Ferill 1032. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2138 — 1032. mál.
Svar
utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um styrki til félagasamtaka.
1. Hversu háa fjárhæð greiddi ráðuneytið frjálsum félagasamtökum árin 2020–2023? Svar óskast sundurliðað eftir félagasamtökum og því hvort fjárhæðin var styrkveiting, kaup á þjónustu, félagsgjöld eða annað og með skýringum um hvað felst í liðnum annað auk upplýsinga um hversu hátt hlutfall hver liður er af heildargreiðslu til félagasamtakanna.
Heildarupphæð styrkja nemur 2.838.868.668 kr. og félagsgjöld nema 2.205.200 kr. 1.500.000 voru greiddar fyrir kaup á þjónustu. Sjá meðfylgjandi töflur af fjárlagaliðum utanríkisráðuneytisins yfir greiðslur til frjálsra félagasamtaka á tímabilinu 2020–2023. Styrkir til félagasamtaka eru veittir til að styðja við framkvæmd stefnu utanríkisráðuneytisins hverju sinni. Utanríkisráðherra hefur ekki veitt styrki af ráðstöfunarfé ráðherra undanfarin ár. Aðallega er um að ræða styrki til verkefna í þróunarsamvinnu, mannréttinda, til mannúðaraðstoðar og kynningar og fræðslu innan þróunarsamvinnu. Upplýsingar um styrkveitingar utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka í þróunarsamvinnu má finna á heimasíðu ráðuneytisins, 1 www.utn.is, og eru lýsingar á verkefnum settar fram á vefnum openaid.is.
2. Eru í gildi hjá ráðuneytinu reglur um úthlutanir styrkja til félagasamtaka?
Úthlutað er samkvæmt reglum utanríkisráðuneytisins um styrki til félagasamtaka og fyrirtækja í þróunarsamvinnu nr. 1035/2020 og verklagsreglum um samstarf við íslensk félagasamtök um þróunarsamvinnuverkefni. 2 Unnið er í samræmi við stefnumið ráðuneytisins um samstarf við félagasamtök í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Styrkumsóknir eru metnar af óháðum matshópi sem gerir tillögur til ráðherra um úthlutun og ráðstöfun fjár til verkefna og er tilkynnt á heimasíðu ráðuneytisins um styrkveitingar hverju sinni.
Þá er utanríkisráðuneytið með rammasamninga við átta frjáls félagasamtök á sviði þróunarsamvinnu, mannréttinda og mannúðaraðstoðar sem gerðir eru í kjölfar hæfismats. Stærstur hluti styrkja er veittur með þeim hætti til fjögurra reyndustu félagasamtakanna í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð: Rauði krossinn á Íslandi, Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar og SOS Barnaþorp. Fram til ársins 2022 voru allir styrkir til frjálsra félagasamtaka veittir á grundvelli umsókna til einstakra verkefna. Í samræmi við niðurstöður óháðrar úttektar á samstarfi utanríkisráðuneytisins við félagasamtök sem kom út haustið 2020 ákvað utanríkisráðuneytið að taka upp rammasamninga við öflugustu félagasamtökin og kallaði eftir áhugayfirlýsingum frá félagasamtökum. Forval vegna mögulegra rammasamninga byggðist á tilteknum kröfum, þ.m.t. stofnanagetu samtakanna, fjölda styrkja frá utanríkisráðuneytinu og upphæða undanfarin 5 ár, ásamt reynslu og tengingu við alþjóðasamtök. Uppfylltu fimm samtök tiltekin skilyrði, en fjögur samtök stóðust óháða áreiðanleikakönnun sem mat hæfni þeirra og getu til að standast kröfur um umsýslu þróunarsamvinnuframlaga Íslands. Tóku rammasamningar um þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð við Rauða krossinn á Íslandi, Barnaheill og Hjálparstarf kirkjunnar og um þróunarsamvinnu við SOS Barnaþorp gildi 2022 og ná þeir samningar til fjölmargra verkefna sem samtökin framkvæma í lágtekjuríkjum. Byggist fjárhagsrammi rammasamninga á fyrri úthlutunum, getu og starfi samtakanna, en félagasamtök sem gera rammasamning við ráðuneytið eru ekki styrkhæf til stakra styrkja til sams konar verkefna og rammasamningur nær til, sbr. 2. gr. reglna nr. 1035/2020. Einnig eru í sérstökum tilvikum veitt aukaframlög til félagasamtaka með rammasamninga og hefur það m.a. verið gert til Rauða krossins sem hefur brugðist við átökum í Úkraínu, ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs og kólerufaraldri í Malaví.
Styrkir til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar skulu bundnir við framkvæmd í ríkjum á lista þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD-DAC) um viðtökulönd opinberrar þróunaraðstoðar, með áherslu á lág- og lágmillitekjuríki. Krafist er mótframlags frá styrkþegum, 20% í þróunarsamvinnuverkefnum og 5% í mannúðaraðstoð. Á þessi krafar við um einstaka styrki til verkefna og verkefni innan rammasamninga.
