Ferill 1001. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2149 — 1001. mál.
Svar
innviðaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um sundkort.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
Telur ráðherra koma til álita að tekið verði upp eitt sundkort sem gildi í allar laugar landsins, í samstarfi ríkis og þeirra sveitarfélaga sem kjósa að taka þátt í slíku verkefni?
Rekstur og bygging sundlaugarmannvirkja er ekki á meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga, en um slík verkefni er fjallað í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, og sérlögum um einstök verkefni og málaflokka sem þau hafa með höndum. Í íþróttalögum, nr. 64/1998, er fjallað um íþróttamannvirki. Þar kemur fram að bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota sé í verkahring sveitarfélaga, nema öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum. Framkvæmd íþróttalaga er á málefnasviði mennta- og barnamálaráðherra.
Það er því á forræði sveitarfélaga, á grundvelli sjálfstjórnarréttar þeirra, að taka ákvörðun um það hvernig gjaldtöku fyrir aðgang að sundlaugum í þeirra eigu er háttað og hvort að þau vinni saman að rekstri sundlauga, svo sem með sameiginlegri gjaldtöku.

