Ferill 1011. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1780  —  1011. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Þórunni Sveinbjarnardóttur um skýrslu starfshóps.


     1.      Hverjar voru niðurstöður skýrslu starfshóps, sem ráðherra skipaði í ágúst 2022, er skilaði skýrslu til ráðherra í apríl 2023 og var falið að skoða leiðir til að skapa eftirliti samkeppnis- og neytendamála nýja stjórnsýslulega stöðu innan stofnanakerfis ríkisins?
    Þann 14. mars 2023 skilaði starfshópur drögum að skýrslu um endurskoðun á stjórnsýslulegri stöðu Neytendastofu og Samkeppniseftirlitsins til ráðherra. Á fundi starfshópsins með ráðherra, 14. mars 2023, var ákveðið að vinna nánar að útfærslu á nokkrum þáttum sem skýrsludrögin ná til. Skýrsludrög starfshópsins og fylgiskjöl þeirra hafa verið til frekari skoðunar í ráðuneytinu undanfarna mánuði.
    Um drög að skýrslu er að ræða sem unnin voru af starfshópi sem settur var á fót með formlegri ákvörðun og fastmótuðu hlutverki. Eru drögin því álitin vinnugagn sem undanþegið er upplýsingarétti í skilningi 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 8. gr. laganna.
    Ekki liggur fyrir endanleg ákvörðun, sbr. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, varðandi hvernig endurskoðun á stjórnsýslulegri stöðu Neytendastofu og Samkeppniseftirlitsins verður háttað. Vinna að málinu stendur yfir innan menningar- og viðskiptaráðuneytis og hefur verið haft samráð við umræddar stofnanir við þá vinnu. Meðal þess sem til skoðunar er í þeirra vinnu er annars vegar samrekstur viðkomandi stofnana og hins vegar sameining, sem og möguleg áfangaskipting.
    Skýrsla starfshópsins verður birt opinberlega á vef ráðuneytisins þegar ákvörðun liggur fyrir varðandi það málefni sem skýrslan nær til, sbr. framangreint.

     2.      Hvers vegna hefur skýrsla starfshópsins ekki verið birt opinberlega?
    Vísað er til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar.

     3.      Hvenær á að birta skýrslu starfshópsins?
    Skýrsla starfshópsins verður birt opinberlega á vef ráðuneytisins þegar ákvörðun liggur fyrir varðandi það málefni sem skýrslan nær til, sbr. svar við 1. lið fyrirspurnarinnar.