Ferill 995. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2007 — 995. mál.
Svar
mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um íþróttastarfsemi.
1. Hvaða starfsemi telst vera íþróttastarfsemi í skilningi íþróttalaga, nr. 64/1998?
Í íþróttalögum nr. 64/1998 merkja íþróttir hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti. Lögin taka þó ekki til íþróttaiðkunar er fram fer sem liður í starfsemi heilbrigðisstofnana eða heilsuræktarstöðva. Í íþróttalögum eru orðin íþróttastarf og íþróttastarfsemi jafnframt notuð í þessari merkingu.
Skilgreining íþróttalaga á íþróttum hefur ekki breyst frá árinu 1998. Kominn er tími á endurskoðun laganna og hefur ráðherra áform um að leggja fram frumvarp til nýrra íþróttalaga fyrir lok yfirstandandi kjörtímabils. Hluti af þeirri vinnu er endurskoðun á skilgreiningu þess hvað teljast íþróttir.
2. Hver ber ábyrgð á því að skilgreina hvaða starfsemi flokkast sem íþróttastarf eða íþróttastarfsemi samkvæmt framangreindum lögum?
Gildandi íþróttalög skilgreina hvaða starfsemi fellur undir lögin. Ráðherra fer með íþróttamál og þar með yfirstjórn með framkvæmd íþróttalaga.