Styrkveitingar til erlendra frjálsra félagasamtaka eru einnig hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu, bæði í tvíhliða þróunarsamvinnu og í mannúðaraðstoð. Slíkar styrkveitingar eru metnar á grundvelli þess hvort virðisauka sé náð með verkefnum, samlegð við annað starf Íslands og stefnusamhæfingu.
Að auki veitti utanríkisráðuneytið þrjá styrki á tímabilinu sem ekki falla undir alþjóðlega þróunarsamvinnu. Styrkur var veittur Vistfræðifélagi Íslands árið 2020 fyrir alþjóðlega ráðstefnu norrænna vistfræðifélaga, OIKOS 2020, sem haldin var á Íslandi. Þátttaka af hálfu utanríkisráðuneytisins var hluti af formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og stóð styrkurinn straum af kostnaði vegna þátttöku tveggja alþjóðlegra fyrirlesara í ráðstefnunni. Þá var stuðningur veittur Kalak, vinafélagi Íslands og Grænlands, til að styrkja 11 ára börn frá litlum þorpum á Austur-Grænlandi til að koma til Íslands í tveggja vikna sundkennslu á Íslandi 2021. Verkefnið var samfjármagnað ásamt öðrum ráðuneytum og byggðist á skýrslu Grænlandsnefndarinnar um aukna samvinnu Íslands og Grænlands á norðurslóðum, og þingsályktun nr. 26/151 um aukið samstarf Grænlands og Íslands á fjölmörgum sviðum. Loks var styrkur veittur Ungum umhverfissinnum 2021 fyrir þátttöku þeirra fulltrúa í loftslagsráðstefnunni COP26 sem haldin var í Glasgow í Skotlandi, fundarsetu með fulltrúum sendinefndar og kynningu fyrir ungmenni á Íslandi í kjölfarið. Markmiðið var að bregðast við áherslu stjórnvalda á að virkja ungmenni til samstarfs og samráðs á vettvangi COP. Samhæfing milli þriggja ráðuneyta átti sér stað vegna þessa.
3. Fer fram mat á árangri af styrkveitingunum?
Ráðuneytið sinnir reglubundnu eftirliti með framkvæmd verkefna og árangri. Það hlutverk er á hendi einingar innri málefna og eftirlits sem starfar óháð framkvæmd utanríkisráðuneytisins og heyrir beint undir ráðuneytisstjóra.
Rammasamningar utanríkisráðuneytisins sæta reglulegu eftirliti sem felur í sér samningsrýni og árangursmat. Þar er byggt á stöðluðu verklagi utanríkisráðuneytisins og viðmiðum fjármálaráðuneytisins sem sett eru fram í reglugerð nr. 643/2018 um undirbúning, gerð og eftirfylgni samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni. Sem dæmi má nefna að samningsrýni var framkvæmd fyrir rammasamning við Mannréttindaskrifstofu Íslands í lok árs 2021 og var forsenda fyrir endurnýjun hans. Einnig má benda á innri rýni á samstarfi ráðuneytisins við landsnefndir UN Women, UNICEF og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi sem lauk í febrúar 2023. Nú stendur yfir innri rýni á rammasamningum ráðuneytisins við frjáls félagasamtök á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar og munu niðurstöður liggja fyrir um mitt ár. Þeir rammasamningar voru gerðir í kjölfar úttektar á stefnumiðum vegna samstarfs við frjáls félagasamtök. Þá er fjárhagslegu eftirliti sinnt sem og áreiðanleikamati (e. due diligence) ef þannig ber undir, en samningsrýni og niðurstöður úr fjárhagslegu eftirliti eru alla jafna ekki birtar opinberlega.
Úttektir skipa einnig mikilvægan sess í verklagi þróunarsamvinnu, enda skila þær þekkingu um árangur verkefna, þann lærdóm sem draga má af því sem vel gengur og það sem betur mætti fara. Unnið er eftir úttektarstefnu utanríkisráðuneytisins fyrir 2024–2028 3 þar sem markmið og framkvæmd úttekta eru skilgreind í samræmi við alþjóðlegt verklag og kröfur þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) um úttektir. Á vef ráðuneytisins 4 eru úttektir birtar og þar getur almenningur kynnt sér niðurstöður þeirra. Úttektir á þremur verkefnum frjálsra félagasamtaka á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu hafa verið gefnar út það sem af er ári og eru þrjár í viðbót nú langt komnar. Niðurstöður þeirra verða birtar á næstu vikum.
Alls fóru 20 vinnustundir í vinnslu svarsins.
Fylgiskjal.
Yfirlit yfir greiðslur til félagasamtaka á tímabilinu 2020–2023.
www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s2138-f_I.pdf
1 www.stjornarradid.is/verkefni/utanrikismal/althjodleg-throunarsamvinna/samstarf-vid-felagasamtok/styrkir-til-felagasamtaka/
2 www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Utanrikisraduneytid/PDF-skjol/2023%20Verklagsreglur%20-%20%C3%9Er%C 3%B3unarsamvinna%202023.pdf
3 www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Utanrikisraduneytid/PDF-skjol/Evaluation%20policy%202024-2028%20final.pdf
4 www.stjornarradid.is/verkefni/utanrikismal/althjodleg-throunarsamvinna/uttektir/