Ferill 992. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1716  —  992. mál.

    
    
    
    

Svar
    


    

dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um endurskoðun á framkvæmd afgreiðslu umsókna um íslenskan ríkisborgararétt.
    


          1.      Hvenær hófst vinna í ráðuneytinu við endurskoðun á framkvæmd afgreiðslu umsókna um íslenskan ríkisborgararétt sem samkvæmt bréfi frá ráðuneytinu til allsherjar- og menntamálanefndar, dags. 12. október 2022, hafði staðið yfir um þó nokkurt skeið? Er verkefnið með málsnúmer í málakerfi ráðuneytisins?
    Vinna við endurskoðun á framkvæmd afgreiðslu umsókna um íslenskan ríkisborgararétt hófst í ráðuneytinu árið 2017. Verkefnið er með málsnúmer í málaskrá ráðuneytisins.
    Í febrúar 2022, að beiðni allsherjar- og menntamálanefndar, afhenti ráðuneytið nefndinni yfirlit yfir samskipti ráðuneytisins og Útlendingastofnunar um málefni íslensks ríkisborgararéttar. Í janúar 2023, að beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, afhenti ráðuneytið nefndinni öll samskipti, gögn og upplýsingar sem farið hafa á milli Útlendingastofnunar og ráðuneytisins frá því 1. janúar 2018 og varða framkvæmd Útlendingastofnunar á afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt til Alþingis.
    
          2.      Lýtur endurskoðun ráðuneytisins að veitingu ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun, sbr. III. kafla laga nr. 100/1952, að veitingu ríkisborgararéttar með lögum, sbr. II. kafla sömu laga, eða hvoru tveggja?
    Vinna við endurskoðun afgreiðslu umsókna um íslenskan ríkisborgararétt miðar að lögbundnu hlutverki Útlendingastofnunar og málshraða afgreiðslu stofnunarinnar á umsóknum um íslenskan ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun. Í tilefni af vinnunni hefur ráðuneytið haft regluleg samskipti við m.a. allsherjar- og menntamálanefnd, þ.m.t. með erindum dags. 6. október 2018, 30. október 2018, 2. mars 2021 og 1. júní 2021.
    Samhliða samskiptum ráðuneytisins og allsherjar- og menntamálanefndar árið 2018 var unnið að breytingum á lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Með breytingunum fengi Útlendingastofnun rýmri heimildir til veitingar ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun og þannig var þess vænst að dregið yrði úr þörf á því að umsækjendur leituðu til Alþingis. Vegna vinnu við framangreindar breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt frestaði Útlendingastofnun því að breyta verklagi sínu við forgangsröðun á afgreiðslu umsókna þar til breytingar á lögunum hefðu tekið gildi. Umræddar breytingar tóku gildi 1. apríl 2020 en hafa ekki haft tilætluð áhrif hvað varðar fjölda umsókna um ríkisborgararétt frá Alþingi. Varð því ekki undan því vikist að Útlendingastofnun hæfi að afgreiða umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt til Alþingis í sömu tímaröð og umsóknir um ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun, enda hafði umboðsmaður Alþingis þá í tvígang krafist þess að ráðuneytið gerði grein fyrir fyrirætlunum til að bregðast við löngum afgreiðslutíma umsókna um ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun hjá Útlendingastofnun.
    
          3.      Hvert er tilefni endurskoðunarinnar, hver átti frumkvæðið að henni og hver eru markmiðin?
    Ráðuneytið og Útlendingastofnun hafa um árabil haft áhyggjur af löngum málsmeðferðartíma stofnunarinnar við afgreiðslu umsókna um íslenskan ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun, sem fyrst og fremst má leiða af þeirri framkvæmd að umsóknir sem beint var til Alþingis voru settar í forgang umfram aðrar umsóknir sem stofnuninni bárust. Um tilefni og markmið endurskoðunarinnar vísast að öðru leyti til svars við 2. tölul. fyrirspurnar.
    
          4.      Hvaða aðilar hafa haft aðkomu að endurskoðuninni?
    Ráðuneytið, Útlendingastofnun, Alþingi og umboðsmaður Alþingis hafa komið að vinnunni. Þá er þess að geta að drög að frumvarpi því sem varð að lögum nr. 11/2020, um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-208/2019) frá 16. til 26. ágúst 2019 og var almenningi gefinn kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar. Engar umsagnir bárust.