Ferill 1096. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2176 — 1096. mál.
Svar
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um mengun frá skolvatni.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
Telur ráðherra ástæðu til að breyta reglugerð um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti, nr. 124/2015, á þann hátt að losun á skolvatni úr útblásturshreinsibúnaði í sjó verði bönnuð, líkt og dönsk stjórnvöld ákváðu nýverið?
Mikilvægi þess að draga sem mest úr losun brennisteins í andrúmsloftið er óumdeilt. Í því skyni hafa verið settar meginreglur um lágt brennisteinsinnihald í eldsneyti og um viðunandi hreinsun útblásturs frá vélum skipa ef ekki næst að uppfylla meginreglur um lágt brennisteinsinnihald. Með því að hreinsa útblástur í vothreinsibúnaði er í raun verið að færa brennisteininn úr einum miðli í annan, þ.e. úr útblástursloftinu yfir í skolvatn. Almenna reglan er sú að skipum með vothreinsikerfi fyrir útblástursloft er heimil losun skolvatns í sjó ef þau uppfylla þau viðmið sem sett eru fram í leiðbeiningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um hreinsikerfi. Leiðbeiningarnar eru meðal annars gefnar út með það að markmiði að losun efna frá hreinsibúnaðinum sé ekki meiri en ásættanlegt getur talist.
Með reglugerð nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti sem vísað er til í fyrirspurninni eru m.a. fyrrgreindar leiðbeiningar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar innleiddar. Markmið reglugerðarinnar er að draga úr losun brennisteins í andrúmsloft vegna brennslu tiltekins eldsneytis og draga þannig úr skaðlegum áhrifum slíkrar losunar á heilsu fólks og umhverfi. Í 12. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að öllum skipum sé heimilt að nota viðurkenndar aðferðir til að draga úr losun brennisteins í andrúmsloft sem annan valkost við að nota eldsneyti með lágu brennisteinsinnihaldi. Þær aðferðir skulu draga að minnsta kosti jafnmikið úr losun og ef notað væri eldsneyti með lægra brennisteinsinnihald, sem uppfyllir kröfur sem gerðar eru til skipaeldsneytis og koma fram í 4.–8. gr. sömu reglugerðar og viðmiðunarreglum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (MEPC 340(77)). Þessar aðferðir byggjast jafnan á hreinsun útblásturs í opnu kerfi og því fylgir iðulega losun mengaðs skolvatns í sjó. Fánaríki skipa gefa út skírteini fyrir mengunarvarnabúnað um borð, þ.e. staðfesta að hann uppfylli þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt viðauka VI við MARPOL-samninginn (um aðgerðir til að koma í veg fyrir loftmengun frá skipum ). Skip fá ekki vottun nema búnaður þeirra uppfylli ákveðin skilyrði sem sett eru af Alþjóðasiglingamálastofnuninni (MEPC.340 (77)).
Kerfi til hreinsunar á skolvatni eru opin, hybrid eða lokuð. Opin kerfi draga inn sjóvatn og blanda saman við útblásturinn til þynningar og þá oft án annarrar meðhöndlunar. Lokuð kerfi nota basískan ferskvatnsvökva sem geymdur er í tönkum um borð, hann er svo síaður og heldur áfram í hringrás innan skipsins. Í slíkum kerfum verður þó alltaf smávatn til sem fellur frá borði. Hybrid hefur eiginleika tveggja.
Í 4. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 124/2015 er kveðið á um að ef brennisteinsinnihald eldsneytis er hátt, þ.e. hærra en 3,5%, þá þurfi skip að hreinsa brennistein úr útblæstrinum í lokuðu kerfi. Einnig er vert er að benda á að í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, er tekið fram að losun fljótandi efna frá skipum er óheimil á hafsvæði innan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar. Losun er því til að mynda óheimil í höfnum landsins.
Mörg ríki hafa farið þá leið að banna losun skolvatns í höfnum og/eða innan 3 sjómílna með sambærilegum hætti og Ísland. Danir hafa nú gengið lengra og bannað losun skolvatns innan 12 sjómílna frá og með 1. júlí 2025 í tilviki opinna kerfa og frá og með 1. júlí 2029 fyrir lokuð kerfi. Skip munu því þurfa að skipta yfir í eldsneyti með lágu brennisteinsinnihaldi eða yfir í lokuð kerfi fram til 2029, en krafa er um að eðjunni sem verður eftir í lokuðum kerfum sé skilað í móttökustöð í höfnum. Einnig hefur verið til umræðu í Svíþjóð að fara þá leið að banna losun skolvatns innan 12 sjómílna.
Hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) er í skoðun hvort ástæða sé til að gera breytingar á viðauka við MARPOL-samninginn sem fjallar um aðgerðir til að koma í veg fyrir loftmengun frá skipum þannig að innleiddar verði bindandi, samræmdar reglur í stað núverandi leiðbeininga. Sú vinna stendur yfir og er gert ráð fyrir að henni verði ekki lokið fyrr en á næsta ári. Ríki Evrópusambandsins hafa komið því á framfæri innan IMO að æ fleiri vísindalegar rannsóknir hafi sýnt fram á möguleg neikvæð áhrif á hafið af losun skolvatns frá hreinsikerfum fyrir útblástursloft skipa. Eins og áður segir er mikilvægt að gæta að hreinleika hafsins og draga eins og mögulegt er úr losun efna í sjó. Íslendingar eiga gífurlega hagsmuni fólgna í hreinu hafi og þarf því að fylgjast vel með þróun þessara mála á alþjóðlegum vettvangi og stjórnvöld að vera reiðubúin að grípa til aðgerða ef vísindalegar niðurstöður kalla á það.
Ekki liggur fyrir ákvörðun um breytingu á reglugerðinni á þessari stundu en ráðuneytið og Umhverfisstofnun fylgjast með því sem gerist á vettvangi IMO og Evrópusambandsins og í einstökum ríkjum, svo sem Danmörku og Svíþjóð. Ráðuneytið hefur ákveðið að setja af stað vinnu við að skoða það að útfæra bann við losun skolvatns í 12 sjómílur.