Ferill 1104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1803 — 1104. mál.
Síðari umræða.
Nefndarálit
um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu rammasamkomulags milli Íslands og Grænlands um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum.
Frá utanríkismálanefnd.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá matvælaráðuneyti og utanríkisráðuneyti.
Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd rammasamkomulag milli Íslands og Grænlands um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum, sem gert var í Reykjavík 3. júlí 2023, ásamt eftirtöldum viðaukum:
1. viðauka: Samkomulag um langtímaveiðistjórnun loðnustofnsins á hafsvæðinu milli Austur-Grænlands, Íslands og Jan Mayen.
2. viðauka: Ráðstafanir varðandi aðgang og tæknileg skilyrði til loðnuveiða milli Íslands og Grænlands.
3. viðauka: Tafla 1 og 2. Skýrslugjöf um aflamörk loðnu og loðnuafla á hafsvæðinu milli Íslands, Austur-Grænlands og Jan Mayen.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að Ísland hafi í lok árs 2022 sagt upp samningi Íslands, Grænlands og Noregs um skiptingu og veiðar úr loðnustofninum sem gerður var 2018. Sama ár hafi nýjar samningaviðræður hafist milli strandríkjanna en Noregur gengið frá samningaborðinu í júní 2023. Í ljósi mikilvægis málsins hafi Ísland og Grænland lagt áherslu á að halda viðræðum áfram og hafi þeim viðræðum lokið með samkomulagi þessu. Ísland og Grænland buðu Noregi aðgang að samkomulaginu en í apríl 2024 lá fyrir að Noregur gæti ekki gengið að nýju samkomulagi vegna ágreinings um aðgang Noregs til veiða á sinni hlutdeild innan lögsögu Íslands.
Í fyrra samkomulagi frá 2018 var gert ráð fyrir að aflaheimildir Íslands næmu 80% af heildaraflamarki, Grænland fengi 15% og Noregur 5%. Í ljósi mjög minnkaðrar viðveru loðnu í lögsögu Jan Mayen en aukinnar í grænlenskri lögsögu var samið um að hlutur Grænlands ykist í 18% en hlutur Noregs færi niður í 1%. Jafnframt jókst hlutdeild Íslands í 81%. Hið nýja samkomulag gerir ekki ráð fyrir öðrum breytingum á fyrirkomulagi kvótaúthlutunar og aðgangur grænlenskra skipa er óbreyttur. Samkomulagið staðfestir formlega að ákvörðun heildarafla á hverri vertíð byggist á langtímanýtingarstefnu. Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) hafi staðfest að þessi nýtingarstefna, eins og hún er skilgreind í 1. viðauka við samkomulagið, sé í samræmi við viðmið um ábyrgar veiðar, sjálfbærni stofnsins og varúðarsjónarmið.
Nýja rammasamkomulagið er ótímabundið, en hægt er að segja því upp með einnar vertíðar fyrirvara. Samkomulagið tók gildi til bráðabirgða við undirritun þess og öðlast gildi endanlega þegar stjórnskipulegum skilyrðum hvers lands um sig hefur verið fullnægt.
Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
Alþingi, 5. júní 2024.
Diljá Mist Einarsdóttir, form. |
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, frsm. |
Bjarni Jónsson. |
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. | Katrín Sif Árnadóttir. | Jón Gunnarsson. |