Ferill 1004. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1738 — 1004. mál.
Svar
innviðaráðherra við fyrirspurn frá Sigurjóni Þórðarsyni um grjótkast.
Alls bárust 60 tjónstilkynningar vegna tjóna á Þverárfjallsvegi (73) árin 2023–2024. Talan er byggð á tilkynningum er bárust til Vegagerðarinnar í gegnum vefsíðu stofnunarinnar en einnig bárust tilkynningar í gegnum tryggingafélög og með tölvupósti. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjárhagslegt tjón vegfarenda. Jafnframt hefur engin bótaskylda skapast hjá Vegagerðinni vegna Þverárfjallsvegar eftir að stofnunin tók við veginum frá verktaka eftir að hann lauk framkvæmdum við veginn.
Undanfarna sjö mánuði hafa 40 tjónstilkynningar borist vegna grjótkasts á hringveginum (1) sunnan við Blönduós að Reykjabraut. Sá vegarkafli hefur verið undir sérstöku eftirliti og er vegurinn sópaður eftir þörfum. Þá hefur vegurinn verið merktur með grjótkastsmerkjum frá því síðastliðið haust, bæði við veginn sjálfan sem og á vefsíðu Vegagerðarinnar. Vegagerðin hefur bætt nokkur tjón sem hafa orðið á þeim vegarkafla þegar heildarmat á aðstæðum leiddi í ljós bótaskyldu stofnunarinnar. Þær bætur nema samtals um 700.000 kr.
2. Ef fjöldi bifreiða sem hafa orðið fyrir tjóni liggur ekki fyrir, hyggst ráðherra gera athugun á því hve margar bifreiðar hafi orðið fyrir tjóni á umræddum vegarköflum, svo sem með því að afla upplýsinga frá tryggingafélögum?
Fjöldi tilkynntra tjóna beint til Vegagerðarinnar liggur fyrir auk tilkynninga til Vegagerðarinnar frá tryggingafélögum. Fjöldi tjóna sem tilkynnt voru til Vegagerðarinnar liggur fyrir líkt og fjallað er um í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.
3. Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir grjótkast á umræddum vegum?
Veghaldari á þjóðvegum landsins, Vegagerðin, kappkostar að halda grjótkasti í lágmarki með þeim aðferðum sem þekktar eru. Á umræddum vegum hefur borið á steinlosi í lengri tíma og er verið að skoða ástæður þessa og mögulegar úrbætur, ekki síst til að draga úr hættu á að þetta endurtaki sig
4. Hve margar bifreiðar hafa orðið fyrir tjóni vegna grjótkasts eftir nýlagða klæðningu eða vegna tjörublæðinga árin 2020–2024 og hvað hafa slíkar skemmdir valdið miklu fjárhagslegu tjóni á sama tímabili?
Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um hve margar bifreiðar hafa orðið fyrir tjóni árin 2020–2024 vegna grjótkasts eftir nýlagða klæðningu eða vegna tjörublæðinga. Til að afla upplýsinga um það þyrfti að skoða hverja og eina tjónstilkynningu síðustu ára en þær eru líklega um tvö þúsund talsins. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um fjárhagslegt tjón vegna grjótkasts eftir nýlagða klæðningu eða vegna tjörublæðinga, enda oft ekki búið að gera við skemmdir á bifreiðum þegar tilkynningar eru sendar til Vegagerðarinnar.
5. Hver ber ábyrgð á því að bæta tjón sem hlýst vegna grjótkasts eftir nýlagða klæðningu eða vegna tjörublæðinga?
Á framkvæmdatíma er verktaki umsjónaraðili framkvæmdasvæðis og ber almennt ábyrgð á því að svæðið uppfylli þær kröfur sem Vegagerðin gerir í útboðslýsingu viðkomandi verks. Vegagerðin gerir t.d. ákveðnar kröfur um frágang framkvæmdasvæðis og merkingar á framkvæmdatíma. Ef tjón verða vegna aksturs um framkvæmdasvæði á framkvæmdatíma er það gjarnan viðkomandi verktaki sem er í þeirri stöðu að svara fyrir tjónið, hvort sem um bótaskyldu er að ræða eða ekki. Fara slíkar tilkynningar í gegnum ábyrgðartryggingu viðkomandi verktaka.
Sé um að ræða galla í því efni sem vertaka var fengið til að leggja á veginn, eða að öðru leyti galla eða frávik í þeim kröfum sem Vegagerðin gerir í útboðslýsingu, getur stofnunin orðið skaðabótaskyld vegna þeirra tjóna sem má að rekja til þess. Slíkt fer þó eftir heildarmati hverju sinni.
Þegar framkvæmdum er lokið tekur Vegagerðin aftur við sem veghaldari og þjónustar veginn í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til stofnunarinnar í lögum og reglugerðum. Um bótaskyldu Vegagerðarinnar sem veghaldara gildir eftirfarandi ákvæði 56. gr. vegalaga, nr. 80/2007: „Veghaldari vegar sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar ber ábyrgð á tjóni sem hlýst af slysi á veginum þegar tjónið er að rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað er að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni.“
Við saknæmismat er m.a. litið til 1. mgr. 43. gr. sömu laga en þar segir að veghaldri beri ábyrgð á því að vegi, sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar, sé við haldið með eðlilegum hætti miðað við þá umferð sem um veginn fer. Í 2. mgr. 43. gr. segir svo að veghaldari skuli, svo fljótt sem við verður komið, eftir að hann hefur fengið vitneskju um skemmdir á vegi sem hættulegar eru umferð, láta gera við þær eða merkja hina hættulegu staði þar til viðgerð hefur farið fram og skuli merkingar vera í samræmi við ákvæði umferðarlaga.
Þegar tjónstilkynningar berast til Vegagerðarinnar verður samkvæmt framangreindu að fara fram mat á saknæmri háttsemi Vegagerðarinnar. Fer slíkt mat fram í hverju máli fyrir sig í ljósi aðstæðna, verklags, viðbragða og fleiri atriða sem skipta máli hverju sinni. Verði niðurstaða heildarmats að um saknæma háttsemi Vegagerðarinnar hafi verið að ræða er stofnunin bótaskyld vegna þess tjóns sem varð, enda liggi ekki fyrir að tjón verði rakið til ógætilegs aksturs, sbr. skilyrði 56. gr. vegalaga um eðlilega varkárni.