Ferill 1036. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1859 — 1036. mál.
Síðari umræða.
Nefndarálit með breytingartillögu
um tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030.
Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.
Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá menningar- og viðskiptaráðuneyti, Landvernd, Útlendingastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Cruise Iceland, Cruise Lines International Association, embætti landlæknis, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar og Guðmund Bjarnason lektor við Háskóla Íslands.
Nefndinni bárust 30 umsagnir, sem eru aðgengilegar undir málinu á vef Alþingis.
Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
Við umfjöllun nefndarinnar og í umsögnum til hennar hafa hagaðilar almennt verið jákvæðir gagnvart tillögunni. Á það hefur verið bent í allnokkrum umsögnum að í upptalningu samstarfsaðila við einstakar aðgerðir vanti tiltekin stjórnvöld eða hagaðila. Meiri hlutinn telur ekki tilefni til að leggja fram breytingu þess efnis að fleiri aðilum verði bætt við upptalningu samstarfsaðila, enda telur meiri hlutinn skýrt að upptalning þeirra í þingsályktunartillögunni er sett fram í dæmaskyni. Þess í stað tekur meiri hlutinn undir með þeim umsagnaraðilum sem á það hafa bent að fleiri samstarfsaðila kunni að vanta að borðinu við framkvæmd áætlunarinnar og hvetur ráðuneytið og aðra framkvæmdaraðila til að hafa sem víðtækast samráð og samstarf við hagaðila og stofnanir þegar kemur að framkvæmd.
Nefndin fjallaði um ábyrgð og þekkingu leiðsögumanna. Í aðgerð E.3. er fjallað um menntunarkröfur til leiðsögumanna sem starfa í þjóðgörðum. Telur meiri hlutinn að mikilvægt sé að byrja á því að setja ríkari kröfur til þeirra leiðsögumanna sem starfa í þjóðgörðum og í framhaldi reynslu af því meta hvort þörf og ástæða sé til að láta kröfur einnig ná til annarra hópa.
Þá fjallaði nefndin um áhrif ferðamanna á innviði heilbrigðisþjónustu, en við umfjöllun nefndarinnar kom fram að vaxandi ferðamannastraumi hafi fylgt greinilegt álag á heilbrigðisþjónustu, sér í lagi bráðamóttöku. Í aðgerð D.1. er fjallað um þróun verkfærakistu til að meta þolmörk og bregðast við álagi á áfangastöðum ferðamanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að hluti af þeirri vinnu verði mat á þolmörkum þegar kemur að áhrifum vaxandi ferðamannafjölda á innviði heilbrigðisþjónustu eftir þjónustustigi og landsvæðum, til að meta hvernig bregðast megi við auknu álagi á innviði heilbrigðisþjónustu. Jafnvægisás ferðaþjónustunnar mun að mati meiri hlutans geta nýst við þá vinnu og þar verði m.a. hægt að fylgjast með þolmörkum varðandi álag ferðaþjónustu á heilbrigðisþjónustu. Í framhaldi þeirra aðgerða verði svo metið hvort þörf sé á víðtækari aðgerð sem beinist sérstaklega að heilbrigðisþjónustu og þá í nánu samstarfi við heilbrigðisráðuneyti.
Breytingartillaga meiri hlutans.
Gistináttaskattur.
Meiri hlutinn leggur til breytingu á aðgerð B.4. Afnám gistináttaskatts. Leggur meiri hlutinn til að heiti aðgerðarinnar verði „Endurskoðun gistináttaskatts“ og að í stað lýsingar verkefnisins komi ný lýsing sem að mati meiri hlutans er betur til þess fallin að ná því markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni, til samræmis við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, en þar kemur fram að unnið verði „að breytingum á fyrirkomulagi gistináttagjalds í samvinnu við greinina og sveitarfélögin með að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni.“
Leggur meiri hlutinn því til að samhliða endurskoðun á gistináttaskatti verði hlutdeild sveitarfélaga í gjaldtöku af ferðaþjónustu tekin til skoðunar.
Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi
BREYTINGU:
Við aðgerð B.4.
a. Liðurinn „Stutt lýsing“ orðist svo: Ákvæði laga um gistináttaskatt, nr. 87/2011, verði tekin til endurskoðunar með það til hliðsjónar að samkeppnisstaða ólíkra tegunda gististaða hér á landi verði jöfnuð. Kostir þess að afnema gistináttaskattinn verði kannaðir í samhengi við endurskoðun á gjaldtöku af ferðaþjónustu. Samhliða verði hlutdeild sveitarfélaga í gjaldtöku af ferðaþjónustu tekin til skoðunar.
b. Fyrirsögn aðgerðarinnar verði: B.4. Endurskoðun gistináttaskatts.
Alþingi, 11. júní 2024.
Þórarinn Ingi Pétursson, form. |
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, frsm. |
Ásmundur Friðriksson. |
Birgir Þórarinsson. | Eva Dögg Davíðsdóttir. | Óli Björn Kárason. |
Tómas A. Tómasson. |