaskrá heilsugæslunnar.
3. Hvernig hyggst ráðuneytið takast á við þá miklu aukningu sem verið hefur í greiningu G93.3 í kjölfar kórónuveirufaraldurs?
Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) heldur úti fræðslufundaröð fyrir fagfólk heilsugæslu. Á heimasíðu ÞÍH eru upptökur af fundunum aðgengilegar fagfólki heilsugæslunnar og leiðtogar á heilbrigðisstofnunum eru jafnóðum upplýstir um ný erindi. Mikilvægt er að heimilislæknar þekki vel til ME-sjúkdómsins (Myalgic Encephalomyelitis) og einkenna hans. Rannsóknir benda til þess að um 1% þeirra sem sýkjast af COVID-19 þrói með sér langvarandi sjúkdómseinkenni sem líkjast einkennum ME-sjúkdómsins.
Á Akureyri er áformuð stofnun þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar um ME-sjúkdóminn sem ætlað er að verða samhæfandi aðili um þjónustu við sjúklinga á landsvísu, auk þess að halda utan um vinnu við skráningu sjúkdómsins og stuðla að rannsóknum. Liður í stofnun hennar er að bæta skilning á ME og skyldum sjúkdómum og stuðla að bættri þjónustu við sjúklinga. Þangað eiga heimilislæknar að geta leitað og sjúklingar fengið ráðgjöf.